Desemberdagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. desember 2004

Dagbókarskil

Ég tók nýju dagbókina mína, fyrir árið 2005, fram áðan og um leið og ég fletti í gegnum þá gömlu færði ég árvissa merkisatburði inn í þessa nýju. Ég þurfti ekki annað en að virða fyrir mér blaðsíðurnar í dagbókinni frá árinu 2004 til að minnast þess hvað það ár hefur verið mér ótrúlega, óendanlega gott! Ég hef átt svo margar ómetanlegar stundir: Ég fylgdist með börnunum mínum verða einu árinu eldri, ég útskrifaðist úr B.A.-náminu, ég skilaði alveg ótrúlega mörgum ritgerðum og verkefnum sem ég fékk góðar einkunnir fyrir, ég söng fjöldann allan af yndislegum tónleikum, ég fór í heilar fjórar, vel heppnaðar og algjörlega ógeymanlegar utanlandsferðir, ég hitti bestu vini og fjölskydu sem nokkur getur átt yfir ótal kaffibollum og skemmtilegu spjalli víðsvegar um borgina ... og svo allar hinar dásamlegu stundirnar sem aldrei eru skráðar í minniskompu sem þessa. Það rann líka upp fyrir mér þegar ég skrifaði afmælis- og hátíðisdaga inn í nýju bókina að ég veit akkúrat ekkert hvað það ár ber í skauti sér. Móti þéttskrifaðri dagbók ársins 2004 blöstu við auðar síður ársins 2005, síður sem mér er alveg lífsins ómögulegt að fylla út á þessari stundu. Næsta ár er svo sannarlega óskrifað blað! Og mér finnst einhvern veginn að það hljóti allt að geta gerst! 

Gamla dagbókin er komin ofan í skúffu og sú nýja hefur komið í hennar stað, bíður þess að ég (með dyggri aðstoð frá vinum og vandamönnum, háskólakennurum og Mótettukórnum) fylli hana jafnt og þétt yfir árið! Hún er bleik og ég skreytti hana með doppóttu bókamerki og nælu með þremur perlufuglum sem sitja á grein. Þetta getur ekki annað en orðið gott ár!!!

Kæru lesendur nær og fjær, ég þakka ykkur af öllu hjarta fyrir samfylgdina á árinu 2004, fyrir lesturinn og öll skemmtilegu kommentin. Ég vildi óska að ég gæti lýst því hversu oft þið hafið glatt mig á árinu!

Gleðilegt nýtt ár!!!

 

28. desember 2004

Yndisleg jól að baki hér á Bárugötunni! Reykt kjöt, messusöngur, smákökur, fallegar gjafir og tvö yndisleg jólabörn eru með því sem glatt hefur hug minn og hjarta undanfarna daga! Eftir víraða stressdaga þar sem ljúka þurfti ritgerðum, kaupa jólagjafir, pakka inn, þrífa, skreyta, baka, föndra og skrifa jólakort og keyra út gjafir þá datt allt í dúnalogn um það leyti sem jólin gengu í garð og síðan þá hefur lífið verið með miklum notalegheitum hjá litlu fjölskyldunni minni. Mikið er yndislegt að una sér við bóklestur, fylgjast með börnunum leika sér með jólagjafirnar og fá sér svo eitt og eitt sérrístaup þegar skyggja tekur. Það má kannski fá smjörþefinn af þessari notalegu stemmningu með þessum jólamyndum.

Ahhhhhh ......

 

24. desember 2004

Gleðileg jól!

 

22. desember 2004

Ég er loksins komin í jólafrí!!! Reyndar segir það ekki alla söguna því það er enn eftir risastórt verkefni sem ég þarf að vinna milli jóla og nýárs og sennilega líka í byrjun janúar. En er á meðan er og ég er í fríi fram yfir jól! Ef frí skyldi kalla ... mér finnst ég algjörlega vera að reyna að gera það sem aðrir gera á fjórum vikum, á þremur dögum! Mikið vildi ég óska að það væri hægt að leigja sér einhverja búálfa svona rétt fyrir jólin. Þá myndi ég láta einn sjá um að brjóta saman draslið í því sem aðrir kalla fataskápa en ég kýs frekar að kalla fatahól. Einn myndi þrífa kaffivélina, einn sæi um að tína upp viðbjóðslega leiðinlegar glósur sem mér hefur tekist að dreifa hér um allt hús, öðrum væri falið að affrysta ísskápinn, einhver fengi það verkefni að sortera smábarnaleikföng og -bækur frá því dóti sem enn er við hæfi barnanna minna og koma í geymslu (ath. ekki mína geymslu því hún er yfirfull og ég hef ekki efni á að ráða álfaættbálk í það verkefni!). Fimm álfa teymi væri hér í þrifum, skúraði, fægði, bónaði og þurrkaði af. (Ég hefði svo gjarna viljað ráða eina 10 í jólakortagerð og -skrif en þar sem engum hefur enn dottið í hug að setja þessa álfaþjónustu á laggirnar stóð ég sjálf í því í gær, nótt og í dag!) Á meðan búálfarnir sinntu hér störfum, bústnir og sællegir á tréklossum þá kysi ég sjálf að spóka mig um bæinn með frostbitnar kinnar og sjóðandi heitt kaffi í höndunum, kaupa þar eina eða tvær gjafir, hitta skemmtilegt og áhugavert fólk og smella jólakossum á kinnar, koma heim og dunda mér við að pakka öllu glæsilega inn og skreyta hér fagurlega! Ó hve dásamlegt það væri! En því miður alveg ómögulegt. Já, sambrotningar, skreytingar, sorteringar og skúringar eru víst á minni könnu! Púff ......

 

13. desember 2004

Atvinna óskast.

Reyklaus og reglusöm kona á þrítugsaldri óskar eftir vinnu við piparkökuskreytingar. Getur byrjað strax. Hefur mikla reynslu af svo kölluðum jaðarskreytingum en getur einnig tekið að sér hefðbundnari verkefni. Sérþekking á sviði berrassaðra piparkökukalla. Áhugasömum er bent á að smella á piparkökugeimveruna hér fyrir neðan til að skoða albúm með broti af þeim skreytingum sem í boði eru þetta árið.

Aðeins laun yfir 500.000 á mánuði koma til greina.

 

10. desember 2004

Myndir úr jólapartýi Mótettukórsins

 

8. desember 2004

Maður er bara í rólegheitunum heima hjá sér að prjóna eftir einhverri lekkerri breskri uppskrift og endar með þennan óskapnað í höndunum:

 

Ég meina það ... ég hélt að ég væri að gera vettlinga!!! Hver segir svo að prjónar séu bara fyrir einhverjar gamlar ömmur, það er greinilega meira fútt í þessu en ég hélt!!!

 

4. desember 2004

Óskalistinn!

Eru jólasveinarnir ekki örugglega netvæddir? Þeir hafa vonandi ákveðið að nota þessa tæknibyltingu í sína þágu og lesa bloggsíður í staðinn fyrir að liggja á gluggunum hjá manni til að þess að kanna hvað mann langi í í jólagjöf og hvort hegðunin hafi verið hennar virði! (Er það nema von að börnin séu á köflum dauðskelfd við þennan karl sem veður inn til þeirra á skítugum skónum um miðja nótt til þess eins að troða einhverju drasli í skó sem stendur úti í glugga og liggur svo þess á milli á rúðunni til að fylgjast með heimilismönnum?! Oj, bara!) Í von um að Grýluhellir sé tengdur smelli ég óskalistanum hér inn:

1. Kleifarvatn og Jólaórói frá Georg Jensen 

(þetta fellur í sama flokk þar sem ég treysti svona 98% á það að þetta verði jólagjöfin frá mömmu ... tvö prósentin sem upp á vantar er í raun ekki vantraust heldur bara fyrir kurteisissakir svo hún segi ekki að ég sé kröfuhörð!)

2. Stóran kertastjaka með postulínsrósum og gulli!

(ég var algjörlega að vona að þessir ákveðnu stjakar væru seldir í Svíþjóð en svo virðist sem aðeins Danirnir hafi áhuga á þeim ... en sem betur fer er reyndar hægt að fá þá á Íslandi! Þeir eru bara fáránlega dýrir!)

3. Bókahillur

(bækurnar okkar eru löngu búnar að sprengja utan af sér allar hillur! Reyndar langar mig mest í bókahillurnar fyrir jól svo ég geti endurskipulagt stofuna í tæka tíð fyrir hátíðahöldin!)

4. Styttu með smáfuglum á grein

(þetta er svona stytta eins og ömmur ykkar eiga vafalaust allar! Ég er alltaf með eitthvað ákveðið æði í gangi og núna er það smáfuglaæðið sem tröllríður öllu. Ég er alveg sjúk í svona styttu en finn hvergi neitt við hæfi (n.b. páfagaukur á grein er eitthvað allt annað ... og mig langar ekkert í svoleiðis!). Treysti á Kolaportið í þessum efnum!)

5. Fullt af bókum svo ég geti líka sprengt nýju hillurnar!

(hér koma fjölmörg eintök til álita: Bátur með segli og allt eftir Gerði Kristnýju, Karítas: án titils eftir Kristínu Marju (þær eru mínar konur þar sem ég er búin að skrifa færslu um þær báðar!) Svartur á leik eftir Stefán Mána, Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson ... æ, bara hvað sem er, mér finnst nefninilega líka gaman að lesa leiðinlegar bækur!)

6. Glingur og dekurdót

(hver getur ekki á sig eyrnalokkum, kinnalitum og kremum bætt?)

7. Grænu rúskinssstígvélin í Kron

(þau eru sömu gerðar og nýju brúnu stígvélin ... en hver getur ekki á sig skóm bætt? Reyndar kvíði ég strax þeirri aðgerð sem skósmiðurinn þyrfti að gera á þeim til að fá þau til að passa utan um trjástofnsþykka kálfana á mér! Spurning um að reyna bara sömu aðferð og stjúpsystur Öskubusku forðum daga?)

8. Föt af öllu tagi

(ég er nú svo sem ekki með neitt sérstakt í huga ... en það kemur náttúrulega ekki til greina að fara í Jólaköttinn! Gæti vel hugsað mér nýja peysu af huggulegri gerðinni og mig langar alltaf í nýtt pils!)

9. Listaverk

(mér finnst rosalega ókúlítverað að ég skuli ekki enn eiga eitt sæmilega gott listaverk til að hengja upp á vegg eða stilla upp á hillu! Þetta er hins vegar dýr andskoti! Kannski get ég reynt að bjarga Georgi Guðna eða Kristjáni Davíðssyni frá lífsháska svo þeir verðlauni mig með verki eftir sig? Annars á ég mér uppáhaldslistamann, hann Guðjón Ketilsson, og skal hundur heita ef ég verð ekki búin að eignast eitthvað eftir hann innan þriggja ára!)

10. Kettling

(mig langar reyndar ekkert í kettling en finnst tilheyrandi og óskaplega fallegt að setja svona lítinn hnoðra á jólaóskalistann!!!)

Svo bíð ég spennt eftir að sjá hvort einhverjum tekst að pakka bókahillunum inn og smella þeim undir tréð hjá mér!

 

2. desember 2004

Loksins, loksins!

Loksins kominn desember, loksins búið að setja vetrar- og jólaútlit á síðuna, loksins búið að setja inn myndir frá Svíþjóðarferðinni, loksins búið að gera aðventukrans og setja inn myndir af því, loksins komið að því að ekki sé lengur hægt að slá slöku við í skólanum og maður þurfi að fara að sinna þessu námi af fullum þunga, loksins komið að þessari jólatónleikahrinu, loksins komið að kórpartýinu eftir alla tónleikana, loksins komið að því að fullkomlega löglegt sé að skreyta og hlusta á jólalög, loksins hægt að fara að baka smákökur og hugsa um konfektgerð, loksins komið að því að ég geti ekki lengur frestað því að ákveða hvað ég eigi að gefa Einari í afmælis- eða jólagjöf ... ég veit ekki alveg hvort ég á að „úffa“ eða „hjúkka“!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar