Desemberdagbók 

                       2008

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

25. desember 2008

Kæru vinir

Megi jólin fylla ykkur kærleika og hamingju, friði og fögnuði.
Takk fyrir allar ómetanlegu stundirnar á liðnum árum og takk fyrir öll innlitin og fyrir að leggja orð í belg hér á síðunni okkar. Við vonumst til að sjá ykkur öll sem oftast á árinu 2009.
Megi nýja árið verða ykkur gott og allar góðar vættir vaka yfir ykkur þá sem og um ókomna tíð.

Þess óska ykkar vinir, Guðrún Lára, Einar Þór, María og Hugi.

 

15. desember 2008

Tä-änd di-ina-a vita ljus, Santaaaaaa Luci-ia!

Síðastliðna fjóra daga höfum við mæðgurnar lussað samtals fimm sinnum, þar af þrisvar í gær. Ég komst víst ekki undan náttkjólnum og rauða borðanum þegar ég tók þátt í mínum Luciatåg í Dómkirkjunni í Uppsölum en glimmerkransinn í hárið var sem betur fer ekki á dagskrá. Og stjärngossa bumbukallarnir voru því miður ekki eins fyndnir og ég bjóst við. Ég fann hvernig hláturinn ískraði í maganum á mér meðan allir voru að taka sig til fyrir tónleikana og bjó mig undir að þurfa að bæla niður ærlegt hláturskast þegar hattarnir yrðu settir upp. En einhvern veginn var þetta ekkert sérstaklega asnalegt svona í samhenginu og ég verð að játa að þeir tóku sig furðuvel út greyin. Enn síður var þetta fyndið þegar við gengum inn í troðfulla og niðdimma kirkjuna syngjandi „Kom þú kom, vor Immanúel“ aðeins lýst upp af kertaljósunum sem við héldum öll á. Þá var þetta bara ó svo fallegt, meira að segja næstum-farin-að-gráta-fallegt þegar við sungum Santa Lucia og Lucian sjálf skreið inn eftir óendanlega löngu kirkjugólfinu með kertakrónuna á höfðinu og hvítklæddan stúlknakórinn með grenikransa í hárinu á eftir sér. Þá langaði mig aldrei að hætta í kórnum svo ég gæti lussað á hverju ári (þangað til að ég mundi að í febrúar syngjum við Verdi, þá langaði mig mjög skyndilega að hætta á stundinni! Verdi? Verdi?!!!)

Ég held að eftir þessa eldskírn sé ég orðin fullnuma í Luciufræðum. Nú veit ég að ljósin í kirkjunni eru slökkt allan tímann, veit að aðeins annar hver maður heldur á nótum, hinn á kertum, veit að það á ekki að binda slaufu á rauða borðann og að hann á helst að vera 4-5 cm breiður, veit yfir höfuð allt þetta sem öllum hinum sem hafa lussað reglulega frá því þeir voru í leikskóla þykir svo sjálfsagt. Já og svo veit ég líka að það er áhættustarf að vera Lucia, það lekur ekki bara brennheitt kertavax yfir hendurnar á henni heldur rennur það í stríðum straumum yfir hárið, augabrúnirnar, augnlokin, augnhárin ... og á meðan þarf hún samt að standa og vera falleg!

Og ef ég skyldi, þrátt fyrir þetta, vera í einhverjum vafa get ég auðvitað snúið mér til Luciusérfræðings heimilisins, Maríu, sem hefur lussað margoft þrátt fyrir unga aldur! Því miður missti ég af hennar Luciatåg í Vänge kyrka þar sem mínar voru á sama tíma en ég veit að hún stóð sig vel eins og alltaf, litli söngfuglinn minn. Og í staðinn sungum við „Gläns över sjö och strand“ saman við aðventukransinn þegar við vorum báðar komnar heim

P.s. Fyrir Ingu mína og Hödda hljómborðsleikara: Kórstjórinn var bara í venjulegum sparifötum á tónleikunum EN hann var á tímabili að hugsa um að vera í jólasveinabúning! Þetta finnst mér til eftirbreytni og eitthvað sem Mótettukórinn ætti að íhuga að ári!

P.p.s. Því oftar sem ég skoða þessa mynd hér að ofan því meira sannfærist ég um að klippingin sem ég á bókaða 22. desember sé lífsnauðsynleg!

 

12. desember 2008

Rétt upp hönd ...

öllum sem finnst ógeðslega asnalegt að næstum miðaldra konur með nokkra björgunarhringi og óskilegan hárvöxt hér og hvar þurfi að klæðast lúsíubúning ef þær vilja syngja á tónleikum með kirkjukórnum sínum! Við erum að tala um hvítan skósíðan serk, hvíta sokka, rauðan borða um mittið með slaufu á og glimmerkrans í hárinu!

Rétt upp hönd öllum sem finnst enn asnalegra en jafnframt ógeðslega fyndið að karlmennirnir þurfi að vera í stjärngossabúning við sama tækifæri, með strýtuhattinn með gullstjörnunum og allt!!! Það er rétt að taka það fram að margir eru á fimmtugsaldri, fúlskeggjaðir, gráhærðir og með bumbu!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar