Desemberdagbók 2005

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. desember 2005

Nokkrar svipmyndir af jólum Bárugötfjölskyldunnar

 

24. desember 2005

Gleðileg jól

Á myndinni má sjá Maríu mey og Jesúbarnið en auk þeirra eru staddir í fjárhúsinu tveir englar, Jósep (með kórónu) og sjálfur Guð (með skegg)!

Hér er jólakveðja frá fjölskyldunni Bárugötu 34: Kæru vinir og ættingjar nær og fjær. Við færum ykkur hugheilar jólakveðjur og þökkum ánægjulegar samverustundir á liðnum árum. Hittumst heil á nýju ári. Guðrún, Einar, María og Hugi.

 

18. desember 2005

Í þágu samfélagsins

Um daginn eyddi ég yndislegum morgni á góðu kaffihúsi með enn betri vinkonu. Við stallsysturnar sötruðum kaffi, hlógum og slúðruðum meðan jólaljósin blikuðu í skammdeginu fyrir utan. Á næsta borði við okkur hafði miðaldra maður setið, þambað kaffi og lesið blöð dagsins. Þegar hann var búinn að renna yfir baksíðu Moggans og klára úr bollanum fór hann að tygja sig af stað aftur og setti upp forláta svartan hatt, með stórum börðum og glansandi silkiborða. Síðan sneri hann sér skyndilega að okkur vinkonunum og sagði: „Hvernig finnst ykkur hatturinn?“ Við svöruðum að sjálfsögðu að okkur þætti hatturinn glæsilegur og að eigandinn tæki sig einkar vel út með hann. „Það eru svo fáir með svona höfuðföt í dag og ég hef tekið eftir að það lifnar yfir fólki þegar það sér mig með hann. Það er nú ástæðan fyrir því að ég set hattinn upp“, sagði maðurinn þá og vatt sér út í dimman morguninn með fína hattinn sinn á höfðinu, þess albúinn að gleðja mannkynið í annríki dagsins!

Er það ekki yndislegt að einhver hafi fundið sér einfalda en áhrifaríka leið til að sinna siðferðislegri skyldu sinni gagnvart samfélaginu? Eitt er víst að maðurinn með hattinn setti svo sannarlega svip á minn dag og hefur gulltryggt sér eitt lítið bros í hvert sinn sem ég leiði hugann að honum! 

 

15. desember 2005

Loksins nýjar myndir:

                  

                             Stóru börnin á Bárugötu                               Piparkökubakstur 2005

Góða helgi!

 

8. desember 2005

Bónorð í (ó)beinni

Djöfuls rugl hefur það verið að koma sér upp kærustu um miðja 19. öld! Ef við Einar hefðum til dæmis ætlað að fara sömu leið þegar við hófum okkar samband og Pétur Havstein amtmaður og Kristjana Gunnarsdóttir (foreldrar Hannesar Hafstein), hefði ferlið verið eitthvað á þessa leið:

*Einar hefði beðið Áslaugu móðursystur mína um að kanna hvort ég væri skotin í honum. Áslaug hefði í kjölfarið sent tölvupóst til síðari eiginmanns móður minnar (ef hún ætti einn slíkan) um þetta mál. Þessi stjúpfaðir minn hefði svo svarað Áslaugu en litlar fréttir haft af því hvernig móður minni litist á að við Einar myndum byrja saman ... hvað þá hvort ég hefði einhver áhuga á því!

*Þegar Einari hefði verið orðinn óþreyjufullur hefði hann setið um mig í fjóra daga, án þess þó að ég gæfi honum neitt ákveðið svar. Í kjölfarið hefðu amma á Sóló og móðursysturnar Áslaug og Jenný hvatt mig til að byrja með honum og ég loks gefið í skyn að ég væri kannski alveg til í það.

*Áslaug hefði þá mætt á bílaflota ásamt einum fimm vinkonum sínum heim til Einars til að færa honum þær fréttir að ég vildi hugsanlega verða kærastan hans.

*Einar hefði þá sest niður og skrifað mömmu tölvupóst um að hann langaði að byrja með mér! Hún hefði hins vegar ekki svarað sjálf heldur hefði síðari eiginmaður hennar sent tölvupóst til Áslaugar um að mamma gæfi sitt leyfi.

*Að öllu þessu loknu hefðum við Einar svo orðið kærustupar .. og lifað hamingjusöm til æviloka!

 

1. desember 2005

Trúlofun!

Í dag opinberuðu trúlofun sína þau Guðrún Lára Pétursdóttir og Hannes Hafstein. Hefur Guðrún heitið Hannesi því að helga honum líf sitt og hugsa um ekkert annað en hann ... að minnsta kosti á dagvinnutíma svona næstu tvö árin! Við flytjum þeim hugheilar hamingjuóskir og einlæga von um gleðiríka framtíð.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar