Dund og dútl

Við fjölskyldan höfum dundað okkur við eitt og annað í febrúarmánuði og sjálfsagt sinnt flestöllum okkar áhugamálum  fyrir utan ljósmyndun! Myndavélin hefur fengið óvenjumikla hvíld undanfarnar vikur ... sem er kannski bara ágætt! Hér eru þó nokkrar febrúarmyndir héðan og þaðan.

Fyrstu helgina í febrúar snjóaði dálítið hjá okkur og á sunnudagsmorgninum var allt hvítt og óskaplega fallegt. María og Tilda vinkona hennar nýttu tækifærið og reistu risa snjókarl fyrir aftan hús hjá okkur. Snjórinn var hins vegar að mestu horfinn daginn eftir og snjókarlinn dottinn beint á fína gulrótarnefið!

Samkvæmt fjölskylduhefð bakaði Einar vatnsdeigsbollur á bolludaginn. Hér er fjölskyldan samankomin við borðstofuborðið en flassið varð hins vegar eftir uppi á lofti og fókusinn eftir því!

María fékk krakkamatreiðslubók í jólagjöf og hefur verið iðin við að baka og elda síðan. Hér er hún að baka pizzur í hádegismatinn handa okkur einn sunnudaginn.

  

Pizzurnar komnar á borðið og systkinin í kjánastuði!

Um miðjan febrúar fór ég með nýja kórnum mínum í æfingabúðir til Gysinge sem er í um það bil klukkutíma akstursfjarlægð frá Uppsölum. Ég gat hins vegar bara tekið þátt fyrri daginn þar sem Einar var á vakt á sunnudeginum og eftir miklar bollaleggingar og  mikið vesen var ákveðið að Einar, María og Hugi kæmu bara með, skoðuðu sig um í sveitinni meðan ég syngi raddböndin í hnút og sæju svo um að ferja mig heim um kvöldið. Þetta reyndist þegar allt kom til alls ekki alvitlaus ráðstöfun því þremenningarnir skemmtu sér hið besta í ferðinni, rannsökuðu umhverfið vel og vandlega og komust að þeirri niðurstöðu að við þyrftum að skreppa til Gysinge aftur að sumarlagi! Hér er María við gömlu mylluna með kanínuna Helínu undir arminum.

Systkini í skoðunarferð ...

... og að fá sér snúning á svellinu við värdshúsið!

Vikuna 18. - 22. febrúar voru María og Hugi í fríi frá skóla og leikskóla vegna hins svokallaða sportlovs. Engar íþróttir voru þó iðkaðar hér á Konsulentvägen en þeim mun meira föndrað, dundað og dútlað! Hér er Hugi til dæmis að mála sjóræningja. (Mér þykir rétt að taka það fram að hann fór í klippingu þennan sama dag!)

María var hins vegar orðin fárveik þegar þarna var komið sögu en vildi þó alls ekki missa af sjóræningjafjörinu.

Hugi málar baðaður í vorsól.

Húsmóðirin sat hins vegar í húsmóðurstólnum og sinnti hinu ofurleiðinlega verkefni að prjóna prjónfestuprufu! (Ég vildi óska þess að ég hefði líka verið klippt síðar þennan sama dag!!!)

Fimmtán menn á dauðs manns kistu, hæ hó og flaska af romm!

Þökk sé kraftaverkalyfinu Panodil gat María líka málað nokkra sjóræningja!

         

Þessar ótrúlega girnilegu súkkulaðikökur voru alveg jafngóðar og þær eru fallegar!

María enn í sportleyfi, enn veik og enn að föndra! Hér er hún nánartiltekið að steypa úr gifsi sem hún málaði svo og bjó til ísskápssegla, nælur og styttur úr.

Hver að sýsla sitt við eldhússborðið. María útbýr frostpinna eftir uppskrift úr bókinni sinni góðu og Einar þykist vera landslagsarkitekt og teiknar upp lóðina okkar!

Við hjónaleysin höfum haft hug á því að steinleggja litla stétt fyrir framan húsið og Einar langar þessi lifandis ósköp að fá stærri matjurtagarð. Ég lét þau orð falla í fullkomnu kæruleysi að best væri sennilega að við myndum við gott tækifæri teikna garðinn upp og reyna svo að útfæra hugmyndir okkar á nokkra mismunandi vegu inn á. Einar lét ekki segja sér þetta tvisvar heldur rauk út, mældi garðinn þveran og endilangann, gróf upp gamla grunnteikningu af lóðinni og útbjó svo ægilega fína og vandaða teikningu þar sem öll tré og meira að segja hver einasti runni er á réttum stað!

Þarna sjáið þið garðinn okkar skýrt og greinilega! Nei, grín ... þetta er bara blaðið sem hann páraði allar tölurnar inn á en ekki teikningin sjálf. Ég á reyndar enga mynd af henni ... í staðinn fáið þið bara að sjá myndir af garðinum þegar þetta verður allt tilbúið! (Hvenær sem það nú verður?!)

Við Einar bökuðum ægilega fínar myntu-súkkulaðisnittur um daginn sem ég var hrikalega stolt af. En á þessari mynd virðast þær einhvern veginn bara voða skítugar og klessulegar! (Kannski af því að ég nennti ekki heldur þarna að fara upp að sækja flassið!) En góðar voru þær!

Að lokum má ég svo til með að setja hér inn eina mynd sem ég bæði stal af netinu og eyðilagði svo með því að krassa inn á hana! Þetta er sumsé dómkirkjan í Uppsölum, sú stærsta á öllum norðurlöndum. Og þarna í litla, gamla, gula og krúttlega húsinu er æfingasalur kórsins míns (og allara hinna kóranna við kirkjuna). Mér þykir eitthvað svo ótrúlega gaman að eiga smá hlutdeild í kirkjunni og svæðinu í kringum hana. Þetta er elsti hluti borgarinnar og þar er mýgrútur af sögufrægum húsum. Gula húsið með æfingasalnum er meira að segja dálítið frægt því á því Ingmar Bergman notaði hluta af framhlið þess sem leikhúsið í Fanny og Alexander!