Febrúardagbók 2005

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. febrúar 2005

Er sumarið kom yfir sæinn ...

Það er kannski ekki alveg komið en í dag fann maður svo sannarlega að það er á leiðinni! Það er fátt yndislegra en að vera til þegar vorsólin gefur fyrirheit um krókusa og túlípana, grænt gras og laufguð tré! Þegar við þetta bætist að á morgun eru tónleikar með Mótettukórnum og tilheyrandi gleðskapur í kjölfarið er ekki að undra að hjartað sé löngu stokkuð upp í háls! Að ekki sé nú talað um ef maður á í ofan á lag flottustu skó í heimi og getur skartað þeim í þessu sama kórpartýi ...

 

já, og þegar meira að segja er búið að setja inn nýjar myndir ... þá er ekki að spyrja að hamingjunni!

p.s. Tókuð þið eftir því hversu lymskulega mér tókst að læða inn enn einni túlípanamyndinni?! 

 

21. febrúar 2005

Lýstu þér með fimm orðum!

Þetta er ansi vinsæl bón í svona „hvað ertu með í vasanum-viðtölum“. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig ég myndi lýsa sjálfri mér og eina orðið sem er alveg niðurneglt er löghlýðin. Það er ekkert svo svakalega langt síðan ég uppgötvaði að ég er haldin sjúklegum yfirvaldsótta. Þetta er nátengt ótta mínum við að einhver verði reiður út í mig og að ég verði skömmuð. Fyrir vikið er ég frekar mikið fyrir að fara að hvers kyns lögum og reglum. Almennt séð myndi ég segja að þessi eiginleiki gerði mig örlítið leiðinlegri manneskju en ella ... sjálfri finnst mér voða gaman að svona dálítið villtum persónuleikum! En ég er ekki ein af þeim. Ég segi það ekki að ég hafi ekki af og til sveigt einhverjar reglur mér í hag og sjálfsagt má finna einhverjar lagagreinar sem ég hef brotið (hér koma umferðarlög sterk inn). En almennt tel ég mig einstaklega löghlýðna. Ég hef aðeins einu sinni „komist í kast við lögin“ ... og það með nokkuð undarlegum hætti!

Þegar ég var nýkomin með bílpróf bað mamma mig að skutlast á bílnum út í Hagaskóla að sækja Ella bróður sem átti þar að vera á einhverju skólaballi. Ég renndi af stað í kvöldsólinni og stökk út úr bílnum við skólabygginguna, sem mér fannst reyndar undarlega tómleg miðað við að það átti að vera dansleikur í gangi innan dyra (þið fattið: ljósasjóið, diskókúlan og Haddaway eða Ace of Base á fóninum)! Dyrnar sem í minni tíð var vanalega gengið um á böllum, voru hins vegar harðlæstar og ekki lífsmark að sjá fyrir innan. Mér fannst þó líklegt að ýmislegt hefði breyst á þessu ári eða tveimur frá því ég lauk vist minni við menntastofnunina og taldi að sennilega væru aðrar dyr notaðar í þessum tilgangi núna. Stökk því upp að aðaldyrunum ... en þær voru líka harðlæstar! Þar sem hetjuklíkan hafði forðum daga reykt og hrækt með tilþrifum á gangstéttina, stóð ég nú og klóraði mér í hausnum yfir þessu horfna balli og týnda bróður! En skyndilega mundi ég að akkúrat hinum megin á byggingunni voru dyr sem lágu svo að segja beint inn í matsalinn. Auðvitað hlaut að vera hleypt inn á ballið þar! Ég stökk því aftur upp í bílinn og brunaði hringinn. Við mér blasti eyðilegt port og ekki nokkra hræðu að sjá. Ég ákvað þó að taka í hurðina til öryggis en hún var harðlæst eins og þær fyrri. Ég sneri því aftur í bílinn og var u.þ.b. að setja í gang þegar yfir mig færist dimmur skuggi og það er bankað létt í rúðuna bílstjóramegin. Fyrir utan gnæfir yfir lögreglumaður í viðeigandi múnderingu, ansi alvarlegur á svip. Með hjartað í Levi's 501 buxunum mínum rúllaði ég rúðunni niður og bauð gott kvöld. Lögreglumaðurinn spurði mig strangur á svip hvaða erindi ég ætti í skólann og ég útskýrði það. Við tóku langar yfirheyrslur um hvenær þetta ball væri búið, hvar það hefði verið, hvar þessi svo kallaði bróðir væri o.s.frv. Fæstum spurningunum gat ég svarað af neinu viti enda sjálf búin að spyrja mig að hinu sama. Auk þess var ég orðin alveg lafhrædd enda gat ég með engu móti séð hvers vegna þyrfti að ræða eitthvað við mig um útivstartíma unglinga eða skemmtanahald í grunnskólum, taldi aðra betur til þess fallna að svara fyrir slíkt en mig. En lögreglumaðurinn hafði annað og alvarlegra afbrot í huga: „Það var tilkynnt um að einhver væri að ganga á dyr í Hagaskóla“ sagði hann af miklum þunga. Ég játaði verknaðinn grunlaus en smátt og smátt tók þó að renna upp fyrir mér hvert eiginlegt erindi yfirheyrslnanna væri. Ég var grunuð um tilraun til innbrots!!! Einhver vökull nágranni hafði sennilega séð mig aka upp að skólanum, skokka að byggingunni, taka kurteislega í húninn á öllum þremur dyrunum, píra örstutta stund inn um gluggana og hverfa síðan frá og að sjálfsögðu dregið þá skynsalmlegu og gáfulegu ályktun að um innbrot væri að ræða ... en ekki hvað?!!! Stórhættulegur glæpamaður á ferð sem varð að stöðva og það strax!!! Lögreglumanninum hefur sennilega þótt ég álíka ógnvænleg því hann sleppti mér ekki fyrr en eftir dágóða stund og ég sá að á þeirri stundu taldi hann mig alls ekki saklausa heldur hreykti hann sér í huganum af því að hafa þarna komið í veg fyrir enn eitt innbrotið! Já, löghlýðin eða ekki, ég hef í rúman áratug haft það á samviskunni að hafa verið grunuðu um innbrot!

