Desemberdagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. desember 2003

Síðasti dagur ársins og síðasta dagbókarfærslan á árinu 2003! Já þetta er alltaf svolítið undarlegt!

Sumum þykja áramótin óskaplega sorgleg, en ekki mér! Mér finnst einhvern veginn bara mjög spennandi að það komi nýtt ár og sakna hins gamla aldrei hversu gott sem það kann að hafa verið! Ég hlakka mikið til að fara til mömmu í kvöld og snæða girnilegan kalkún og hitta skemmtilegt fólk! Í ár verða enn fleiri gestir en nokkru sinni fyrr því það verða gestir hvaðanæfa úr heiminum með okkur í kvöld! Já, þetta verður örugglega mjög skemmtileg áramót. Í það minnsta eigum við von á aðeins betra ástandi en fyrir ári síðan. Þá var Hugi ekki farinn að ganga en vildi hins vegar ólmur þvælast upp og niður tröppurnar á Bakkastöðum. Aðalsportið var að fara alla leið upp í Ella herbergi, glamra aðeins á gítarinn þar og skríða svo niður aftur. Þegar þangað var komið liðu hins vegar ekki nema nokkrar sekúndur þar til ungherrann langaði að endurtaka leikinn. Þegar upp var staðið hitti ég Einar sáralítið þetta kvöld þar sem hann var iðulega uppi á lofti með Huga eða á eilífu tröppurölti. En nú er öldin önnur, þetta orðinn svo mikill maður sem getur sjálfur séð um allar upp- og niðurferðir og er almennt orðinn töluvert meiri stuðbolti en í fyrra! 

Einn af skemmtilegustu áramótasiðunum hjá okkur er að standa öll saman í hring og hver og einn segir frá því sem hann er stoltastur af á árinu sem aðrir viðstaddir skála svo fyrir! Í fyrsta skiptið í mörg ár liggur ekki beint við hvert mitt svar verður. Árið 1999 skálaði ég stolt fyrir frumburðinum sem ég bar undir belti og árið 2000 var svo að sjálfsögðu skálað fyrir fæðingu Maríu! Árið 2001 var líka skálað fyrir bumbubúa sem kom í heiminn sjö dögum seinna og hefði svo væntanlega verið skálað fyrir í fyrra ef sá hinn sami bumbubúi hefði ekki eyðilagt kvöldið með tröppupríli og gítarglamri og gert það að verkum að við urðum frá að hverfa áður en kom að þessum lið í veisluhöldunum! En í fyrsta skiptið í mörg ár er ég hvorki búin að búa til barn né fæða eitt slíkt á undanförnu ári! Ég veit því satt best að segja ekkert yfir hverju ég er stoltust! Fram í byrjun október trúði ég því statt og stöðugt að ég myndi láta alla skála fyrir langþráðri útskrift úr háskóla EN við vitum öll hvernig fór um sjóferð þá! Já ég er eiginlega bara alveg hugmyndasnauð og mun sennilega enda á að skála fyrir gömlu börnunum fyrst ég get ekki skálað fyrir nýju!!!

Gleðilegt ár kæru lesendur nær og fjær, takk fyrir ánægjulega samfylgd á árinu sem er að líða! Ég hlakka til að skrifa fyrstu færsluna merkta árinu 2004!!!

 

29. desember 2003

Snjór, snjór, snjór og aftur snjór!!!

Þetta er nú meira veðrið! Hefði svo sem getað verið ósköp notalegur dagur hjá mér ef ég hefði ekki eytt honum öllum í að kvíða fyrir að sækja börnin á leikskólann. Ég stóð bara við gluggann fram eftir degi, horfði á snjónum kyngja niður, klóraði mér í hausnum og velti fyrir mér hvernig í ósköpunum ég ætti að fara að því að koma þeim báðum í einu fótgangandi heim! Að lokum var ekki um annað að ræða en að smella sér í stígvélin (vetrarskórnir mínir voru svo elskulegir að gefa upp öndina tveimur dögum fyrir jól og ég hef því plampað um á gúmmístígvélum yfir hátíðirnar!), setja upp húfu og vettlinga og fara út. Ég eyddi heillöngum tíma í að moka upp geymsludyrnar til að sækja snjóþotuna en það tók reyndar örugglega enn lengri tíma að loka þeim þar sem snjórinn þjappaðist ævinlega milli stafs og hurðar! En á Drafnarborg hélt ég með snjóþotuna í eftirdragi og tókst að koma börnunum í allan þann vetrarklæðnað sem þau höfðu meðferðis, troða þeim báðum á litlu snjóþotuna og leggja af stað! María gafst reyndar upp á þessu fyrirkomulagi og aðstoðaði mig frekar við að draga litla bróður. Úr þessu varð hin mesta ævintýraför þar sem skoðaðir voru bílar sem fennt hafði í kaf, risastór snjókarl í næsta garði og ýmislegt annað forvitnilegt. Snjórinn breytir hversdagslegu umhverfinu í sannkallað ævintýraland og allt verður einhvern veginn svo nýtt og spennandi! Eftir heimkomuna lagaði ég heitt kakó og ristaði brauð með osti handa litlu krúttunum mínum. Já þó ferðin hafi ekki verið löng er þetta ansi mikil svaðilför fyrir litlar fætur og litlar kaldar kinnar og ekki úr vegi að ylja sér aðeins með heitum drykk. Ég held að ég hafi sjaldan upplifað mig jafnmikla „mömmu“ og einmitt þá ... það er eitthvað svo óskaplega mömmulegt að hita kakó ofan í lítil börn með snjóblautar tásur!!! 

Eitthvað lítið varð úr lærdómi í dag. Ég var óskaplega góð við sjálfa mig í morgun og ákvað að fá mér ogguponsulítinn lúr aftur ... sem teygðist fram að hádegi! Áhyggjurnar af veðrinu hömluðu svo vinnuandanum fram eftir degi. Ég er þó búin að glugga aðeins í þær fræðibækur sem ég á um efnið og er einmitt núna með Bloody Murder hér fyrir framan mig svo kápan sem er alsett blóðslettum blasir við. Eins ójólalegt og hugsast getur!!! Og talandi um bækur þá stalst ég í eina af jólabókum Einars í gær ... Friðþægingu eftir snillinginn Ian McEwan. Hún lofar einstaklega góðu og ég get varla beðið eftir að komast upp í rúm í kvöld til að halda áfram!

Bara tveir dagar eftir af árinu 2003 ... notið þá vel!!!

 

28. desember 2003

Jólin búin og bara þrír dagar eftir af árinu! 

Hér á bæ erum við búin að hafa það ósköp notalegt. Aðfangadagur fór rólega af stað en svo, eins og oft vill verða, þarf allt að gerast á sama tíma og við Einar vorum orðin hér blaut af svita við eldamennsku og tiltekt, settum hreint á rúmið, komum börnunum í jólabað og klæddum þau í sparifötin. Þegar jólin gengu í garð stóð ég því á nærbuxunum með blautt og úfið hár inni á baði en Einar var hins vegar á gallabuxunum og með svitalykt inni í eldhúsi!!! Minnistpunktur  fyrir næstu jól: Það er of seint að fara í jólabaðið klukkan 10 mínútur í sex!!! En kvöldið tók þó góða stefnu eftir að mamma og Elli komu í hús og maturinn var dásamlega vel heppnaður hjá honum Einari mínum (með dyggri aðstoð mömmu!). Hamborgarhryggurinn rann ljúflega niður sem og möndlugrauturinn á eftir. Einar fékk möndluna eins og svo oft áður! Minnispunktur fyrir næstu jól: Reyna að búa til system þannig að ég fái möndluna!!! Þegar komið var að pökkunum tók leikurinn að æsast. María var alveg að ná þessu jólastandi þetta árið og var því orðin frekar spennt. Hugi litli var svona aðeins meira út á þekju og meðan systir hans bar hvern pakkann á fætur öðrum í Ella frænda sem las á, þá ráfaði hann bara um með stöku pakka, flutti til pakka sem búið var að lesa á eða bara tók pakka undan trénu og skellti í næsta stafla! Sami myndarskapurinn var á Maríu þegar kom loks að því að opna jólagjafirnar. Hún gekk hreint til verks og reif allt sitt upp rösklega meðan ungherrann gerði mest af því að dást að öllu sem komu upp úr hennar pökkum! Þau fengu bæði alveg rosalega margt fallegt, við gáfum Huga þríhjól (svona gamaldags rautt og hvítt Winther með skúffu!) sem sló í gegn en vinsælasta gjöfin hjá Maríu var hrærivél sem Ragnheiður frænka og Jón Þór gáfu henni! Já, þó við foreldrarnir höfum eytt fleiri þúsund krónum í dúkkuhús handa dömunni þá var það þetta litla búsáhald sem átti hug hennar allan! Minnispunktur fyrir næstu jól: Gefa börnunum ódýrari gjafir, þau taka hvort eð er ekkert eftir því!!! En nei, hún er nú líka búin að leika mjög mikið með dúkkuhúsið! Fljótlega flaut gjafapappírinn um litlu stofuna okkar og ég horfði á fallega jólapappírinn minn berast tættan með straumnum ásamt fínu borðunum. Minnispunktur fyrir næstu jól: Það er mesti óþarfi að pakka gjöfunum inn, sérstaklega til barnanna!!! Sjálf fékk ég margt fallegt. Eins og oft vill verða fengum við Einar töluvert af sameiginlegum gjöfum til búsins sem er reyndar mjög vel þegið. Við fengum kristalskönnu í stíl við glösin sem við erum að safna, lampa, jólaglös, kökudisk og salatskál ásamt nokkrum bókum, allt afskaplega fínt. Svo fékk ég óskir mínar um Bettý og Georg Jensen jólaóróa uppfylltar ... alltaf hægt að treysta á mömmu gömlu! Svanhildur gaf mér alveg dásamlega litla antikbolla ... svona sem maður drekkur úr með lillaputta út í loftið! Svo fékk ég svolítið af snyrti- og dekurdóti sem er alltaf alveg nauðsynlegt á jólum! Frá heitmanni mínum fékk ég svo náttföt og alveg hreint yndislegt armband með litlu kóralhjarta! Einhvern þátt hefur hún Svanhildur mín nú átt í því þar sem armbandið góða er frá henni Jo sem smíðar úr gulli á Möntergade í Kaupmannahöfn!!! Já og e.t.v. var besta jólgjöfin mín sú að Einar passaði í flauelisjakkann sem ég gaf honum! Jakkann keypti ég fyrir mánuði síðan og er búin að vera andvaka af áhyggjum um að hann væri of lítill frá því þá! Minnispunktur fyrir næstu jól: Láta hann frekar máta en að kveljast svona lengi!!! Aðfangadagskvöldi lauk svo með miðnæturmessu sem var þó langt því frá síðasta messan mín yfir þessar hátíðirnar. Síðan þá hef ég sungið tvær og á eina eftir!

Jólafríið hefur síðan liðið við glaum og gleði, jólaboð, smákökuát, bókalestur og svo höfum við Einar spilað skrafl á köldu vetrarnóttunum. Kertasníkir var svona bráðsnjall og hitti naglann á höfuðið þegar hann gaf mér þetta frábæra spil í skóinn á aðfangadagsmorgun! Hann hefur sennilega áttað sig á að þar sem ég er með óslökkvandi krossgátuáhuga þá væri þetta kannski eina spilið sem ég get orðið góð í!

Já og svo skelltum við skötuhjúin okkur í leikhús, fórum á forsýningu á Sporvagninn Girnd! Orðið skammarlega langt síðan við fórum í leikhús og alveg kominn tími á að bæta úr því! Þetta var því kærkomin skemmtun og ég er alvarlega að hugsa um að biðja pabba minn um að gefa mér það í útskriftargjöf að bjóða mér reglulega í leikhús það sem eftir er ársins!!! Talandi um útskrift ... nú tekur alvara lífsins aftur við. Á morgun þarf ég að byrja af fullum krafti á ritgerðinni sem ég þarf að gera til að bjarga 2,5 einingu fyrir horn svo ég geti útskrifast í febrúar! Það þýða engin vettlingatök ... þessu verkefni verður að vera lokið þegar ný önn byrjar í janúar. Börnin fara því á leikskólann í fyrramálið, Einar á heilsugæsluna og ég mun setjast hér við skrifborðið og byrja að endurlesa hina mögnuðu bók Maður uppi á þaki! Best að njóta síðasta fríkvöldsins í botn og taka sér frí frá tövunni! Skemmtið ykkur nú vel það sem eftir lifir jólafrísins!!!

p.s. Digital jálkurinn gleymdist hér uppi á lofti á aðfangadagskvöld og við tókum bara gamaldags ljósmyndir! Hver veit þó nema við getum komið einhverjum þeirra á tölvutækt form áður en langt um líður! 

