Frost og hrím

Veturinn byrjaði óvenju snemma hjá okkur þetta árið. Fyrsti snjórinn féll snemma í nóvember og síðan hefur ekki verið auð jörð. Fyrsta alvöru kuldakastið kom þó ekki fyrr en fyrstu vikuna í desember þegar mælirinn sýndi tölur í kringum -20 nokkra daga í röð. Svona ískaldir vetrardagar eru svo óendanlega fallegir, sérstaklega þegar það myndast mikið hrím sem sest utan á allt og breytir hversdagslegu umhverfinu í ævintýraveröld. Þessar myndir eru teknar á einum slíkum degi, nánar tiltekið 2. desember 2010.

Snækórónan snæviþakin. Að vísu væri rangt að kalla þetta snjó, það var nánast enginn eiginlegur snjór á greinunum, þetta var bara þykkt lag af hrími sem hafði sest á yfir nóttina.

Hvít tré og runnar og rauður sauna-kofi nágrannans.

Mér finnst ekki svo langt síðan börnin hlupu hér sundfataklædd niður af pallinum til að stinga sér í kalda laug!

Hér blómstraði bleik rós í sumar.

Ég hef oft upplifað svona frostdaga eftir að við fluttum til Svíþjóðar og oft séð svona fallegt hrím en aldrei nokkurn tímann hef ég séð hrímaða kóngulóarvefi áður!

Annar hrímaður kóngulóarvefur og kerti í gluggakistu fyrir innan.

Hrímið er ótrúlega flott í nærmynd! Eins og skógur af jólatrjám á hvolfi!

Útsýnið af pallinum.

Þvílíkt listaverk!

Snjór og hrím í garðinum.

Rósarunninn við eldhúsgluggann.

Inni bíður eldur í arni og malandi kaffivél, hreint út sagt dásamlegt eftir leiðangur í frostinu!