Frá vori til sumars

Apríl hefur verið mánuður mikilla breytinga hér á Konsulentvägen.. Íbúarnir eru að sjálfsögðu samir við sig en umhverfið hefur tekið stakkaskiptum og garðurinn og náttúran í kring bera þess merki að sumarið hefur nú tekið við af vorinu.

Gabbdagurinn mikli 1. apríl

Vorinu fylgja ýmis vorverk í garðinum og að morgni 1. apríl voru feðgarnir komnir snemma út í morgunsólina og farnir að leggja drög að því hvernig best væri að snyrta eplatréð. Húsmóðurinni þykja þau að vísu óskaplega ljót þegar búið er að klippa þau niður en þar sem laufið sem myndast á litlu greinunum skyggir á eplin sjálf og gerir það að verkum að þau verða ekki eins sæt og safarík lagði hún að blessun sína yfir aðgerðir feðganna.

Inni í eldhúsi hafði heimasætan fengið vilyrði fyrir því að sjá ein um hádegismat handa fjölskyldunni. Hún fór sjálf út í búð og verslaði það sem hana vanhagaði um, tók til snarl og lagði á borð, allt án nokkurrar aðstoðar!

Fjölskyldan snæðir hádegisverð í boði Maríu. Mesta vinnan var sennilega fólgin í því að skera eplin sem sjást þarna í einni skálinni í bita en hún stóðst þá þrekraun án hjálpar. Okkur fannst hún ægilega mikil dúlla í þessu brasi sínu öllu! (Já og bara svo það komi nú skýrt fram þá erum við ekki með börnin í þrælkunarvinnu hérna heldur var það einlæg ósk Maríu að fá að taka þetta verkefni að sér og búið að taka a.m.k. eitt grátkast yfir að vera neitað um slíkt nokkrum dögum áður!)

    

Eftir vel heppnaðan hádegisverð héldu systkinin út í góða veðrið að blása sápukúlur. Þrátt fyrir vorblíðuna þennan dag lítur garðurinn svo sannarlega ekki hlýlega út og ef aðeins er tekið mið af þessum myndum mætti halda að hér ríkti haust! Grasið er gult og grátt, tré og runnar eru ber og fölnuð lauf hafa fokið í hrúgur hér og þar. Þið verðið því bara að hafa mín orð fyrir því að það var svo sannarlega vor í lofti, gott ef ekki bara sumar!

María er jafnflink að blása sápukúlur og hún er að taka til hádegisverð fyrir fjölskylduna!

Hugi er kannski ekki alveg jafnflinkur en þetta er allt að koma hjá honum!

Sápukúlan gripin aftur.

Einar keypti tómatplöntu-, basiliku- og paprikufræ í mars og sáði hér inni. Einnig voru fest kaup á gulrótarfræjum og er Hugi búinn að suða í pabba sínum síðan að fá að setja niður nokkur fræ fyrir sig. Hann er nefnilega búinn að ákveða að þegar gulræturnar verði fullvaxnar ætli hann að nota þær í lasagna! Þennan dag varð pabbinn loks við þrábeiðnum sonarins og María og Hugi fengu að gróðursetja nokkur fræ í hornið á sandkassanum sínum (sem er reyndar er ekki eiginlegur sandkassi heldur meira eins og moldarbeð með tréramma utan um).

María vökvar að sáningu lokinni.

Deginum lauk eins og hann byrjaði og feðgarnir fóru út í kvöldsólina með stiga til að ljúka við snyrtingu eplatrésins. Hugi hjálpar til með lítilli hrífu!

Helgin 13. - 15. apríl

Föstudaginn þrettánda fengu börnin að vera í fríi frá skóla og leikskóla. Ekki þó vegna þess að móðirin væri hjátrúarfull heldur óttaðist hún að María væri að verða veik og ákvað að halda henni heima og þá er yfirleitt einfaldara að hafa Huga bara með líka. Þar sem þetta var afmælisdagurinn hans Ella frænda, sólin skein úti og hitastigið komið vel yfir 15 gráðurnar ákváðu systkinin að baka tígrisdýrakökuna sívinsælu. Hér eru þau við eldhússtörfin ... er eitthvað sætara en þetta?!

    

Hugi var á hrærivélinni og vandaði sig mikið eins og sjá má. María fékk það verkefni að mæla hin og þessi innihaldsefnin og blanda út í deigið.

    

Það er sívinsælt að fá að sleikja á eftir!

Tígrisdýrakakan tilbúin! Loksins, loksins, loksins tókst mér að fá hana í heilu lagi út úr forminu!!!

Krakkarnir stolt með afraksturinn enda bökuðu þau kökuna sko alveg „sjálf“!

     

Lítil vorblóm hafa óðum verið að stinga upp kollinum í apríl.

Þótt enn væri fremur grámóskulegt í garðinum mátti sjá ljósgrænabrumknappa á öllum runnum.

Mjúka dótið sem ég birti mynd af hér fyrir skemmstu var um miðjan apríl orðið alþakið frjókornum. Dálítið fallegt finnst mér.

Það var svo sannarlega rjómablíða þennan föstudag og þar sem það var spáð enn betra veðri um helgina ákváðum við Konsulenthjónin að tímabært væri að taka fram garðhúsgögnin og setja upp á pallinum. Hér erum við hálfnuð með verkið og strax komin í kaffipásu!

Á laugardagsmorgninum var hitinn kominn upp undir 20° þegar við lögðum af stað í kirkjuskólann sem er á vegum íslensku kirkjunnar hér í Svíþjóð. Þar er ágætt tækifæri fyrir Maríu og Huga að kynnast íslenskum krökkum hér í Uppsölum og við foreldarnir njótum þess að hitta aðra landa og geta saman kvartað yfir óhóflegri skipulags- og öryggisfíkn Svíanna, vikutalningu og skorti á vanilludropum!

Sjálfsmynd húsfreyjunnar. Takið eftir því hvað umhverfið er enn berangurslegt og grasið fölt. Það er erfitt að trúa því þegar maður horfir á svona mynd, meira að segja fyrir mig, að veðrið hafi virkilega verið svona gott!

Eftir kirkjuskólann ákvað María að standa fyrir pikknikki úti í garði fyrir þau Huga. Hér er hún að útbúa nestið alveg sjálf!

Og hér eru systkinin komin út á teppið í blíðunni ... María með eitthvað grín.

Eftir nestisferðina voru hjólin tekin út í fyrsta skipti þetta árið og börnin fengu að rifja upp gamla takta á bílaplaninu hinum meginn við götuna.

Ég vil bara benda fólki á að þetta ljómandi huggulega hús sem stendur við planið og er nánast beint á móti okkur er nú til sölu. Kostar bara 1 950 000 sænskar krónur sem er vel undir 20 milljónum íslenskum. Vill ekki eitthvað gott fólk, helst með svona sjö ára dóttur og fimm ára son, kaupa það?!

    

Huga finnst María hafa verið illa svikin þegar hún fékk sitt hjól. Það er nefnilega bara tvö dekk á hennar en fjögur á hans! María finnst þó ekkert mál að hjóla án hjálpardekkja og getur meira að segja blístrað um leið og hún þeysist áfram! Það er þó deginum ljósara að þetta bleika hjól er orði allt of lítið fyrir stóra dömu sem er alveg að verða sjö ára!

Um kvöldið ákváðum við að borða úti í fyrsta skiptið á þessu ári. Við komumst hins vegar fljótt að því að þegar sólarinnar naut ekki lengur við var allt of kalt til að sitja úti, jafnvel þótt við vefðum um okkar teppum og ullarsjölum!

Við flúðum því inn í hlýjuna fyrir eftirréttinn sem var heit og blaut súkkulaðikaka með hindberja sorbet. Ég held að ég sé búin að finna uppskriftina að hinum fullkomna sumardesert! Það er fáránlegt hvað þetta passar vel saman!

Á sunnudeginum vorum við boðin í afmæli til íslenskrar fjölskyldu hér í Uppsölum. Við hjónin stilltum okkur upp í garðinum en það er eins og litla húsið okkar hafi af tilviljun runnið fram hjá á leið sinni niður brekku einmitt þegar smellt var af!

Nýlega var opnuð blómabúð hér í Vänge. Gabriellas blombod kom í staðinn fyrir tískuverslunina Vivi og Viktoria sem flutti inn til borgarinnar síðasta haust. Við erum ákaflega ánægð með að hafa fengið nýja verslun í þorpið og héldum þangað til að kaupa blóm handa afmælisbarninu. Okkur til mikillar undrunar var búðin hins vegar lokuð þannig að ljóst er að Gabriella vill frekar eyða sunnudögunum heima að drekka kaffi en að afgreiða blóm í búðinni sinni! Hvað um það, hér er fjölskyldan stödd á sjálfum Konsulentveginum, eins og þið sjáið er þetta mikil breiðgata! Þennan dag fór hitinn upp í 25° og við vorum öll að stikna í sólinni. Með þessari hitabylgju fór maður líka að sjá ótrúlegan mun á gróðrinum bara dag frá degi.

17. apríl

Maríu finnst notalegt að stinga sér undir sæng og lesa í Ljósálfatímaritinu sínu þegar hún kemur heim úr skólanum. Enginn vafi leikur á að þetta hefur hún erft frá móður sinni þar sem pabbinn veit ekkert óþægilegra en að liggja uppi í rúmi um hábjartan dag! Hér er hún við þessa notalegu iðju á afmælisdag Gittu ömmu.

Daginn áður höfðum við tekið eftir því að sina og strá voru farin að safnast fyrir á einni greininni í vetrareplatrénu og eftir að hafa fylgst með þústinni í nokkra tíma sáum við svo ekki var um villst að þarna voru þrastarhjón að byggja sér hreiður. Þessari mynd náði ég út um kvistgluggann og sýnir hún annan fulginn við hreiðurgerðina. Á þessum tíma voru þau ekki bara að útbúa sér stað til að ala ungana á heldur voru þau augljóslega í tilhugalífi líka sem einkenndist af miklum stélasveiflum og dansi ásamt stöðugum tónmerkjasendingum. Þau voru líka ekki við hreiðrið nema á morgnana og kvöldin og því augljóslega ekki farin að huga að eggjunum enn þá. Þrestirnir hér í Svíþjóð (þ.e.a.s. fulginn sem heitir trast) eru reyndar aðeins öðruvísi en íslensku frændurnir, þeir eru bæði töluvert stærri og mun grárri á búkinn.

27. - 28. apríl

    

Á afmælisdeginum hennar Svanhildar vinkonu minnar var aftur komin hitabylgja! Og nú hefur garðurinn heldur betur breytt um svip frá því um miðbik mánaðarins. Plómutréð (til vinstri) er alsett knúmpum sem eru alveg við það að fara að springa út og á eplatrénu (til hægri) glitti í rósrauð krónublöð ef vel er að gáð. Blómin verða þó ekki svona dökk heldur fölbleik og hvít.

Greinar stóra eplatrésins bera við heiðskíran himininn ... ég er alltaf jafnhrifin af þessari sjón!

Nú er greinilega farið að draga til tíðinda í þrastarhreiðrinu í vetrareplatrénu. Nú liggur frúin stöðugt á því og skreppur ekki frá nema í stöku skipti yfir daginn og þá bara í stutta stund í einu. Hún er svo ótrúlega sæt og ég stend í þeirri trú að við séum miklar vinkonur!

Af og til sér maður bara stélið upp úr og þá er hún eitthvað að kíkja ofan í botninn, vonandi á fínu eggin sín!

    

Verðandi ungamamma. Þessar myndir eru allar teknar í garðinum alveg við trjástofninn.

Það bætast stöðugt ný og ný blóm við flóruna hér á Konsulentvägen og um daginn birtust þessar sætu litlu perluhyacintur.

Laugardaginn 28. apríl var aftur komið að kirkjuskólanum. María fór í nýju sumarfötin og var sæt úti í garði meðan hún beið eftir að aðrir fjölskyldumeðlimir væru tilbúnir.

Huga lá svolítið á að komast út ... gleymdist ekki eitthvað?!

María stillir sér upp í sömu stöðu og ljósmyndarinn sem laut niður að henni! Ótrúlega sæt sumarstelpa!

Systkinin að leik í sandkassanum/gulrótarbeðinu áður en lagt var af stað. Sjáið þið hvað allt er orðið grænt og fallegt?!

Hugi með risaeðluna: „Á ég að láta hana öskra á myndinni?“

Það sést nú munur á knúmpum plómutrésins dag frá degi. Okkur til mikillar gleði komumst við að því að það eru í raun og veru tvö plómutré í garðinum okkar en ekki eins og alltaf var talið. María segist reyndar hafa komist að þessu síðasta sumar og reynt að segja okkur frá því en við foreldrarnir virðumst hafa verið með hausinn svo stappfullan af gámum, pappakössum, tungumálaörðugleikum og skólaáhyggjum að upplýsingarnar hafa ekki síast inn!

Önnur sjálfsmynd af húsfreyjunni. Þvílíkur munur á gróðrinum í baksýn bara á þessum tveimur vikum sem liðið hafa milli myndanna.

Nú er tími kirsuberjatrjánna en þau eru ögn á undan öðrum ávaxtatrjám. Þetta ótrúlega fallega alblómgaða tré stendur við kirkjuna sem hýsir kirkjuskólann, Tunabergskyrkan. Þvílík dásemd!

Eftir kirkjuskólann komum við við í Stadsträdgården niðri í miðbæ. Börnin skottuðust í kringum okkur á leikvellinum þar en skyndilega kom María hlaupandi í mikilli hugaræsingu og kvaðst hafa séð íkorna. Hingað til finnst okkur fjölskyldunni við hafa séð allt of lítið af krúttlegum dýrum hér í Svíþjóð. Það er helst að við höfum orðið vör við villt dýr núna í vor en þá hafa þau nánast undantekningarlaust legið dauð við þjóðvegina sem er nú kannski ekki beint það sem við vorum að leita að! Við glöddumst því mjög yfir fréttum Maríu og létum hana teyma okkur að stóru tré. Og viti menn þarna uppi á grein kúrir lítill og krúttlegur íkorni!

Við færum okkur aðeins nær dúllunni ...

„Halló krakkar, ég heiti Ebbi íkorni! Sumir vilja meina að ég og bræður mínir séum hreint engin krútt heldur bara rotur með skott og stór eyru. Þið skuluð ekkert hlusta á svona fýlupúka og neikvæðnisraddir. Eins og þið hljótið að sjá sjálf er þetta hið mesta bull, auðvitað erum við sætar og krúttlegar litlar dúllur sem eigum ekkert sameiginlegt með rottum. Hún Guðrún Lára vinkona mín ætlar að lemja alla sem halda hinu gagnstæða fram! Bless, bless krakkar mínir, verið þið nú þæg og góð!“

Eftir að hafa nartað í hnetu hátt uppi í tré langaði litla íkornan niður (þið sjáið hann þarna ofarlega á trjástofninum á myndinni). Fyrir neðan sat hins vegar stór og ógnvænlegur hundur ... eða kannski ekki svo stór og ógnvænlegur en að minnsta kosti allt of hræðilegur fyrir lítinn íkorna. Hann snarstansaði því á leið sinni niður þegar hann kom auga á voffa.

Þarna hékk hann á hvolfi í dágóða stund og fylgdist með hundinum, reyndi svo að gefa frá sér fælandi hljóð með því að banka í tréð. Hundurinn lét hins vegar ekki að sér hæða og gelti bara á móti ...

... þá var litla íkornanum öllum lokið og prílaði eins hratt og hann gat upp í topp á trénu aftur!

Hugi og María fengu sér smá snúning áður en haldið var heim aftur.

Huga finnst gaman að klemma aftur augun til að sjá litlu sólina skína fyrir innan augnlokin!

Einar minn þér var nær að setja upp þennan hræðilega svip, þú hefðir mátt vita að þessi mynd myndi að sjálfsögðu enda á alheimsnetinu!!!

Í ár eru mikil hátíðahöld hér í Svíþjóð í tilefni þrjúhudruð ára afmælis Linné. Ekki hafði ég nú hugmynd um hver Linné var áður en ég flutti hingað en þegar maður býr í heimabæ þessa merka vísindamanns kemst maður ekki hjá því að læra eitt og annað um kappann. Linné var sem sagt sá sem bjó til flokkunarkerfið fyrir plöntur og jurtir ... eða eitthvað svoleiðis kjaftæði! Ég hef grun um að þessi afar sérstaka uppstilling í Stadsträdgården eigi að vera honum til heiðurs!

    

María brosir blítt við holan trjástofn ... og leikur íkorna uppi í tré!

Börn að bjástra.

Nú stendur allt í blóma í beðum garðsins.

Þegar heim var komið hófust feðgarnir handa við garðvinnuna af mikilli alvöru. Matjurtargarðurinn var stunginn upp og þar settu þeir niður kartöflur og sáðu meðal annars salati, púrrulauk og gulrótum. Eftir að allt var komið á sinn stað þurfti að vökva.

Kátir karlar í kvöldsólinni, ánægðir með dagsverkið!

Á meðan drengirnir voru að yrkja jörðina vorum við María að dúlla okkur innandyra, hún að mála sig eins og maríuhænu og ég að setja inn þessar myndir í tölvuna!

Nú bíðum við bara spennt eftir að sjá hvaða ævintýri maímánuður hefur í för með sér!