 

24. desember 2003

Aðfangadagur jóla!

Á Bárugötunni er allt hreint og strokið, skúrað og skreytt! Ég setti inn nokkrar myndir af jólaskreytingum heimilisins frá því í gærkvöldi sem lesendur geta kíkt á hér! Við Einar vorum svo óskaplega dugleg í gær að dagurinn í dag hefur verið mesti rólegheitadagur. Hugi er reyndar kominn með eyrnabólgu og kominn á sýklalyf sem virka vonandi sem fyrst því hann er, þessi elska, búinn að vera ansi hreint leiðinlegur! Vonum að hann verði kominn í jólaskapið fyrir kvöldið!

Gleðileg jól elsku vinir!

 

22. desember 2003

Bara tveir dagar til jóla og nóg að gera. Ég tel mig reyndar vera búna að öllum innkaupum sem er mikill léttir. Öfugt við gömlu góðu stemmninguna þá vill maður núna helst ekki þurfa að stíga fæti út fyrir hússins dyr á Þorláksmessu. Hér er því stefnan að vera bara heima að þrífa á morgun enda ærið verkefni.

Annars hefur jólaundirbúningurinn verið mjög skemmtilegur. Ég söng enska messu í gær sem var virkilega skemmtilegt og kom manni vel af stað í jólaskapið. Þetta messuform sem kallast „Nine lessons and carols“ er svolítið frábrugðið því sem við eigum að venjast og ánægjulegt að gleðja einhverja með því að veita þeim tækifæri á að halda jólin samkvæmt sínum gömlu hefðum. Í gær voru piparkökurnar líka loksins skreyttar með tilþrifum. Ég myndaði lítið brot af þeim og þið getið kíkt á það hér.

Á morgun hlakka ég til að spila jóladiskana okkar á meðan ég þeytist um með tuskur og ryksugu, klístra jólaseríum hingað og þangað og hengja upp Georg Jensen jólaóróana mína heittelskuðu! Tréð verður svo skreytt þegar börnin eru búin á leikskólanum þvi ég er að hugsa um að leyfa þeim að taka þátt í því þetta árið. Ég er svo hrikalega eigingjörn að ég hef hingað til viljað gera það bara sjálf, því líkt og með annað vil ég fá að ráða öllu um hvernig það er skreytt!

Eru ekki allir komnir í jólaskap?

 

21. desember 2003

Getur verið að það séu bara þrír dagar til jóla??!! Guð minn góður!!! 

Ástæðan fyrir færsluleysi í þessa dagbók er einföld: hér hefur allt verið á hvolfi í jólaundirbúningi! Alveg er það magnað með svona undirbúning að þeim mun meira sem maður gerir, þess meira er eftir!!! Þó ég eigi ekki eftir að kaupa nema tvær og hálfa gjöf og sé búin að pakka a.m.k. helmingnum inn af því sem ég er búin með, að ekki sé nú talað um sortirnar þrjár sem búið er að baka ... þá finnst mér það sem eftir er nánast óyfirstíganlegt. Jólakortin sem eiga lögum samkvæmt að fara í póst í dag eru enn á víð og dreif um íbúðina á mistilbúnu stigi!!! Það á til dæmis eftir að taka myndir af börnunum í jólakortin (það er sennilega það vandasamasta við jólaundirbúninginn enda nánast vonlaust að fá þau bæði til að vera kyrr og sæt á sömu mynd!). Íbúðin er fullkomlega og gjörsamlega í rúst eftir jólaundirbúning síðustu daga! Það á eiginlega alveg eftir að skreyta alla íbúðina! Já þannig mætti lengi telja! Ég sé því fram á að þurfa að leggja nótt við dag til að ljúka af öllu því nauðsynlegasta. En þetta er SAMT skemmtilegt! 

 

17. desember 2003

Jólafríííííííííííííííííííí!!!!!

Ritgerðinni hefur verið skilað inn! Það gekk reyndar ekki alveg þrautalaust fyrir sig á lokasprettinum. Ég vann af miklu kappi á mánudeginum og hélt mig ágætlega við efnið þó ég væri þá komin með ansi miklar efasemdir um ágæti þessarar ritsmíðar og þar með um möguleika mína á glæstri framtíð innan bókmenntafræðinnar! Um klukkan 17 var ritgerðinni lokið og ég ákvað að prenta þrjú eintök út í snarhasti, skila svo inn og vera bara laus við þennan fjára! Þá sigldi hins vegar allt í strand! Prentarinn lét illa að stjórn og eitthvað var lítið eftir af pappír í hann. Þar sem forsíðan gubbaðist út úr prentaranum í svona 25 eintökum í staðinn fyrir þremur áttaði ég mig á vitleysu í heimildaskránni. Slíkt fannst mér bera vott um léleg vinnubrögð og ákvað að endurvinna hana og prenta út aftur. Ég gat einhvers staðar fundið þrjú svona svolítið krumpuð blöð í pappírsleysinu og ákvað að þau yrðu bara duga. En viti menn, þegar blöðin komu út úr prentaranum höfðu eintök 26, 27 og 28 af forsíðunni verið prentuð á en ekki heimildaskráin! Ekki var um annað að ræða en að fara af stað í bókabúð til að kaupa meiri pappír. Eftir að hann var kominn í hús gekk ágætlega að prenta, það bættust reyndar nokkur eintök af forsíðunni góðu í hópinn en það gerði ekki svo miki til fyrst nægur var pappírinn. Þegar þrjú eintök af ritgerðinni voru loks tilbúin brunaði ég í Nýja Garð til að koma þeim af mér hið snarsta. Þar kom ég hins vegar að lokuðum dyrum. Einhverjar aðrar reglur virðast gilda um þetta annars ágæta hús en aðrar byggingar á vegum Háskólans hvað opnunartíma varðar. Þarna stóð ég niðurrignd með ritgerðirnar í fanginu og trúði ekki mínum eigin augum (...eða höndum, það voru jú þær sem gerðu tilraun til að opna hurðina!). Það var ekki um annað að ræða í stöðunni en að halda aftur heim með bansett draslið. Ég hringdi strax í einn kennara af þremur og tilkynnti honum um vandræði mín og urðum við ásátt um að ég myndi bara koma þeim á áfangastað morguninn eftir. Mér var nú ekki alveg rótt þrátt fyrir það enda tveir aðrir kennarar í kúrsinum og ég vissi ekkert hvort þeir hefðu kannski sótt allar ritgerðirnar sínar fyrr um daginn. Fannst bara eitthvað svo ótrúlega lélegt að vera að skila degi of seint, sérstaklega þar sem ritgerðin var löngu tilbúin. Ég ákvað nú samt að láta á það reyna og fór af stað aftur eldsnemma í gærmorgun. Sá þá mér til mikillar gleði að enginn kennaranna virtist hafa sótt sinn bunka af ritgerðum ... sem var raunar enginn bunki því ég var, eftir allt saman, sú þriðja til að skila!!! Gleðin var taumlaus og jólafríið tók við! 

Ég byrjaði á klippingu sem var ósköp notalegt. Er reyndar orðin frekar þreytt á hárinu mínu. Það er nefninlega bara möguleiki á einni hárgreiðslu ... úfinni! Þetta er svo þreytandi að mig langar stundum til að raka allt hárið af hausnum! Garg! Eftir klippinguna fór ég svo í smá stúss, keypti nokkrar jólagjafir og fékk sterkari gler í gleraugun mín. Mikið voðalega er hægt að sjá vel ... ég var bara alveg búin að gleyma því það maður á að geta lesið á götuskilti, séð aðra bíla í umferðinni, sem og fótgangandi vegfarendur! Já mikil dásemd eru þessi nýju gleraugu! Ég lauk svo þessum fyrsta frídegi með kóræfingu. Nú eru jólamessurnar framundan. Í ár á Mótettukórinn minn miðnæturmessuna ... við skiptumst á að syngja hana og þá klukkan 6. Síðast þegar kórinn átti miðnæturmessuna var ég hins vegar komin 8 og 1/2 mánuð á leið með Huga litla og ákvað á síðustu stundu að vera ekki með. Það er því orðið ansi langt síðan ég átti síðast dásamlega hátíðlega og notalega stund í Hallgrímskirkju á aðfaranótt jóladags. Ég hlakka því óskaplega til í ár enda hef ég mætt í eða sungið við slíka messu frá því ég var fimm ára gömul! 

Í dag ætla ég að hafa það notalegt hér heima við og dunda mér við jólaskreytingar og gjafainnpökkun. Stefni svo á að rölta örstutt í bæinn og kaupa mér hyacinthur og kannski líka hvítt súkkulaði til að nota í jólabaksturinn. Eftir leikskóla stendur sko til að kaupa jólatréð! Ekki nema vika til jóla og um að gera að halda rétt á spöðunum! Góðar stundir!

 

14. desember 2003

12 blaðsíður komnar!!! Reyndar er allt enn með tvöföldu línubili svo það er kannski ekki alveg að marka að horfa í blaðsíðufjöldann. Ég á enn eftir að fara yfir alveg fullt, fullt af efni en ég finn samt loksins fyrir því að ég nálgist endastöðina. Ég er nú bara nokkuð ánægð með það sem ég er komin með ... þó ég hafi hins vegar ekki hugmynd um hvað öðrum finnist um það. En það skiptir jú öllu máli að vera sáttur sjálfur! En ég mun alveg bókað þurfa að nýta megnið af deginum á morgun líka og verð bara að treysta því að það sé í lagi að þetta komi bara fyrir kvöldmat! Klukkan 20 er hins vegar úrslitaþátturinn í Survivor og þá SKAL ég vera komin í jólafrí!!! Skal, skal, skal!!!

Ég er bara búin að vera hér heima við að skrifa í dag. Það er nú voða mikilvægt þegar maður á tvo svona litla yndislega engla að geta litið til þeirra þó ekki sé nema í nokkrar mínútur í einu. Þau eru líka búin að vera alveg sérdeilis dásamleg þessa helgina. María átti hér hvern stórleikinn á fætur öðrum í frábærum og einstaklega skynsömum og rökréttum spurningum! Áðan spurði hún pabba sinn t.d. hvað jarðskjálfti væri og hann svaraði því á viðeigandi hátt, svona miðað við að þriggja ára barn spurði! Svo bætti hann við að þegar presturinn kom til að skíra hana hafi komið stór, stór jarðskjálfti (fyrir þá sem ekki vita var hún skírð 17. júní 2000!)! Þetta þótti dömunni hið merkilegasta mál og spurði: Jaaaá, var það þá af því að presturinn skírði mig svo hratt??? Já einmitt!!! Og Hugi er líka búin að vera voða krúttaralegur. Uppveðraðist allur þegar talað var um að fara út að leika og sagðist langa að leika við „sgðágana“ (strákana!). Meðan Einar var að koma systur hans í útigallann stóð hann með nefið klesst við rúðuna á ganginum, horfði út og hrópaði: Hæ sgðága, hæ sgðága!!! Skömmu seinna sneri hann sér þó með undrunarsvip að pabba sínum og sagði: Eeeengi sgðága!!! Nei það voru nefninlega engir strákar úti ... og það eru bara almennt aldrei nein börn úti að leika sér hérna í hverfinu! Þegar farið er á róló um helgar eru María og Hugi einu börnin þar, jafnvel yfir hásumarið eru engin börn að leika í görðunum eða hjóla úti, nema jú, mín börn, Sara á neðri hæðinni og tvær systur sem búa hér á næsta horni! Það hlýtur því að vera eitthvað til í því að nútímabörnin horfi á aðallega á sjónvarpið eða liggi í tölvuleikjum! Þó ég sé nú annálaður innipúki finnst mér þetta alveg skelfileg þróun! Út með börnin!!!

10 dagar til jóla og örugglega 10 blaðsíður eftir af ritgerðinni!!!

 

13. desember 2003

Komin á blaðsíðu 7 í ritgerðinni sem ætti í raun að þýða að ég væri næstum hálfnuð en mun sennilega aðallega þýða að ég þarf að minnka línubilið! Því ég er ekki nærri því hálfnuð með efnið sem ég þarf að koma fyrir á þessum 15 blaðsíðum. Mér tókst þó í gær að komast yfir það sem ég hafði fyrirfram séð að yrði erfiðasti hjallinn. Vona því að þetta verði undan fæti í dag!

Það versta við svona vinnuhelgar er að missa af börnunum. Þau eru líka búin að vera einstaklega mikil krútt undanfarið. Hugi steig enn eitt þroskaskrefið í fyrradag þegar honum tókst loks að príla upp úr rúminu sínu sjálfur! Hann er því búinn að vera að sporta sig hér á röltinu á kvöldin og hefur svo bara sjálfur komið gangandi upp í rúm til foreldranna um miðjar nætur (sem gerir þar með vonir okkar um að hægt sé að venja hann af því að engu!!!). Um miðnættið í gær blasti svo alveg dásamleg sjón við okkur Einari þegar við fórum að tygja okkur í háttinn. Einhvern tíman um kvöldið hefur Hugi litli rumskað og drifið sig, svefndrukkinn, fram úr! Honum hefur hins vegar greinilega ekki enst orka í að leita foreldrana uppi þannig að hann stakk sér bara í næsta örugga og hlýja ból ... hjá Maríu systur! Þarna kúrðu þau saman og steinsváfu þegar að var komið:

Alveg yndislegt! Ekki var stemmningin síður krúttleg í morgun þegar María sat með bróður sinn í fanginu og söng jólalögin hástöfum fyrir hann:

Svo sagði hann bara „Attu synga lólasein“ þegar lagið var búið! Já það er óneitanlega sérstaklega gaman að eiga svona lítil skott þegar jólin nálgast. Í ár verður þetta sennilega enn skemmtilegra þar sem María er í fyrsta skipti almennilega að kveikja á þessu og farin að velta þessum klassísku spurningum fyrir sér t.d. hvernig jólasveinninn komist inn um lokaðan gluggan til að setja í skóinn og svona! Í gærkvöldi var hún mjög ákveðin í að standa sig vel svo Giljagaur myndi alveg örugglega ekki gleyma henni. Þegar við vorum að gefa henni astmapústið fyrir háttinn hvítnaði hún skyndilega í framan og sagði við mig: „Kannski heldur jólasveinninn að ég megi ekki fá svona! Kannski veit hann ekki að ég er með astma!“ og óttaðist þá greinilega að hann teldi hana hreint og beint vera að fremja afbort og myndi refsa henni með kartöflunni hræðilegu. Ég sagði henni nú að jólasveinarnir vissu ýmislegt og alveg örugglega að hún væri með astma. Þá spurði sú stutta: „Heyrir hann í mér hósta alla leið upp í fjall?“ Já hún er sko á rökrétta aldrinum og fyrst jólasveinninn vissi af astmanum þá hlaut að vera einhver áþreifanleg ástæða fyrir því!

11 dagar til jóla!!! Góða helgi!!!

 

12. desember 2003

Langt liðið á daginn og ég ekki enn farin til ömmu. Ástæðan er sú að ég ákvað að ljúka við stutta útlistun á hugmyndum franska heimspekingsins Paul Ricoeur um sjálfið áður en ég héldi af stað. Í stað þess að ljúka við þetta um klukkan 10 í morgun eins og ráðgert hafði verið var ég ekki búin fyrr en rétt í þessu, um klukkan 15:00! Nú er ég hins vegar búin með fimm blaðsíður af ritgerðinni og allan innganginn. Næstur á dagskrá er sjálfur Steingrímur Hermannsson og ég geri mér góðar vonir um að ég geti unnið þann kafla svolítið hratt enda tel ég mig orðna ansi sjóaða í ævisögu hans! Sjö, níu, þrettán (bank, bank, bank)!!!

Dagurinn í gær var algjör letidagur hvað lærdóminn snerti. Ákvað að fara með ömmu og Jódísi í smá leiðangur að skoða gervijólatré (ekki handa mér þó ... ég vil ekkert nema ilmandi greni inn á mitt heimili) og ferð í Garðheima. Við eyddum drjúgum tíma í að skoða þar allt ótrúlega ljóta draslið sem Garðheimastarfsmenn eru búnir að föndra, klambra saman og tína til í tilefni jólanna! Það er nú eitthvað bogið við skilgreiningu þessa fólks á jólaskrauti. Í það minnsta kalla ég grenigrein sem búið er að klína á rauðri plastslaufu og hvítu spreki ekki jólaskraut!!! Ég græddi þó frekar dásamlega seríu sem hangir nú í eldhúsglugganum hjá mér þannig að ég fór sátt út!

Kvöldið í kvöld verður svo sjónvarpskvöld með meiru þar sem bæði á að sýna þátt í Survivor og hinu ómissandi Idoli! Ég býð spennt eftir diskóþemanu sem þar verður við völd í kvöld og gestadómarinn ... tjah, það hlýtur að verða ...Helga Möller???

 

Enn 11. desember 2003

Búin að setja inn nokkrar nýjar myndir af krílunum nýklipptum! Þið getið nálgast þær hér! Get því miður ekki skrifað neitt meira skemmtilegt þar sem Hugi lærði loks að fara fram úr sínu rúmi í gær og er því núna kominn fram í 48. skiptið í kvöld!!! Arrrg!

 

11. desember 2003

Ekkert skrifað í gær, hvorki hér né í ritgerðinni! Ástæðan var áframhaldandi gubbupest! Þetta fer nú að verða frekar þreytt! Ég ætla þó ekki að láta slíkt angra mig í dag enda styttist óðum í að skila þurfi ritsmíðinni! Til ömmu skal haldið, ritgerð skrifuð og neskaffi drukkið!

Við Einar bökuðum eina smákökusort í gær. Hvít-súkkulaðibitakökurnar góðu! Þær heppnuðust bara vel og nú er um að gera að loka þær niðri í boxi svo ekki klárist alveg allt fyrir jólin (það má þó að sjálfsögðu stelast aðeins í boxið enda finnst mér tilgangurinn með jólabakstri fyrst og fremst vera að borða afraksturinn á aðventunni! Maður hefur hvort eð er eiginlega enga lyst milli jóla og nýárs, að ekki sé talað um eftir að nýtt ár er gengið í garð!) Enn á eftir að skreyta piparkökurnar sem bakaðar voru fyrir rúmri viku og svo ætlum við mamma að taka okkur eitt kvöld í að útbúa okkar heittelskaða finnska kaffibrauð ásamt einhverju öðru! Allt slíkt jólastúss verður þó að bíða þar til ritgerðinni hefur verið skilað inn!

Börnin fengu jólaklippingu í gær! Eftir frumkvæði Maríu þarna um daginn var ekki eftir neinu að bíða! Það stýrði raunar líka því að hárið var klippt frekar stutt svona til að reyna að jafna þetta aðeins út! Hún er ósköp fín og sæt enda stóð í rauninni aldrei til að hafa hana svona síðhærða eins og hún var orðin. Það gerðist eiginlega óvart og svo þótti okkur mæðgunum svolítið gaman að geta gert tígó og fastar fléttur þannig að það tafðist ævinlega að klippa hárið aftur stutt! Hugi var líka klipptur og var allt annað en sáttur! Þetta voru heldur æsilegar mínútur þegar við pabbi hans kepptumst bæði við að halda honum kyrrum meðan aumingja stúlkan klippti sem mest hún mátti! 

Ég er farin að hlakka óendanlega mikið til að komast í jólafrí (sem verður kannski ekki mikið frí þar sem  ég á enn eina ritgerðina eftir sem ljúka þarf fyrir febrúarútskrift!) og geta skreytt svolítið hérna heima! Mér finnst mér nefninlega hafa tekist að sanka að mér dásamlegu jólaskrauti á þessum, í raun, fáu árum sem ég hef haldið jól á eigin heimili. Ég elska t.d. litla tré-jólatréð mitt sem ég hengi á pínulitlar jólakúlur (allar í sétteringu þó, að sjálfsögðu!!!) og stilli upp í stofuglugganum, stóru jólakúluna sem Þórunn systir gaf mér einu sinni i jólagjöf og hangir í borðstofuglugganum, allar seríurnar mínar (sem reyndar eru flestar uppi allan ársins hring!!!), rauðu kúlurnar sem ég keypti í jólatívolíi í Kaupmannahöfn í fyrra, litlu stytturnar mínar af Jesúbarninu, Jósef og Maríu sem eru alveg tilvaldar í jólahús ... og þannig mætti lengi telja! Oh, hvað ég hlakka til!

Bara 13 dagar til jóla!!!

 

9. desember 2003

Komin á fjórðu blaðsíðu í ritgerðinni!!! Svo sem ekki mikið en það er gott að vera byrjuð og vera nánast búin með innganginn sem ég kveið langmest fyrir að gera. Verð svo áfram dugleg á næstu dögum og þá kemur þetta vonandi smám saman.

Við amma skelltum okkur til augnlæknis í morgun. Áttum báðar erindi þangað og fórum saman nöfnurnar. Ég er með tiltölulega ný gleraugu með styrk upp á -0,75 sem mér fannst vera farin að duga heldur illa. Var því mæld upp á nýtt og þarf núna að nota gleraugu með -1,5 og-1,75!!! Fyrir þá sem ekki átta sig á því þá hefur sjónin mín sem sagt versnað óvenjumikið á bara rúmlega einu og hálfu ári! En ég fæ mér ný gler í gleraugun á næstunni og hlakka voða til að geta aftur séð allt umhverfið skýrt og greinilega!

Og María kom nýklippt heim af leikskólanum í gær!!! Hafði komist í skæri þar og klippt eins og þrjá lokka alveg stutt!!! Hún er nú vanalega ekki svona uppátektarsöm enda lék grunur á að einhver vitorðsmaður hafi verið með í spilinu! Minnir óneitanlega á þegar móðurbróðir hennar ákvað að klippa á sig riddarahjálm hérna um árið!!! Já, Elli ákvað að klippa toppinn svo hann líktist svona hjálmi sem er langur fram á nefið (þið vitið vonandi hvað ég meina). Ég man að þetta var gífurlega óvinsælt uppátæki. María er sem betur fer ekki illa útleikin en nóg til að ég er búin að panta í klippingu fyrir hana á morgun! Við drögum svo litla öskurapann með og látum snyrta hann fyrir jólin í leiðinni! Sjálf mun ég skreppa í alveg sérstakt klippingar- og litunardekur um leið og ritgerðinni hefur verið skilað! Það verður frábært!

Eins og talnaglöggir menn hafa tekið eftir þá er þetta kommentakerfi fullkomlega óhæft í að birta réttan fjölda kommenta. Það er oft búið að skrifa komment þó það standi enn þá núll! Þannig að þið megið endilega kíkja þó það lítið út fyrir að enginn hafi haft neitt við mig að segja ... og megið náttúrulega endilega skrifa sem flest komment!

15 dagar til jóla!!!

 

8. desember 2003

Kominn mánudagur enn og aftur. Svolítið erfitt að þurfa núna að setjast niður og fara að vinna í ritgerðinni, sérstaklega þar sem helgin var með eindæmum skemmtileg. Mér reiknast til að ég hafi sungið fyrir samtals 2000 manns þessa helgi! Já það er ekki amalegt að vera hylltur af slíkum fjölda, heyra klappið, stappið og bravóhrópin og horfa á fólkið rísa úr sætum sínum, allt fyrir okkur ... og auðvitað Elínu Ósk sem var alveg gjörsamlega, dásamlega frábær á þessum tónleikum! Ég er eiginlega bara sorgmædd að eiga bara eina tónleika eftir! (Ef einhverja lesendur mína langar að koma en hafa ekki enn útvegað sér miða ætti ég að geta bjargað málinu!) Já, helgin var svo sannarlega skemmtileg með öllum sínum tónleikum og þrítugsafmælisstandi! Nú þýðir víst lítið annað en að bretta upp ermar og fara að koma öllum þessum upplýsingum sem ég hef verið að sanka að mér í haust niður á blað! Ég er reyndar öllu rólegri yfir þessu núna enda loksins búin að ákveða nokkurn veginn hvernig ég byrja ritgerðina. Ég get alls ekki byrjað einhvers staðar inni í miðju, verð að byrja á byrjuninni, þannig að þetta var lykilatriði í að komast af stað í skrifunum! Ég eiginlega bæði kvíði fyrir og hlakka til. Mér finnst efnið svo ótrúlega skemmtilegt og það stendur mér eitthvað svo nærri þannig að ég gleðst vissulega yfir að fá að skrifa ritgerð upp úr því. En ég hef líka frekar litla tilfinningu fyrir því hvernig þetta muni líta út á blaði. Hef t.d. akkúrat enga hugmynd um hve langt þetta verður. Ritgerðin á að vera 15 bls. og fyrir mér er alveg jafnlíklegt að ég verði gjörsamlega búin að þurrausa mig á bls. 7 og að ég verði komin á bls. 20 og enn í innganginum!!! En þetta ætti allt saman að skýrast þegar ég verð komin af stað! Það getur reyndar aldrei orðið fyrr en eftir hádegi því ég er hér heima með Huga veikan! Einar ætlar að leysa mig af í hádeginu og þá smelli ég mér til ömmu og hefst handa!

Hvað er annars málið með þessar nýju myndasögur Moggans?!? Ég er alveg gjörsamlega miður mín ... enginn Ferdinand?!!! Eins og einhverjir lesendur vita er ég óstjórnlega íhaldssöm þegar kemur að svona hlutum! Ég hlýt því að mótmæla harðlega öllum breytingum á þessum lið blaðsins sem ég hef fylgst með frá því ég var svona sex ára! Ég hef reyndar alltaf verið mikill aðdáandi Lukku Láka ... en mig langar alls ekki að skipta honum út fyrir Ferdinand eða Ljósku!!! Og þessi Leonardo brandari var bara ótrúlega ófyndinn ... má ég þá frekar biðja um Dag að búa sér til samloku eða Ferdinand að horfa á eftir fáklæddum dömum á ströndinni!!! Ég mun opna blað allra landsmanna með kvíðahnút í maganum á næstu dögum ... hvaða óskapnaður mun bíða okkar í framtíðinni!

16 dagar til jóla ... getur það virkilega verið!!!?

 

7. desember 2003

17 dagar til jóla ... og ef það eru bara 17 dagar til jóla hlýtur að vera einum of stutt þangað til ritgerðin mín á að vera fullbúin þar sem henni á að skila löngu fyrir jól!!! Hjálp!!!!!!

Þrátt fyrir allar ritgerðaráhyggjur hef ég tekið lífinu með ró í morgun. Einar fékk nefninlega bókina um 20. öldina í afmælisgjöf frá vinnustaðnum og við höfum bæði legið yfir henni um helgina. Það er algjörlega vonlaust að slíta sig frá þessari upprifjun á liðinni tíð og ég get fullyrt að bókin er verri tímaþjófur en netið! Ritgerðin hefur því setið á hakanum. Ástæðan er nú líka sú að ég veit vel að mér yrði takmarkað ágengt á þessum ágæta sunnudegi, jafnvel þó ég settist við. Bæði börnin eru heima og ég á að syngja tvenna tónleika í dag. Tók því ákvörðun um að geyma allar skriftir til morgundagsins ... en þá verður þetta líka tekið með trompi!

Og talandi um tónleikana ... þeir sem fluttir voru í gær gengu með afbrigðum vel. Hún er líka alveg dásamleg hún Elín Ósk. Ég hef nú sungið svona jólaprógramm með fjölda einsöngvara á árum mínum í Mótettukórnum en fullyrði að enginn flutningur hefur verið jafnáhrifaríkur og hennar! Henni tókst algjörlega að glæða gömlu jólatuggurnar nýju lífi ... og þá er nú mikið sagt!!! Ég hlakka því virkilega til þess að endurtaka leikinn ... aftur og aftur og aftur!

Vona að þið eigið ánægjulegan sunnudag fyrir höndum!

 

6. desember 2003

18 dagar til jóla!!! 

Tónleikahelgin mikla er runnin upp. Ég byrjaði morguninn á strangri kóræfingu sem var samt mjög, mjög skemmtileg. Ég elska að syngja jólalögin! Á heimasíðu kórsins míns er stutt umfjöllun um hvern kórfélaga þar sem þeir voru m.a. spurðir að því hvaða flutningur hefði haft mest áhrif á þau. Flestir töluðu eitthvað um Bach eða þau nútímaverk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir okkur. Ég sagði hins vegar að jólalögin hefðu alltaf mest áhrif á mig ... og stend fullkomlega við það, hversu lummó sem það kann að hljóma! Ég hlakka því ótrúlega til að syngja þessa ferna tónleika sem fyrir dyrum eru, einir í dag, tvennir á morgun og einir á þriðjudagskvöldið! Minni enn á kostaboð á miðum ef einhvern langar að koma og hlusta á sunnudag eða þriðjudag!

Afmælisdagur Einars fór vel fram í gær. Við áttum notalegan dag hér saman og svo skelltum við hjónaleysin okkur út að borða. Það var líka alveg dásamlegt. Reyndar gerði maginn smá uppsteyt og neitaði algjörlega að hleypa forréttinum inn fyrir varirnar. Ég hlýddi því bara og þá var þetta í góðu lagi! Við komum svo hingað heim og horfðum á upptöku af Idolinu á meðan við snæddum súkkulaðiköku og mjólk! Nú fara leikar heldur betur að æsast þar ... sjö keppendur eftir og spennan magnast!

Glöggir lesendur muna kannski eftir svörtu ritgerðarkúlunni sem hreiðraði um sig djúpt í iðrum mínum í lok júlí! Kúlan sú er aftur komin á sinn stað ... þó ritgerðin sé önnur! Ég er svooo stressuð fyrir þessi ritgerðarskrif. Þarf bara að fara að byrja á þessu, manni líður alltaf verst á þessu stigi! Það verður reyndar svo mikið að gera um helgina hjá mér að ég veit ekki hvort ég kemst í þetta þá. En mánudagurinn verður tekinn með trompi.

Góða helgi, kæru lesendur, nær og fjær!

 

5. desember 2003

Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Einar, hann á afmæli í dag!

Hér er mynd af afmælisbarninu nú í morgunsárið eftir að gjafirnar voru teknar upp og morgunkaffið drukkið! Við fjölskyldan vorum auðvitað búin að undirbúa smá glaðning! Ég er búin að eyða síðasta mánuðinum í að prjóna þessa gráu og svörtu peysu á hann í leyni hjá ömmu, svo gáfum við honum fallegar flauelisbuxur og myndir af fingrunum á okkur þremur, sem eru (sem betur fer) samtals þrjátíu! Svona aðeins að aðstoða hann við að telja árin! Mamma mín kom líka við hjá okkur og færði Einari smá fatastyrk (svolítið lummó læknir sem er í buxum með gati á rassinum!) og litabækur (eftir tillögu Maríu sem taldi að pabba sinn langaði mest í Þyrnirósarlitabók!). Í kvöld er svo stefnan að við skötuhjúin förum út að borða ... þ.e.a.s. ef minn aumi magi leyfir. Ég vaknaði nefninlega með einhverja gubbupest í gærmorgun! Átti frekar erfiðan dag með Maríu hér heima og peysuna góðu sem ég átti eftir að sauma saman! Langði hins vegar mest að liggja bara uppi í rúmi með lokuð augun enda með höfuðverk og óglatt! En við vonum að þetta sé afstaðið og ég geti notið ljúffengrar máltíðar í kvöld!

Og hér er önnur mynd af afmælisbarninu, nú að lesa bók um Hr. Jóla fyrir Maríu og Huga. Þau eru bæði veik heima í dag og því verður áformum um einhvern kósí kærustuparadag slegið á frest! Í staðinn fær Einar notalegan dag í faðmi fjölskyldunnar!

19 dagar til jóla!!! Og hér eru nýjar myndir af Maríu!

 

Enn 3. desember 2003

...og enn 21 dagur til jóla! En hér kemur smá glaðningur til að stytta ykkur stundirnar:

 

3. desember 2003

Í dag átti að vera dagurinn sem ég myndi þramma eldsnemma til ömmu með tölvuna undir handleggnum og byrja að skrifa ritgerð! En að sjálfsögðu ganga þau áform ekki eftir ... María er orðin veik og planið því aðeins örlítið breytt. Í staðinn erum við mæðgur að hugsa um að dunda okkur hér heima og föndra kannski smá jólaskraut. Ég nýti daginn þá kannski líka í að setja nokkrar seríur í glugga! Það er um að gera að nýta tímann vel þó það verði kannski á annan hátt en ég hafði hugsað mér! Ég get vonandi byrjað á ritgerðinni í kvöld! Hún fer víst ekkert ... því miður!!!

Svo verður Einar þrítugur á föstudaginn! Ég eeeelska þegar Einar á afmæli, finnst alveg ótrúlega gaman að dunda mér við að finna fallegar gjafir og pakka þeim fínt inn, baka köku og eitthvað svoleiðis. Í ár verður dagurinn tekinn með trompi því afmælisbarnið er búið að kría út frí í vinnunni. Við bregðum svo kannski undir okkur betri fætinum um kvöldið og förum út að borða. Það verður frábært!

Og að lokum: 21 dagur til jóla!

 

2. desember 2003

22 dagar til jóla! Já niðurtalningin er hafin. Það er alltaf viss stemmning þegar litlu myndirnar baksíðu Moggans taka að birtast og aðstoða okkur við að telja niður dagana! Skemmtilegast finnst mér reyndar þegar það er komið svo nálægt jólum að síðasti söludagur á mjólkinni er 24. desember!

Mánudagskvöld eru sjónvarpskvöld hjá mér. Fylgdist æsispennt með gangi mála í Survivor. Það er svolítið farið að hitna í kolunum þar! Og hvað er málið með Jon ... á maður að hata hann eða finnast hann ógeðslega kúl?!? 

Stundum horfi ég svo á CSI á eftir. Já ég er nefninlega alltaf svolítið veik fyrir svona glæpaþáttum (eins og glæpasögum)! Reyndar finnst mér eitt fullkomlega óásættanlegt! Af öllum þessum amerísku lögfræðiþáttum hefur maður lært að úti í hinum harða heimi stórborganna er alls ekki sama með hvaða hætti komið er upp um morðingja. Það þarf að hafa hina og þessa heimildina upp á vasann til að leita að sönnunargögnum og til að fá þær þarf að hafa uppáskrift frá einhverjum stórum köllum. Ferlið er endalaust flókið frá rannsóknarlögreglumönnum, til saksóknara, til dómara! Og ef formsatriðunum er ekki fylgt út í þaula þá er málið bara tapað, bófinn sleppur jafnvel þó allir viti að hann hafi framið glæpinn! Óréttlætið er algjört! En bíðum nú hæg! Í CSI tína vettvangsrannsóknarmenn og -konur hitt og þetta draslið upp úr ruslinu eða bara stela því heima hjá einhverjum grunuðum og nota sem sönnunargögn! Af lögfræðiþáttunum hef ég lært að það er algjörlega óleyfilegt og málið tapað ef vinnubrögðin eru í þeim dúrnum! Og eins og ekki sé nóg með það þá eru það tæknimennirnir sjálfir sem yfirheyra grunaða, ákveða hvað eigi að kæra fyrir og þar fram eftir götunum! Þetta finnst mér vera í hróplegu ósamræmi! Önnur hvor gerðin af þáttum hefur augljóslega rangt fyrir sér!!! Nema það sé ég sem hafi rangt fyrir mér í því að halda að sjónvarpsefni endurspegli raunveruleikann!!!

Annars er komin upp önnur kynslóð glæpasagna aðdáenda á mínu heimili! María fylgist nefninlega grannt með glæpaframhaldssögu í Stundinni okkar þar sem tveir álappalegir leynilögreglumenn reyna að ljóstra því upp hver hafi stolið Guttormi, stolti Húsdýragarðsins! Hún er agalega spennt yfir þessu og farin að tala um að sig dreymi þetta á næturnar! Hún hlakkar til hvers þáttar og segir við mig full eftirvæntingar: „Kannski lenda þeir í einhverri hættu!“ Móðurhjartað slær örar ... við erum eins!!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar