Ferð til Falun

Alveg frá því við fluttum til Svíþjóðar erum við búin að tala um hvað það verði nú gaman að ferðast um landið og skoða hina og þessa staðina - en aldrei förum við neitt! Sumarið í sumar verður hins vegar óumdeilanlega ferðasumarið mikla og það hófst á stuttri dagsferð til Dalarna þar sem ætlunin var að skoða heimili málaransCarl Larsson í Sundborn við Falun.

Ég get stöðugt furðað mig á því hvað það eru til endalaust margar perlur hér í Svíþjóð sem enginn talar um og enginn bendir á í túristabæklingum og maður þarf virkilega að hafa heppnina með sér til að finna. Þennan herragarð römbuðum við á á leiðinni til Falun. Ég sá skilti sem gaf til kynna að antikbúð væri í nágrenninu, við eltum skiltið og í ljós kom að antikbúðin stóð á lóð herragarðs. Lóðina mátti skoa og hjónin á herragarðinum seldu líka svöngum ferðalöngum kaffi, saft og kökur. Hér eru bræðurnir á harðaspani niður að Dalälven sem rennur si svona í bakgarðinum!

Herragarðshjónin eru með sína eigin bryggju út í Dalälven og þar skoðuðum við okkur líka um. Mig dreymir alltaf um að eiga hús við strönd eða vatn en sé núna að ár koma vel til greina líka!

Þarna hafði herragarðsfrúin fengið sér smá sundsprett fyrr um morguninn og setið svo í sólinni og lesið dagblöðin og sænskan krimma áður en vinnudagurinn á byrjaði. Alveg gæti ég hugsað mér svona líf!

Fjölskyldan með herragarðinn í baksýn. Eins og ég segi, það er ótrúlegt að svona perlur skuli í raun vera að finna um allt land án þess að maður viti af þeim!

         

Það var næstum 30° hiti úti svo krakkarnir urðu að kæla sig aðeins með því að stinga tánum í Dalälven.

Systkinin á vel slegnum flötum.

Við fengum að drekka kaffi og saft og borða kökur og bulla á bryggjunni sem annars er prívatstaður þeirra hjóna. Veitingarnar voru reyndar ekkert sérstaklega spennandi en fegurð staðarins og hlýlegt viðmótið yfirskyggðu það algjörlega!

Við herragarðinn fann ég uppáhaldsrunnann minn, paradísarrunna. Ég er stöðugt að hugsa um hvar ég geti komið honum fyrir hér á Konsulentvägen. Þarna var hann reyndar um það bil að verða búinn að blómstra en þið sjáið vonandi fegurðina engu að síður.

Ótrúlegt blómskrúð við aðalinnganginn sem því miður sést ekki alveg nógu vel í þessari miklu birtu.

Riddaraspori, bóndarósir og almenn fegurð.

Eftir innan við tveggja tíma akstur vorum við komin til Sundborn. Alveg fáránlegt í raun að við höfum ekki farið til Dalarna nokkrum sinnum á ári miðað við hvað það er stutt þangað! Það fyrsta sem við gerðum var að fá okkur að borða þar sem við vorum glorhungruð eftir ferðina (sem var töluvert lengri en sem bílferðinni nemur þar sem við stoppuðum í hinum ýmsu antikbúðum á leiðinni!). Við vorum raunar svo svöng að hlaðborð með kjötbollum, buffum, kartöflumús og brúnni sósu hljómaði dásamlega í okkar eyru - þrátt fyrir 30° hitann!

Einmitt þarna lærði Baldur Tumi nýtt orð: ís!!! Þarna var sem sagt lítil ísbúð og hún og hitinn knúðu málstöðvarnar áfram í að framkalla orðið! Hann segir þetta reyndar alveg hrikalega krúttlega, eins og „issshhh“!

Frá kjötbollunum og issshhnum voru bara nokkur skref yfir á heimili Larsson hjónanna. Það er leiðsögn um safnið á 10 mínútna fresti allan daginn svo við þurftum ekki að bíða lengi eftir að komast að. Því miður mátti ekki taka myndir inni í húsinu svo þið verðið bara að hafa mín orð fyrir að þetta var frábær heimsókn og það var ótrúleg upplifun að standa þarna mitt í öllum málverkunum, heyra sögur af Carl, Karin og börnunum og skoða framúrstefnulega innanstokksmunina.

Eftir leiðsögnina röltum við í kringum húsið sjálft. Það er enn svo ótrúlega eitthvað lifandi, opnir gluggar og blóm á veröndinni. Enda skilst mér að afkomendur Carl og Karin sem eiga húsið í dag og reka safnið gisti stundum enn í húsinu.

Maríustakkur og bóndrósir undir gluggum.

Það rennur lítil á meðfram húsinu ...

... og við sáum krakka stökkva út í hana af nærliggjandi bryggju (sem sést reyndar næstum ekki neitt á myndinni). Kannski það hafi einmitt verið afkomendurnir sem eiga hús þarna við hliðina á sem þau eru mikið í.

Við í Sundborn.

Þarna fyrir innan er hinn frægi blómagluggi, gerður ódauðlegur á samnefndu málverki!

Eftir safnið var kominn tími á smá isssshhh! Einar og krakkarnir fengu sér krap og uppskáru tungur í ýmsum litum ...

... öll þrjú! Síðan keyrðum við heim á leið en þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða að við skreppum til fallegu Dalarna aftur!