Febrúardagbók 2004

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

28. febrúar 2004

Útskrift

Eftir tvo tíma legg ég af stað til að vera viðstödd mína eigin útskrift í Háskólabíói! Mér finnst það óskaplega fjarlægt enda sit ég hér á náttfötunum í fullkomlega rústaðri íbúð með fjörug (lesist: brjáluð) börn að skoppa í kringum mig! En það þarf svo sem ekki mikið til að kippa öllu í útskriftarhæft form, ein sturta, spariföt og svo allir út í bíl. Veislan verður sem betur fer haldin annars staðar svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af mylsnunni á gólfunum (dugar í eins og tvö brauð!) eða leikföngunum og óhreinu fötunum sem keppast við að fella mann á gólfinu!

Allur gærdagurinn fór í framhaldssöguna um útskriftardressið! Eftir tvær ferðir í Smáralind, eina í Kringluna og aðra á Laugaveginn held ég að ég hafi fundið viðunandi lausn! Eins og mér þykir vanalega gaman að fara í búðir þá var þetta ekki skemmtilegt!!! En á endanum keypti ég jakka með 60% afslætti og einn hlírabol (sem reyndar var rándýr og kostaði ekkert mikið minna en jakkinn!). Ætla svo að notast við einstaklega fagurt sparipils frá Rögnu vinkonu og nýjustu spariskóna. Já og nú hugsa ég bara um allt sem ég sparaði með þessari lausn og get því í staðinn eytt úti í London í næsta mánuði!

 Miðað við hrakfallasögu þessarar útskriftar er ég enn með opið á þann möguleika að ég standi við hvítu línuna þarna uppi á sviði í dag án þess að vera kölluð upp! En ef allt fer að óskum verður það bókmenntafræðingur sem uppfærir þessa vefdagbók næst!!! 

 

26. febrúar 2004

Plan K?!

Eyddi stærstum hluta dagsins í að leita mér að útskriftarklæðnaði við hæfi. Það var orðið ljóst fyrir nokkru að plan A var ekki að ganga upp! Plan A var að finna einhvern alveg rosalega, rosalega flottan alklæðnað af hvaða tagi sem væri sem mig langaði rosalega, rosalega mikið í og kaupa hann! Plani B var því hrint í framkvæmd í dag! Plan B var að kaupa eitthvað óstjórnlega fallegt en ekki mjög dýrt til að vera í við fallegt pils sem ég á og nýjustu skóna! Plan B floppaði algjörlega! Fór af stað í bæjar- og Kringluferð með nokkrar hugmydir í kollinum og taldi mig vita hvar ég gæti fundið það sem ég leitaði að, var meira að segja með nokkrar mögulegar flíkur í huga. Í öllum tilvikum voru flíkurnar búnar og ekkert sambærilegt til á öðrum stöðum!!! Nú er ég eiginlega alveg komin út af sporinu því það var ekkert plan C tilbúið ... og miðað við árangurinn hingað til þá hefði plan C örugglega floppað líka. Spurning hvort ég eigi eftir að enda í plani K eða L ... það gæti þá til dæmis verið að troða mér í allt of þrönga silkikjólinn minn sem er rifinn þvert yfir rassinn ... nú eða að vera í rosalega fínum og vönduðum náttfötum sem ég keypti mér um daginn!!! Alveg spurning ... !!!

Öskudagur í gær og brjálað stuð í bænum þegar ég rölti í lærdómsheimsókn til ömmu um miðbik dagsins. Þar sem ég er löngu orðin ráðsett húsfrú fannst mér gaman að stúdera svolítið búninga unga fólksins úr öruggri fjarlægð tímans! Reyndar var eiginlega ekkert af litlum börnum þarna en þeim mun meira af stúlkum á snemmgelgjuskeiðinu. Alveg sá maður strax hvað vakti fyrir þeim þegar þær völdu sér búninga um morguninn. Öskudagur er greinilega sá dagur þar sem hópþrýstar gelgjur klæðast því sem þær langar í rauninni að klæðast dagsdaglega en þora ekki nema undir því yfirskyni að þær séu í búning af því að þær vita vel að það er ekki við hæfi... já og kannski líka af því að mömmur þeirra myndu aldrei leyfa þeim það!!! Stuttu pilsin voru alls ráðandi ... ekki bara stutt heldur svona sést-í-nærbuxurnar-stutt!!! Bolirnir ... efnislitlir. Andlitsmálningin ... grótesk! Og í ár virtust einhver rauð glimmer púkahorn á spöng vera aðalmálið (greinilega ekkert létt á hópþrýstingnum þó það sé Öskudagur!). Það voru sem sagt engir eiginlegir búningar og ég veit því ekki alveg hvað þessar ungu konur höfðu ætlað sér að „vera“ á Öskudaginn en grunar helst að þær hafi ætlað að vera þær sjálfar eins og þær dreymdi um að þær þyrðu að klæða sig! Ástæðan fyrir að ég er svona fullyrðingaglöð er að sjálfsögðu sú að þetta þekki ég mætavel af eigin raun. Kannski ekki í tengslum við Öskudaginn en man eftir einhverjum Furðufataböllum þar sem það var voða vinsælt að mæta sem „pæja“!!! Við Svanhildur slógum því nú á sínum tíma saman við pönkara með glæsilegri útkomu ... pæjupönkarinn, alveg nýtt fyribæri sem spratt þarna fram í lágreistum matsal Austurbæjarskóla! Hey, kannski gæti ég bara grafið upp það gamla dress og verið í því á útskriftinni ... alla vega gott efni í plan Ö!!!

