Febrúardagbók 2006    

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

26. febrúar 2006

Febrúar í hnotskurn

Ég byrjaði þennan góða mánuð á að sitja dálítið andlaus fyrir framan tölvuna, sat svo meira andlaus en skrifaði svo smá. Hélt upp á afmælið mitt og sat svo meira andlaus fyrir framan tölvuna, skrifað smá, datt svo ekkert meira í hug að skrifa og sat áfram andlaus fyrir framan tölvuna, hélt ég hefði fengið góða hugmynd en fattaði þegar ég var búin að skrifa hana niður að hún var mjög vond og strokaði hana út, sat svo andlaus fyrir framan tölvuna, sat meira andlaus fyrir framan tölvuna, skrifaði smá, fór á kóræfingu en sat svo áfram andlaus fyrir framan tölvuna, fór á kaffihús og sat svo andlaus fyrir framan tölvuna ...

Já, einhvern veginn svona var það! María og Hugi hafa hins vegar svo sannarlega ekki verið andlaus að undanförnu eins og glóðvolgar myndir bera með sér!

 

Krakkakrútt í febrúar

Úff, hvað ég verð fegin þegar mars byrjar!

 

17. febrúar 2006

Afmælismyndir ...

Þrítug!!!

Gjörið þið svo vel!

 

13. febrúar 2006

Framtíðarplön

Þegar Hugi verður „furlorrinn“ ætlar hann að borða tómat. Og drekka kók! Hann hefur líka í hyggju að giftast óþekktri dömu sem hann kýs að kalla Ungfrú Borg. María ætlar hins vegar að giftast Jónsa! Ó, já!

 

9. febrúar 2006

Hjúkk!

Ég verð að játa að ég er afskaplega fegin að vera laus við ljótusíðuna! Ég tímdi samt ekki að henda henni alveg út þannig að hún er komin á sér síðu sem finna má tengil á hér að neðan ... bara svona ef ykkur langar að endurnýja kynnin af hestinum!

Þrátt fyrir allt var ljótusíðutímabilið afar lærdómsríkt. Fyrir það fyrsta lærði ég að það gerist ekkert hræðilegt þótt maður snúi ekki alltaf bara spariandlitinu að heiminum. Ég lærði að þó að ég sé leiðinleg þá er samt til fólk sem finnst ég skemmtileg! Umfram allt lærði ég þó að ljótusíðustelpan er ekki ég! Áður en ég opnaði ljótusíðuna fannst mér ég stundum vera að falsa raunveruleikann á síðunni ... eftir fjóra daga af sýrubakgrunnum, hesti á amfetamíni og ljótustu mynd sem hefur verið tekin af mér uppgötvaði ég hins vegar að ég vil bara hafa blóm, smáfugla og fiðrildi í kringum mig, sýna fallegar myndir af fjölskyldunni og skrifa eitthvað sem minnir mann á hvað lífið er fallegt ... og lesa það fjórum sinnum yfir! Það er hin raunverulega ég, annað er bara fölsun!!! Ekki amalegur lærdómur á þrítugsafmælinu!

Takk, takk, takk fyrir allar hamingjuóskirnar sem mér hafa borist látlaust í allan dag á formi símtala, sms-a, msn skilaboða, kommenta og tölvupósta! Ég er svo hamingjusöm með daginn minn ... og það er gaman að vera þrítug!!! 

Ljótasíðan

 

2. febrúar 2006

Man með plan!

Svona vandræðagemlingum eins og mér, sem haldnir eru valkvíða, verkkvíða og vitkvíða, dugar aðeins eitt: Gott plan! Ég er því komin með kaldrifjaða áætlun fyrir síðuna mína:

Næsta mánudag, 6. febrúar, ætla ég að setja af stað verkefnið „Ljóta og leiðinlega síðan okkar“! Stundum finnst mér ég nánast vera að falsa raunveruleikann þegar ég skrifa bara um smáfugla, kaffidrykkju og útsprungna túlípana. Finnst stundum algjört svindl að setja á forsíðuna vandlega uppstilltar myndir af heimilismönnum þar sem ég hef eytt hellings tíma í að koma öllu haganlega fyrir, passa sjálf að snúa betri hliðinni að myndavélinni og reyni að fá börnin til að brosa. Vel svo að sjálfsögðu bara allra bestu myndirnar. Inn í albúmin set ég huggulegar myndir af fjölskyldunni á sólarströnd, í skógarferð, að byggja snjóhús og svo framvegis. Síðan sýnir sem sagt fallegt fjölskyldulíf. Ekki að það sé neitt í ósamræmi við raunveruleikann, alls ekki! Hér á Bárugötunni er svo sannarlega lifað fallega og öll hjörtu eru barmafull af hamingju. En að sjálfsögðu sýnir síðan ekki allan raunveruleikann. Engar eru myndirnar af nývaknaðri og ómálaðri húsmóðurinni, engar frásagnir af því þegar ég hundskamma Einar fyrir að hengja vitlausar flíkur upp á snúru, engar myndir af því þegar börnin taka frekjuköst og öskra af tryllingi, ekkert skrifað um baráttuna við að borga visa eða bóna gólfin. Frá og með mánudeginum ætla ég að leyfa mér að vera bæði ljót og leiðinleg, prófa að stíga út úr huggulegu ímyndinni sem ég dreg upp á síðunni og vera einhver allt önnur ég. 

En örvæntið ekki!!! Fimmtudaginn 9. febrúar fellur allt í ljúfa löð aftur og þá mun síðan sjálfsagt fyllast af fiðrildum, laufguðum trjám og frásögnum af fallegum skóm, fyndnum börnum og eeeeendalausri hamingju! Fimmtudaginn 9. febrúar verð ég líka þrítug!

Sjáumst á mánudag!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar