Einar verður 33ja ára!

Já hann Einar minn átti afmæli 5.desember ... ótrúleg tilviljun, hann hefur einmitt átt afmæli 5. desember öll undanfarin ár!

Nokkrir pakkar biðu tilbúnir kvöldið áður! Stóru pakkarnir tveir frá eiginkonu og börnum, litla silfurlita pakkann sendi mamma hans Einars honum og pakkann með grænu stöfunum skildi Inga eftir áður en hún sneri aftur til Haag.

Að morgni afmælisdagsins settumst við niður með kakó og kaffi og fylgdumst með Einari opna gjafirnar. Hér er hann að skoða bókina sem hann fékk frá Ingu, Hjälp, jag er med trädgård! Mikið þarfaþing!!!

Hugi hinn nývaknaði var hress og kátur með kakóið sitt!

Þessi sybbulína var líka glöð!

Einar opnar pakann frá móður sinni sem innihélt geisladisk með Baggalútsbandinu. Við börnin gáfum Einari hins vegar nýtt, risastórt og viðbjóðslega þungt mortél og eplaskífupönnu. Mér leið dálítið eins og ég væri að vera pínulítið góð við þrælinn minn!!! En þetta var það eina sem maðurinn gat sagt að sig langaði í!!!

Þegar allir voru komnir heim úr vinnu, skólum og jólagjafainnkaupaleiðangri settumst við saman og fengum okkur prinsessutertu sem ég hafði keypt í Landings konditoriinu fyrr um daginn.

Það er alveg sama hvernig fólki finnast prinsessutertur á bragðið, það getur enginn mælt á móti því að þær eru ákaflega fallegar!!!

Festlegt með marsípanrós!

   

Þar sem ég var dálítið leið yfir þessum lélegu gjöfum sem ég gaf mínum frábæra manni þarna um morguninn ákvað ég að bæta um betur í bæjarferðinni um daginn og keypti handa honum þennan ullarfrakka. Minnið mig endilega á það næst þegar þið hittið mig að skrifa hjá mér hvaða stærð hann notar í jökkum svo ég þurfi ekki í framtíðinni að kveljast af áhyggjum yfir hvort gjafirnar passi!!!

Mig langaði líka dálítið til að gefa Einari eitthvað alveg sérstakt, ekki bara eldhúsáhöld eða fjöldaframleitt dót úr H&M! Ég fór því í litla antikbúð í miðbænum og þar fann ég þessa dásamlegu mynd sem ég gaf honum líka!

Ég veit ekki hversu vel það sést en þetta svarta er sem sagt pappír sem er búið að skera út og leggja svo á hvítt blað! Alveg ótrúlegt bara!!!

  

Myndin heitir, eins og augljóst er, „Die schönsten Tulpen“ og er handútskorin af Margot Hoffmann (veit náttúrulega ekkert hver það er!!!) árið 1958! Ég verð að játa að ég átti pínu ponsu erfitt með að gefa þessa mynd ... það rann á mig eitthvað svona Gollum-æði þegar ég stóð með hana í höndunum og mig langaði bara að eiga hana sjálf og alein!!! En þar sem við Einar búum nú saman þá ákvað ég að láta slíkt ekki eftir mér, ég fæ jú engu að síður að hafa hana uppi á vegg heima hjá mér sem er náttúrulega bara nákvæmlega það sama og hefði gerst ef ég hefði átt hana sjálf!

Börnin sitja hér og horfa á jóladagatal sænska ríkissjónvarpsins. Okkur þykir það óvenjuvel heppnað enda gert eftir bókaflokknum um einkaspæjarana Lassa og Maju (eða Massa og Laju eins og þau eru gjarnan kölluð her á Konsulentvägen) sem María hefur mikið gaman af! Greinilegt að glæpasöguáhuginn erfist í beinan kvenlegg!!!

Einar sat hins vegar í nýja frakkanum í stofusófanum og blaðaði í Hjälp, jag er med trädgård. Alveg ótrúlegt hvað hann virðist pollrólegur miðað við æsinginn í titlinum!!! Myndin fagra er líka þarna, upstillt og tilbúin til þess að við getum dáðst að henni! Kannski þarf Inga að koma aftur í heimsókn til að við höfum það af að hengja hana upp á vegg?!!

Feðgarnir luku afmælisdeginum svo með því að horfa örlítið á sjónvarpið saman. Einn 33ja ára, hinn alveg rétt bráðum að verða 5!

Þetta eru uppáhaldsstrákarnir mínir!!!