 

25. febrúar 2004

Miðvikudagur eina ferðina enn, vikan hálfnuð og ansi hreint lítið gerst í lærdómi! Ég hef ekki einu sinni neinar haldbærar afsakanir fyrir þessu nema þá helst að María var veik í gær og ég eyddi deginum í að undirbúa útskriftaveislu, kanna verð og framboð á veitingum og hringja út og bjóða til gleðinnar! Held að ég sé loksins búin að ákveða hvaðan veitingarnar muni koma og vona bara að þetta verði eins gott og það hljómar! 

Gærkvöldinu eyddi ég á skemmtilegri kóræfingu. Núna erum við nýfarin að æfa Magnificat eftir Bach vin minn og það lofar góðu! Sannkallað Bachstuð!!! Æfingin gekk vonum framar og við erum, þó ég segi sjálf frá, bara nokkuð snögg að ná þessu. Kannski er Bach bara þannig ... þegar þú ert búinn að syngja nógu mikið af honum þá þarf ekki mikið til að læra ný tilbrigði og stef! Þetta hélt ég alla vega um daginn þegar sunginn var í gegn stutt fúga úr Magnificat sem ég hafði aldrei séð áður ... „Sicut locutus est“! Og viti menn, ég opanði munninn, horfði á nóturnar í bókinni minni og tónarnir streymdu út fullkomlega áreynslulaust ... ég sem enda yfirleitt með því að þegja bara þegar kórarnir eru sungnir í gegn í fyrsta sinn (já, jafnvel í annað og þriðja sinn líka!) ... yfirleitt löngu búin að týna því hvar við erum og stranda fullkomlega í þessum nótnalestri! En í þetta skiptið gerðist ekkert slíkt og ég tók m.a.s. eftir því að ég gerði ýmsa erfiða staði þarna eins og að drekka vatn þó píanókennarinn við hliðina á mér hefði klikkað! Ég var ansi hreint ánægð með mig að söng loknum en fannst þetta samt svolítið dularfullt. Velti fyrir mér þremur möguleikum í stöðunni: 

Nr. 1. Að ég væri bara í rauninni mjög góð í að lesa nótur en hefði hingað til látið feimnina halda aftur af mér! Þennan möguleika útilokaði ég þó eiginlega alveg strax! 

Nr. 2 var svo sá sem ég var búin að nefna hér að ofan ... að tónlist eftir Bach væri bara þannig að þegar þú værir búinn að syngja nógu mikið af henni væri annað nokkuð fyrirhafnarlaust. Þetta var eiginlega það svar sem mér fannst líklegast! En af því að ég er með svo lítið sjálfstraust hvað sönghæfileika mína varðar var ég þó með einn möguleika enn uppi á borði: 

Nr. 3. Að ég hefði hreinlega sungið þetta áður!

 Ég hafði þó ekki nokkra trú á að svo gæti verið enda kannaðist ég bara alls ekki við þetta „Sicut locutus est ...“! Ég spurðist þó aðeins fyrir í kringum mig, hvort einhver annar kannaðist við þetta. Og viti menn, gömlu háskólakórsfélagarnir héldu það nú ... þetta var mikið uppáhaldsverk hjá okkur í þeim kór og oft sungið en gekk þar reyndar undir nafninu „Psallite Deo“!!! Já þannig fór um sjóferð þá ... ekki aðeins hafði ég sungið þetta áður heldur ekki sjaldnar en skrilljón sinnum! Nótnalestrarhæfileikarnir og Bachþekkingin fuku þar með út um gluggann! Og ekki bara það því hvers konar tóneyra hefur maður ef maður kannast ekki við gamalt uppáhaldslag þó textinn sé eitthvað aðeins breyttur!!!

Að lokum ein blómamynd til að hressa okkur við svona um miðbik vikunnar:

Síðbúnar afmælisrósir frá Brynhildi.

 

23. febrúar 2004

Alveg er þetta týpískt!!! Hugi er búinn að vera að vakna um sjöleytið báða helgardagana og ekki viðlit að fá hann til að liggja lengur en til hálfátta. Í morgun hins vegar, þegar ég treysti á að hann myndi vekja mig í tæka tíð fyrir leikskóla, ákvað hann að sofa á sínu græna til hálfníu! Fyrir vikið varð uppi fótur og fit og allt sett í gang til að koma systkinunum á sinn stað svona a.m.k. áður en aðaldagsrkáin hæfist á Drafnarborg. Mér líður stundum eins og ég hljóti að vera eitthvað svipuð mömmunni í þessu lagi sem allir muna væntanlega eftir:

Ég er bara fimm ára og kenna á því fæ,

klukkan sjö á morgnana er mér dröslað niður í bæ,

enginn tekur eftir því þótt heyrist lítið kvein,

því mamma er að vinna og er orðin allt of sein!

Reyndar er ég ekkert að vinna sem gerir stöðuna eiginlega enn verri fyrir mig!

Helgin var annasöm hjá okkur eins og séð hafði verið fyrir. En mjög skemmtileg með öllu sínu kór- og afmælisstússi! Við fengum líka að sjá eina nýfædda vinkonu í gær ... og vá hvað hún var lítil. Mér fannast hún alveg eins og fjöður að halda á þó hún væri komin vel yfir fæðingarþyngd beggja minna barna. Meðan ég hélt á henni langaði mig alveg innilega í eitt svona lítið aftur ... en svo mundi ég að Einar væri að fara á næturvakt og hugsaði til þess með miklum hryllingi ef ég væri ein um að koma Maríu og Huga í rúmið ásamt því að sinna einu svona litlu sem hefur ekki þolinmæði nema í svona tvær sekúndur! Í nótt rölti ég til að mynda þrisvar yfir í rúmið til Maríu til að sinna henni og fór eina ferð að sækja Huga svo hann gæti hnoðast svolítið á mér það sem eftir væri nætur! Ég veit að ef ég hefði í ofanálag verið með eitt nýfætt sem myndi kannski vakna til að drekka svona tvisvar eða þrisvar á nóttu þá stæði ég hreinlega ekki í lappirnar í dag. Já, skyndilega fannst mér það bara alls ekki góð hugmynd að eignast annað barn og skilaði litlu dúllunni hið snarasta í rétt fang!!! 

Nokkrar myndir frá helginni hér! Vona að við eigum öll góða og starfsama viku framundan!

 

20. febrúar 2004

Flugmiðarnir okkar Einars fyrir Lundúnaferðina eru komnir í hús, okkur til mikillar gleði! Það er alltaf aðeins áþreifanlegra að maður sé að fara í ferðalag þegar maður er farinn að geta handleikið þá. Við hlökkum bæði mjög mikið til en finnst einhvern veginn frekar óraunverulegt að við verðum að rölta í miðbæ London eftir þrjár vikur! Ég er búin að finna a.m.k. einn veitingastað sem mér líst ógnarvel á og langar að vita hvort við getum fengið borð þar. Svo verður nú ómissandi að kíkja í örfáar búðir!!! 

Helgin nálgast óðum og virðist að þessu sinni ætla að vera fullskipuð dagskrá hjá Bárugötufjölskyldunni! Kóræfingar, messur, afmælisveislur og bíóferðir munu tröllríða öllu auk þess sem Einar þarf að vinna mikið og sofa þess á milli! Veit ekki hvar í ósköpunum ég á að koma lærdómstörn fyrir í öllu þessu! Hins vegar nokkuð ljóst að það er mikil þörf fyrir slíka törn. Ég byrjaði að vinna í þessari lestrardagbók í dag og gengur, satt best að segja, frekar illa!!! Er enn að átta mig á því hvernig sé best að haga þessu og á eitthvað erfitt með að drífa þetta í gang!

Já og aðeins vika í útskriftina! Ég er meira að segja búin að fá boðskortið og fyrirmæli um að standa við hvíta línu á sviðinu áður en ég tek í höndina á deildarforseta og storma svo út af sviðinu hinum megin ... ekki er ráð nema í tíma sé tekið! Held því að það sé ekki seinna vænna en að fara að gera gangskör í að skipuleggja veisluna! Ég hlakka mikið til. Fyrir nokkrum mánuðum var ég hreinlega ekki viss um það hvort mér myndi þykja þetta stórviðburður í lífi mínu eða bara svona smá þúfa á leiðinni enda er ég svo sem löngu byrjuð í öðru námi. Nú þegar vika er til stefnu er svarið orðið ljóst: Þetta er stórviðburður!!! Ekki spurning!!!

 

19. febrúar 2004

Leikhúsferð ... eða hvað?!

Í morgun slógumst við Einar í hóp með leikskólakennurum og leiðbeinendum á Drafnarborg og aðstoðuðum við að koma krílahópnum í leikhús að sjá Prumpuhólinn! Til að þau yngstu gætu farið með þurfti hjálp frá nokkrum vöskum foreldrum og við Einar ákváðum því að drífa okkur bara enda alltaf svolítið ævintýri að fylgjast með börnunum sínum á samkomu eins og þessari! Þetta var hin mesta ævintýraför og ég sá ekki betur en að börnin skemmtu sér hið besta á sýningunni. Sjálf ætla ég að segja sem minnst um mína eigin upplifun enda háaldraðir bókmenntafræðingar væntanlega ekki í markhópnum!!! Get þó viðurkennt að ég vorkenndi Einari töluvert en hann fór í förina algjörlega ósofinn eftir næturvinnu og átti bágt með sig þarna á tímabili!!! En krökkunum fannst þetta alveg rosastuð og mér heyrðist starfsfólk Drafnarborgar hafa af því nokkrar áhyggjur að það yrði ekki talað um annað en prump næstu vikurnar, svo áhrifamikil var sýningin!!! Eftir að leikskóla lauk í dag vorum við foreldrarnir að sjálfsögðu að ræða þessa frægðarför við börnin okkar og kom þá í ljós að Hugi hafði eiginlega alveg misskilið hana. Hann hafði nefninlega fyrst og fremst farið í strætóferð!!! Þetta leikrit hafði verið alveg ágætt en bara algjört aukaatriði við hliðina á gula ferlíkinu sem hann hefur hingað til aðeins dáðst að úr töluverðri fjarlægð! Einhvern vegin svona hafa okkar samtöl um þessa leikhúsferð verði:

Mamma: „Var gaman í dag, Hugi?“ 

Hugi: „ Jáááá, gaman í sdðædó!!!“ 

Mamma: „ En fórstu ekki líka að sjá leikritið?“ 

Hugi: „ Jáááá og leigðidi ... og sdðædó! Gaman í sdðædó!!!“

Það er því alveg spurning hvað það er hægt að kalla þetta mikla leikhúsferð hjá piltinum!!!

Í dag á hann Ástþór Örn vinur okkar eins árs afmæli og við á Bárugötunni sendum honum okkar bestu og hjartanlegustu hamingjuóskir í tilefni af því ... sem og foreldrunum því eins og ég hef margoft sagt finnst mér, eftir að mín börn fæddust, afmælisdagar vera fyrst og fremst þeirra dagar, sérstaklega mömmunnar!!!

Að lokum smellti ég inn nokkrum myndum af systkinunum í kvöld, kíkið á þær með því að smella á myndina!

 

18. febrúar 2004

Gleði, gleði, gleði ...

Já, mikil var gleði mín í morgun þegar ég áttaði mig á að netvandræðum islandia var loks lokið og ég gat uppfært síðuna mína! Hálfhalló samt að vera að uppfæra eldgömul dagbókarskrif og jafngamlar myndir! Hallærislegast af öllu er þó auðvitað að vera á barmi örvæntingar yfir að geta ekki birt einhverjar hundleiðinlegar hugleiðingar og myndir af litlum horgemlingum á alheimsnetinu!!! Ég tók þessa bilun nefninlega mjög nærri mér og fannst alveg ömurlegt að geta ekki uppfært og geta ekki einu sinni látið ykkur, lesendur góðir, fá upplýsingar um að þetta framtaksleysi stafaði af tæknilegum örðugleikum en ekki ritstíflu!

Enn meiri varð gleði mín skömmu seinna þegar við Einar ákváðum að skella okkur bara til London um miðjan næsta mánuð! Við erum búin að ganga frá farseðla- og hótelkaupum og munum nota næstu vikur í að láta okkur dreyma um allt það frábæra sem við ætlum að gera í ferðinni. Ég held að það sé alveg kominn tími á þetta hjá okkur. Höfum ekki farið neitt saman síðan sumarið 1999. Síðan þá höfum við verið á haus í námi, vinnu og kúkableium en sjáum nú loks fram á að geta fundið aðeins meiri tíma fyrir svona kærustuparaleik! (Það besta við að vera enn ógift er að það hljómar einhvern veginn svo miklu frjálslegar að fara í kærustuparaferð en t.d. hjónaferð!!! Reyndar örugglega það eina góða við að vera ekki enn búin að drífa í að láta pússa okkur saman!!!) Ég hlakka svo frábærlega mikið til að það er eiginlega ekki hægt! Ekki spillir fyrir að vita að litlu dúllurnar munu bókað eiga stuðhelgi hjá ömmu sinni og að kötturinn Bjartur verður í góðum höndum Ella bróður sem ætlar að flytja inn á Bárugötuna á meðan á ferð okkar stendur! 

Já, gleði, gleði, gleði; gleði líf mitt er!!!

 

14. febrúar 2004

Valentínusardagur í dag ... og mér er slétt sama! Hef frekar kosið að notfæra mér bóndadaginn til að gera vel við Einar og vona að sama skapi að hann muni taka konudaginn svolítið hátíðlega!!! Ég læt þennan dag í dag alltaf fara svolítið í taugarnar á mér sem er náttúrulega mesti óþarfi enda boðskapur hans um ást og vináttu svo sem fallegur þó allt ameríska skrumið hafi nánast yfirskyggt hann! Hér á bæ hefur því allt verið með hversdagslegu sniði!!!

Stefnan var sett á lærdóm strax eftir að morgunkaffið hefði verið drukkið. Einhvern veginn teygðist svolítið úr því og á endanum byrjaði ég ekki að læra fyrr en um klukkan fimm!!! Dálítið þungur kaffibolli það!!! En ég hafði mig í þetta á endanum og það er voðalega gott að vera byrjuð. Ætla að eyða deginum í dag í að undirbúa þessa ritgerð sem enn er langt í að þurfi að skila. Finnst notaleg tilhugsun að koma því í gang sem fyrst. Á morgun þarf ég þó að reyna að byrja að vinna að lestrardagbókinni og kíkja á doðrantinn The Life and Opinions of Tristram Shandy, Gentleman. Bókin er jafnlöng og titillinn gefur til kynna, eitthvað um sexhundruð síður ... og þetta á ég að vera búin að lesa eftir rúma viku. Já það er um að gera að drekka ekki fleiri svona kaffibolla!!!

Ég er búin að vera svo skelfilega löt við prjónana undanfarið, prjóna eiginlega bara þegar ég horfi á misgáfulega raunveruleikasjónvarpsþætti og á kóræfingum! María og Hugi eiga hvort sína peysuna í vinnslu hjá mér og gengur eitthvað hægt að klára. Nú streyma hins vegar vor-prjónablöðin til landsins og mig langar óstjórnlega að taka upp ný og frískleg verkefni. Ég hef þó heitið sjálfri mér því að slíkt verði ekki gert fyrr en hinu hefur verið lokið og vonast ég til að það verði spark í rassinn á mér! Nógum tíma eyði ég í einhverja vitleysu í tölvunni ... til dæmis að uppfæra þessa síðu!!! Hmmm.....

Smellti inn örfáum myndum, smellið bara á þessa hér að neðan til að kíkja á þær! Hafið það gott um helgina!

 

13. febrúar 2004

Helgin nálgast óðfluga en verður að þessu sinni ekki lögð undir notalegheit og afslöppun heldur miskunnarlausan lærdóm og undirbúning fyrir ritgerðir af öllu tagi.

Ritgerðin um Pétur Gunnarsson hefur raunar valdið mér töluverðum heilabrotum. Reyndar er ég ekkert farin að huga að efni hennar (þó ég muni án efa einnig glíma við brotinn heila þegar að því kemur!) heldur hefur hugarangrið stafað af því að val mitt á þessum tiltekna höfundi byggist á einhverri djúpstæðri og órökréttri tilfinningu fyrir að þetta sé einmitt sá rétti fyrir mig að skrifa um á þessari stundu í tengslum við þetta námskeið! Þetta þykir mér með eindæmum ófræðilegt og ómálefnalegt og skammast mín svolítið fyrir að hafa ekki byggt  val mitt á styrkari grunni. Það hefði til dæmis alveg verið rakið að velja Pétur Gunnarsson af því að ég hefði lesið allar bækurnar hans a.m.k. 10 sinnum og væri í nokkur ár búin að leika mér í huganum að greiningu á þeim út frá sálgreiningu, afbyggingu, strúktúralisma, kenningum Foucault, Blanchot eða Barthes!!! En mín ákvörðun var ekki tekin út frá slíkum forsendum heldur þessari ófræðilegu, órökréttu og margumtöluðu tilfinningu. Enn skammarlegra er það að hafa, byggt á þessari tilfinningu einni saman, bitist við samnemanda minn um efnið (hafði það reyndar ekki af henni, enda stóð slíkt ekki til, en fékk í gegn að við skrifum báðar um sama höfund) og eytt miklu púðri í að sannfæra kennarann um að það muni svo gott sem rústa framtíð minni sem bókmenntafræðingur ef ég skrifa ekki um Pétur. 

Loksins held ég þó að ég sé búin að átta mig á hvernig í málinu liggur og hef í rauninni komist að því, mér til nokkurs léttis, að valið er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki byggt á tilfinningu heldur samfélagslegum rökum! Já, ég er nú nánast sannfærð um að ákvörðunin um Pétur sem birtist mér í dulbúningi hinnar órökréttu tilfinningar, hafi í rauninni verið djúpstætt samviskubit mitt gagnvart íslensku þjóðinni! Fyrir mörgum, mörgum árum rændi ég nefninlega bókinni Punktur, punktur, komma, strik af Borgarbókasafninu! Þetta var að sjálfsögðu ekki kaldrifjað bókarán heldur upphaflega dugleysi í mér við að skila bókinni (tilhneigin sem ég glími enn við!) og síðar óstjórnleg hræðsla við að skila inn riti sem ég hafði verið með í láni í nokkur ár! Að ekki sé talað um skuldina sem ég vissi að beið mín, svimandi há og óviðráðanleg! Á endanum dagaði bókin uppi í hillu hjá mér og hefur verið lesin nokkrum sinnum síðan en ávallt með óbragð í munni og sektarkennd í brjósti. Nú er ég sem sagt sannfærð um að áhugi minn á að skrifa ritgerð um verk Péturs Gunnarssonar sé í raun birtingarmynd þrár minnar á að skila einhverju til baka út í samfélagið í staðinn fyrir það sem ég stal frá því! Já námskeiðið hefur hætt að hafa merkingu fyrir mér sem hluti af mastersnámi en hefur þess í stað breyst yfir í betrunarvist og þegnskylduvinnu! Í staðinn fyrir að höggva grjót (sem ég er reyndar nokkuð viss um að tíðkist ekki í betrunarvist hérlendis!) skrifa ég ritgerð. Og það sem meira er, ritgerðin þarf að vera fjári góð ritgerð! Best að hefjast handa hið snarasta!

 

10. febrúar 2004

Þá er mesta afmælisvíman runnin af mér ... samt ekki öll því enn er hér allt uppfullt af blómum, kertum og gjöfum sem minna á gærdaginn! En hversdagsleikinn hefur óneitanlega tekið við aftur. Eftir enn eina veikindauppákomuna í morgun (Einar lagstur í annað sinn!) dreif ég mig í skólann í fyrsta sinn í næstum tvær vikur. Það var í raun ótrúlega notalegt að hitta samnemendurna aftur, allir með stírur í augunum og svolitlar tannkremsklessur í munnvikum ... sem sagt mjög heimilislegt! Og umfjöllunin mín um undarlegu söguna gekk ekki sem verst. Var svo sem ekkert að finna upp hjólið en held nú samt að ég hafi komist nokkuð skammlaust frá þessu. Átti svo eldheitar samræður eftir kennslustund við kennarann og nemandann sem hafði „stolið“ Andrabókum Péturs Gunnarssonar frá mér. Sú góða stúlka vorkenndi mér óskaplega þegar ég lýsti því á dramatískan hátt hvernig ég hefði fundið það í hjarta mínu að Andrabækurnar væru mér ætlaðar og kvaðst fús að gefa þær eftir ... sem ég þáði að sjálfsögðu ekki ... en kennarinn féllst hins vegar á að það væri ekkert því til fyrirstöðu að við skrifuðum báðar um sömu bókina nú eða að ég skrifaði um eitthvað annað eftir Pétur. Þetta var niðurstaða að mínu skapi og ég er að hugsa um að fara á bókasafnið hið fyrsta og taka helst allar bækurnar eftir hann til að byrja að velja efni! Það versta er að þessar hjartnæmu lýsingar mínar í dag á því hvernig mér var í raun ætlað frá fæðingu að skrifa ritgerð um þennan höfund í námskeiði sem heitir Sjálfssögur, hafa í raun gert það að verkum að nú kemur ekkert til greina annað en að skrifa hreint út sagt stórfenglega ritgerð um efnið!!! Og ég er kannski ekki alveg viss um að ég standi undir því. Kannski hefði verið skynsamlegra að drúpa höfði og segja í ásakandi tón að ég neyddist þá víst til að skrifa um Vigdísi Grímsdóttur en að ritgerðin yrði náttúrulega ekki góð þar sem ég hefði ekki fengið það efni sem ég vildi?! Kannski hefði kennaranum þá á endanum fundist sú ritgerð bara nokkuð efnileg þar sem hann hafði fyrirfram gert sér litlar væntingar til hennar og ég hefði fengið rosa fína einkunn?! En kannski ekki!!!

 

Enn 9. febrúar 2004, enn 28. afmælisdagurinn minn

Aðeins ein mínúta eftir af deginum sem er búinn að vera alveg ótrúlega yndislegur í alla staði. Gerði heiðarlega tilraun til að læra í morgun (veit ekki alveg hvernig ég á að bjarga mér í tímanum í fyrramálið en treysti því að ég komist einhvern veginn að landi!) en ákvað svo að taka afmælisdaginn frekar með trompi. Hitti Jódísi uppáhaldsfrænku í bænum, fékk hana til að bjóða mér á kaffihús, dró hana með mér í ýmsar búðir í leit að vænlegum afmælisglaðningi og tókst í leiðinni að sannfæra hana sjálfa um að kaupa sér sparikjól (mér finnst næstum því alveg jafnskemmtilegt þegar förunautar mínir versla eins og þegar ég versla sjálf!!!). Eftir vel heppnaða bæjarferð skellti ég í súkkulaðiköku og dekkaði borð og tók á móti vinum og ættingjum, bauð upp á kaffi og kökusneið! Ég var alveg ótrúlega ánægð með það fyrirkomulag því það er eiginlega alveg ómögulegt að halda upp á afmælisdaginn sinn án þess að hitta fólkið sitt en líka alveg ómögulegt að fólk hafi allt of mikið fyrir því, hvorki afmælisbarnið né gestir! Kvöldið fór svo í að taka á móti hamingjuóskum í gegnum síma og smella inn nokkrum myndum frá deginum (eða aðallega gjöfunum og afmælisblómunum!) sem þið getið skoðað hér.

Góða nótt!

 

9. febrúar 2004

Afmæli ... loksins!!!!!!!!!!!!!!!

Já, það hefur eitthvað lítið verið skrifað inn á síðuna undanfarið þar sem ég er búin að liggja fárveik í rúminu. Druslaðist á kóræfingu á laugardaginn og skalf eins og lauf í vindi þó ég vildi alls ekki viðurkenna það þar sem ég ætlaði ekki fyrir nokkra muni missa af tónleikunum á sunnudagskvöldið. Eftir að ég kom heim varð ég þó að játa mig sigraða og lá undir flísteppi og tveimur dúnsængum allan laugardaginn, skjálfandi í hitamóki. Var strax töluvert brattari í gærmorgun þó ég héldi reyndar engu niðri! Dreif mig þrátt fyrir allt til að syngja á tónleikunum (með nokkrar gerðir af verkjastillandi, bólgueyðandi og ógleðistillandi í maganum!) og sé sko ekki eftir því. Söngur er styrkjandi fyrir ónæmiskerfið og ég var því bara hressari á eftir ... og alveg eldspræk í dag!!! Já, loksins virðast allir orðnir hressir hér á heimilinu. 7-9-13 (bank, bank, bank)!!! Enda ekki seinna vænna þar sem allir heimilismenn þurfa að sameinast í að fagna afmæli húsmóðurinnar!!!

Afmælisdagurinn byrjaði bara nokkuð vel. Ég fékk frábæra afmælisgjöf frá fjölskyldunni, þennan fagra púða:

Ég er alsæl með hann!!! (Hann fer líka svo vel við bakgrunninn á síðunni og ætti því eiginlega að vera hér til frambúðar!) Í dag er ég svo að hugsa um að skella í eina köku svo ég sé vel í stakk búin til að taka á móti þeim sem vilja kíkja hingað á Bárugötuna eftir dagleg störf og fagna 28. afmælisdeginum með mér!

En áður en að því kemur þarf ég að undirbúa verkefni fyrir skólann á morgun. Á að útskýra hvað gerir smásöguna Ambrose his mark að metatexta ... já, ef ég bara vissi það!!! Í fyrsta skipti í langan tíma stend ég bara á gati í náminu ... ég bara fatta hvorki söguna né bókina í heild sinni!!! Og er alveg með kvíðahnút í maganum yfir að þurfa að stama eitthvað frammi fyrir samnemendum og kennara á morgun! Á svo enn eftir að velja mér ritgerðarefni í sama kúrsi, valið stendur núna milli Vigdísar Grímsdóttur eða Hallgríms Helgasonar og Höfundar Íslands ... ég sveiflast milli þeirra tveggja og get ómögulega tekið ákvörðun. Var alveg búin að ákveða að taka Andrabækur Péturs Gunnarssonar og var í skýjunum með það val en einhver samnemandi varð fyrri til. Ég varð alveg öskuill!!! Urr!!! Já, ég er nýbúin að skila af mér síðustu ritgerð og hélt ég ætti náðuga daga framundan en það er öðru nær! Gúlp ... best að fara að kíkja á þetta.

Ég vona að afmælisdagurinn minn verði okkur öllum ánægjulegur ... líka ykkur sem eigið ekki afmæli í dag! 

 

6. febrúar 2004

Helgin komin!!!

Föstudagur eina ferðina enn og helgin svona nánast komin hjá mér þar sem hér á bæ eru allir heima. Maríu var ekki treyst á leikskólann og við ákváðum að leyfa Huga að vera heima að skemmta henni! Einar sefur enn eftir næturvakt en ekki mikið lengur því ég þarf nauðsynlega á kröftum hans að halda við þrifin sem hér standa yfir! Við María og Hugi erum búin að vera ansi dugleg að taka til í dag og stefnum að því að vera með allt hreint og strokið hér fyrir kvöldið. Þá ímynda ég mér að við munum skríða upp í sófa á náttfötunum og skemmta okkur yfir Idolinu og Svínasúpunni! Idolið hefur þó misst ákveðið skemmtanagildi fyrst þessi maður komst ekki áfram!!! En þetta verður án efa samt mjög ánægjulegt!

Ég skellti mér í klippinguna í morgun. Mamma mía ... hvað það var dásamlegt! Höfuðnudd, gott kaffi, kjaftablöð ... það gæti varla verið betra! Þegar í ofan á lag maður kemur út með klippingu og hárlit sem manni líkar vel við verður ekki annað sagt en að þetta sé bara besta byrjun á degi/helgi/mánuði sem hægt er að hugsa sér! Ljót og leiðinleg stöðumælasekt nær ekki einu sinni að setja blett á þessa frábæru lífsreynslu!

Þrír dagar í afmælið ... ég hef haft spurnir af fólki út um allan bæ sem þeysist um Laugaveg, Kringlu og Smára í leit að hinni fullkomnu afmælisgjöf!!! Í tilefni af þessu hef ég smellt inn febrúaralbúmi og setti inn nokkrar myndir af Bárugötusystkinunum að aðstoða við þrifin. Smellið bara á myndina:

Góða helgi öll saman!

 

5. febrúar 2004

Útskrift í augsýn!

Ég fékk 9 fyrir rannsóknarverkefnið mitt! Mig langaði einmitt svo til að fá eina 9 á B.A.-ferlinum! Ég er með nokkrar 8, nokkrar 8,5 og þrjár 9,5 (hmm reyndar örfáar 7 og 7,5 líka en ég hef bætt ráð mitt MIKIÐ síðan þær einkunnir voru gefnar) og fannst alveg vanta níuna.Stefndi að þeirri einkunn fyrir B.A.-ritgerðina en fékk svo ekki nema 8,5 (sem var svo sem alveg viðbúið). Á þeim tímapunkti taldi ég að allar einingar væru komnar í hús og því engin von um níuna en viti menn, ég lít á þessa óheppilegu þróun mála þarna í haust sem mitt annað tækifæri á að krækja í hana ... og það tókst!!! Hlýtur að vera gæfumerki! Ég trúi samt alls ekki að ég eigi eftir að standa á sviðinu og taka á móti prófskírteini á þessar morknu hátíðardagskrá í lok febrúar! Hlakka til að láta minn gamla Háskólakór syngja fyrir mig þar sem ég söng svo oft fyrir aðra útskriftarnema þess fullviss um að ég myndi aldrei fara upp á þetta svið í öðrum tilgangi! Mamma og Einar ... búið ykkur undir að þurfa að þjást þarna með mér!!!

Hér er enn allt á floti í pestum. Einar meira að segja orðinn gulur ... bara eins og nýfæddu krílin! Eitthvað undarlegt á seyði og kannski eins gott að hann þarf að mæta á spítalann til vinnu hvort eð er og geti þá látið kíkja eitthvað á sig! María er óðum að koma til en ég spái því nú samt að við mæðgurnar verðum saman hér heima á morgun. Pjúff ... mikið er ég orðin þreytt á þessari inniveru. Vona svo sannarlega að við höfum tekið út okkar pestarskammt hér á heimilinu í bili!

Á morgun ætla ég að byrja daginn á klippingu! Það er löngu kominn tími á mig, gráa rótin komin niður að eyrum og allt eitthvað úr sér vaxið á kollinum! Ég hlakka ótrúlega til að komast í smá dekur (mér finnst eins og ég hafi skrifað þessa setningu svona 27 sinnum áður!!!) og fríska aðeins upp á hárgreiðsluna! Það verður dásamlegt!!! Seinni partinn er ég svo að vonast til að geta farið í smá skartgripaleiðangur. Ég elska að skoða skartgripi og finnst það í rauninni ekkert mikið leiðinlegra en að eiga svoleiðis ... samt náttúrulega aðeins leiðinlegra!!!

Bara fjórir dagar í afmælið mitt ... ég hlakka orðið alveg gríðarlega til. Er að hugsa um að bjóða upp á gott kaffi og eina góða köku hér heima á afmælisdaginn og fá þá sem muna eftir deginum í afmælisheimsókn! Til að sem mestar líkur séu á að sem flestir muni eftir afmælisdeginum er ég að hugsa um að beita gamla menntaskólatrixinu mínu hér á síðunni. Þá stundaði ég það að minna fólk á hve margir dagar voru í afmælisdaginn minn alla daga frá áramótum, alveg þangað til degi fyrir afmælið. Þá snarþagnaði ég en að sjálfsögðu hafði 9. febrúar síast inn í höfuðið á fólki og fyrir vikið fékk ég óendanlega marga afmæliskossa og pakka! Afmælisniðurtalningin er hafin, fjórir dagar til stefnu og í tilefni af því þessi orkidea:

 

3. febrúar 2004

Pestarbæli!

Heimili mitt hefur umbreyst úr sætu litlu koti yfir í pestarbæli! Maríu tókst að gubba allt út hér í gærkvöldi eftir að Einar var farinn á næturvakt! Ein dýna, ein sæng, einn koddi, tvenn sængurverasett, einn Bangsímon ... allt út atað! Einar kom svo fárveikur heim af vakt í morgun og liggur eins og slytti inni í rúmi! Ástandið á heimilinu er því alls endis ólíkt því sem það var fyrir bara sólarhring síðan þegar allt var svo hreint og heilbrigt. Hugi er reyndar hálfhræddur við pabba sinn hvar hann liggur endilangur á sjúkrabeði. Ég stend í þeirri meiningu að hræðslan stafi af því að skynji að pabbi sinn er þurrausinn allri karlmennsku í þessu bága ástandi. Alveg ótrúlegt hvað karlkynið getur kveinkað sér mikið undan smá pestum!!!

Kóræfing í kvöld, sú næstsíðasta fyrir þá allra frábærustu tónleika sem ég hef sungið á mínum kórferli ... eða alla vega svona með þeim bestu!!! Ég hlakka mjög til og veitir ekki af æfingunni. Agnus Dei eftir Penderecki er með heilli blaðsíðu af liggjandi g, a og b!!! Það er svona einum of hátt fyrir mig! Reyndar ekkert mál að syngja eina og eina nótu (hmmmm reyndar ekki b!) en svona langar nótur og margar í einu ... úff þá líður mér bara eins og það hafi verið hnýttur stór rembihnútur á raddböndin næstu klukkutímana á eftir! En ég veit að þetta verður í lagi á tónleikunum þar sem ekki þarf að stagast á hverri nótu aftur og aftur og aftur eins og á æfingunum! En ég verð að játa að ég kvíði pínulítið fyrir. Það er ekki mjög fallegt að horfa á allan sópraninn í kórnum með þjáningarsvip í þessu annars fallega kórverki! Ef þetta lítur enn svona illa út eftir kvöldið í kvöld held ég að ég þurfi að fá þétta einkakennslu hjá Þórunni systur á næstu dögum!!!

 

2. febrúar 2004

Rólegheita mánudagur að baki. Við Einar gerðumst svo gróf að sofa út eftir að búið var að koma þeim Maríu og Huga á leikskólann í morgun. Eins og flestum finnst mér voða gott að kúra mig undir hlýrri sæng og sofa vel og lengi! En eftir að ég eignaðist börn og vandist því að vakna sjaldan seinna en átta og stundum jafnvel upp úr sex (!) þá finnst mér alveg grátleg sóun á deginum að eyða honum í svefn!!! Hefði einhver sagt mér frá þessu þegar ég var um tvítugt hefði ég hreinlega hlegið upp í opið geðið á þeim spámanni! En viti menn, ég er búin að sannreyna máltækið um að morgunstund gefi gull í mund. Mér finnst alveg frábært að geta vaknað í rólegheitum yfir kaffi og Mogga en vil helst ekki komast af stað mikið seinna en um tíuleytið. Sofi ég fram að hádegi finnst mér bara eins og hálfur dagurinn sé farinn í vaskinn. Morguninn er besti tími dagsins og líka sá fallegasti eins og sjá má á þessari mynd sem ég tók út um gluggann hjá mér í síðustu viku:

Seinni parti dagsins eyddi ég svo með henni Brynhildi vinkonu yfir kaffibolla, bæði hér heima og á Súfistanum. Mér finnst alveg frábært að eiga svona vinkonudaga þar sem maður ekki bara heimsækir eina vinkonu í smá tíma, heldur hangir með henni allan daginn ... bara svona eins og þegar maður var lítill og fór heim með bestu vinkonunni eftir skóla að leika, fékk svo að borða kvöldmat hjá henni og kannski bara gista líka! Ég ætla að reyna að koma þessu á sem fyrst aftur, held ég bara! Alveg spurning samt hvort vinkonur mínar nenna að gista milli mín og Einars!!!

Já og ég sá á netinu áðan að búið var að skrá mig í sérstakt rannsóknarverkefni í bókmenntafræði! Það er sem sagt ritgerðin sem ég skilaði um helgina. Þó það væri engin einkunn komin var ég ákaflega fegin að málið væri alla vega komið það langt að þessi skráning lægi fyrir! Krosslegg svo bara fingur og vona að ég fái gott fyrir þetta! Mér finnst í rauninni alveg ótrúlegt að hugsa til þess að ég sé að fara að útskrifast, en auðvitað alveg frábært. Finnst líka mikill munur núna að vera „bara“ í MA námi ... þó ég sé nú reyndar ekkert allt of dugleg að læra! Hmmmm ... ég ætti kannski að fara að gera eitthvað í því í staðinn fyrir að hanga í tölvunni!

 

1. febrúar 2004

Loksins, loksins, loksins ...

laus við allan ískalda snjóinn og piparkökuformin og jólasleikjóana sem voru að gera út af við mig!!! Frá og með þessum degi verður vorið við völd á Okkar síðu og blóm, stjörnur og almenn gleði í hverju horni.

Loksins, loksins, loksins ...

er kominn febrúar ... uppáhaldsmánuðurinn minn. Eftir eina viku og einn dag á ég sjálf afmæli og síðasta laugardaginn í febrúar mun ég útskrifast. Reyndar veltur það á því að ég verði ekki felld fyrir ritgerðina sem ég keyrði heim til kennarans í gærkvöldi! Ég á nú ekkert sérstaklega von á því samt. Ég þori varla að segja það enn og aftur en það stefnir nú samt allt í að ég verði orðin bókmenntafræðingur í lok mánaðarins! Ég er strax farin að hugsa mikið um allar afmælis- og útskriftargjafirnar sem ég mun fá!!! Já ég er alltaf voðalega gjafaóð þrátt fyrir að afmælisdagurinn verði sá 28. Þegar við Elli vorum lítil þá var hann einhvern tíman skammaður fyrir að vera alltaf að suða um að fá að kaupa eitthvað þegar farið var í búðir. Hann tók þessa gagnrýni svolítið nærri sér og stundi upp meðan tárin rúlluðu niður kinnarnar: „Ég get bara ekkert að þessu gert, ég er bara dótasjúkur“! Þessum orðum beini ég til ykkar, lesendur mínir, ef ykkur þykir pakkaæðið mitt eitthvað athugavert! Ég get bara ekkert að þessu gert, ég er dótasjúk!!!

Loksins, loksins, loksins ...

var haldið upp á tveggja ára afmæli Huga. Veislan var í gær og fór vel fram þrátt fyrir fjölmenni og fjör. Þið getið séð nokkrar myndir þaðan með því að smella á myndina hér fyrir neðan:

Ég vona að komandi vika og mánuður verði ánægjuleg, viðburðarík og gleðileg hjá okkur öllum!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar