Febrúardagbók 2008  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. febrúar 2008

Yfirskilvitleg skilaboð úr framtíðinni

Nú er ég loksins aftur orðin kórstúlka! Nýi kórinn minn heitir hinu kunnuglega nafni Schola Cantorum og er einn af fimm kórum sem starfa við dómkirkjuna hér í Uppsölum. Stjórnandi kórsins er dómkirkjuorganistinn Olle Johansson, afskaplega viðkunnanlegur en ákaflega gleyminn maður! Um daginn þegar við vorum að spjalla saman eftir æfingu tókst honum þó að draga það upp úr glatkistum minnisins að fyrir mörgum árum, þegar hann var organisti í Engelbrektskirkjunni í Stokkhólmi, hafi íslenskur kór heimsótt hann og haldið tónleika. Ekki mundi hann nú nafnið á kórnum eða stjórnandanum en rámaði hins vegar í að hann hefði verið frá „stóru dómkirkjunni í Reykjavík“. Ég tókst öll á loft við þessar fréttir því þótt Hallgrímskirkja sé auðvitað engin dómkirkja fannst mér eiginlega ekki annað koma til greina en að hann ætti við hana og minn elskulega Mótettukór. Og um leið rifjaðist upp fyrir mér að Mótettukórinn fór einmitt í tvær Norðurlandaferðir skömmu áður en ég byrjaði í honum. Ég æpti því upp fyrir mig „Já en það var kórinn minn!!!“, í senn glöð og hissa yfir þessari skemmtilegu tilviljun. Það var hins vegar augljóst að Olle deildi ekki þessum mikla æsingi með mér heldur horfði hvumsa á þar sem ég stóð rjóð í kinnum með hendur á lofti! Ég sá því að mér væri hollast að hemja aðeins kæti mína og kanna í það minnsta hvort grunur minn reyndist réttur áður en ég héldi óviðeigandi fagnaðarlátum áfram.

Morguninn eftir gramsaði ég í bókaskápnum þangað til ég fann Mótettukórsbókina mína sem gefin var út í tilefni af 20 ára afmæli kórsins árið 2002. Í henni eru greinar eftir nýja og gamla félaga, sagt frá ferðalögum og öðrum ævintýrum kórsins og svo eru þar allar grunnupplýsingar um kórinn, hverjir hafa verið meðlimir, hvað hafi verið sungið, hvaða tónleikar hafi verið haldnir og svo framvegis. Ég var því fljót að staðfesta að ég hafði svo sannarlega haft rétt fyrir mér kvöldið áður, það var enginn annar en minn gamli kór sem heimsótti nýja kórstjórann minn árið 1998. Mér þótti þetta ægilega merkilegt og vissi eiginlega ekki hvort mig langaði meira að hringja í Olle eða alla í Mótettukórnum til að segja frá þessari merkilegu tilviljun. Einhvern veginn gerði ég nú samt hvorugt heldur hélt áfram að blaða í bókinni enda ótrúlega gaman að lesa frásagnirnar og ekki síst að skoða myndirnar. Ég var einmitt að lesa grein um Norðurlandaferðina góðu þegar ég tek allt í einu eftir því að kunnuglegt andlit starir á mig af vinstri spássíu síðunnar. Andlit Olle Johansson!!! Þótt nánast engin andlit hafi ratað á síður bókarinnar önnur en kórfélaga er þar þó að finna mynd af núverandi kórstjóra mínum! Ég hef sem sagt átt mynd af þessum manni sem ég kynntist bara fyrir nokkrum vikum í heil sex ár! Og núna er ég auðvitað sannfærð um að árið 2002 hafi mér verið send skilaboð úr framtíðinni!

P.s. Fullt af nýjum myndum:

              

                                               Prjónabrjálæði                                   Dund og dútl

 

15. febrúar 2008

Ungmey

Ég hef aldrei þjáðst af aldurskomplexum. Og það er kannski ekkert skrýtið, ég er jú bara nýorðin þrjátíuogtveggja ára og því augljóslega enn töluvert unglamb! Hins vegar verið ég að viðurkenna að undanfarna mánuði hefur mér oft þótt ég orðin óttaleg kelling. Mér finnst ég til dæmis paufast um á einhvern svona mömmulegan hátt, gott ef ekki bara ömmulegan. Og andlitið (sem ég nú orðið nenni afskaplega sjaldan að snyrta að ungmeyjarsið) hefur mér þótt leita óþarflega mikið inn að miðju jarðar. Að ekki sé nú minnst á óæskilegan hárvöxt, húðbreytingar og náttúrulega gráa hárstrýið. Ég hef sem sagt ekkert við árin þrjátíuogtvö að athuga, hefur bara þótt pínu súrt að líta fjörutíuogsjö út á þessum tímapunkti.

Það kom mér því ánægjulega á óvart þegar ég var beðin um skilríki í sænska Ríkinu um daginn. Að vísu veit ég alveg að það er ekkert einsdæmi hér að fólk þurfi að sanna að ríflega 10 ár séu liðin frá því það mátti fyrst kaupa áfengi. (Hér í landi hinna öryggisfíknu þar sem allir þurfa að gera rétt og enginn má svíkjast um kæmi svo sem ekki á óvart þótt í hverju Ríki mætti finna að minnsta kosti einn starfsmann sem krefði alla viðskiptavini um skilríki alveg upp að því marki að hann bæði fólk um að framvísa afsláttarkorti ellilífeyrisþega.) Ég hefði því kannski ekki tekið þetta neitt sérstaklega til mín nema af því að ég hafði staðið í langri röð á kassann þar sem enginn af þeim sem afgreiddir voru á undan mér var beðinn um að sanna aldur sinn. Og þegar kom að mér neitaði afgreiðslumaðurinn meira að segja að renna flöskunni í gegn fyrr en sænska nafnskírteininu mínu (með viðsbjóðslegu kellingamyndinni) hefði verið framvísað. Ég verð að játa að ég var eilítið léttfættari þegar ég gekk út með hvítvínsflöskuna mína og einhvers staðar þarna undir öllum ömmulegheitunum fór að örla á ungmeynni aftur.

Eftir atburði dagsins í dag held ég hins vegar að ömmunni hafi verið stökkt á flótta fyrir fullt og allt! Ég var sumsé ein heima hér í litla einbýlishúsinu mínu, yngra barnið í leikskóla, eldra barnið í skóla og eiginmaðurinn í virðulegu vinnunni sinni. Sjálf stundaði ég prjónamennsku, skoðaði kökuuppskriftir og var bara almennt að haga mér mjög ömmulega þegar dyrabjöllunni var óvænt hringt. Ég fór til dyra og fyrir utan stóð snyrtilegur maður vel merktur Securitas í bak og fyrir. Hann kvaðst vera í hverfinu í þeim erindagjörðum að kynna öryggisþjónustu fyrirtækisins fyrir húseigendum, þrýsti nafnspjaldinu sínu í lófann á mér og spurði mig spurningar sem mig hefði aldrei nokkurn tímann grunað að ætti aftur eftir að vera beint að mér.

Securitas maður (hallar undir flatt og spyr í vingjarnlegum tón): Er mamma eða pabbi heima?

Ungmeyin er back ... with a vengeance!!!

 

14. febrúar 2008

Alla hjärtans dag

Í morgun gekk ég í skóginum mínum í glaðasólskini og lét ískalda vorvindana flögra í kringum um mig og feykja pilsfaldinum upp með vængjaþyt sínum. Þrátt fyrir kuldann eru vorlaukarnir farnir að gægjast feimnislega upp úr moldinni. Þegar ég kom heim úr skóginum rak ég augun í þessa litlu snjódropa undir eldhúsglugganum mínum. Þeir eru að minnsta kosti mánuði fyrr á ferðinni en síðasta vor.

Og nú sit ég hér á litlu skrifstofunni minni, vermi kalda fingur á ljósbláum kaffibolla með hvítum doppum og hjartað við hugsanir um bókmenntafræðilegan læriföður og -bróður sem láta sér annt um velferð mína.

Lífið getur verið svo ansi ágætt stundum.

 

11. febrúar 2008

Þriðji í afmæli

Í dag hef ég keppst við að reyna að telja sjálfri mér trú um að það sé alveg til þriðji í afmæli og því sé þessi dagur töluvert hátíðlegri en aðrir! En í rauninni er þetta auðvitað bara ósköp hversdagslegur mánudagur. Og þó ... sólin skín, fuglarnir vorsyngja og mín bíður óvænt sending út á pósthúsi. Eða reyndar er það Gudrun Loiva Pelaved sem á von á pakka samkvæmt tilkynningunni ... ég vona bara að ég þurfi ekki að sýna skilríki!

Hér eru annars örfáar afmælismyndir:

Lifið heil!

 

5. febrúar 2008

Molar

* Veturinn hefur algjörlega svikið okkur hér í mið-Svíþjóð. Í þessi tvö eða þrjú skipti sem við höfum fengið snjó hefur hann byrjað að bráðna um leið og síðasta kornið fellur til jarðar og er yfirleitt algjörlega horfinn þremur dögum síðar. Hér hefur varla verið nokkuð frost að ráði frá því um miðjan desember. Við Konsulentarnir höfum ákveðið að snúa vörn í sókn og ætlum bara að fara að hlakka til vorsins og plana sumarfríið í staðinn. Og það er svo sem ekkert út í hött, hér eru fuglarnir farnir að vorsyngja, refir og hérar komnir á stjá og í suður-Svíþjóð var maður (okkur alls óviðkomandi) stunginn af mygg!

* Ég á afmæli á laugardaginn! Ég hlakka til að drekka morgunkaffi með Einar, Maríu og Huga innan um útsprungna túlípana og blómstrandi kirsuberjagreinar. Deginum er ég að hugsa um að eyða í Stokkhólmi hvar ég hyggst láta drauma mína um nýja augnskugga, rándýr andlitskrem og pils með vösum rætast! Um kvöldið fæ ég svo veglega afmælisgjöf frá sænska ríkissjónvarpinu sem hefur ákveðið að hefja Melodifestivalen einmitt þennan dag mér til heiðurs.

* Hér eru nokkrar myndir af góðum gestum:

Janúargestir

* Djöfull langar mig í kaffi. Klukkan er 19:34, ætli það sé orðið of seint?

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar