Febrúardagbók 2007 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. febrúar 2007

Conviviophobia

Conviviophobia er nýyrði sem ég var rétt í þessu að smíða og þýðir veislufælni. Ég er conviviofóbísk! Ekki í þeim skilningi að mér finnist leiðinlegt að vera í veislum, því fer fjarri. Ég óttast hins vegar fátt eins mikið og að þurfa að halda veislu sjálf. Um leið og ég leiði hugann að hvers kyns partýhaldi fyllist ég vissu um að slíkt sé dæmt til að mistakast. Sú tilhugsun að þurfa að bera ábyrgð á því að tugir manna skemmti sér, séu vel mettir og líði almennt vel fyllir mig vægast sagt ofsakvíða. Magasár byrjar smátt og smátt að krauma í iðrum mínum og ýmsar ranghugmyndir taka að gera vart við sig hið efra. Til er A og B útgáfa af þeim ímyndunum sem ferlinu fylgir. Í útgáfu A sé fyrir mér gesti sem sem spýta matnum laumulega í lófann og mjaka sér svo í átt að ruslafötunni, gesti sem læsa sig tveir og þrír saman inni á klósetti til að ræða um hvað veislan sé ömurleg og leggja á ráðin um hvernig best sé að komast í burtu án þess að hvarfið veki miklar grunsemdir og síðast en ekki síst sé ég fyrir mér rauðglóandi símalínur daginn eftir þar sem partýgestir skiptast á hryllingssögum og skeggræða vondar veitingar, rangt magn veitinga, skort á góðum umræðuefnum eða almennilegum skemmtiatriðum, kvarta undan að hafa verið boðið, nú eða kvarta undan að hafa ekki verið boðið, ákveða að tala aldrei við mig aftur. Í útgáfu B sé ég hins vegar fyrir mér veisluborð sem svigna undan krásum, glæsilegar skreytingar, blöðrur sem svífa letilega upp við loftið, knöll og glimmer. Við borðið sit ég ein, prúðbúin en hnípin með glitrandi tár á hvarmi. Lít einu sinni enn á klukkuna, dreg af mér partýhattinn og styn svo með titrandi höku: „Það kemur enginn!“

Nú veit ég ekki alveg hvers vegna ég læt svona. Aldrei nokkurn tímann minnist ég þess að hafa spýtt út úr mér mat í veislu eða slitið vináttu við nokkurn mann vegna lélegs partýs! Mér er það meira að segja mjög til efs að ég hafi yfirhöfuð verið í leiðinlegu partýi. Ég kannast ekki heldur við að vinir mínir hafi hagað sér svona. Eins og góðum fóbíum sæmir virðist þetta því vera algjörlega órökréttur ótti!

Hingað til hafa barnaafmæli ekki fallið undir conviviofóbíuna mína. Mér hefur aldrei þótt neitt sérstakt tiltökumál að halda upp á afmælisdaga krakkanna, eiginlega bara mjög skemmtilegt. Þar til núna. Með breyttum aðstæðum, nýju landi og nýjum siðum sölsaði conviviofóbían barnaafmælin undir sig, hreinlega svelgdi þau í sig í einum teyg og ropaði hátt á eftir. Eftir sat ég hríðskjálfandi, sveitt í lófum og fyrir hugsskotssjónum flöktu ímyndir reiðra sænskra foreldra sem kvörtuðu undan leikjaleysi, of miklu nammi, of litlu nammi, of stuttum fyrirvara ... þið skiljið hvert ég er að fara. Á lokastigi ímyndananna var ég gerð brottræk frá landinu, send aftur til Íslands með skít og skömm.

Ég sá hins vegar að svona gætu mömmur ekki hagað sér! Fyrir viku síðan tók ég því á mig rögg, útbjó boðskort í afmæli Huga, á sænsku að sjálfsögðu, stakk einu boðskorti í hvert hólf á leikskólanum og eyddi síðan vikunni í að bíða eftir að dómsdagur rynni upp. Afmælið var í gær. Það var ótrúlega skemmtilegt! Krakkarnir voru stillt, kát og jákvæð, þeim fannst allt skemmtilegt sem boðið var upp á og foreldrunum fannst dagskráin okkar gríðarlega metnaðarfull. Við kynnum því með stolti:

Fimm ára afmælisveislu Huga!!!

 

19. febrúar 2007

Familjen Rinson

Það er undarlegt hvernig nöfnin manns eru óneitanlega bundin sjálfsmyndinni. Það hver maður er einhvern veginn fólgið í nafninu og ef það er afbakað er sjálfsmyndin þar með á einhvern hátt særð. Þegar maður býr í útlöndum verður maður að sætta sig við það að nafnið manns sé rangt borið fram eða ritað með reglulegu millibili. Við fjölskyldan höfum öll fengið okkar skerf af slíku síðastliðna sex mánuði.

Þótt ungufrú María heiti nokkuð alþjóðlegu nafni bera Svíarnir það fram með öðrum hætti en daman er vön, áherslan er á annað atkvæðið en ekki það fyrsta, MarÍa en ekki MAría. Daman leiðréttir fólk óhikað ef það setur áhersluna á vitlausan stað ... það er alveg á hreinu að það er ekki sama hvor Marían maður er!

Almennt séð hefur Svíunum gengið mun betur að bera fram nafnið hans Huga en við þorðum að vona. Minnstu krakkarnir á leikskólanum hafa þó átt í erfiðleikum með þetta mjúka g og segja Husi í staðinn. Mér finnst það krúttlegt en það var alveg augljóst að fyrst þótti Huga þetta bara eins og ljót stríðni og var dálítið leiður. Þessi sænska útgáfa af nafninu olli auk þess dálitlum misskilningi. Einn daginn þegar við vorum að skrá börnin í boltalandið í Ikea var hann spurður að nafni og svaraði ofurlágt meðan hann horfði feiminn niður fyrir sig og sneri tánum ofan í  gólfið: „Husi“. Æ, hvað ég fann eitthvað til með honum, það var svo augljóst að hann var ekki stoltur af nafninu en hélt engu að síður að hann væri að segja sannleikann. Misskilningurinn var leiðréttur snarlega: „Þú heitir alltaf Hugi, alveg sama hvar við erum“!

Við hjónaleysin erum svo heppin að nöfnin okkar eru bæði norræn og því til sænsk útgáfa af þeim líka. Það virðist þó ekki hafa komið í veg fyrir hinn ýmsa misskilning. Ég hef átt í dálitlum erfiðleikum með að ákveða hvort ég eigi að halda mig við íslenskan framburð á nafninu eða sætta mig strax við þann sænska. Þegar við Inga vorum í Stokkhólmi fyrir jólin þurfti ég að gefa upp nafn fyrir borðapöntun. Á troðfullum veitingastað í glasaglaumi og hnífaparaskrapi nennti ég ómögulega að fara í gegnum allt ferlið (endurtaka Guðrún svona þrisvar sinnum áður en ég útskýrði að það væri sama nafn og Gudrun). Í staðinn kynnti ég mig bara strax með sænskum framburði, pöntunin var tekin niður og við stöllurnar fórum á barinn meðan við biðum eftir að borð losnaði. Þegar okkur tók að leiðast þófið fór Inga á stúfana til að heyra hljóðið í móttökukarlinum. Sá hafði hins vegar brugðið sér af bæ en Inga leit í bókina hans til að sjá hvar við værum í röðinni. Henni til mikillar undrunar fann hún ekki nafnið mitt fyrr en í þriðju yfirferð ... maðurinn hafði skráð mig niður undir nafninu Jutrun!!! Ég hef ákveðið að halda mig við íslensku útgáfuna í framtíðinni! Af tvennu illu er þó að minnsta kosti skárra að það sé mitt eiginlega nafn sem er misskilið en ekki einhver útvötnuð og illa fram borin sænsk útgáfa!

Einarsnafnið er til lítilla vandræða, Þórarinsson er hins vegar annað mál. Um daginn barst heilsugæslustöðinni sem Einar vinnur á bréf með utanáskriftinni: Frú Thora Rinson. Talandi um særða sjálfsmynd!!!

Hér eru annars nokkrar nýjar myndir frá Rinson fjölskyldunni:

Afmæli, snjókarlar og vöfflur

Ha det bra!

 

8. febrúar 2007

Ég setti inn nokkrar nýjar myndir frá síðustu helgi:

Beyglur, blóm og börn!

Annars hef ég vanalega smellt upp vorútlit á síðuna mína í kringum afmælisdaginn minn. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera þetta árið. Í gær var 25° frost þegar ég vaknaði, það er eitthvað svo undarlegt að fara að fylla hausinn af grænum trjám og blómum þegar þannig stendur á. Eða væri það kannski bara hressandi? Hver er vilji lesenda í þessu máli?

 

5. febrúar 2007

Máttur auglýsinganna

Eftirfarandi samtal átti sér stað fyrir helgi í eldhúsinu hér á Konsulentvägen þar sem mamman var að setja í uppþvottavél en Hugi að borða grjónagraut:

Hugi (vongóður): Mamma, hvenær ætlar þú eiginlega að setja vínglas í uppþvottavélina, setja svo kraftkúlu í hólfið og spegla þig svo í vínglasinu?

Mamman (springur úr hlátri): Ja, áreiðanlega bara aldrei!

Hugi (enn nokkuð vongóður): En hvenær ætlar þú að setja vínglas í uppþvottavélina?

Mamman: Nú bara þegar ég er búin að drekka úr vínglasi og það er orðið óhreint!

Stutt þögn.

Hugi (með uppgjafartón): Æi, mamma ... þú bara verður að fara ein út í vínbúð að kaupa vín og pabbi passar okkur á meðan!!!

Átakið Höfum mömmu fulla! er hafið hér á Konsulentvägen, þeim sem vilja leggja málefninu lið er bent á viðeigandi styrktarreikning hjá Nordea.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar