Fæðing og fyrstu dagar 
Lilla Einarssonar

Óskírður Einarsson fæddist þann 27. maí 2009 klukkan 18:00 á Akademiska sjukhuset í Uppsölum. Hann vó 2970 g og var 47,5 cm langur ... en það vitið þið svo sem nú þegar. Það sem fæstir gera sér hins vegar grein fyrir er hversu ótrúlega mikil rúsína hann er! Við vonum að þetta litla albúm með myndum frá fyrstu dögum lífs hans hjálpi til í þeim efnum!

Hér er hann alveg glænýr! Ef ykkur finnst ég hissa á svipinn þá er það sennilega af því að ég var það! Fæðingin var nefnilega alveg tvískipt, annars vegar nokkuð langur tími þar sem lítið var að gerast og við Einar röltum um ganga fæðingadeildarinnar, hlógum og skemmtum okkur og svo um það bil klukkutími þar sem hlutirnir gerðumst mjög, mjög hratt og allt í einu var hann bara kominn! Og það eina sem ég hugsaði þegar ég sá hann var hvað hann væri fullkominn og lítill!

Hann fór fljótlega að skoða heiminn með þessum alvarlegu og djúpvitru augum sínum og virtist ekki vitund hissa á nýjum heimkynnum. Í gömlu heimkynnunum hafði hann hins vegar lifað djarft og tekist að binda hnút á langa naflastrenginn sinn!

Fyrsta máltíð Lilla fór saman við fyrstu máltíð okkar Einars sem þriggja barna foreldrar. Í Svíþjóð fá allir nýbakaðir foreldrar fikabakka með cider, safti og brauði. Ég veit að þetta lítur ekki merkilega út en ég held að þetta sé sú albesta máltíð sem ég hef á ævi minni borðað!

Erica ljósmóðir merkir okkur Lillann til að sýna það og sanna að við tilheyrum hvort öðru, bæði númer 1622!

Sætasti strákurinn í fluguvigt, bara 2970 g. (Sá sætasti í þungavigtarflokki fæddist fyrir um það bil sjö og hálfu ári síðan og vó 4415 g ... og er einmitt bróðir þessa!)

Sá stutti með konunum sem tóku á móti honum, Ericu ljósmóður og Lisu sjúkraliða.

Ég tímdi voða lítið að leyfa Einari að halda á lillanum! En hér eru þeir saman feðgarnir og virðist lítast vel hvorum á annan!

Fyrsti morgunninn í lífi litla síns! Hér horfir hann íhugull í augu móður sinnar og ekki er annað að sjá en að hann þekki öll lífsins leyndarmál.

Þessa mynd hafið þið væntanlega séð ... en hún er svo sæt að það má alveg birta hana aftur!

Svona eyddu feðgarnir dögunum á sjúkrahúsinu saman. Ég get ekki þakkað nógsamlega fyrir að hafa fengið að hafa Einar hjá mér í sængurlegunni. Eftir að hafa dvalið tvisvar á sængurkvennagangi á Íslandi þar sem pabbar hafa takmarkað dvalarleyfi veit ég alveg hvað það er dýrmætt.

María og Hugi fengu að koma og kíkja á litla bróður strax sama kvöld og hann fæddist en það var bara örheimsókn. Daginn eftir komu þau og dvöldu í góða stund á sjúkrahúsinu, fengu að skoða Lilla í bak og fyrir og prófa að halda á honum. Hér eru María með yngri litla bróður sinn.

Sá litli var værðarlegur hjá stóru systur.

Og Hugi loksins orðinn stóri bróðir! Og ber sig svona fagmannlega að við að halda á þeim stutta, svo stoltur er kannski líka pínulítið feiminn við þessa nýju manneskju.

Amma Imba kom til að halda hús á Konsulentvägen þegar mamman var lögð inn á meðgöngudeild og kunnum við henni hjartans bestu þakkir fyrir. Hún var því í réttu landi þegar lillinn kom í heiminn og fékk auðitað líka að halda á ömmukríli númer þrjú!

Litli bróðir skoðaður í bak og fyrir, tásurnar þóttu sérstaklega sætar!

Svo vildu þau endilega fá að kynna hann fyrir Andrési Önd. Stóra systir las með tilþrifum og bræðurnir hlustuðu stilltir á.

Lilli spjallar við mömmu sína á öðrum degi þessa nýja lífs.

Svo var bara slakað á!

Hér er lillinn á þriðja degi og mér er spurn: Er hægt að vera meiri rúsína en þetta?!

Við höfðum gert okkur vissar vonir um að verða sleppt heim af sjúkrahúsinu þann daginn en ekkert varð af því. Veisla undir yfirskriftinni „Velkominn í heiminn litli bróðir og takk fyrir hjálpina amma“ var því flutt af Konsulentvägen á setustofu spítalans þar sem við snæddum prinsessutertu og drukkum gos og kaffi.

Og Lilli fór í föt í tilefni dagsins, þennan sæta galla sem hann fékk frá ömmu sinni þegar ljóst varð að hann myndi fæðast töluvert minni en áætlanir höfðu gert ráð fyrir og því yrði fátt um passlegan klæðnað!

Hann er svo fullkominn að hann er meira að segja með lítið hjartamunstur í hægri lófanum!

Og ekki eru táslurnar nokkuð minna en fullkomnar heldur!

Tíu stykki ... og alveg ónotaðar iljar!

Svo er hann með minnsta og sætasta spékopp í heimi! Ég get ekki beðið eftir að sjá hann birtast með hverju brosi en þangað til verðum við að sætta okkur við að sjá hann af og til í tengslum við litlu svefngeiflurnar.

Fjórði dagurinn runninn upp og fjölskyldan kúldrast uppi í sjúkrarúmum eftir að 3/5 hennar höfðu keyrt ömmu á flugvöllinn. Á þessum tímapunkti gerði ég mér litlar vonir um að fá að fara heim þann daginn.

En vindar snerust snögglega okkur í hag og allt í einu vorum við á leiðinni heim! Lilli var drifinn úr sjúkrahússdressinu og í heimferðafötin (sem að vísu eru önnur en ég hafði haft í huga á meðgöngunni þar sem þau eru allt of stór!) en kippti sér ekki mikið upp við tilstandið.

    

Ýmis andlit Lilla Einarssonar.

Í heimferðapeysunni sem mamman prjónaði. Hafði reyndar haft af því stórkostlegar áhyggjur að hún yrði alveg ónothæf vegna a) smæðar b) sumarhita en slíkt reyndist óþarfi þegar til kom. Peysan er vel við vöxt og þótt vissulega hafi verið 26° úti daginn sem við fórum heim hafði ég gleymt að bíllinn ver vel loftkældur og nauðsynlegt fyrir lítinn líkama að vera sæmilega hlýlega klæddur þar.

Og hér erum við mæðginin í síðasta sinn saman undir bleiku höllinni og dómkirkjuturnunum. Þótt ég hafi verið óendanlega fegin að komast heim var það örlítið tregablandið líka. Því hvað er annað hægt en að þykja vænt um staðinn þar sem maður fann litla barnið sitt sparka síðustu dagana áður en það kom í heiminn og eyddi þeim fyrstu í að horfa í augu þess.

Á leiðinni út komum við við á fæðingardeildinni til að setja bláan títuprjón í reitinn fyrir 27. maí.

Hér er hann, lillinn okkar, í fjórða reit að neðan, sá ysti til hægri! Einn af þremur drengjum sem fæddust á sjúkrahúsinu þennan dag og fimm stúlkum! Svo lítill í fjöldanum en svo stór í hjörtum okkar foreldranna.

         

Ég sendi Einar líka í leynileiðangur inn í innstu afkima fæðingardeildarinnar til að taka myndir af þessum myndum sem við skemmtum okkur endalaust yfir í fæðingunni. Á þeirri vinstri er ein af ljósmæðrunum okkar (sú sem var á vakt þegar við mættum á deildina en var fljótlega leyst af hólmi af Ericu) ásamt einhverjum manni sem við vitum ekki hver er en lítur virkilega út fyrir að hafa fengið sér aðeins of marga folköl! Og maðurinn á hægri myndinni gladdi okkur líka mikið enda gæti hann auðveldlega verið pabbi félaga Einars úr læknadeildinni!

Og svo var loksins komið að því að halda heim á leið! Stóru systkinin voru spennt og Einar glaður að hafa loks tekist markmiðið að fylla bílinn af börnum!

Á tröppunum heima í fyrsta sinn.

Loksins, loksins kominn heim í vögguna sína!