Desemberdraumar

Afmæli Einars, Lúsía, jólaundirbúningur,og allt það

Í byrjun desember þótti tímabært að Baldur Tumi fengi sitt eigið sæti við matarborðið. Hann var að vonum ánægður með áfangann og fannst hann flottur!

Afmælisdagur Einars sem varð 36 ára laugardaginn 5. desember. Við frestuðum föstudagspizzunum okkar þá helgina til að geta haft þær á afmælinu í staðinn. Hér sést afmælisbarnið reyna að fá Baldur Tuma til að horfa í myndavélina með öllum tiltækum ráðum (hann hefur gríðarlega ást á sódavatnsflöskum)!

Gestir í afmælispartýi (og búið að gefast upp á að fá Baldur Tuma til að horfa í rétta átt!).

Afmælisbarnið fékk ótrúlega fínt úr að gjöf frá fjölskyldunni sem rétt glittir í á þessari mynd.

Afmæliskakan var ekkert slor!

Kakan komin á borðið og gestirnir bíða spenntir!

Þrír ólíkir botnar og þeytt marengskrem.

Hún var hrikalega góð!!!

Allt er hey í harðindum!

Á Lúsíu fórum við í kirkjuna hér í Vänge til að fylgjast með Maríu lussa með kórnum sínum. Baldur Tumi lét sig ekki vanta á þennan stórviðburð.

    

Hann var í hörkustuði milli þess sem hann bað bænirnar með spenntar greipar enda kann hann að haga sér í kirkju! Verra þótti honum þegar aumingja manninum sem sat á bekknum með okkur varð það á að horfa á hann. Þá grét hann óskaplega sárt en stóðst þó ekki mátið að kíkja aftur og aftur á hræðilega manninn.

Lúsíurnar gera sig tilbúnar í kirkjudyrunum.

Marían okkar ... farin að gnæfa yfir aðrar smámeyjar!

Það var þéttskipaður bekkurinn í kirkjunni eins og alltaf á þessum degi. María hefur verið í barnakórnum frá stofnun hans og það er greinilegt að þau hafi tekið gífurlegum framförum á þessum fáum árum.

Hátíðarstemmning í Vänge kyrka.

Lúsíur á útleið.

Verkstæði jólasveinsins! Við þurftum að senda allar gjafir um miðjan desember og Þorláksmessa því eiginlega á kolvitlausum tíma hjá okkur. Hér er verið að skrifa kort og pakka inn gjöfum á síðustu stundu.

Stóri bróðir passar þann litla meðan foreldrarnir jólast.

Þessi mynd lýsir ástandinu og stemmningunni hér á Konsulentvägen mjög vel!

    

Þvörusleikir!

Um miðjan desember hófst kuldakast hér í Svíþjóð (og víðar auðvitað) sem enn sér ekki fyrir endann á. Það var því mikið um kaldar tær og rauðar eplakinnar á lokasprettinum í jólaundirbúningi. Hér sitja bræðurnir fyrir framan arineldinn, nýkomnir inn úr 15° frosti.

Aðdáun!

Eldurinn er svooo spennandi!

Ullarklæddur ungur maður.

Svona var umhorfs 20. desember eftir snjókomu og hörkufrost.

Sólbekkurinn sómir sér vel úti á palli í snjónum!

Piparkökubakstur í burðarliðunum á Konsulentvägen og Hugi fletur út af miklum myndarskap.

Baldur Tumi tók ekki beinan þátt þetta árið en stefnir ótrauður á jólin 2010!

Mér finnst piparkökumótasafnið mitt hljóta fara að jafnast á við safn Nigellu! Enn vantar mig þó ýmislegt, ég á til dæmis engin snjókorn sem mér þykir bagalegt. Ég græt líka enn sett sem fékkst í Ikea fyrir jólin með ýmsum skógardýrum sem seldist upp áður en ég gat keypt það. Ef þið þekkið einhvern sem er í svartamarkaðsbraski með piparkökumót þá sendið þið mér línu!

Kertaljós og kökuilmur inni, frost og snjór úti - það gerist ekki mikið betra!