Hvað um það, hér eru orðin fimm sem ég myndi lýsa sjálfri mér með í dag: löghlýðin, löt, nýjungagjörn, fagurkeri og kærleiksrík. Held að ég geti bakkað þetta allt upp! Ég gæti hins vegar alveg eins notast við orðin: óð-í-að-taka-blómamyndir. Hér eru konudagsblómin mín:

    

    

En talandi um löghlýðni ... af hverju í ósköpunum læt ég ekki óttann við lektora og prófessora stýra gjörðum mínum og fer að læra í staðinn fyrir að föndra við þessa síðu? Og nýjungagjörn? Er ég ekki búin að setja inn mynd af einhverjum asnalegum túlípönum með hverri einustu færslu? Kærleiksrík ... hef ég ekki hugsað til nágrannans með vökulu augun af hreinni mannvonsku þessi tíu ár? Hvað með fagurkerann? Hvað með allar fagurbókmenntirnar sem ég á að vera að lesa í staðinn fyrir að velta fyrir mér hvernig ég myndi svara í einhverjum asnalegum viðtölum sem hvort eð er verða aldrei tekin við mig?! 

Uss, ég þarf greinilega nýjan lista ... sýnist þó að letin megi standa þarna áfram!!!

p.s. Myndir!!!

 

13. febrúar 2005

Verðlaunaafhending.

Vikurnar eftir afmælisdag eru alltaf eitthvað svo ótrúlega tómlegar! Ég get raunar þakkað fyrir að eiga afmæli á þessum árstíma því annars veit ég varla hvernig ég færi að á þessum leiðinda „vor“mánuðum! En þegar sá dagur er liðinn er ég í sömu stöðu og hvert annað júní eða september afmælisbarn. Einhvern veginn ekkert að gerast og fátt að hlakka til nema sumarið sem virðist í ógnarfjarlægð þegar maður þarf að vaða snjóinn og rennur í hálku og fær bólgið hné (eins og ég gerði einmitt í á afælisdaginn!). Ég tel því að ég hafi sýnt gífurlega fyrirhyggju þegar ég sparaði mér öll þau verðlaun sem ég hef unnið mér rétt á frá áramótum, fram yfir afmælið góða! 

Ég fékk 9 fyrir lexíkonnámskeiðið, fékk líka 9 fyrir málstofuna um myndhvörf og 9,5 fyrir málstofuverkefni tengt því námskeiði. Ef þetta útheimtir ekki brjálaðar verðlaunaafhendingar þá veit ég ekki hvað gerir það! Fyrir utan þetta hef ég að sjálfsögðu margoft staðið mig vel við dagleg störf en það er algengur misskilningur að ekki séu veitt verðlaun fyrir afrek á því sviði! Ég á því inni allmargar ríkulegar ferðir í Kringlu og á Laugaveginn!!! Hugsa að þessi árangur minn dugi mér fram að vori en þá tekur enn á ný við ritgerða- og verkefnatímabil sem vonandi þarf svo að verðlauna ... í versta falli greiða út skaðabætur fyrir! Ég vona því að ég geti skreytt þessa tilbreytingarsnauðu daga sem framundan eru með kjólum, pilsum, glingri, puntudóti og fíneríi! Já og blómum ... eins og þessum til dæmis:

     

Svo getur maður líka skemmt sér við að setja inn nýjar myndir! Já, já það má alltaf finna sér eitthvað til að lífga upp á gráa daga!!!

 

9. febrúar 2005

  Afmælisdagur 

Ég elska afmælisdaga ... sérstaklega mína eigin! Fyrsti afmælisdagurinn sem ég man eftir er 19 ára afmælisdagurinn minn ... ég man merkilega lítið frá æsku minni!!! Ég á meira að segja í mestu erfiðleikum með að rifja upp síðustu ár! Hins vegar man ég glöggt að á síðasta afmælisdegi bakaði ég köku, keypti blóm og servéttur og bauð þeim sem vildu líta við hjá mér eftir vinnu upp á kaffi! Ég man líka að þetta heppnaðist sérdeilis vel og var með bestu afmælisdögum sem ég hef átt! Leikurinn verður því endurtekinn í dag! Vinum mínum nær og fjær býð ég því að líta við hjá mér eftir klukkan fimm í dag. Það á ekki að koma með pakka, það á ekki að koma í sparifötum ... það á bara að mæta og vera glaður! 

Er ekki tilvalið að setja inn fleiri túlípanamyndir í tilefni dagsins ... já og í tilefni af því að úti er frost, haglél og skafrenningur? Það held ég!

Ég vona að afmælisdagurinn verði okkur öllum góður ... líka ykkur sem ekki eruð svo heppin að eiga afmæli!

 

7. febrúar 2005

Séð og heyrt ...

Mánudagskvöldið 7. febrúar frumsýndi Guðrún Lára Pétursdóttir (28) nýtt útlit á síðunni sinni, Okkar síðu. Guðrún, sem er ein okkar snjallasta heimasíðugerðarkona, var búin að vinna lengi í síðunni, föndra bakgrunna, setja inn nýjar myndir, taka út gamlar, setja inn nýjar slóðir, færa síður og flokka þær. Hún geislaði af hamingju þetta kvöld og kvaðst aðspurð vera í skýjunum með nýja útlitið! „Þetta er rosaleg breyting en mér finnst þetta meiriháttar flott“ sagði hún og leit brosandi á manninn sinn, Einar Þór Þórarinsson (31), sem hjálpaði henni með tæknileg atriði. Ástin geislaði af þeim þetta kvöld! Við þetta tilefni klæddist Guðrún svörtum bol með súkkulaðiklessum í og pilsi sem er svo gamalt að hún man ekki lengur hvar hún keypti það. Punkturinn yfir i-ið voru svo götóttar sokkabuxur. 

„Það eru vissulega dálítil vonbrigði að kynna þetta breytta útlit í sunnan tíu og slyddu en við verðum bara að vona að veðrið fari að skána og verða meira í takt við síðuna“, sagði Guðrún og hló! Í breyttu útliti var megináhersla lögð á vorlauka á borð við túlípana og útsprungin tré. Glaðlegir litir ráða ríkjum og frískleikinn er alls ráðandi. Þrátt fyrir hið nýja útlit munu gullmolar síðustjórans, María (4) og Hugi (3), þó eftir sem áður vera aðalstjörnur síðunnar!

Aðeins tveimur dögum eftir frumsýninguna, þann 9. febrúar, mun Guðrún fagna 29 ára afmælinu sínu. „Ætli ég baki ekki einhverja góða köku og vona að sem flestir vinir og vandamenn kíki í kaffi til mín seinni partinn. Það eru allir velkomnir. Ég var með svipað fyrirkomulag síðasta ár og það kom rosalega vel út“, sagði þessi glæsilega, unga athafnakona um leið og hún kvaddi okkar með bros á vör.

Sjáið myndirnar ... og blómin!

    

    

Töff túlípanar!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar