Febrúar og fjör

Um ýmis afmæli, heita drykki, vorblóm og nammiát!

Febrúar er góður mánuður í mínum bókum því þá á ég afmæli! 9. febrúar varð ég 35 ára og fagnaði deginum með sneið af dásamlegu bökuðu ostakökunni minni með hvíta súkkulaðinu. Ég lenti reyndar í smá hremmingum kvöldið áður þegar ég ætlaði að baka kökuna þar sem ég fékk hvergi hafrakex í botninn. Í Svíþjóð er af einhverjum ástæðum engin stemmning fyrir hafrakexi. Ég leysti málið með heilhveitikexi, meira smjöri og púðursykri og náði afar góðri niðurstöðu svo nú þarf ég ekki lengur að óttast hafrakexskort á ögurstundum. Kakan var góð og tók sig vel út á disknum fína sem ég vígði við þetta tilefni.

Í kvöldmat pöntuðum við indverskan og með honum drukkum við glænýtt Ramlösa sódavatn sem framleitt var í tilefni af afmæli mínu. Það er með sólberjabragði og okkur á Konsulentvägen þykir líklegt að það sé besta sódavatn í heimi!

Baldur Tumi var eldhress og kátur í fangi pabba síns að kvöldi afmælisdags ...

... en fannst glatað með afmælisbarninu! (Peysuna fékk ég í afmælisgjöf frá fjölskyldunni!)

Hér eru allir annars hugar yfir afmæliskvöldverðinum og að horfa á eftir Baldri Tuma sem hljóp grenjandi í burtu! Einn sem á greinilega eitthvað erfitt með að deila athyglinni!

Hér á Konsulentvägen ríkir mikið te-æði þessa dagana. Allir heimilismeðlimir eru sjúkir í te, meira að segja Baldur Tumi. Þessi blanda sem Svanhildur sendi okkur er mjög vinsæl en hún er með rósum og jarðaberjum.

         

Og hér má einmitt sjá Baldur Tuma „mata“ Maríu á tei.

Hér eru bræðurnir hins vegar að drekka annars konar heitan drykk eftir göngutúr úti í kuldanum, nefnilega heitt kakó.

         

Baldur Tumi verður æsispenntur í hvert sinn sem einhver fjölskyldumeðlimur gerir sig kláran í að fara út og ætlar með. Gildir þá einu hvert viðkomandi er að fara eða hvort hann sjálfur er klæddur fyrir útiveru!

María var boðin í grímubúningaafmælisveislu til vinkonu sinnar. Hún ákvað að fara sem geisha og einhvern veginn varð að verða við því! Útkoman var ekki sem verst þrátt fyrir að notast væri við náttslopp og trefil úr fataskáp móðurinnar!

         

Rétta yfirbragðinu var fyrst og fremst náð með miklu magni af svörtu hárspreyi, hvítum andlitslit og rauðum varalit. Mér fannst María allt í einu svo lík mér þegar hún var orðin svona dökkhærð - veit ekki hvort það er kannski bara einhver hugarburður. En fín var hún!

Eftir skemmtilega veislu þurfti þó að þrífa andlit og hár rækilega. Þessi skemmtilega tvílita greiðsla birtist þegar spennurnar voru teknar úr hárinu!

Frönsk anemóna. Mér finnast anemónur alltaf svo fallegar á fínum myndum í blöðum en einhvern veginn aldrei nógu sjarmerandi í eigin persónu.

Það eru hins vegar ranaculusar! Svo dásamlega „lífrænir“ og fallegir!

Það er freistandi að trúa því að vorið sé að koma þegar maður sér svona!

Það besta við ranaculusa er að engir tveir eru einu sinni nálægt því að vera eins. Sumir opna sig mikið, aðrir lítið, sumir eru opnir í miðjunni aðrir ekki, sumir vaxa beint upp aðrir beint til hliðar ... og það er fallegt!

         

Fyrstu páskaeggin komu í hús í lok febrúar. Amma Imba sendi krökkunum sex lítil egg og þau voru ekki lengi að gæða sér á fyrsta skammti. Baldur Tumi er mikill nammigrís og tekur ekki í mál að svona góðgæti sé haldið frá honum en stóru systkinin fái að njóta. Það er því ekkert annað í stöðunni en bara að „gilla läget“ eins og svíinn segir.

         

Annars eru svona litlir nammigrísir vel þekktir hér á heimilinu þar sem Hugi var einn slíkur! Ógleymanlegt er augnablikið þegar hann komst í köku í fyrsta sinn ungur að árum og linnti ekki látum fyrr en hann hafði borðað hana alla svo að segja einn! Hann er þó aðeins hógværari í sætindunum í dag þessi elska, nú er það bara Baldur Tumi sem ekki getur hamið sig og fannst stuttu eftir að þessar myndir voru teknar undir borði að hamstra í sig næsta páskaeggi sem staðið hafði til að geyma til betri tíma!

         

Marían mín fína bragðaði ekki sætindi fyrr en langt var liðið á annað aldursárið - svona eins og oft vill verða með fyrstu börn! Hún á því ýmislegt inni í nammiáti. Er nú samt afar kreðsin og borðar ekki hvað sem er. Reyndar finnst henni sennilega 95% af nammi vont en hún er áhugasöm um hin fimm prósentin!

         

Þegar maður er tæplega tveggja ára býður heimurinn upp á fullt af spennandi ævintýrum. Eins og til dæmis að afþíða frystinn! Baldur Tumi hefur sjaldan tekið þátt í jafn skemmtilegu verkefni!

Allir saman að lita í Maríuherbergi.

Baldur Tumi er mjög áhugasamur málari/teiknari sem vindur sér í að skapa listaverk eins og hvert annað verkefni, gengur hratt og örugglega til verks og vinnur af miklum ákafa, með hraði og einbeitingu. Hann getur auðveldlega framleitt 25 listaverk á 10 mínútum og þurfa viðstaddir að „vá-a“ kröftulega yfir þeim öllum!