Enn fleiri ömmudagar

Minnuga lesendur Okkar síðu rámar kannski í þegar við fengum tvær ömmur í heimsókn hingað á Konsulentvägen skömmu eftir að við fluttum. Um þá heimsókn var fjallað í albúminu Ömmudagar. Nú í júní komu þessar sömu ömmur aftur í heimsókn og í þessu albúmi eru myndir frá þeim ömmudögum!

Ömmurnar lentu á Arlanda seint um fimmtudagskvöldið 23. júní. Það gafst því ekki tími til neins annars en að snarla með þeim kex, osta og rabarbaradrauma áður en farið var í háttinn. En daginn eftir, á sjálft Midsommarafton, drifum við þær snemma af stað og beint út í garð. Amma á Bakkastöðum og María voru glaðar að hittast aftur.

Einar fór með ömmu á Sóló í kynnisferð um garðinn og mátti vart á milli sjá hvort var fróðara um plönturnar okkar og trén.

Er þetta ekki dásamleg mynd? Hér vinka amma og Baldur Tumi hvort til annars meðan sá síðarnefndi mokar í sandkassanum með hinni ömmunni.

Baldur Tumi kann sjálfur að príla upp í hengistólinn og kúrir nú þar löngum stundum og gerir „vííí“.

Amma og María eiga eins myndavélar og mynda vííí-ið í bak og fyrir hvor í kapp við aðra.

Ömmurnar með barnabörnin og barnabarnabörnin. Amma á Bakkastöðum á þrjú barnabörn og er því umvafin þeim öllum á myndinni, amma á Sóló á átta barnabarnabörn og sést hér með því fyrsta, fjórða og áttunda.

Amma á Sóló kom af stað miklu jongl-æði hér á Konsulentvägen þegar hún reyndi að kenna Maríu og Huga að jonglera með tveimur og jafnvel þremur boltum. Hér eru þau Hugi að í smá undirbúningsæfingum og kasta tveimur boltum á milli sín í einu.

Meðan börn og ömmur köstuðu boltum kannaði Einar stöðuna undir kartöflugrösunum.

Og viti menn, nokkrar litlar rauðar cherie kartöflur voru tilbúnar og biðu þess eins að fá að komast á diskana okkar með sjálfri Midsommarmáltíðinni.

Baldur Tumi tók langömmu sinni auðvitað stórvel eins og öðrum gestum. Hér er hann að rétta henni bolta í von um frekari boltakúnstir.

Baldur Tumi vill gera allt eins og stóru systkini sín. Ef þau klifra í trjám þarf hann augljóslega líka að klifra í trjám. Sumir eru nefnilega tveggja ára alveg að verða ellefu! Hér nýtur hann aðstoðar stóru systur en virðist þrátt fyrir allt vera svolítið smeykur.

         

Amma á Sóló kom stórkostlega á óvart þegar hún lenti kvöldið áður og færði okkur Maríu sitthvora hekluðu peysuna, gerða af sínum eigin meistara höndum. Mín er dökkgrá með blúndukanti og hér er María í sinni sem er ljósblá í grunninn með ýmsum íslenskum jurtum á berustykkinu. Hún var svo ánægð með peysuna sína að hún valdi að fara í henni á Midsommarhátíðina í Ekeby. Sumir fóru þangað hjólandi aðrir fóru akandi ...

... en öll komumst við á leiðarenda skömmu síðar.

María, amma og Hugi tylltu sér niður og fylgdust með fiskidammi, froskadansi og öðru sem tilheyrir þessum degi.

Hugi stóri strákur.

Kát fegðin.

Ömmur á bekk og sofandi drengur í kerru.

Á leið heim aftur.

Þegar við vorum komin aftur heim á Konsulentvägen löguðum við allra bestu Midsommarmáltíð sem sögur fara af! Í aðalhlutverki var íslenskur humar, í aukahlutverkum ferskur aspas, kartöflusalat úr cherie kartöflunum, súrdeigsbrauðið hans Einars, piprað jarðaberjasalat og áreiðanlega eitthvað sem ég er að gleyma!

Tilraun til að fanga dýrðina á mynd! Þarna aftast stendur blómvöndur úr sjö sortum af blómum í tilefni dagsins. Eins og dyggir lesendur muna áreiðanlega er það sænsk þjóðtrú að ef maður sofi með sjö tegundir af blómum undir koddanum sínum aðfaranótt Midsommar dreymi mann tilvonandi maka.

Það verður að vera jarðaberjaterta í eftirrétt á Midsommar hér í Svíþjóð. Annað telst áreiðanlega lögbrot! Við Íslendingarnir tökum það hins vegar bara rétt mátulega hátíðlega og hér á Konsulentvägen var boðið upp á frosna ostaköku með ferskum jarðaberjum. En gott var það!

Á laugardeginum, sjálfum Midsommardeginum, höfðum við okkur hæg, dóluðum okkur í garðinum, borðuðum þar hádegismat og hvíldum okkur eftir hátíðahöldin daginn áður. Baldur Tumi fékk alls konar gott að borða sem skildi eftir sig minjar hér og þar um andlit og bol!

Hádegisverður í sólinni. Skömmu seinna fór þó að rigna og við flúðum inn.

Með sólgleraugun hennar langömmu.

Enn meiri afrakstur af bökunaræðinu. Þetta eru möndlu- og appelsínusnittur sem tókust svona la la. En ég bjó til möndlumassann sjálf og vona að ég fái nokkur prik fyrir það á móti mínusunum sem ég hlýt að fá fyrir að kunna ekki að „ringla“ glassúrunum yfir á lekkeran hátt heldur gera bara stórar klessur!

Á sunnudeginum leigðum við lítinn bíl og keyrðum öll til Sigtuna. Þar byrjuðum við á að setjast niður á Farbror Blå og panta okkur dýrindismáltíð.

Aðalmaðurinn sat auðvitað við borðsendann.

Systkinin stóru.

Eftir frábæra máltíð á Farbror Blå röltum við nokkur skref yfir í ráðhúsið. Frá því hefur nú einhvern tímann áður verið sagt á þessari síðu en það er alla vega lítið og sætt og það var sjálfur bæjarstjórinn sem teiknaði það á sínum tíma og byggði ásamt bæjarbúum. Hér er amma með strákana sína fyrir utan.

  

Það er alltaf vinsælt að príla í trjánum niðri við vatnið!

         

Hugi klifurköttur (mér sýnist hann annars vera að þróa sama myndasvip og Elli bróðir notaðist við á tímabili!).

Kærleikstréð!

Við tylltum okkur niður á þessa fínu nýju flotbryggju sem búið er að koma fyrir út í Mälaren. Þetta finnst mér fín mynd!

Bláklæddir feðgar með alls konar draumahús í baksýn.

Hugi og María klifruðu æsilega hátt upp í einn pílviðinn.

Nú er Hugi orðinn mjög virkur þátttakandi í heimasíðugerðinni! Þessari mynd leikstýrði hann sjálfur og stakk upp á að hún héti Niðurferðin hér á síðunni!

Niðurferðin II.

Niðurferðin III. Þarna var óttinn reyndar orðinn alveg ekta!

Baldur Tumi fylgist með bra-bra með bra-bra duddu.

Með stóru systur.

Er ekki hægt að komast eitthvað nær?!

Mæðgurnar fóru svo aftur til Íslands seint á mánudagskvöldi. Eftir skemmtilegan dag í bænum náðum við að borða kvöldmat saman og svo gerði María þennan glæsilega eftirrétt.

Allir saman í síðasta sinn í bili!

Takk fyrir komuna elsku bestu ömmur!