Fimm ára afmælisveisla Huga

... betra seint en aldrei!

Eins og ég hef áður lýst hér á síðunni minni kunnum við Einar bara alls ekki að halda barnaafmæli í Svíþjóð! Þótt við séum orðin nokkuð reynslumikil í afmælisbransanum þá vitum við bara ekkert hvernig við eigum að haga okkur þegar við getum ekki hóað í systkini okkar, frændsystkini og vini og beðið allt þetta góða fólk að mæta með börnin sín undir súðina á Bárugötu! Að ekki sé nú talað um þegar ekki er hægt að panta hjá Jódísi frænku einhverja glæsilega afmælisköku. Það tók okkur því ár og öld (eða réttara sagt einn og hálfan mánuð) að ákveða hvernig best væri að haga barnaafmælunum meðan við búum í Svíþjóð. Að lokum ákváðum við að bjóða allri deildinni á leikskólanum hans Huga hingað heim á Konsulentvägen, baka með þeim pizzur, útbúa sjálf afmælisköku á la Jódis eftir bestu getu, fara með krakkana út á snjóþotur og vera svo með einn eða tvo ekta sænska afmælisleiki ... svona rétt til að sýna lit!

Afmælisveislan var boðuð laugardaginn 24. febrúar en við vorum svo heppin að daginn áður kom amma Imba til okkar beint frá ráðstefnu í Finnlandi. Hún var umsvifalaust drifin í afmæliskökugerð enda hefur hún um árabil verið sérlegur aðstoðarmaður Jódísar og er því sérstaklega vel að sér í kökufræðunum. Hér sjást þau Einar í óða önn að skera kökuna út eftir sniði sem Einar teiknaði fyrr um kvöldið. Hugi hafði gert sér háleitar hugmyndir um Harry Potter og viskusteinninn-köku en við foreldrarnir sáum ekki alveg fram á að ráða við svo metnaðarfullt verkefni! Í staðinn stungum við upp á drekaköku (svona til að viðhalda Harry Potter andanum) og féllst drengurinn strax á það!

Etir að drekinn hafði verið skorinn út var hann að sjálfsögðu hjúpaður með góðu kremi og skreyttur með nammi. Eldurinn var úr gúmmírottum og skrápurinn úr gúmmífroskum sem skornir höfðu verið í tvennt! Gula glyrnan og hrjúfa tungan settu punktinn yfir i-ið!

Að sjálfsögðu var drekinn með voldugar klær á bæði höndum og fótum!

Við vorum svo ótrúlega stolt af afrkastrinum að ég verð að birta eina mynd í viðbót af þessum frábæra dreka!!! Núna skil ég varla í því hvernig ég tímdi að eftirláta Jódísi þessa vinnu því mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt!!! Minnti dálítið á piparkökuskreytingarnar sem ævinlega hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér! Hitt er svo annað mál að þetta er ákaflega tímafrekt og er ég Jódísi því óendanlega þakklát fyrir allar þær afmæliskökur sem hún hefur gert fyrir okkur af landskunnri snilld!

Á slaginu tólf daginn eftir fylltist húsið okkar af litlum leikskólakrökkum. Það er ekki ofsögum sagt að Svíarnir séu stundvísir því innan við15 mínútum eftir að afmælið hafði verið boðað voru allir gestir komnir inn í stofu og innan við 15 mínútum eftir að afmælislok höfðu verið boðuð var húsið tómt!!! Við byrjuðum sem sagt á pizzugerðinni, Einar var búinn að útbúa litlar smápizzur og amman var búin að skera niður skinku og grænmeti og svo dunduðum við okkur við að raða álegginu á pizzurnar með krökkunum, helst þannig að við byggjum til andlit eða eitthvað svona „roligt“! Síðan var sest við langborð og pizzur snæddar, saft drukkið og heimsmálin rædd!

María sat við annan endann umvafin karlmönnum ... eitthvað virðist henni lítast illa á uppátæki þeirra!

Við hinn borðsendann sat svo afmælisbarnið umvafinn kvenfólki! Hringlaga pizzuskerinn vakti athygli Maju eins og sjá má! Takið sérstaklega eftir blöðruregnboganum sem ég bjó til upp stigann ... ógeðslega flottur!!! Það voru aðeins tveir foreldranna viðstaddir allt afmælið og sjást þau hér í bakgrunni, ótrúlega elskulegt fólk sem hjálpaði okkur alveg helling.

Hér eru Hugi og Ellen en Huga finnst hún alveg ofboðslega sæt ... og það er hún auðvitað líka!

Ruben sem Hugi er nýhættur að kalla Róbein!

Olle fínn með slaufu (sem heitir fluga á sænsku, krúttlegt!) og Ludvig sem Huga þykir mikill tískufrömuður!

Allir með tómatsósu út á kinnar!

Ruben, Samuel og Douglas leika sér með nýja dótið en Hugi fékk ótrúlega mikið af fínum gjöfum frá krökkunum. Eftir pizzurnar var sem sagt haldið út í snjóþotubrekku og þar renndu krakkarnir sér góða stund áður en þau komu inn sæl og rjóð og tilbúin í kökuát.

„“

Drekinn vakti lukku þótt hann væri töluvert frábrugðinn prinsessutertunum sem sænsk börn eru vön úr afmælum. Við höfðum m.a.s. séð sérstaka ástæðu til þess að vara við að það yrði „ekta íslensk afmæliskaka“ á boðstólum svo gestir yrðu ekki fyrir vonbrigðum með rjóma- og vanillukremsleysið! Annars voru krakkarnir almennt alveg ótrúlega stillt. Þetta eru auðvitað krakkar sem eru saman alla daga, þekkja hvert annað vel og kunna að haga sér í þessum hóp. Þau voru því fljót að hlýða ef þau voru beðin um að gera eitthvað, komu alltaf um leið og kallað var á þau og röðuðu sér meira að segja í röð óumbeðin! Alveg yndislegur hópur af sætum og duglegum krökkum!

Maja og Hugi gæða sér á kökunni.

Krakkarnir fengu að leika sér í barnaherbergjunum en þrátt fyrir það náðu þau ekki að drasla neitt! Hér eru tveir hressir vinir, Ruben og Samuel (sem Hugi er nýhættur að kalla Somvell!), að leika á ganginum en þar sem við erum í miðjum klíðum við að rífa þar niður veggfóður lítur hann heldur ókræsilega út!

Ludvig í sjóræningjaleik, stilltur og prúður.

Stelpurnar fengu að leika í Maríuherbergi og stóðu allar prúðar í röð og skoðuðu Zamiloo-húsin hennar, algjörar dúllur!

Og þá er bara að byrja að huga að Maríu afmæli ... bara tveir mánuðir til stefnu!