FRaKklAnDSferÐ MÓtetTuKÓrsInS

18. - 24. jÚnÍ

 

 

Dagur 1

 Æfing í Notre Dame

Veskið sem týndist ekki en fannst samt ... sem betur fer! Já, fína kisuveskið mitt datt úr töskunni um borð í flugvélinnni án þess að ég tæki eftir því. Ég stóð því í mesta sakleysi að bíða eftir töskunni minni á Charles de Gaulle flugvelli þegar nafnið mitt var kallað upp með frönskum hreim og mér svo tilkynnt í kjölfarið að ef ég kærði mig um að fá veskið mitt aftur þyrfti ég að bíða þangað til vélin færi á loft á ný! Inga var svo sæt að bíða með mér og við nýttum tímann vel og lærðum textann við „Eg vil lofa eina þá“! Á þeirri stundu var hins vegar engin stemmning fyrir myndatöku enda alls óvíst hvenær við fengjum veskið góða aftur í hendurnar og hvar kórfélagar okkar yrðu þá staddir! Allt hafðist þetta þó án frekari vandræða og þarna erum við komnar inn í miðborg Parísar, með veskið og nóturnar, og bíðum eftir að verða hleypt inn í sjálfa Notre Dame til æfinga.

Þessi mynd er nú svolítið óskýr en hún er tekin úr kórnum inni í Notre Dame og sýnir glögglega alla ferðamennina sem sáu ástæðu til að mynda okkur í bak og fyrir þar sem við sungum upphitunaræfingar!!!

Þessi er auðvitað líka tekin inni í Notre Dame og ég stæri mig sérstaklega af því að fæstir sem kirkjuna heimsækja eiga möguleika á þessu sjónarhorni þar sem gullhliðum er slegið utan um kórinn og þangað inn fyrir fara aðeins þeir sem eiga þangað sérstakt erindi ... eins og til dæmis að æfa fyrir messu!

Og þarna er Eva á torginu fyrir framan kirkjuna að æfingu lokinni! Þetta átti nú að vera alveg sérstök mynd af kúlunni sem sést svo næstum ekki neitt!

Hjónin Inga og Vignir fyrir framan Notre Dame.

Og hér er svo sjálf Notre Dame. Ef vel er að gáð má greinilega sjá Quasimodo bregða fyrir þarna milli súlna! Sjáið þið hann ekki þarna fyrir miðri mynd?!

Sneggsti kaffibolli í heimi! Einhvern veginn fannst mér ferðin byrja akkúrat á þessu augnabliki! Á leið í rútuna eftir æfingu í Notre Dame röltum við fram hjá þessu óendanlega huggulega kaffihúsi sem var eitthvað svo dæmigert franskt. Þrátt fyrir að aðeins væru sjö mínútur í áætlaða brottför ákváðum við að fá okkur einn kaffibolla sem við gerðum svo góð skil á um það bil þremur mínútum! Í einu orði sagt alveg dásamlegt! Á myndinni eru Inga, Eva, Hörður og Inga Rós.

 

Herragarðurinn Domain du Tremblay

Frá París var haldið til smábæjarins Tremblay, nánar tiltekið á glæsilegan herragarð þar sem við gistum fyrstu þrjár næturnar. Þessi mynd var tekin þar sem rútubílstjórinn reyndi með öllum tiltækum ráðum að smokra rútunni eftir þröngum götum bæjarins. Grande Rue reyndist alls ekki svo grande þegar til kom!!!

Svona var útsýnið okkar Evu út um gluggann á herberginu okkar á herragarðinum! Okkur fannst við vera dottnar beint inn í einhverja af skáldsögum Jane Austen (ég veit ... vitlaust land! En Frakkarnir skrifuðu aðallega um vesældóm bláfátækra kostgangara í París á sama tíma svo ekki er hægt að miða við það!).

Þetta er svo herbergi okkar stallsystra. Ekkert herbergi á herragarðinum var eins og því var nauðsynlegt að heimsækja sem flesta kórfélga til að upplifa sem flest þeirra. Þó við Eva höfum verið einstaklega sáttar við þetta notalega súðarherbergi voru sumar vistarverurnar ævintýri líkastar ... já og einhverjar aðeins minna spennandi líka!

 

„Hver á sér fegra föðurland“ sungið í fordrykk þetta fyrsta kvöld í ferðinni (hvað eru mörg f í því?!). Ég þori svo sem ekki að fullyrða neitt fyrir hönd annarra en ég sveif í það minnsta um á bleiku skýi af einskærri gleði yfir þessum fallega stað, yndislega kórnum mínum og öllum ævintýrunum sem ég vissi að við ættum eftir að lenda í. Það var vinátta og gleði í loftinu þetta kvöld!

Inni beið okkar fjögurra rétta kvöldverður, þar á meðal himneskir ostar og sú allra besta franska súkkulaðikaka sem ég hef á ævi minni bragðað (þó mér þyki nú mín útgáfa alltaf ágæt)! Á myndinni má sjá Stebba, Gunnu, Tobba, Vigni og Ingu.

 

Dagur 2

 Tónleikar í dómkirkjunni í Orléans

Daginn eftir var haldið til Orléans til að syngja fyrstu tónleikana. Þeir fóru fram í þessari glæsilegu kirkju, dómkirkjunni í Orléans, sem tileinkuð er minningu heilgrar Jóhönnu af Örk sem gengur einmitt líka undir nafninu mærin frá Orléans (mér skilst reyndar að hún sé alls ekki þaðan en að þar hafi hún unnið sinn mikla sigur).

Og hér er hún sjálf komin!

Við Inga komnar í kórbúninga og á leiðinni á klósettið í kirkjunni!

Þessir tónleikar gengu mjög vel þrátt fyrir að ansi fámennt hefði verið á þeim þar sem aðstandendur kirkjunnar höfðu ekki alveg staðið sig í stykkinu við kynningar. En geisladiskasalan var þeim mun meiri og reiknaðist okkur til að þrátt fyrir að tónleikagestir hefðu verið rétt um þrjátíu þá hafi 45 diskar selst! Ein af bestu minningum mínum úr ferðinni er frá því að við sungum íslenska þjóðsönginn í upphafi tónleikanna á meðan tvær dúfur flögruðu um hátt uppi í þessari miklu hvelfingu. 

 

Aftur að Domain du Tremblay

Já, frá Orléans var haldið aftur heim á herragarð. Þessi mynd er tekin í gagnstæða átt við þá sem blasti við út um herbergisgluggann okkar Evu og þarna sést yfir þennan litla bæ. Turnarnir á myndinni tilheyra herragarðinum og í þeim hafa líka verið innréttuð hótelherbergi sem og í nokkrum öðrum húsum á landareigninni.

Og hér er herragarðurinn svo frá enn einu sjónarhorninu. Þessi mynd er tekin frá fallegu grasflötunum sem sáust á fyrstu myndinni og herbergið okkar Evu er efsti kvistglugginn til vinstri.

Þrjár skvísur á leiðinni niður stigann í kastalnum en undir því nafni gengur aðalbyggingin á herragarðinum. Hrund, Björg og Eva (og hér sést kúlan vel!).

Og hér eru enn fleiri skvísur í enn öðrum fordrykk! Inga, Halldís, Björg, Kristín, Heiðrún, Hrefna og Emilía.

Eftir kvöldmat buðu Stefán og Tobbi í dulitla gleði inni á sínu herbergi. Tilefnið var afmæli Stebba og þessi mynd átti einmitt að vera af afmælisgestunum að flauta afmælissönginn. Þegar smellt var af voru hins vegar næstum allir farnir að hlæja en það glittir þó í einhverja sem enn flauta þarna fyrir aftan!

Þetta er ein af uppáhaldsmyndunum úr ferðinni! Þessa mynd tók Vignir af okkur Ingu í afmælisgleðinni í herbergi 201!

Tobbi með gítarinn góða sem keyptur var fyrir samskot kórfélaga í Kanadaferðinni um árið! Í þessari ferð var svo safnað fyrir munnhörpu ... sem mér skilst reyndar að hafi ekki fengist en önnur hljóðfæri verið keypt í staðinn!

 

Dagur 3

Messa í Notre Dame

Eldsnemma á sunnudagsmorgni var haldið aftur inn til Parísar, nú til að syngja messu í Notre Dame. Þarna sest hópurinn bíða eftir rútunni (sem stefndi einmitt á þessari stundi beint á rass ljósmyndarans) framan við kastalann.

Þegar komið var að kirkjunni eftir klukkustundar rútuferð tók við töluverð bið. Tíminn var þó vel nýttur til leikfimiæfinga og upphitunar! Þarna er Eva með Signubakka í baksýn. Og þar sem Eva er svona vel dúðuð á þessari mynd nýti ég tækifærið til að koma þeim upplýsingum á framfæri að hitatölurnar sem bárust frá París vikuna áður en okkar ferð var farin hljóðuðu upp á einar 30-35° og var fatnaður flestra kórfélaga miðaður við það! Það reyndist hins vegar býsna kalt í borg tískunnar þegar við komum og þeir sem pakkað höfðu skynsamlega vöfðu sig því peysum og sjölum meira og minna alla ferðina!

Biðin framan við kirkjuna varð ansi löng og kórfélagar þreyttust fljótt á að bera nýþvegna og pressaða kórbúninga sína. Því var brugðið á það ráð að hengja þá upp í þetta ágæta tré þar sem þeir blöktu tígulega í vindinum. Að minnsta kosti tvær franskar frúr í sunnudagsspássitúr töldu að þarna væri hægt að gera góð kaup og sýndu kjólunum mikinn áhuga, gengu hringinn í kringum tréð, þreifuðu á efninu og reyndu að sirka út rétta stærð!!!

Önnur uppáhaldsmynd! Þetta átti upphaflega að vera mynd af Kristínu, Tobba, Björgu, Halldísi og Hrund en um leið og ég smellti af gekk þessi eldri dama inn í mynd! Gamla konan horfir eitthvað svo einbeitt og lífsþreytt fram á veginn á meðan unga kynslóðin horfir afslöppuð í allar áttir!

Einhvern veginn svona átti myndin hins vegar að vera!

Við Eva vorum agalega skotnar í Þresti þegar hann setti upp sixpensarann og urðum að fá eina mynd af okkur með honum enda gafst nægur tími til myndatöku meðan á biðinni endalausu stóð!

Þessi sæti hvutti lék listir sínar með bolta fyrir okkur meðan við biðum.

En loksins var hliðunum lokið upp og við gátum gengið með fram kirkjunni að hliðarinngangi. Þessi mynd er tekin þar og turnarnir tveir lengst til vinstri eru framhlið kirkjunnar.

Við Einar erum sérstakir áhugamenn um ufsagrýlur (sem á útlensku nefnast gargoyls ... ég eyddi næstum hálfri ferðinni í að rifja upp íslenska orðið) og þessi mynd var tekin sérstaklega handa honum!

Í innstu afkimum Notre Dame skiptum við um föt og hituðum upp. Stemmningin var ótrúleg og ólýsanleg tilfinning að vera komin svona djúpt inn í þessa frægu kirkju, á staði þar sem fæstir sjá nokkurn tíman! Messusöngurinn gekk nokkuð vel og ég held að flestum hafi þótt þetta mikil upplifun. Tvö augnablik munu ávallt lifa með mér, það fyrra þegar við stóðum uppi í kórnum og ég sá stóru kertin tvö birtast aftast í kirkjunni og taka að sigla hægt í gegnum mannfjöldann. Þá vissi ég að prósessían væri á leiðinni og messan um það bil að hefjast. Það síðara var prósessían út þar sem við gengum í gegnum mannhafið (kirkjan tekur fleiri þúsund manns í sæti og var full út úr dyrum). Ég verð að játa að það var með miklum erfiðismunum sem ég hélt aftur af tárunum þá!

Eftir messuna var enn stigið um borð í rútuna góðu. Inga náði hins vegar að stökkva inn í glingurbúð sem við höfðum haft augastað á og þar keypti hún þessa ægifögru eyrnalokka handa mér! Hún keypti svo alveg eins handa sjálfri sér og þar með voru örlögin ráðin og hún neyðist til að fá sér göt í eyrun á gamals aldri ... held reyndar að hún hafi ekki staðið við það ... enn sem komið er! Já og glæsileiki minn með eyrnalokkana féll fullkomlega í skuggann af Ingu sem fékk töluvert meira hrós fyrir gjafmildi sína en ég nokkurn tíman fyrir töfrandi fegurð mína með þá!

Eyrnalokkarnir eru reyndar ekki einu systraskartgripirnir sem við Inga eignuðumst í ferðinni því þessi armbönd voru keypt tveimur dögum áður meðan beðið var eftir rútu!

Úr messu var haldið í móttöku og skálað í kampavíni (ekkert platdrasl í Frakklandi!), snæddar veitingar og glaðst yfir merkisdegi í sögu kórsins. Björg, Eva, ég og Halldís.

Vignir, Tobbi, Inga og Snorri sannreyna gæði franskrar matargerðarlistar og víngerðar!

Sverrir, Páll, Þórir og Ingibjörg í sömu hugleiðingum.

 

Versailles

Frá París var haldið til Versala og höllin skoðuð. Flestir voru reyndar orðnir nokkuð þreyttir eftir annasaman dag (og kannski rauðvínið í móttökunni hafi haft sitt að segja í þeim efnum!) og við Gunna, Inga og Eva brugðum á það ráð að taka okkur far með hestvagni til að skoða þennan geysistóra og glæsilega garð við höllina. Að sjálfsögðu var veifað að hætti hallarbúa!!!

Og þarna erum við allar! Það má náttúrulega ekkert sóða út í Versölum og því voru hestarnir sem drógu okkur með bleiur ... eða kannski á maður frekar að kalla þetta poka ... en hitt er miklu skemmtilegra!

Það sem vakti mesta athygli okkar hestavagnssystra voru kassaklipptu runnarnir. Smæstu úrgáfuna má sjá í kringum blómabeðið á þessari mynd (aftan við fremsta runnann). Þessir voru örugglega ekki nema svona tíu sentimetrar á hæð.

Hér í fjarska má svo sjá hinar öfgarnar ... þessir sem standa við vatnið eru örugglega 10 metrar á hæð ... eða svona hér um bil!

Eftir að flestir voru búnir að fá nóg af Versalahöll var Versalabær skoðaður. Við settumst niður á litlum veitingastað og fengum okkur bæði galettes og crêpes (við durgarnir á Íslandi köllum reyndar báðar gerðir crêpes en galettes eru þær pönnukökur sem eru ósætar!).

Og síðan var farið á barinn! Þessi ágæti þjónn plataði okkur til að kaupa kanilbjór sem einhverjir uppástanda reyndar að sé eðalbrugg!

Þegar tók að kólna færðum við okkur inn (sumir fóru reyndar bara inn til að horfa á einhvern fótbolta í sjónvarpinu) en stuðið hélst óbreytt ... varð bara meira ef eitthvað var. Þarna eru Inga, Hrund, Halldís, Björg og Heiðrún að gæða sér á einhverju dularfullu snakki og sötra öl!

Og ég, Inga og Hrund!

 

Enn og aftur á herragarðinum Domain du Tremblay

Eftir gífurlegt stuð í Versalabæ var boðið til gleðskapar í herbergi 304! Hér sést Ingibjartur hamra hið sívinsæla „Popplag í G-dúr“ á gítarinn! Ég bendi líka sérstaklega á þennan stórglæsilega prinsessufataskáp í bakgrunni. Um þennan skáp gengu ýmsar tröllasögur, m.a. að hann gengi sjálfur! Í það minnsta hefði sennilega verið hægt að nýta hann sem hótelherbergi fyrir eina fjóra kórfélaga. Það er náttúrulega algjör synd að tveimur karlmönnum hafi verið úthlutað þessu herbergi!!!

Teymið! Þröstur, Tobbi og ég vorum í baðpartýinu. Þar sem þetta var á hótelherbergi var ekkert eldhúspartý í boði en þar sem herberginu fylgdi ekki aðeins fataskápurinn góði heldur baðherbergi sem hefði auðveldlega rúmað úrslitaleikinn á EM þurfti enginn á slíku að halda!

 

 

Dagur 4

Paris

Á mánudagsmorgni flutti kórinn sig inn til Paríasar. Þrátt fyrir að útsýnið út um herbergisglugga herragarðsins hafi verið óviðjafnanlegt var það síst verra úr herbergi okkar Evu í París. Ekki kannski alveg jafntilkomumikið en með eindæmum franskt og notalegt!

Út úr glugganum horfðum við beint niður í þetta litla, sæta port og þarna sitja Eva, Ingibjörg Alda og Hrefna og drekka í sig franska stemmningu.

Hótelið okkar stóð við eina af götunum sem liggja út frá Bastillutorginu, Rue de Faubourg Saint Antoin. Mér til mikillar gleði voru aðstæður til verslunar þar með miklum ágætum og sá litli frítími sem gafst þennan daginn var nýttur óspart til slíkrar iðju. Ég dró Ingu með mér og á leiðinni aftur upp á hótel mættum við Vigni hennar.

Við settumst svo þrjú á kaffihús rétt hjá hótelinu og höfðum það notalegt.

 

Tónleikar í  Saint Louise des Invalides

Einmitt þennan dag var tónlistarhátíð í París og tónleikarnir okkar í Invalidakirkjunni voru hluti af þeirri dagskrá. Við kirkjuna voru líka þessir kátu sekkjapípuleikarar sem skemmtu bæði íbúum borgarinnar og gestum hennar.

Fyrir tónleikana fengum við að skoða Hôtel des Invalides sem er í raun hluti af sömu byggingu og kirkjan þar sem tónleikarnir okkar voru haldnir síðar sama kvöld. Hôtel des Invalides er fyrst og fremst nokkurs konar safn þar sem meðal annars er að finna gröf Napóelons sem hér sést einmitt. Stór kista fyrir lítinn mann!

Yfir gröfinni er þetta geysifagra hvolfþak.

Innst inni er einhvers konar altari og þessi gríðarstóri kross gnæfir þar yfir. Handan hans er svo gluggi þar sem sést beint yfir Saint Louis des Invalides, tónleikastaðinn okkar. Þarna hinum megin glersins glittir í flöggin sem prýða kirkjuna og mér skilst að hafi verið stolið af óvinum Frakklandshers á sínum tíma og sett þarna upp til skrauts.

Þarna undir krossinum tók kórinn eitt lag svona rétt til að hita upp fyrir tónleikana sjálfa.

Hringinn í kringum gröfina sjálfa standa höggmyndir og ég komst í óskaplegt myndastuð frammi fyrir þeim! Mér finnst alltaf jafnskemmtilegt þegar það gerist en veit svo sem ekki alveg hvað þeim finnst sem neyðast svo til að skoða allar þessar myndir þegar heim er komið! Ég reyni því að halda þeim í hófi hér og sýni ykkur aðeins þær sem ég er ánægðust með.

Þetta er ein af mínum uppáhalds.

Sem og þessi!

Eðlilega á ég því miður enga mynd af tónleikunum sjálfum en það verður að fylgja sögunni að þeir tókust með afbrigðum vel. Bekkurinn var þéttsetinn í kirkjunni og greinilega margir Parísarbúar áhugasamir um að koma að hlýða á kórsöng og orgeltónlistina sem flutt var í bland við okkar framlag. Til að tónleikar heppnist vel þurfa allir að lifa sig inn í tónlistina sem flutt er, kórinn, kórstjóri og áhorfendur. Það var einmitt það sem gerðist á þessum tónleikum og gæsahúðin hríslaðist um mann hvað eftir annað! Þetta var algjörlega ógleymanleg stund! Það voru því allir frekar hátt uppi að tónleikum loknum og við söfnuðumst saman í hring fyrir utan kirkjuna og sungum „Hver á sér fegra föðurland“ ... einu sinni enn!

Það var ekki til að skemma stemmninguna að þegar við komum út fyrir garðinn sem umlykur kirkjuna blasti Tour Eiffel við okkur í diskóstuði! Það var eins og hann deildi þessari hástemmdu gleði fullkomlega með okkur! Frá Invalidakirkjunni héldum við nokkur saman í Bastilluhverfið í leit að veitingastað. Þar virtust vera tónleikar í hverjum krók og kima og við stoppuðum meira að segja dágóða stund til að dansa í reggípartýi í þröngri götu þarna í hverfinu. Við fundum svo loks veitingastað eftir nokkurt þramm og það var því komið miðnætti þegar við loksins snæddum girnilega tapasrétti í kvöldmat.

Á leiðinni heim ákváðum við að gera örstuttan stans á frekar fyndnum karókíbar við hliðina á hótelinu þar sem ýmsir misgóðir söngvarar héldu uppi taumlausri gleði! Björg og Tobbi sötra bjór á barnum og fylgjast með karókísöngvurum í góðu stuði!

Snorri og Halldís.

Hrund hlæjandi og votar götur Parísarborgar í baksýn. Stúlkan hefur þann mest smitandi hlátur sem ég hef heyrt og mér nægir eiginlega að skoða þessa mynd til að fara að hlæja.

Og talandi um hlátur ... við fengum langvarandi hláturskast yfir lagalista karókíbarsins! Ef vel er að gáð má t.d. sjá að boðið var upp á að syngja lagið Born tobe wild með hljómsveitinni Stefenwolf!!! Já og elska ekki allir The Beattles? En hvað í ósköpunum þýðir „begum“?!

Hrund tók áskorun og sýndi karókísöngvurum Paríasarborgar hvernig á að gera þetta! Framlag hennar vakti mikla lukku á barnum og þeim fannst hún frábær söngkona. Þrátt fyrir það var lagt blátt bann við frekari söng af Hrundar hálfu þar sem þeim fannst hún syngja full hátt!!!

 

Dagur 5

Tónleikar í Chartres

Á þriðjudegi var haldið til Chartres til að syngja í hinni frægu dómkirkju staðarins. Hún er elst af þeim kirkjum sem við sungum í og er meðal annars fræg fyrir ósamstæða turna sína. Það tók víst svo langan tíma að byggja hana að loks þegar komið var að seinni turninum var allt annar byggingastíll kominn í tísku og því þótti alveg ómögulegt að hafa seinni turninn með sama lagi og þann fyrri!

Chartres er ákaflega notalegur bær og þetta krúttlega port var rétt við kirkjuna.

Þessi er líka tekin í portinu.

Í kjallara kirkjunnar gátum við skipt um föt og andað að okkur mörghundruð ára gömlu ryki á meðan! Auður, Anna og Helle fylgjast með Hildi klæða sig í búninginn! Það var að sjálfsögðu erfitt að toppa tónleikana frá kvöldinu áður en ýmislegt í Chartres gerði okkur erfiðara fyrir en ella. Til að mynda stóðu yfir byggingaframkvæmdir í kirkjunni meðan á tónleikum stóð og bak við kórinn mátti meðal annars sjá franska iðnaðarmenn bardúsa með stillansa og verkfæri og þótti þeim greinilega algjör óþarfi að leggja niður störf þó einhver kór væri að baula eitthvað þarna frammi í kirkju! Það verður því ekki annað sagt en að þetta hafi ekki alveg verið okkar „besta frammistaða í kepninni til þessa“!!!

 

Kvöld í París

Þetta kvöld fórum við 12 saman út að borða á tælenska veitingastaðinn Bláa fílinn. Mér til mikillar gleði var þar algjörlega hægt að sneiða fram hjá hráu eggjarauðunum og mæjónesinu sem virðast einkenna franska matargerð (að minnsta kosti miðað við mína reynslu úr ferðinni) og við fengum alveg dásamlega góðan mat og nutum þessa fallega umhverfis sem Blái fíllinn hafði upp á að bjóða en þar voru orkideur óspart notaðar til skreytinga bæði á borðum og í matargerðinni. Svo var þarna alveg óskaplega falleg lítil gullfiskatjörn sem gladdi mig ósegjanlega.

Kristín og Emilía bíða spenntar eftir matnum.

Við þurftum að deila okkur niður á tvö borð og hérna er okkar: Kristín, Emilía, Hrefna, Heiðrún, ég og Eva.

Og hitt borðið: Systkinin Snorri og Björg, Ása Lind og hjónin Ingibjartur og Helga. Já og ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér hvers vegna allar myndirnar mínar skuli vera svona dökkar og óskýrar þá útskýrist hér með að ég er með algjöra fóbíu fyrir flassnotkun og sleppi því næstum alltaf!

Maturinn var ekki bara góður heldur alveg einstaklega fagurlega borinn fram. Þessi réttur var framreiddur í ananas! Á leiðinni út af veitingastaðnum vorum við stúlkurnar svo leystar út með orkideugrein ... það var nú eitthvað fyrir mig!!!

 

Dagur 5

Frídagur í París

Síðasta daginn fyrir heimför áttum við frí og það var því um að gera að nýta daginn vel. Við lögðum því leið okkar í Mýrina, Le Marais, fjórar saman. Á leiðinni varð þó auðvitað að stoppa til að fá sér einn kaffibolla. Þarna sitjum við nöfnurnar saman og sötrum morgunkaffið!

Le Marais er notalegt hverfi með þröngum götum og skemmtilegum litlum búðum og þar er gaman að rölta um. Hverfið gengur líka gjarnan undir nafninu Gyðingahverfið enda gyðingabúðir á hverju strái og menn með kollhúfur eða slöngulokka á öllum götuhornum. Við stöllurnar þurftum að sjálfsögðu að setjast niður í Mýrinni og fá okkur crêpes og kaffibolla. Hér bíða Gunna og Inga eftir sínum skammti og njóta sólarinnar á meðan uppi á svölum crêperiunnar.

Og við Eva líka.

Ís, súkkulaði, kaffi og sól ... dásamleg blanda!

Eftir hressinguna héldum við áfram að skoða okkur um í Mýrinni. Gunna og Eva fóru að skoða Picassosafnið en við Inga héldum í smá verslunarleiðangur sem endaði á Place des Vosges þar sem við lögðumst niður með allan varninginn undir kollunum og hvíldum lúin bein.

Þó ég hafi keypt mér ýmislegt fallegt í París verð ég eiginlega að viðurkenna að bestu kaup ferðarinnar voru hvítu skórnir sem Inga keypti sér á útsölu Camper búðinni. Þvílíka dásemd hef ég aldrei áður séð! Ég er nefninlega svo verslunaróð að ég nýt þess ekkert síður þegar aðrir kaupa sér fallega hluti!

Og það voru fleiri en við Inga í góðum fíling á Place des Vosges!

 

Kvöldverður í Gaulverjabæ

Þetta síðasta kvöld var haldin uppskeruhátíð og glaðst yfir kórstarfi vetrarins og góðri Frakklandsferð. Það var byrjað á fordrykk í garði hótelsins og þar skartaði Inga þessum fagra, bleika kjól sem hún fékk á flóamarkaði í Hollandi.

Kórstjórinn og frú voru leyst út með gjöfum, ræður haldnar og skálað í frönskum eðalvínum.

Frá hótelinu var haldið til Gaulverjabæjar en þar eru bæði menning og matur þeirra Ástríks og Steinríks í hávegum höfð. Eva stóð sig alveg ótrúlega vel í ferðinni þrátt fyrir að vera komin sjö mánuði á leið og með slæmt kvef í þokkabót! Litla krílið virtist hins vegar hafa það gott og hefur væntanlega drukkið í sig franska menningu og tónlist og kemur því sem forframaður heimsborgari í heiminn upp úr miðjum ágúst!

Eva og Þröstur sem reyndar færði sig um sæti skömmu eftir að myndin var tekin. Ég veit hins vegar ekki alveg hvort hann mun kunna mér góðar þakkir fyrir að ljóstra ástæðunni upp hérna og læt það því ógert!!!

Þetta er því miður eina hópmyndin sem ég á úr Gaulverjabæ en hér sést glögglega hversu mikið stuð var á fólki þetta kvöld ... eða ekki, myndin er víst ekki sú allra skýrasta!!!

Eftir að Gaulverjabær gafst upp á Mótettukórnum var stuðinu haldið áfram úti á götum Parísarborgar. Björg, Tobbi, Þröstur og ég.

Morguninn eftir var París kvödd með gleði í hjarta og sól í sinni eftir alveg hreint frábæra ferð!

p.s. Ferðin endaði reyndar með nákvæmlega jafn miklum hrakförum og hún byrjaði hjá mér því rétt fyrir brottför af hótelinu tókst mér að brjóta myndavélina og svo gleymdi ég visakortinu á flugvellinum á leiðinni heim!!! Það er því alveg spurning hvort ég hafi safnað nægum sauðsstigum í ferðinni til að teljast sigurvegarinn?!