Fyrsti afmælisdagurinn 

Baldur Tumi varð eins árs þann 27. maí!!! Ótrúlegt að það sé ár frá því hann var lagður agnarsmár í fangið á mér og ekkert annað komst að en hvað hann væri fallegur og fullkominn!

Við byrjuðum daginn auðvitað á afmælispönnukökum eins og vanalega. Þar sem Baldur Tumi er óvenju árrisull reyndist lítið mál að hafa hátíðarmorgunverðinn í tæka tíð áður en stóru systkinin fóru í skólann! Við köllum það gott ef það stendur 6 eitthvað á klukkunni þegar hann vaknar!

Afmælissöngurinn sunginn fyrir undrandi ungan mann.

Og svo voru það pakkarnir! María valdi þetta dót alveg sjálf og gaf litla bróður sínum. Það sló alveg í gegn eins og sjá má á þessari æstu mynd!

Hva, ég er ekkert æstur, sit hérna pollrólegur og virði dótið fyrir mér á yfirvegaðan hátt. Alltaf er verið að ljúga einhverju upp á mann.

Frá okkur foreldrunum fékk Baldur Tumi sinn eigin róló! Eða þannig. Þessa fínu rólu og lítinn sandkassa. Hugi gaf honum svo fötu og skóflur.

Rólan hangir í vetrareplatrénu svo stóru systkinin hafa útsýni yfir litla bróður úr tréhúsinu sínu.

Hugi hefur þroskast ótrúlega mikið eftir að hann hætti að vera litla barnið í fjölskyldunni. Þó ekki svo mikið að hann sé kominn með skegg! Nei, þennan dag höfðu þau María einmitt verið að leika í sýningu á Kardimommubænum í skólanum, Hugi lék Kasper og María lék Tomma. Sýningin var bara fyrir samnemendur svo við Einar misstum því miður af þessum stórviðburði.

Baldri Tuma fannst skemmtilegt að róla og brosti út að eyrum.

Skemmtilegast af öllu er að róla þegar María systir ýtir manni!

Rólumyndirnar urðu ansi margar og einhvern veginn fannst mér ég verða að birta slatta hér til að þið fáið að sjá hvað hann var kátur elsku litli stúfurinn. Þessi er alveg úr fókus en svipurinn er óborganlegur og gleðin ósvikin!

Elsku litli Tuminn okkar! Ég man þegar María varð eins árs að þá fannst mér ungbarnaskeiði svo lööööngu búið og eiginlega nærtækara að fara að plana stúdentsveislu en standa í smábarnastússi. Baldur Tumi á hins vegar örugglega eftir að vera með snuð fram að fermingu og ég á örugglega eftir að vilja bera hann í fanginu upp að altarinu!!!

Sjáðu mig mamma!!!

Snúðurinn var hins vegar fullur efasemda í sandkassanum! Þetta var bara einfaldlega ekki að gera sig með þennan sand!

Hann var því fljótur að flýja upp úr en við hin skemmtum okkur hið besta!

Fátt er nú fallegra en að leika sér í sandkassa undir blómstrandi eplatré.

Þegar við María vorum tvær að moka í sandkassanum seinna um daginn heyrðum við skrjáfa í hekkinu og fljótlega kom þessi litli broddgöltur trítlandi í áttina til okkar. Það eru alveg reglulega broddgeltir í garðinum okkar en mér finnst það enn alveg ótrúlegur viðburður og dreg yfirleitt alltaf fram myndavélina!

Það var að sjálfsögðu bökuð afmælisterta í tilefni dagsins þótt afmælisbarnið sjálft hafi ekki fengið að smakka.

Þið hljótið að vera að grínast með þetta, má maður ekki einu sinni fá bita af eigin tertu?!!

Það stefnir allt í að þetta verði hin opinbera afmælisterta heimilisins í náinni framtíð. Hún er bæði góð og ómótstæðilega fögur!

Þarna er klukkan 18:00 þann 27. maí 2010 og Baldur Tumi því akkúrat, nákvæmlega eins árs! Einar og Hugi voru farnir á fótboltaæfingu þannig að við María stóðum tvær fyrir fagnaðarlátunum. Reyndar gekk fæðingin svo hratt og það var svo mikill hamagangur á lokasprettinum að það veit eiginlega enginn nákvæmlega hvenær hann fæddist. Þær skutu svona á þetta ljósmæðurnar eftir á! En þetta er skráð fæðingarstund og við getum ekki miðað við neitt annað því ekki var ég alla vega á klukkunni þarna!

Elsku Baldur Tumi, fallegasti og besti litli snúður, takk fyrir fyrsta árið okkar saman. Við hlökkum til að eiga öll hin með þér líka!