Fimm á Konsulentvägen

Glænýjar myndir af Lilla Einarssyni og fjölskyldu!

 

Lilli og pabbi spjalla um efnahagsástandið, loftslagsbreytingar og önnur alvarleg mál.

Nýfædd börn eru svoooo sæt en það er svoooo erfitt að taka af þeim myndir sem koma því réttilega til skila! Fyrir hverja sæta mynd sem birt er hér á síðunni getið þið bókað að við tókum 10 sem voru pínu mis! Lilli er samt auðvitað alltaf æði og hér er hann hugsi í mömmufangi.

Með áhyggjuhrukkur og mjólkurskegg!

Þegar maður býr svona í útlandinu fær maður enga gesti sem gefa manni falleg blóm á sæng. Þá er nú aldeilis ljómandi að geta bara skroppið með klippurnar út í garð og búið sér sjálfur til fínan vönd!

Litli á leiðinni í fyrsta baðið ... og er ekki skemmt!

Þetta var aðallega alveg hræðilegt ... en kannski pínu ponsu notalegt í bland!

Að þurrka sér og fara í föt er hins vegar BARA hræðilegt!!!

Eftir baðið líður manni reyndar mjög vel en þó er um að gera að vera með áhyggjusvipinn sem lengst áfram svo þetta fólk skilji örugglega að það komi ekki til greina að láta mann ganga í gegnum þessar þrengingar aftur! Takist sérstaklega eftir dúninum á kollinum sem stendur út í loftið eftir baðferðina ... ógnar dúllulegt!

Aðdáun!

Hann hefur augljóslega erft ennishrukkurnar frá pabba sínum!

Það er notalegt að kúra hjá stóru systur fyrir háttinn ...

... og ekki síðra hjá stóra bróður.

Feðgar fá sér blund undir Stóra-Dímon.

Litla mjónuprikið á leiðinni í enn eina vigtunina.

Þessi mynd er aðallega til að sýna ykkur þessa undurfallegu peysu sem mér var gefin um daginn! Því miður gerir myndin peysunni ekki alveg nógu góð skil, hún er algjört listaverk! Handprjónuð úr einbandi af henni Rósu vinkonu minni og telst fullnaðargreiðsla (og gott betur en það!) fyrir smá greiða sem ég gerði henni og fjölskyldunni hennar síðasta haust!

Litli maðurinn hefur lítinn áhuga haft á öðrum svefnstöðum en fangi foreldranna. Bringan á pabba er best eins og augljóst er af þessari mynd!

         

María er rosalega dugleg að passa litla bróður. Þá heldur hún á honum í fanginu og syngur fyrir hann um sumarið. Það er svo fallegt að sjá og heyra að ég fæ kökk í hálsinn í hvert sinn!

         

Bræðurnir eru ekkert minna en dásamlegir saman!

Feðgarnir að lesa leiðara dagsins og drekka morgunkaffi saman á áætluðum fæðingardegi.

Núna þegar við foreldrarnir höfum haft í nógu að snúast með litla barnið hafa María og Hugi verið dugleg að sjá um sig sjálf. Hér hafði María útbúið hádegisverð fyrir þau tvö, jógúrtdrykk og samlokur. Hún er svo ábyrgðarfull að hún passaði sérstaklega upp á að önnur samlokan væri mjög holl (og vond!).

Eftir að okkur þótti nokkuð ljóst að litli kúturinn ætlaði hvorki að sofa í vöggu né rimlarúmi ákváðum við að gera okkur stöðuna aðeins auðveldari og keyptum okkur burðarsjal. Þannig getum við verið með hann í fanginu en samt með frjálsar hendur. Í stuttu máli sló sjalið í gegn hjá öllum aðilum, mömmu, pabba og Lilla sem lygnir aftur augunum um leið og maður er búinn að binda hann fastan. Okkur Einari finnst líka ótrúlega notalegt að hafa hann framan á okkur og heyra væran andadráttinn þegar hann sefur og geta kysst á kollinn hvenær sem er!

Einar kíkir í tölvuna og Lilli ... ja, hvað skyldi hann vera að gera?

Jú, hann hefur það gott og sýgur þumalinn!

Á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní, fórum við fyrstu ferðina með litla í vagninum. Við vorum öll æsispennt, ja nema Lilli sem sofnaði eftir fyrsta metrann!

Rauði vagninn og rósarunninn.

