Fyrsti sunnudagur í aðventu

Við fjölskyldan á Konsulentvägen áttum alveg ótrúlega skemmtilegan fyrsta sunnudag í aðventu, fullan af gleði, jólastemmningu, góðum mat og óvæntum uppákomum. Það eru alltaf langbestu dagarnir þegar maður býst ekki við neinu sérstöku en raunin verður önnur. Þennan tiltekna dag hafði ég til dæmis bara búið mig undir stress og bílferðir og hlaup fram og til baka ... en sjá:

Við byrjuðum daginn á að keyra í Ålandskyrka sem er spottakorn frá Vänge. Þar átti barnakórinn hennar Maríu að syngja við messu í tilefni dagsins. Hér sitja spenntar kórstúlkur á kirkjubekk og bíða eftir að söngurinn hefjist.

Þegar við komum í kirkjuna sáum við allar stúlkurnar í kórnum voru rauðklæddar og ég prísaði mig sæla fyrir að hafa af tilviljun valið rauðan skokk á Maríu um morguninn (það var eiginlega allt annað óhreint!). Það höfðu ekki komið nein fyrirmæli um klæðnað í þetta skiptið þannig að þetta er augljóslega dæmi um eitthvað sem er hefð fyrir hér í Svíþjóð og er því ekkert rætt um og við innflytjendurnir eigum því á hættu að vera alveg á skjön við allt! Annars finnst mér þessi mynd fín, það var eitthvert annað foreldri sem sat hinum meginn í krikjunni sem smellti af með flassi á nákvæmlega sama tíma og ég og mín mynd naut góðs af birtunni sem kemur úr óvæntri átt.

Jólaenglar setja sig í söngstellingar. Kórinn var nú heldur fámennari núna en síðast þegar þau sungu enda hafa kannski ekki allir foreldrarnir nennt að rífa sig upp snemma á sunnudagsmorgni til að keyra út í sveit. Ég ætlaði sjálf ekki að nenna því enda búin að vaka lengi fram eftir við aðventukransagerð. En svo vorum við auðvitað ótrúlega glöð að hafa drifið okkur.

Hátíðleg María í miðjum hópi söngfugla!

Þegar við komum heim úr kirkjunni steikti Einar eplaskífur og við hátíðlega athöfn opnuðum við einu krukkuna sem við fengum í haust af heimagerðri hindberjasultu!

Eplaskífur, heimalöguð hindberjasulta, aðventukerti og sposkur Hugi!

Eftir eplaskífuát héldum við á jólamarkað hér í Vänge! Það er mikil hefð fyrir svona jólamörkuðum hér í Svíþjóð á fyrsta sunnudag í aðventu og voru markaðstjöld í hverju horni um alla Uppsali. Við sóttum þó engan nema þann í Vänge en hann var ótrúlega krúttlegur! Einhverjar eldri dömur að selja heimaprjón, karl að selja heimasmíðuð tréleikföng og mjög undarlegt dót úr víravirki, kransasala og fleira og fleira. Og svo var auðvitað boðið upp á glögg og piparkökur með! Mig langaði svo að taka myndir af þessu öllu til að sýna ykkur en ég held að við útlendingarnir þykjum nú nógu skrýtin hér í þessu litla samfélagi að það sé ekki á það bætandi. Ég er ekki viss um að fólki hefði þótt mjög skemmtilegt að ég væri að mynda það af því að mér þætti það svo krúttlegt og fyndið!!! Að lokum vil ég svo benda ykkur á að markaðurinn var haldinn í Vänge Centrum og myndin er tekin á bílastæðinu mínu þannig að þið sjáið að við búum heldur betur miðsvæðis hér í Vänge ... alveg downtown bara!!!

Frá jólamarkaðnum héldum við í Botaniska Trädgården þar sem kjósa átti í árlegri keppni um best skreytta jólatréð. Í þetta sinn voru þátttakendurnir nemendur af nokkrum leikskólum borgarinnar og tré númer fimm var einmitt skreytt af deildinni Humlan á Hemmingsförskola ... sem sagt af Huga og félögum! Hér er strákurinn stoltur við fína tréð sitt!

    

Á trénu var óskaplega fínt heimagert skraut, pappíarshjörtu og -fuglar og svo þessir ótrúlega fallegu leirenglar. Okkur grunar reyndar að fóstrurnar hafi eitthvað hjálpað til með andlitin!!! Við fjölskyldan kusum að sjálfsögðu öll tré númer fimm!

Í Botaniska hittum við líka fleiri nemendur af Hemmings og foreldra þeirra. Hugi var ógnarglaður að hitta Olle vin sinn!

Við fengum okkur auðvitað líka glögg og piparkökur í Botaniska og skoðuðum okkur dálítið um í aðalbyggingunni. Hér erum við í kaktusadeildinni!

Þessi er nú hvorki jóla- né aðventulegur en samt ótrúlega flottur!

Eftir dvölina í hinni ævintýralegu kaktusadeild héldum við aftur í stóra jólatrjáasalinn.Við höfðum upphaflega ætlað að stoppa örstutt í Botaniska, bara koma við til að kjósa tréð hans Huga. En svo vorum við svo seint á ferðinni að það var orðið ansi stutt í að tilkynna ætti hver fengi verðlaunin og því vildum við auðvitað ekki missa af fyrst við á annað borð vorum á staðnum. Reyndar dróst og dróst að verðlaunaafhendingin færi fram og ég var margoft búin að ákveða að nú gengi þetta ekki lengur og að við yrðum að drífa okkur en þá sá ég alltaf eitthvað sem mér þótti benda til að nú væri þetta alveg að fara að bresta á og þá tímdi ég auðvitað ekki fara! Það átti sem sagt að veita verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar verðlaun fyrir fallegasta tréð að mati almennings og svo aðalverðlaunin sem sérstök dómnefnd veitti. Reyndar var líka keppni í gangi um bestu jólaskreytinguna sem atvinnumenn í blómaskreytingum tóku þátt í en við höfðum auðvitað lítinn áhuga á henni ... og ef ég á að segja alveg eins og er voru leikskólatrén líka hundrað sinnum fallegri en þetta föndur fullorðna fólksins! Þetta tré sem hér sést var þó ekki eitt af þeim bestu, verð ég að viðurkenna ... ég bara skil ekki þennan mann með jólasveinahúfuna! Og hann var sko út um allt á trénu og tróndi líka á toppnum í staðinn fyrir stjörnu eða topp! Hvaða maður er þetta eiginlega?!!

Ég var hins vegar svolítið skotin í þessu sem skreytt var af nemendum á leikskóla í Gottsunda. Gottsunda er eitt helsta innflytjanda hverfið hér í Uppsölum og þar býr fólk frá öllum heimshornum. Tréð þeirra endurspeglar það. Grunnurinn er skreyttur með lúsíubollum sem er eitt af því sænskasta sem til er! Ofan á þennan góða og hefðbundna sænska grunn er svo skreytt með þjóðfánum ótal margra landa. Táknrænt og fallegt.

Loksins, loksins var þó komið að verðlaunaafhendingunni og fínn maður steig í pontu, þakkaði öllum fyrir þátttökuna, komuna og kosninguna og tilkynnti svo að verðlaun fyrir fallegasta tréð að mati almennings hlyti Hemmingsförskola!!! Leikskólinn hans Huga!!! Við fögnðum náttúrulega óskaplega og óskuðum Huga til hamingju og það sá fíni maðurinn. Þar sem enginn á vegum skólans var á staðnum bauð hann Huga því að koma upp og taka á móti verðlaununum. Við áttum nú ekki von á að hann legði í það enda er hann yfirleitt mjög viðkvæmur fyrir svona athygli. Við vorum til dæmis í „Inn og út um gluggann“ í kirkjuskólanum um daginn og þegar staðar var numið bak við hann Huga varð honum svo mikið um að hann hljóp til pabba síns og grét með ekka í 10 mínútur! Það kom okkur því mjög á óvart þega Hugi stormaði kokhraustur upp á sviðið eins og ekkert væri og tók á móti viðurkenningarskjali og verðlaunum! Mér varð svo mikið um þetta allt saman að ég steingleymdi að draga fram myndavélina fyrr en allt of seint og náði því bara þessari af verðlaunahafanum að ganga í burtu eftir afhendinguna.

    

Ég átti hins vegar eftir að fá annað tækifæri til að mynda því þegar búið var að tilkynna hverja dómnefndin hafði valið í 3. og 2. sætið kom í ljós að Hemmings hafði líka unnið fyrsta sætið í dómaravalinu! Hugi fékk því að storma aftur upp á sviðið og taka á móti enn fleiri verðlaunum og viðurkenningarskjölum! Við vitum ekki alveg hvert feimni strákurinn okkar fór þarna á meðan því hann hagaði sér eins og hann gerði ekkert annað en að taka á móti verðlaunum daginn út og daginn inn! Við hin þrjú vorum svo montin að við vorum alveg að springa!!!

Hann tók meira að segja í höndina á fína manninum af miklum myndarskap þótt handabandið væri reyndar dálítið snúið! Sjálfum fannst honum þetta ekkert mjög mikið tiltökumál og þegar við spurðum hann seinna hvað honum hefði þótt skemmtilegast yfir daginn var hann ánægðastur með augnablikið þegar við vorum að keyra í Botaniska og sáum Olle og fjölskyldu út um gluggann að hjóla á sama áfangastað!!!

Eftir þessa óvæntu og skemmtilegu uppákomu ætluðum við að drífa okkur heim en á leiðinni í bílinn sáum við fjölda manns standa í brekkunni milli hallarinnar og Botaniska og sífellt fleiri dreif að, gangandi vegfarendur bættust í hópinn, bílaumferðin var töluverð og fólkið gubaðist út úr strætisvögnunum. Einhvers staðar úr glatkistum minnisins rifjaði Einar upp að hann hefði heyrt eitthvað um árlega flugeldasýningu við Botaniska í fyrra. Við ákváðum því að staldra við, fundum okkur góðan stað og biðum í myrkrinu.

Um allan garðinn voru kertaljós, aðalbyggingin sem hér sést (jólatréð hans Huga er bara þarna rétt aftan við súlurnar!) var ljósum prýdd og eftirvæntingin áþreifanleg í loftinu.

    

Og svo loks byrjaði flugeldasýningin. Og þvílík sýning!!! Mér þykir leiðinlegt að segja það en Miðbakkinn á Menningarnótt var bara eins og lítilfjörleg eldspýta við hliðina á þessu!

Eftir ótrúlega frábæran dag var auðvitað ekki annað hægt en að halda heim, kveikja á kertum og elda eitthvað ótrúlega gott í kvöldmatinn. Fyrir valinu varð fádæma gott Thai beef salat sem við uppgötvuðum nýlega. Hér eru kát og glöð aðventu systkin sest við borðið. Lokapunktur þessa skemmtilega dags var svo fjölskyldu vídeókvöld þar sem við kúrðum uppi í sófa á náttfötunum undir sæng og horfðum á Harry Potter!

Við erum alveg harðákveðin í því að taka fyrsta sunnudag í aðventu á næsta ári með trompi, þræða alla litlu, sætu jólamarkaðina í bænum, sötra glögg og piparkökur á öllum stöðum og enda svo daginn á flugeldasýningunni!