Edinborgarferð stórfjölskyldunnar

 

16. - 23. júlí 2004

 

Við lögðum af stað eldsnemma föstudagsmorguninn 16. júlí. Þarna eru Elli, Einar, María og Hugi í Leifsstöð.

Hér er Hugi svo að bíða eftir að vélin fari í loftið. Hann sofnaði rétt fyrir flugtak og vaknaði ekki aftur fyrr en vélin var farin að lækka flugið. Á heimferðinni náði hann að sofa frá því í flugtaki og alveg þangað til vélin var lent svo það má segja að reynsla hans af flugferðum sé enn frekar takmörkuð.

Eftir flugferð, lestarferð og tvær leigubílaferðir komumst við loks í íbúðina okkar í Morningside hverfinu í Edinborg. Þar sem allir voru ferðalúnir tókum við daginn rólega en kíktum nú samt út á stóran róló sem var staðsettur rétt við húsið.

Systkinin skemmtu sér hið besta þarna og það var daglegur viðburður að kíkja út á róló alla vikuna.

Á laugardeginum brugðum við undir okkur betri fætinum og skelltum okkur með strætó niður í bæ. Hér eru Elli og Einar framan við húsið okkar að leggja af stað.

Miðborgin er sérstaklega falleg og hér erum við stödd í gamla bænum, rétt við kastalann sem er helsta auðkenni Edinborgar.

Maríu leist vel á sig þarna.

Fjölskyldan styttir sér leið.

Ætlunin hafði verið að skoða kastalann en þegar að honum kom leist okkur ekkert á ferðamannastrauminn og ákváðum að bíða örlítið með það og rölta frekar niður í bæ. Þarna erum við enn í gamla bænum.

Þarna erum við fyrir utan Súkklaðisúpuna en þann veitingastað er ég að hugsa um að flytja inn til Reykjavíkur! Súkkulaðikökur, súkklaðidrykkir, súkkulaðisúpur, súkkulaðifondue ... er þetta ekki draumastaður allra?!

Frændurnir skoða sig um í nýja bænum.

Við settumst svo niður með ís í Princes Street Gardens sem eru, eins og nafnið gefur til kynna, við aðalgötu borgarinnar Princes Street.

Þar fannst Huga afskaplega gaman að skoða dúfurnar ...

...en systir hans hafði miklar áhyggjur af honum og fór og sótti hann þegar henni fannst hann kominn of langt í burtu. Hún var almennt mjög ábyrgðarfull í ferðinni og gerði sér grein fyrir því að í útlandinu væri betra að vera með foreldrana í augsýn allan tímann. Hún skammaði okkur líka mikið ef henni fannst við fara of langt í burtu frá henni eða Huga ... sem var að hennar mati ekki nema svona meter!

María fékk þessi fínu sólgleraugu sem hún var einstaklega montin með!

Úr görðunum er útsýni yfir gamla bæinn og þar gægjast turnar upp úr laufþykkninu með reglulegu millibili.

Þar er líka glæsilegt útsýni yfir kastalahæðina. Það verður ekki annað sagt en að virkinu hafi verið vel valinn staður því þarna upp kemst enginn nema með ærnum tilkostnaði!

Elli tekur mynd af mér ... og ég af honum.

Í görðunum er þessi fallegi gosbrunnur og þarna gnæfir kastalinn yfir gestum og gangandi.

Í garðinum var ótrúlega falleg og gömul hringekja. Ég tók örugglega svona fjörutíu myndir bara af henni en er að hugsa um að láta nægja að sýna ykkur þessa!

Og svo þessar af knöpunum! María með ömmu sinni.

Feðgarnir.

Og Elli setti sig í kúrekastellingar áður en haldið var heim!

Íbúðin sem við dvöldum í var bæði þægileg og snyrtileg en það verður seint sagt að hún hafi verið smekkleg! Hverjum dettur í hug að blanda flöskugrænu við ferskjubleikt og troða svo einhverju skærgulu með?!

Svona var útsýnið út um herbergisgluggann okkar Einars. Svolítið spes að vera með kirkjugarð fyrir augunum en samt mjög fallegt. Ekki spillti fyrir að krökkunum fannst rosalega gaman að fylgjast með litlu íkornunum sem þar skoppuðu um.

Á sunnudeginum var yndislegt veður og við ákváðum að skella okkur í Grasagarð þeirra Edinborgarbúa. Hér er María skvísa að bíða eftir strætó.

Einar í kunnuglegum stellingum, með ferðahandbókina uppi við og rýnandi í tímatöflur strætisvagnanna! Elli kærir sig kollóttan!

Hugi í kerrunni!

Það var dásamlega fallegt í Botanic Gardens og hér eru mamma og Elli undir risarabarbara ... sem var kannski ekki alveg rabarbari en leit nákvæmlega eins út fyrir utan stærðina!!!

Mamma, Elli, ég, María og Hugi virðum tjörnina fyrir okkur.

María fékk svo gefins brauð frá einhverri gamalli konu og kastaði til andanna og svananna.

Svanirnir voru reyndar ansi styggir enda að koma upp ungum og það var því sérstakur vörður við tjörnina sem sá til þess að þeir létu gestina í friði!

Takið eftir trénu sem fjölskyldan stendur undir. Þetta lítur út fyrir að vera dálítið spes barrtré ...

... en greinarnar voru í raun svona! Æ, kannski þykir engum þetta merkilegt nema mér!!!

   

Ég tók að sjálfsögðu góðan slatta af blómamyndum í sjálfum blómagarðinum en er þó að hugsa um að hlífa ykkur við þeim að mestu. Hér er þó smá sýnishorn!

Og þessi yndislega vatnalilja verður að fá að fljóta með (í orðsins fyllstu merkingu ... eða fljóta þær ekki annars?!)! Ég elska vatnaliljur og vildi óska að ég gæti ræktað þær í baðkarinu, sturtubotninum og öllum vöskum heimilisins!

Maríu og Huga fannst óskaplega gaman að skoða þessa litlu tjörn og róta þar með greinum sem þau fundu! Aðrir gestir garðsins voru farnir að hafa töluverðar áhyggjur af að Hugi myndi steypa sér út í enda tefldi hann oft á tæpasta vað!

Þarna í garðinum er þessi fallegi lækur.

Gróðurinn verður ansi þéttur á köflum og ég hefði verið meira en til í að rölta alla þessa litlu stíga þarna fram og til baka en barnanna vegna var nú reynt að halda slíku rölti í lágmarki.

Við settumst svo niður á grasflöt og sóluðum okkur smávegis og borðuðum nesti.

Hugi kátur í garðinum.

Og þessi blómamynd verður líka að fá að fylgja með. Þetta er skrýtnasti gróður sem ég hef á ævi minni séð!!!

Elli með Maríu frænku sína.

Við systkinin þykjum einstaklega lík á þessari mynd ... ég sé það nú ekki alveg sjálf en það er kannski eitthvað til í þessu?!

Hugi var alveg búinn að fá meira en nóg af Botanic Gardens og tók sér blund síðasta spölinn!

María fékk þessa sætu kanínu í gjafaverslun garðsins. Hún fékk nafnið Helín sem er einmitt sama nafn og ósýnilega prinsessuvinkonan ber! Það var heilmikið umstang í kringum Helínarnar báðar í ferðinni og þurfti gjarnan að taka tillit til þeirra við alla skipulagningu!!!

Það skemmtilega við þessa ferð var að þetta var eins og nokkurs konar sambland af stórborgarferð og sumarbústaðaferð. Á daginn gátum við spókað okkur um í sögufrægum byggingum og á verslunargötum en á kvöldin höfðum við það notalegt í ósmekklegu stofunni og spiluðum skrafl fram eftir öllu. Það myndaðist gríðarlegur keppnisandi í spilamennskunni og menn bitust hart um efsta sætið!

Á mánudagsmorgninum drifum við okkur loks í kastalann. Þarna er horft af virkisveggnum yfir Princes Street og garðana.

Á hverjum degi klukkan 13:00 er skotið úr fallbyssu (ekki kúlu samt) frá virkisveggnum og segir sagan að upphaflega hafi þetta verið gert til að skipverjar í höfninni gætu stillt allar klukkur nákvæmlega. Það er skotið frá þessum turni og við biðum í ofvæni eins og næstum allir kastalagestir. Þennan dag geigaði skotið hins vegar og það varð því ekkert af því að við upplifðum þennan skemmtilega sið því útilokað var að skotmaðurinn græjaði allt upp á nýtt fyrir annað skot því þá hefði klukkan vitanlega ekki lengur verið 13:00!

Karlmennirnir í kastalanum.

Amma og María við eina fallbyssuna.

Kastalaveggur.

Efst á hæðinni er eldgömul, pínulítil kapella með fallegum steindum gluggum. Þar inni leið Maríu afskaplega vel og það reyndist erfitt að draga hana út aftur.

Það var algjört lykilatriði að vera með nesti í bakpoka fyrir krakkana. Þegar þau voru orðin þreytt var hægt að bjóða upp á smurðar samlokur, drykki, kex og rúsínur sem hressti liðið til muna!

Við fórum svo og skoðuðum krúnudjásnin sem eru þau elstu í Evrópu (engin ábyrgð tekin á að rétt sé farið með staðreyndir!). Þar sem það mátti alls ekki mynda þau verðið þið að láta ykkur nægja þessa kórónu sem var hluti af sögusýningu um djásnin. Það hefði verið áhugavert að hafa tækifæri til að kynna sér þá sögu nánar enda virðist hún ótrúlega spennandi þar sem djásnin voru meðal annars falin undir rúmdýnu, grafin undir kirkjugólfi til að forða þeim frá styrjöldum og svo voru þau týnd til fjöldamargra ára.

Við snæddum svo hádegisverð á kastalasvæðinu og höfðum það notalegt.

Amma með ömmukrílin.

Er nokkuð skoskara en þetta?!

Eftir kastalaferðina fór hluti fjölskyldunnar í verslunarleiðangur en aðrir héldu áfram og skoðuðu St.Giles kirkjuna þar sem þessi mynd er tekin.

Þaðan var haldið í Holyrood Park en þangað flutti konungsfjölskyldna aðsetur sitt þegar kastalinn þótti ekki nógu smart lengur! Mér finnst þetta sætasta myndin sem tekin var af Huga í ferðinni!

María fékk kórónu og velidssprota í gjafabúð á kastalasvæðinu og var gríðarlega ánægð með sig. Hún hafði reyndar þó nokkrar áhyggjur af því að fólk horfði ekki nógu mikið á hana og dáðist að kórónunni. Um kvöldið sagði hún við mig um fólkið sem hún mætti þennan dag: „Það var með augun á mér en það SÁ mig ekki“!!! Athyglin var engan veginn næg!

Á þriðjudeginum var farið í dýragarðinn í Edinborg sem er hinn glæsilegasti. Þarna kúrir sig sæljón á klöpp og hefur það notalegt í sólinni.

Dýragarðurinn sjálfur er ótrúlega fallegur og hið besta útivistarsvæði. Hann stendur í einni af hæðum borgarinnar og gestirnir reka sig eftir krókóttum stígum til að skoða dýrin. Inni á milli eru svo fínustu svæði þar sem hægt er að tylla sér niður og hafa það gott. Þarna stendur til dæmis lítill kastali inni í miðjum garði.

Einar að borða nesti!

Ísbjörninn hefur sennilega verið með einhverja þráhyggjuröskun því hann gekk fram og til baka í búrinu sínu enda kannski fullheitt fyrir hann í borginni!

Amma, Hugi og María. Þarna blasir borgin við ofan úr hlíðum dýragarðsins.

Tasty burger á Grillin' and Chillin'!

Okkur fannst skemmtilegast að skoða tígrisdýrin enda var búrið þeirra einstaklega skemmtilegt og aðgengilegt ... þessi mynd er nú samt tekin með aðdráttarlinsu ... það var ekki alveg svona aðgengilegt! Tígrisdýrin voru fimm, mamma, pabbi og þrír stálpaðir hvolpar.

Þessi var alveg örugglega pabbinn í það minnsta hagaði hann sér sérdeilis valdsmannslega!

Þessi sæti fugl gerði heiðarlega tilraun til að gogga linsuna mína í þúsund mola!

Gíraffar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta eru eitthvað svo óendanlega fallegar og friðsamlegar skepnur enda var þessi nánast fyrir „opnum dyrum“ þarna.

Mörgæsagarðurinn sem dýragarðurinn í Edinborg státar af er einn sá stærsti í heimi. Þarna eru a.m.k. þrjár tegundir af þessum krúttlegu dýrum og öll aðstaða til fyrirmyndar bæði fyrir íbúa og gesti! Það er meðal annars hægt að fylgjast með mörgæsunum neðansjávar í gegnum stórar glerrúður sem eru á tankinum þeirra og okkur fannst það ótrúlega fyndið ... sérstaklega þegar þær kúkuðu í vatnið!

Er þetta ekki örugglega keisaramörgæs?

Okkur Ella fannst þessi mesta dúlla í heimi. Hann stóð þarna eitthvað svo úfinn, reyttur og stjarfur. Það hefði t.d. ekki breytt nokkru að sýna ykkur vídeóupptöku af honum því hún hefði verið nákvæmlega eins og að stara á þessa mynd í eins og tíu mínútur!!!

Hér er svo þriðja tegundin af mörgæsum ... þessi er nú ansi fyndinn líka!

Morgunverður við Balcarres Court. Kórónan er á sínum stað en veldissprotinn var reyndar komin í mola þegar þarna var komið sögu! Á miðvikudeginum átti ég svo ansi drjúgan dag í búðunum en Einar var með börnin í íbúðinni á meðan enda töldum við að þau hefðu enga eirð í sér á búðarápi. Raunin var hins vegar sú að þau voru aldrei eins pirruð og þennan dag og aldrei eins mikið fyrir þeim haft!

Á fimmtudeginum fórum við í Rosslyn kirkjuna sem stendur í smábænum Roslin rétt fyrir utan Edinborg. Elli stökk og keypti sér þennan æðislega gítar rétt áður en lagt var af stað og hann var því með í för og þótti við hæfi að taka hann aðeins upp þarna úti í sveit. Gítarnum vorum við systkinin annars búin að dást að frá því fyrsta daginn í ferðinni og það gladdi mig því mikið að Elli skyldi fjárfesta í honum!!!

Rosslyn kapellan er eldgömul og væntanlega flestum lesendum Da Vinci lykilsins að góðu kunn úr lokaköflum bókarinnar! Á þessari mynd má sjá brot af einum steinda glugganum.

Eins og margir muna eflaust er kirkjan fræg fyrir urmul táknmynda og tengsl sín við frímúrararegluna. Þessi hvelfing er víðfræg og þykir ákaflega fögur.

Það var alveg rosalega gaman að skoða þessa litlu kirkju sem er alveg sérdeilis falleg og hlýleg.

Flestar skreytingar í krikjunni eru orðnar mikið máðar af elli en mér fannst þessi eitthvað svo krúttaraleg ... það er eins og þessi mikli maður svífi þarna um með bikarinn í höndum!

Kirkjan er ekki síður falleg að utan og þar hefur verið komið fyrir nokkuð háum stillönsum í kring svo gestirnir geti virt þessa gömlu og ellihrumu byggingu almennilega fyrir sér að utan líka.

Þessi mynd er tekin ofan af þeim og þarna sitja Einar og börnin og gæða sér á nesti í garðinum umhverfis kirkjuna.

Og þarna erum við systkinin aftur! Hér átti nú að sjást í allt útsýnið ofan af pöllunum yfir sveitirnar í kring en það verður víst ekki á allt kosið þegar sjálfsmyndatakan er annars vegar!

Í garðinum við kirkjuna er ein gröf með stórum minnisvarða við. Ég missti mig alveg í myndatöku þar en hugsa að ég láti nægja að sýna ykkur þessa mynd ...

... og þessa sem er í algjöru uppáhaldi. Andlitið verður eitthvað svo lifandi nema fyrir allan köngulóarvefinn sem minnir áþreifanlega á að þetta er bara stytta. Og ef vel er að gáð má sjá spunakonuna þarna undir hárinu rétt ofan við eyrað ... ótrúleg köngulóarhlussa sem ég tók ekkert eftir þegar myndin var tekin en blasti skyndilega við þegar ég var að stækka einstaka hluta hennar upp!!!

Já, já, það voru víst teknar einhverjar myndir af mér í ferðinni þó ég hafi aðallega verið hinum megin við linsuna!

Á leiðinni frá Rosslyn mætti Elli þessum hressa Íra sem vildi fá að skoða gítarinn ... við vitum ekki alveg hvað honum fannst um litinn en í það minnsta var hann spenntur fyrir að fá Ella í gigg með sér ... sem reyndar gekk ekki eftir þar sem við vorum á leið úr landi!

Á leiðinni frá Rosslyn.

Hugi að bíða eftir strætó í Roslin (og ef einhver er að velta því fyrir sér ... já, nafnið á kirkjunni er skrifað Rosslyn en nafnið á þorpinu Roslin).

Meðan við biðum eftir strætó skelltum við okkur á krá þar rétt við. Elli og María voru ótrúlega sæt saman!

Bleiuskipti á barnum!!! Og Hugi orðinn svolítið sybbinn.

Hugi og María halda utan um hvort annað í strætó!

Eftir Rosslyn fórum við á smá loka bæjarrölt en enduðum svo á rosalega skemmtilegum stað sem heitir The Apartment. Þar þarf reyndar að panta borð með margra vikna fyrirvara en við vorum svo heppin að vera snemma á ferðinni og gátum skotist inn á undan allri traffík. Þau systkinin stóðu sig ótrúlega vel á svona fínum veitingastað!

Og við systkinin stóðum okkur rosalega vel líka!

Mér finnst þessi mynd líka alveg ótrúlega sæt ... Elli og María bíða eftir strætó!

Fyrr um daginn hafði verið fjárfest í þessum dásamlega álfaprinsessubúningi og hann var auðvitað mátaður um leið og komið var heim!!! Kórónuna þurfti auðvitað að hafa með og að sjálfsögðu varalit og naglalakk!!! Það skal tekið fram að undanfarnar vikur hefur daman varla verið komin inn úr dyrunum þegar hún er búin að skipta yfir í þetta dress!

Kominn föstudagsmorgun og við að leggja af stað heim aftur! Við urðum þó að festa minninguna um herbergið okkar í sessi með myndatöku. Inni í því var bókstaflega allt með hinu skoska tartan mynstri, rúmteppi, veggfóður, límborðar á veggjum, ruslafatan og m.a.s. borðinn sem myndirnar héngu í var tartan!!!

María og Hugi í leigbíl á leiðinni á lestarstöðina í Edinborg. Þaðan var svo haldið með lest til Glasgow þar sem aftur var farið með leigubíl út á flugvöll og þaðan flogið heim! Við vorum alveg alsæl með hvað öll þessi ferðalög gengu vel og Maríu og Huga þótti þetta bara skemmtilegt!

Að lokum tökum við fram að Edinborg er frábær borg sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara!

Lifi Skotland!