Og hér kúrir hann, litli karlinn, með sjö sortir af blómum á sænginni. Hér í Svíþjóð segir þjóðtrúin að ef maður sofi með sjö tegundir af blómum undir koddanum aðfaranótt Midsommar þá dreymi mann tilvonandi maka. Þetta var að vísu tveimur dögum fyrir Midsommar og blómin ofan á honum en ekki undir en hann hefur áreiðanlega dreymt einhverja yngismær. Tveimur dögum síðar tíndi María sjö blóm og stakk undir koddann hjá sér fyrir háttinn. Hana dreymdi hins vegar flipper tölvuspil og mun því sennilega giftast höfrungi!

Föruneyti drengsins!

Við stoppuðum á brúnni yfir drullulækinn og tókum eina mynd.

Blómstrandi tré urðu víða á vegi okkar í þessum fyrsta göngutúr Lilla.

Hér eru nokkrar myndir af uppáhaldsstaðnum mínum í Vänge (fyrir utan Konsulentvägen 2B auðvitað). Þetta er raðhúsaþyrping í eigu Uppsala og að minnsta kosti hluti íbúðanna eru á vegum félagslega kerfisins. Húsin eru byggð í hring og milli þeirra er ótrúlega sætur lokaður garður. Eiginlega verður þetta eins og lítið afgirt samfélag þar sem öllu er ótrúlega vel við haldið og íbúar hafa allt til alls. Veggurinn sem er þarna vinstra meginn á myndinni er til dæmis utan um litla sundlaug!

Svo er ótrúlega sætur lítill róluvöllur milli trjánna. Ég græt það í hvert sinn sem ég geng þarna í gegn að hafa ekki aðgang að öllum þessum dásemdum sjálf þótt ég sé vissulega fegin að vera ekki upp á félagslega kerfið komin. Hvort ætli maður myndi nú kjósa Asparfellið eða Vangsbyvägen?!

María og Hugi milli raðhúsanna.

Á öðrum stað í Vänge er þetta hús þar sem búa greinilega miklir kaktusaaðdáendur! Við Einar urðum einmitt vitni að því þegar kaktusarnir voru fluttir út í vor svo þeir virðast búa inni yfir dimmasta og kaldasta tímann. Á sumrin sleikja þeir hins vegar sólina utandyra.

Þessi litli kútur vakir nú ekkert sérstaklega mikið en þá sjaldan hann er ekki sofandi er hann afskaplega vær og athugull. Mér finnst ég geta átt svo ótrúlega mikil samskipti við hann svona miðað við að hann er ekki orðinn mánaðargamall! Hann „hlustar“ til dæmis alltaf ef maður talar við hann, snýr höfðinu í átt að röddinni, horfir fast á mann. Sé hann eitthvað óhress er alltaf hægt að róa hann með því að tala blíðlega til hans. Best af öllu finnst honum þó að maður syngi! Þá hlustar hann einbeittur í góða stund þangað til hann lognast út af. Og daginn áður en þessi mynd var tekin byrjaði hann sjálfur að hjala! Að vísu tekur það heilmikið á þannig að hann kemur ekki upp nema einu eða tveimur hljóðum á dag ... en hjálpi mér hvað þau eru falleg!

Ljúflingur á spjalli við mömmu sína.

Stundum er maður svekktur ...

... stundum svangur ...

... en oftast alsæll!

Fyrsta Midsommar Lilla sem sefur af sér hátíðahöldin.

Við hin borðuðum hins vegar grillaðan humar og pylsur, drukkum cider með og fengum svo hindberja og rabarbaraböku með ís í eftirrétt.

Já, við vorum ekki fyrr búin að kaupa burðarsjalið góða en litli maðurinn tók vögguna í sátt! Nú hefur hann allt í einu verið til í að leggja sig þar þrjá daga í röð og síðastliðna nótt fékkst hann meira að segja til að sofa í rimlarúminu í einn eða tvo tíma!

Að lesa blaðið og drekka morgunkaffi er eftirlætisiðja feðganna!

Eftir göngutúr í vagninum finnst Lilla best í heimi að fá að sofa svolítið á pallinum. Hér er hann með fínu silkihúfuna frá Unu, Þresti, Þorra og Lilla Þrastarsyni.

Bræðurnir sælir hvor með annan. Hugi er slasaður eftir byltu á hjólinu og það sem meira er, honum tókst að brjóta aðeins neðan af framtönn svo það verður okkar fyrsta verk eftir þessa löngu helgi að hringja í tannlækninn.