Frost í febrúar

Veturinn hefur verið einkar mildur hér á okkar slóðum og kannski kominn tími til eftir síðustu tvo sem voru langir, kaldir og snjóþungir. Það var helst að það væri vetrarlegt hér í febrúar og þá fór mælirinn niður í um -20°  í nokkrar nætur - en við erum að vísu löngu hætt að kippa okkur upp við svoleiðis kettlingakulda!

Í febrúar höfum við haft góða gesti í garðinum þar sem fasanapar hefur gert sér ferðir hingað nokkrum sinnum á dag. Þau ganga yfirleitt alltaf sama hring og eru hryllilega fyndin í háttum. Þetta eru ansi stórir fuglar og ekkert sérstaklega mikið fyrir að fljúga en þarna náði hænan þó að lyfta sér upp á neðstu greinar grenitrésins og þar situr hún og fylgist með bóndanum - sem ekki festist á filmu í þetta sinn.

Ég átti 36 ára afmæli þann 9. febrúar og fékk macro linsu í afmælisgjöf frá fjölskyldunni. Daginn eftir ákvað ég að taka hana með í morgungönguna og prófa. Aðaltilgangurinn var reyndar að mynda prjónaverkefni sem þið fáið ekkert að sjá hér en ég smellti nú mynd af einu og öðru líka. Hér er Baldur Tumi kátur og hress á leiðinni á leikskólann.

         

Það er ekkert smá smart að fara með bakpoka í skólann alveg eins og stóru systkinin! Gamla skólataskan hans Huga úr 6 ára bekk kemur í góðar þarfir.

Bless, nú erum við farin á leikskólann! Þessar fáu vikur sem hér var snjór fórum við á snjóþotu í leikskólann. Nú er snjórinn næstum allur bráðinn og ég verð að játa að ég sakna þessa ferðamáta óskaplega - eiginlega það eina sem ég sakna frá vetrinum. Það var eitthvað svo ótrúlega þægilegt að þurfa ekki að óla niður í kerru að ekki sé nú talað um hvað drengurinn var spenntari fyrir að setjast á þotuna en í kerruna.

Nýja linsan í aksjón! Þetta var einn af köldustu dögum vetrarins og allt hrímað. Þetta er sem sagt bara hrím sem fallið hefur um nóttina á greinunum, ekki snjór.

Ég myndaði prjónaverkefnið meðal annars í skóginum (en þær myndir voru reyndar ekkert vel heppnaðar svo ég veit ekki hvort þið fáið nokkurn tímann að sjá þær). Þar tók ég líka þessa mynd af mér til að sýna ykkur hrímaða hárið mitt. Á köldum dögum sest rakinn úr andardrættinum í hárið mitt sitt hvoru meginn og frýs. Mér finnst ég alltaf megatöff eins og einhver pólfari með klakahröngl í skegginu!

Á leiðinni heim sá ég svo krúttlegan þröst sitja í hrímuðu eplatré en þá var ég auðvitað ekki með réttu linsuna til að taka fína mynd af honum. Það er enginn aðdráttur á macro linsunni þannig að fuglinn er hér bara pínulítill fyrir miðri mynd. En þið sjáið alla vega hvað fallegu litirnir á fjöðrunum tóna vel við gömlu eplin og hvað þetta hefði orðið fín mynd ef ég hefði verið með aðra linsu!

Meira hrím.

Ég prófaði macro linsuna líka á bláu hortensíunni minni ...

... og flagglínunni í stofugluggunum. Ég er algjör nýgræðingur í að nota svona fína linsu og þarf að æfa mig miklu meira. Ég er þó bara að sýna bestu myndirnar hér, ekki þær þar sem fókusinn var á skökkum stöðum, nú eða einfaldlega ekki til staðar!

Nokkrum dögum síðar fórum við í smá snjóþotuferð hérna út að stóru rennibraut - og nýja linsan fékk að vera heima.

Baldur Tumi var alveg til í svona fjör. Einar og María komu með okkur en Hugi vildi vera heima að skoða Michael Jackson myndbönd á Youtube!

Vííííííí ....

María í vetrarsól.

Baldur Tumi rennur af stað hátt uppi í brekkunni skellihlæjandi ...

... en brosið breytist fljótt í skelfingarsvip ...

... þetta var alltof hratt! Þá er nú gott að eiga góða stórusystur sem huggar og knúsar.

Og öll él birtir upp um síðir.

Einar fékk sér salíbunu ...

         

og María líka!

Á hverjum morgni þegar við Baldur Tumi löbbum á leikskólann og á hverjum eftirmiðdegi á leiðinni heim þarf að stoppa á brúnni og kíkja á „nahnið“ (vatnið) eins og Baldur Tumi kallar litla drullulækinn sem rennur í gegnum Vänge. Á þessu tímabili var hann íslagður og það þótti okkur í meira lagi spennandi, sérstaklega þegar við sáum kisuspor í snjónum ofan á vatninu! Það var því margt athyglisvert sem þurfti að sýna pabba og Maríu í þessari ferð.

Feðgar á ferð.

Það er miklu skemmtilegra þegar pabbi dregur snjóþotuna en mamma!

Við fengum góða gesti til okkar í kaffi um daginn og í þeirri heimsókn var rifjuð upp sú aðferð við að hreinsa teppi að hvolfa þeim í snjó og ganga svo yfir þau þvers og kruss. Þetta urðum við auðvitað að prófa nokkrum dögum síðar, hentum mottunni út á pall, gölluðum drengina upp og skipuðum þeim að trampa.

Þetta þótti í meira lagi spennandi! Mottan varð að vísu ekkert hreinni á eftir en hverjum er ekki sama um það fyrst stundin var svona góð.

Herra fasani mættur og spígsporar um.

Þann 23. febrúar eignuðust Svíar nýja prinsessu. Við á Konsulentvägen látum ekkert tækifæri til að fagna fara til spillis svo við keyptum bleika prinsessutertu og slógum upp veislu!

Baldur Tumi var ægilega kátur með þetta allt og talaði stöðugt um Pippi prinsessu! Ég veit ekki alveg hvaðan hann fékk það en víst er að hann er mikill og ákafur Línu langsokk aðdáandi!

Svona á að vera sætur og brosa þegar einhver tekur mynd af manni!

María ranghvolfir augunum af myndatökuþreytu, Hugi er löngu farinn að hugsa um eitthvað annað (Michael Jackson myndbönd á Youtube?) en Baldur Tumi er enn í banastuði!

Þessi mynd er fyrir Jennýju móðursystur og uppáhaldsfrænku sem sendi börnunum þessi fallegu föt! Bræðurnir í bræðraskyrtu og María í ótrúlega fallegri peysu/jakka sem sést því miður ekki nógu vel á þessari annars fínu mynd. Takk elsku frænka fyrir fötin og fallegu kortin!

Tölvan okkar bilaði í lok janúar og fór í tveggja vikna (!) viðgerð í byrjun febrúar. Meðan hún var víðsfjarri var lítið hægt að skrifa ritgerð og því ákvað ég að beina kröftum mínum annað þessa daga, nánartiltekið í skrifstofutiltekt. Aðalvinnan var að raða inn reikningum síðustu tveggja hára (hehemm), henda pappír og ónýtum pennum, flokka blöð og glósur, raða bókum í hillur og þannig mætti lengi telja. Svona sem verðlaun fyrir vel unnin störf ákvað ég líka að punta svolítið á þessari litlu hillu minni yfir skrifborðinu sem aldrei hefur glatt mig neitt sérstaklega (öfugt við hinn svokallaða hvatningarvegg sem ég hafði ævinlega yfir skrifborðinu á Bárugötunni sem veitti alltaf mikinn stuðning á erfiðum tímum).

Mikilvæg skilaboð til ykkar allra frá örvæntingarfullum mastersnema! Og finnst ykkur skuggabrúðu álfadísin ekki dásamleg? Það er alla vega nokkuð ljóst að ég þarf á vænum skammti af töfrum að halda ef ég á að klára þessa ritgerð!

Og skórnir, ó hvað ég elska skóna! Þeir voru það eina sem ég keypti mér fyrir þessa fínu tiltekt mína (fyrir utan nokkra blýanta). Þeir áttu nú að vera jólaskraut og ég fékk þá á hálfvirði á útsölu í febrúr.

Núna þegar ég horfi á allar þessar fjórar myndir af einni hillu og litlum hluta af vegg þá finnst mér eins og þetta sé nú kannski ekki svo rosalega fínt að það verðskuldi endilega sérstakan sess í þessu myndaalbúmi! En lítið gleður auman!

Amaryllisarnir mínir og orkidean taka þátt í að punta skrifstofuna og búa sig undir að skarta sínu fegursta.

Og sjá, þremur dögum síðar!

Úti skín sólin, hitamælirinn sýnir 10°, snjórinn bráðnar og það bunar fjörlega í öllum þakrennum og göturæsum. Vorið er á næsta leyti!