Dömudagar

Dagana 8. - 13. júní var litla húsið á Konsulentvägen gætt óvenju miklum kvenlegum þokka en þá dvöldu hér á heimilinu fjórar auka dömur! Það voru mæðgurnar Eva og Freyja og Þórunn og Svanhildur Margrét sem sóttu okkur heim og áttum við með þeim fimm dásamlega daga í sól og blíðu.

Föstudagurinn 8. júní

Dömurnar lentu í um 30° hita og það fyrsta sem við gerðum þegar komið var í hús var því að opna út á pall og fylla nokkra bala af svalandi busluvatni! Freyja skellti sér beint í sundbolinn og ofan í en Svanhildur þurfti aðeins að ná áttum. Hérna eru þær allar samankomnar dömurnar okkar, Þórunn og Svanhildur til vinstri og Eva og Freyja til hægri.

Það var handagangur í öskjunni þessa fyrstu klukkutíma á Konsulentvägen, börnin skvettu vatni, skipst var á gjöfum og María afhenti teikningar hægri vinstri!

Freyja er ein af mínum uppáhaldsvinkonum! Hún verður þriggja ára í haust og er mikil kjarnakona sem vílar ekkert fyrir sér!

Svanhildur Margrét er tæplega 15 mánaða gömul og þar með minnsta og sætasta frænka mín! Hún kann meðal annars að príla upp stiga og segja „heitt“!

    

Svanhildur hefur mikið dálæti á skóm og þessir af Evu voru í sérstöku uppáhaldi í heimsókninni. Mátti gjarnan sjá hana dunda sér við að máta þá eða bara þvælast um með þá í fanginu! Hér er litla ungfrúin komin í krúttlegan sumarkjól frá Guðrúnu frænku en hún var ekki ein um að líta út eins og sleikibrjóstsykur þennan sólríka eftirmiðdag ...

... ó nei, þær voru þrjár randalínurnar! Eins og vænta mátti gekk þó illa að ná þeim sómasamlegum saman á mynd! Þessi er einna skást af litlu stelpunum (báðar inni í mynd og horfa svona nokkurn veginn fram) en þá er María með heldur undarlegan svip!

Næst fengum við það snilldarráð að planta þeim upp í buslulaugina til að yngri kynslóðin héldist að minnsta kosti kyrr á sínum stað! Hér eru litlu dömurnar alveg eins og ljós en enn og aftur er María með skrýtinn svip! Ekki tókst þó að halda myndatökunni áfram þar sem einn var klipinn og fór að skæla og þurfti þá að aðskilja deiluaðila í hvelli!

Laugardagurinn 9. júní

Við byrjuðum þennan undurfagra dag á pönnukökum og ávöxtum í lundinum góða. Þarna snemma morguns var eiginlega strax orðið of heitt til að sitja í sólinni enda hitinn kominn vel yfir 25 gráðurnar þótt ekki væri langt liðið á daginn. Mæðgurnar Þórunn og Svanhildur Margrét létu samt vel um sig fara ... milli þess sem sú stutta bjástraði við að príla upp útidyratröppurnar!

María og Hugi að snæðingi í sólinni.

Við vinkonurnar og fyrrum grannkonurnar.

Eftir að allir höfðu lokið við að borða morgunmat flúðum við inn í skuggann! Við Íslendingarnir eigum erfitt með að venjast þeirri tilhugsun að baða okkur ekki í hverjum þeim sólargeisla sem býðst en á svona dögum finnur maður þó vel að öllum líður best á aðeins svalari stöðum. Hér eru ungfrúrnar alsælar hver að dunda við sitt í stofunni, tvær lesa í bók og ein spássérar um með hliðartösku og hálsmen!

Um hádegisbilið héldu gestirnir og ég til Stokkhólms. Í borginni var 31° hiti þennan dag og það var því notalegt að koma sér vel fyrir í skugganum á Vetekatten, sötra ávaxtasafa og hvítvín og láta prinsessutertur og annað góðgæti bráðna á tungunni. Svanhildur hafði tekið sér góðan blund í lestinni á leið til stórborgarinnar og var því úthvíld og hress þegar þarna var komið sögu.

Freyja var aftur á móti orðin ansi sybbin og var hreint ekki viss um hvað hún vildi. Fyrst vildi hún afdráttarlaust fá „ammlisgögu“ ...

... en svo var hún hreint ekki viss um að sér þætti þessi afmæliskaka nokkuð spennandi!

Að lokum borðaði hún kökuna þó með bestu lyst enda stenst enginn prinsesstuertu frá Vetekatten!

Við eyddum deginum á notalegu rölti í stórborginni, kíktum í búðir, drukkum kaffi og sódavatn og spjölluðum um heima og geima. Síðdegis tylltum við okkar á bekk við Hedvig Eleonora kyrkan við Östermalmstorg. Svanhildur var alsæl með að losna úr kerrunni ...

... en Freyja svaf enn vært í sinni holu.

Þegar okkur bar að garði var einmitt að ljúka brúðkaupi í kirkjunni og við fylgdumst með hinum nýbökuðu hjónum og gestum þeirra fagna tímamótunum á þessum fallega degi. Við Einar erum boðin í tvö brúðkaup á Íslandi í sumar ... ég get ekki beðið!!!

Svanhildur Margrét var alsæl að fá að spranga um í garðinum, tína upp í sig smásteina, fylgjast með fuglum og rölta um í grasinu. Eins og mér finnst hún oft alveg eins og Þórunn þá er hún nákvæmlega eins og pabbi sinn á þessari mynd!

Þrjár „systur“!

Sunnudagurinn 10. júní

Freyju fannst algjörlega frábært að róla í rólunum okkar og ég spái því að á þessari mynd sé hún einmitt að segja hin ódauðlegu orð „Ýta mér hátt“!

Sætasta skottan í bænum!

Svanhildi fannst sko líka gaman að róla!

Og María skemmti sér einnig konunglega í nýju aparólunni sem ég hafði keypt handa krökkunum í Stokkhólmi daginn áður. Gamla aparólan þjónaði vissulega sínum tilgangi en húsmóðurinni fannst hún svo skelfing ljót og upplituð og festi því kaup á þessari glæsilegu maríuhænurólu í staðinn.

Morgunverðurinn var aftur snæddur í lundinum en nú gættum við þess að vera ögn seinna á ferðinni þannig að trén væru farin að skyggja á sólina.

Freyju þykja nú svona „jammaber“ ekki slæm og gaf stóru krökkunum ekkert eftir í vínberjaáti!

Eftir morgun- og hádegismat röltum við af stað út í Ekeby by. María og Hugi fóru á hjólunum sínum og voru orðin ansi þreytt þegar á áfangastað kom enda enn um 30° hiti úti og sól.

Í Ekeby er alltaf jafnnotalegt og bóndarósirnar stóðu í fullum skrúða milli gömlu húsanna.

Hugi tók hestinn sinn með og vildi láta taka mynd af þeim félögunum saman!

Madditt og Beta? Nei, María og Freyja!

Svanhildur stalst til að kíkja í töskuna hennar Guðrúnar frænku eftir að hún var búin að fara vel og vandlega í gegnum tösku mömmu sinnar og dreifa glossum um mölina framan við Ekeby by!

Vinkonurnar léku sér saman á túninu milli bæjarhúsanna og Tinna dúkka fékk að vera með.

Það var ansi hátt hlutfall af 5. des syndróminu meðal Konsulenta þessa júnídaga!

Svanhildi fannst skemmtilegt að rölta frjáls um og skoða það sem fyrir augu bar, eins og til dæmis hjólahjálma. Sem fyrr var líka mjög vinsælt að tína upp í sig smásteina úr mölinni! Meiri snúllan!!!

Freyja er mikið sjarmatröll!

Falurautt hús og pelargónía í opnum glugga ... það gerist ekki sænskara en þetta!

Einar lét sér renna í brjóst í stutta stund fyrir utan Ekeby enda verður maður fljótt syfjaður í svona miklum hita. Svíar ættu að taka upp siestu á svona dögum!

Stóra stelpan á heimilinu!

Minnsta stelpan á heimilinu!

Við lukum þessari frábæru helgi með pizzuveislu í boði Einars. (Oh, núna langar mig brjálað í fjögurra osta pizzu með parmasinku og rucola!)

Mánudagurinn 11. júní

Á mánudeginum fór Einar til vinnu og María og Hugi í skóla og leikskóla. Þær fimm dömur sem afgangs voru eyddu deginum hins vegar við skoðunarferðir og búðarráp í Uppsölum. Hér eru tvö sett af mæðgum í háskólagarðinum.

Freyju leist vel á sig á uppáhaldskaffihúsinu mínu, Barista. Þetta er nú meiri rúsínurófan!

Þegar allir voru komnir aftur heim á Konsulentvägen dreif Svanhildur sig í frekari umhverfisrannsóknir. Hvað getur líka verið betra en að njóta náttúrunnar berrassaður í sól og hita?! Merkilegt nokk fannst henni hreint ekki óþægilegt að ganga berfætt í mölinni ... bara dálítið spennandi og siðugt ef eitthvað var!

    

Það er ekki ofsögum sagt að Freyju þyki gaman að róla. Og ef maður þreytist eitthvað á að róla með hefðbundnum hætti getur maður bara rólað „á golli“ í staðinn!

Huga riddara þykir líka gaman að róla, svo skemmtilegt að hann hlær hrossahlátri í nýju rólunni. (Hvort eigum við eiginlega að kalla hana aparólu eða maríuhænurólu?! Maríuhænuaparólan gengur varla?!!)

Þriðjudagurinn 12. júní

Svanhildur Margrét dreif sig snemma á fætur á þriðjudagsmorgni og náði því að leika dálítið við Maríu stóru frænku áður en hún fór í skólann sinn. Þetta eru nú sætar frænkur!!!

Skömmu fyrir hádegi héldu fimm dömur á herragarðinn í Hammarskogen. Freyja var vígaleg þegar hún settist til borðs!

Mæðgunum af Ránargötunni leist jafnvel á herragarðinn og okkur Konsulentum!

Svanhildur Margrét var líka hæstánægð enda fékk hún að bragða á örlitlu lingonsafti!

Freyja hringdi út um hvippinn og hvappinn, aðallega þó í pabba sinn til að láta hann vita að hún væri alveg að fara að koma heim til að passa hann!

Eftir góðan málsverð á herragarðinum lékum við okkur dálítið í nágrenni hans. Freyja var sérstaklega hrifin af „snjóþotubrekkunni“.

Þórunn og Svanhildur með herragarðinn í baksýn.

 

Í lautinni neðan við herragarðinn blómstraði þessi dásamlega bóndarós. Maurar virðast einstaklega hrifnir af þessu fallega blómi eins og sjá má á myndinni til hægri! Mér finnast maurar krúttlegir!

Bóndarós ... sem er reyndar alls ekki rós!

Mæðgurnar gengu um flatir og skógrstíga í halarófu og sungu „Fjórir fílar lögðu af stað í leiðangur“.

Daginn eftir kvöddum við þessar frábæru vinkonur okkar, systur og frænkur með söknuði. Ekki mjög miklum þó þar sem einungis eru örfáir dagar í að við hittum þær aftur á Íslandi.

Takk fyrir komuna elsku Svanhildur, Þórunn, Freyja og Eva! Megið þið koma sem oftast í heimsókn á Konsulentvägen á komandi misserum, þar verðið þið ævinlega auðfúsugestir!