Febrúardagbók 2009   

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

19. febrúar 2009

Febrúarmyndin

Hér kemur hún loksins, febrúarmyndin hennar Elsu Beskow. Eins og þið sjáið eru hvorki Elsa né systkinin þrjú sammála mér um að nóg sé komið af vetri og snjó. Þvert á móti virðast þau njóta þess sem aldrei fyrr og ég verð svo sem að játa að þegar ég sé svona fallega mynd þá geri ég það eiginlega líka!

Eins og ég sagði frá síðast hef ég viðað að mér nokkrum bókum, myndum og kortum með mánaðarmyndum. Flestar eru þær sænskar og þótt það hljómi kannski kjánalega hafa þær oft komið að góðum notum þegar höndla þarf ókunna tilveru í nýju landi. Til dæmis endurspegla þær veðrið yfirleitt frekar vel og í upphafi dvalarinnar vissum við því nokkurn veginn hverju við ættum von á í hverri árstíð. Ein bókanna minna tengir auk þess jurt við hvern mánuð og þannig hef ég fræðst lítillega um sænska náttúru og ýmsar af ástkærustu plöntum og trjám þjóðarinnar. Og bókin hennar Elsu hefur óvænt gert það að verkum að ég hef fræðst um ýmsar hefðir sem ég þekkti ekki áður. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að stjärngossarnir tengdust vitringunum fyrr en ég skrifaði færsluna við síðustu mánaðarmynd og fór að leita mér upplýsinga. Og ég lærði líka dálítið nýtt þegar ég fór að skoða þessa mynd betur. Greinarnar sem stóra systirin er með í fanginu eru hefðbundið sænskt páskaskraut. Yfirleitt eru þetta birkigreinar sem maður skreytir svo með fjöðrum og lætur jafnvel standa í vatni þar til þær springa út svona til að fá örlítin þef af vorinu. Það sem ég skildi hins vegar ekki var hvað þær voru að gera á mynd í febrúar því að mér vitanlega eru páskarnir aldrei svo snemma. Og þar sem mér fannst ég þurfa að útskýra þetta almennilega fyrir ykkur lesendum fór ég á stúfana og komst að því að upprunalega tengjast greinarnar föstunni og virðast vera einhvers konar bolluvöndur. Um það leyti sem Elsa málaði sína mynd tíðkaðist það alla vega að börnin læddust inn í svefnherbergi foreldranna að morgni sprengidags og flengdu þau með greinunum. Síðan var boðið upp á semlur (sem eru eins og bolludagsbollurnar okkar nema með möndlumassa í staðinn fyrir sultu og flórsykri ofan á í staðinn fyrir glassúr). Hér á árum áður var heitri mjólk hellt yfir semlurnar sem voru svo borðaðar með skeið úr djúpum disk ... og einhvern veginn sýnist mér systkinin þrjú hlakka til að koma inn úr sleðaferðinni og gæða sér á einmitt slíku sælgæti!

 

9. febrúar 2009

... hún á afmæl' í daaaaag!

Í dag á ég afmæli og get ekki hugsað mér betri leið til að fagna tímamótunum en með því að setja vorútlit á síðuna! Ég er búin að fá yfirdrifið nóg af frosti, hálku og snjó, bæði utan dyra og hér. Nei, nú festi ég ekki hugann við neitt annað en smáfugla, vorlauka og brumknappa og þykir rétt að heimasíðan endurspegli þetta. Því býð ég ykkur, lesendur góðir, í pikknikk með okkur fjölskyldunni á forsíðunni og vona að þið njótið þess að liggja með okkur á rauðköflóttum dúk og horfa upp í himininn. Þau ykkar sem vilja meira fútt en bara ský, fugla og fiðrildi getið skoðað þær örfáu myndir sem teknar voru hér á heimilinu í janúar:

Afmælisstrákur og annað

Sjálf ætla ég að halda áfram að njóta afmælisdagsins, handleika fínu afmælisgjafirnar sem ég fékk í morgun og láta mig hlakka til bæjarferðarinnar sem ég ætla að neyða fjölskylduna með mér í eftir hádegið! Húrra!!!

P.s. Ég er alls ekki búin að gleyma mánaðarmyndinni fínu! Hún er bara svo vetrarleg að ég fékk það ekki af mér að birta hana um leið og ég kynnti vorútlitið til sögunnar, þannig að hún kemur örlítið seinna í febrúar.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar