Danmerkurferð

Í ágúst fórum við í seinni langferð sumarsins. Við keyrðum niður til Danmerkur með viðkomu í Gautaborg og eyddum heilli viku í sumarhúsi með ömmu Imbu, Ella og Ásu í Slagelse á vesturströnd Sjálands.

11. ágúst 2011

Eftir fyrri langferðina vorum við komin með fullkomið ógeð á McDonalds, Max og öllu því. Svo mikið ógeð að við lögðum á okkur pínuponsulítinn krók til að geta stoppað á veitingastaðnum Chop Chop við Eskilstuna á leið okkar til Gautaborgar. Ég hafði lesið meðmæli með þessum stað einhvers staðar á netinu frá einhverjum sem var orðinn alveg jafnþreyttur og við á stóru keðjunum. Og í stuttu máli þá olli Chop Chop okkur engum vonbrigðum, nema síður væri!

Baldur Tumi nartaði í vorrúllur ...

... María var alsæl með appelsínukjúklinginn sinn ...

... og það kemur auðvitað engum á óvart lengur að Hugi skuli taka hraustlega til matar síns!

Við fengum öll hvert sína spákökuna og öll fengum við ósköp hversdagslega speki nema Baldur Tumi, sem fékk ofangreindan spádóm! Það er nefnilega það!

 

12. ágúst 2011

Við lögðum af stað eftir vinnu hjá Einari og vorum því ekki komin til Gautaborgar fyrr en seint og um síðir. Það fyrsta sem gerðist þar var að tölvan hrundi svo þetta var fremur dapurlegt fyrsta kvöld á ferðalaginu! Daginn eftir vorum við hins vegar öll fimm í roknastuði og tilbúin að rannsaka borgina! Einar dvaldi í Gautaborg í tvo mánuði sumarið sem við kynntumst, '98 og svo fylgdi ég Einari þangað á ráðstefnu árið 2004 eins og lesendur þessarar síðu muna kannski eftir. Krakkarnir höfðu hins vegar bara komið til Gautaborgar eina kvöldstund þegar við fórum á Liseberg mánuði áður og þá sáu þau ekkert nema tívolítæki. Það var því margt að skoða og allir fullir tilhlökkunar.

Við byrjuðum þó á að leita uppi uppáhaldskaffihúsið okkar Einars frá ferðinni 2004. Og viti menn, það var enn á sínum stað í Victoria Passagen. Enn jafn sætt, vinalegt og með ótrúlega góðu kaffi! Einar keypti nokkrar makkarónur með og Baldur Tumi sá strax að þarna var eitthvað fyrir hann! Stóra systir reynir ákaft að stoppa hann en ...

... of seint!

Marían mín góða í fallegri blárri peysu sem við keyptum nokkrum mínútum áður þar sem það var aðeins kaldara borginni en fallegt sólskinið gaf til kynna!

Feðgarnir á besta kaffihúsi landsins ... já, svei mér þá, ég held bara að ég geti staðið við svo stór orð!

Fína blómabúðin var líka enn á sínum stað í Victoria Passagen. Ég væri alveg til í að geta komið við í henni fyrir hverja helgi!

Frá kaffihúsinu lá leið okkar gegnum miðbæinn, niður Avenyn og yfir á hið stórskemmtilega safn Universeum. Þessi karl varð á vegi okkar.

Universeum er risastórt safn með vatna- og sjávarveröld, regnskógaumhverfi, geimmiðstöð og ýmsu fleiru. Við brunuðum beint að stóra fiskabúrinu til að geta fylgst með þegar hákörlunum var gefið.

Börnin voru (alveg óvart) öll bláklædd og féllu vel inn í umhverfið!

Þarna kemur einn af hákörlunum syndandi framhjá, kannski þetta hafi verið sjálf stjarnan, hann Hermann! María útskýrir fyrir Baldri Tuma allt það helsta sem fyrir sjónir ber.

Eitthvað mjög spennandi virðist hafa synt um þarna yfir höfðum okkar þegar þessi mynd var tekin. Svo finnst mér líka skemmtilegt hvernig allir speglast í glerinu.

Það er gott að eiga stóra systur sem passar mann fyrir hákörlum og djöflaskötum!

Mig langaði voða mikið að taka myndir af kóralrifinu en fiskarnir vildu ekki vera kjurrir!

Öðru máli gegndi með marglytturnar sem reyndust bestu fyrirsætur! Þvílík fegurð!

Mér finnst að einhver ætti að skrifa ljóð um þessa marglyttu!

Eftir að hafa skoðað sjávardýrin héldum við yfir í regnskóginn þar sem þessi litli api tók á móti okkur.

Leiðin gegnum regnskóginn lá niður brattar tröppur.

  

Systkinin skoðuðu svæðið í gegnum kíki.

Marían mín sæta. (Úff, ég fæ alveg létt taugaáfall þegar ég hugsa um hvort það séu til margar svona myndir af rassinum á mér í albúmum hjá ókunnugu fólki!)

Það var sem betur fer lyfta í frumskóginum fyrir fólk með barnakerrur!

Hugi, María og Einar standa á brúnni og horfa á þá hryllilegustu sýn sem ég hef séð ...

... tvær risastórar og ógeðslegar anaconda-slöngur! Úff, ég er með slöngufóbíu á háu stigi ... sem gerir það sem gerðist í framhaldi enn óskiljanlegra! Ég bendi viðkvæmum á að skrolla bara hratt yfir næstu myndir og ekki lesa neinn texta! Ég er ekki að djóka, ég hef smá bil niður í næstu mynd til að fólk eigi auðveldara með að velja sig framhjá þeim ef það er slönguhrætt!

 

 

 

Á neðstu hæðinni var nefnilega hægt að horfa beint inn í anacondu búrið. Þar inni voru auk slanganna, tveir dýrahirðar og tvær steindauðar kanínur sem slöngurnar voru um það bil að fara að gæða sér á! Brrrr, ég fæ hroll bara af að segja þetta!

Á endanum varð forvitnin fóbíunni yfirsterkari og ég mátti bara til með að sjá hvernig þetta færi fram. Hún tók sér góðan tíma í þetta og var lengi að hnusa eitthvað af kanínunni en svo þegar hún tók sig til þá liðu kannski fimm mínútur frá því hún byrjaði og þangað til afturlappirnar voru komnar inn. Svo fékk hún rottu í eftirrétt. Úff, þetta var mjög ógeðslegt, mjög, mjög, mjög ógeðslegt. Og ég biðst afsökunar á að sýna svona ógeðslegar myndir á blogginu. En þetta var bara líka frekar áhugavert!

 

 

 

Eftir anaconduhryllinginn treystum við okkur eiginlega ekki í meira á Universum heldur ákváðum að fá okkur að borða. Reyndar vorum við öll frekar lystarlítil eftir nýafstaðið áhorf ...

... ja nema Baldur Tumi sem tók hressilega á pönnukökunum!

Gautaborg er eina borgin í Svíþjóð með sprovagnasamgöngur. Það kom því ekki annað til greina en að taka sporvagn aftur niður í bæ.

Þegar þangað var komið tókum við skyndiákvörðun um að fá okkur siglingu með Pöddunni sem er gömul og rótgróin túristasigling um kanala Gautaborgar og höfnina.

María var æsispennt!

Þegar hér var komið sögu lét ég Einar um myndatökuna og því miður voru allar myndirnar sem hann tók í þessum dúr, af einhverjum skipum, eða, sem verra var, af einhverjum krönum! Hann tók ekki mynd af neinu af því sem mér fannst merkilegast, eins og til dæmis „Ostaskeranum“ sem er lægsta brúin sem við fórum undir, svo lág að allir þurftu að leggjast á gólfið í bátnum til að missa ekki einhverja líkamsparta (sbr. nafnið!). Eins og þið sjáið er báturinn sjálfur ansi lágur þannig að þið getið bara ímyndað ykkur brúna. Næstlægsta brúin kallaðist hins vegar „Hársnyrtirinn“ og geta lesendur þar með ímyndað sér hæð þeirrar brúar og hættur!

Hugi og kranarnir!

Við María kepptumst við að knúsa Baldur Tuma og hlýja honum svona úti á miðri höfn ...

... og fengum rembingskossa fyrir vikið!

Meðfram kanölunum var fólk að njóta sumarblíðunnar sem veifaði ákaf þegar báturinn fór framhjá. Dáldið krúttlegt.

 

13. ágúst 2011

Það sem ég hlakkaði einna mest til í þessum Gautaborgarhluta ferðarinnar var að borða morgunverð á hóteli! Við dvöldum á Scandic Crown og getum svo sannarlega mælt með morgunverðinum þar sem var dásamlegur! Bara ef allir morgnar byrjuðu nú svona!

Baldur Tumi spáir í vínber.

On the road again! Það var um það bil fimm tíma hreinn akstur frá Vänge til Gautaborgar. Og þennan dag beið okkar rúmlega þriggja tíma akstur frá Gautaborg og til Kaupmannahafnar. Og svo þaðan um það bil klukkustundarakstur til Slagelse.

Við tókum skyndiákvörðun um að fara með ferjunni milli Helsingborg og Helsingör en ekki yfir Eyrarsundsbrúna eins og til hafði staðið. Það var ágætt að standa aðeins upp og hvíla sig frá akstri þessar 20 mínútur sem siglingin tók. (Ég kann ekki að gera danskt ö á tölvuna og nenni bara alls ekki að finna út úr því fyrir þetta albúm!)

Hér bjó Hamlet!

Flestir samfylgdarmenn okkar í ferjunni ruku eins hratt og hægt var á barinn til að kaupa bjór og svo sat fólk í kappdrykkju við að svolgra hann í sig áður en báturinn áði landi! Við létum þetta alveg eiga sig eins og próperum Svíum sæmir!

Við komum til Kaupmannahafnar síðdegis á þessum laugardegi og amma, Elli og Ása ekki enn lent á Kastrup. Við byrjuðum á að fara á kaffihús og næra okkur enda svöng eftir ferðina. Þetta er víst eina myndin sem ég tók í þessari Kaupmannahafnarferð því þegar við komum út af kaffihúsinu var farið að hellirigna og við eitthvað hálf villuráfandi þannig að við tókum bara strikið út á Kastrup til að taka á móti ferðafélögunum.

Það urðu fagnaðarfundir á vellinum enda höfðu mörg okkar ekki sést í eitt og hálft ár! Þaðan keyrðum við svo beinustu leið til Slagelse, eða réttara sagt til Stillinge strand, með viðkomu á nokkrum stöðum til að sækja lykla, rúmföt og eitthvað í ísskápinn. Hér er stórfjölskyldan samankomin í fína sumarhúsinu fyrsta kvöldið!

Allir glaðir!

Frændurnir voru kátir að hittast eftir langan aðskilnað! Baldur Tumi er hér í kisbúning af mömmu sinni sem amma á Sóló bjó til fyrir rúmum 30 árum. Það fylgir ótrúlega flott gríma með vestinu og ég þarf endilega að mynda hann í dressinu við tækifæri.

 

14. ágúst 2011

Þennan fyrsta heila dag okkar í Danmörku keyrðum við yfir til Fjóns til að hitta Svein bróður hans Einars, Rósu Mundu konuna hans og dæturnar fjórar, Ester, Bríeti, Iðunni og Sjöfn. Þær tvær síðastnefndu eru fæddar í Danmörku og við höfðum aldrei hitt þær og sömuleiðis hafði enginn þeirra hitt Baldur Tuma svo þetta var vægast sagt spennandi heimsókn! Hér erum við að keyra yfir Stóra beltið. Þetta er býsna tilkomumikil brú og þegar við keyrðum til baka í kolniðamyrkri og grenjandi rigningu fannst mér ég vera stödd við hlið Mordor eða eitthvað álíka!

Sveinn var að keppa í hjólakeppni þegar okkur bar að garði en bættist fljótlega í hópinn. Hér erum við öll saman að fá okkur kaffi og brunsviger sem er fjónsk kaka sem er víst bara hægt að baka á Fjóni - því er nú ver og miður!

Stóru börnin mundu auðvitað vel hvort eftir öðru enda hafa Sveinn, Ester og Bríet einu sinni komið og heimsótt okkur. Annars höfum við verið óheppin og aldrei hitt hvert á annað í Íslandsferðum, þau verið í Danmörku þegar við höfum eytt jólum Íslandi og við eytt sumrum í Svíþjóð þegar þau hafa farið heim og svo framvegis.

Dúllurnar Baldur Tumi og Iðunn skelltu sér aðeins út í rigninguna vel búin.

Er eitthvað krúttlegra?

Baldur Tumi var mjög spenntur fyrir frænkum sínum en kunni kannski ekki alveg að haga sér innan um alla þessa kvenskörunga.

Ungfrú Krútta undir regnhlíf og herra Krútti fylgist hálfhissa með!

Maríu fannst æðislegt að hitta litlu frænkur sínar og er hér með Sjöfn í fanginu.

Stóru systurnar prófuðu líka að býtta á litlu systkinum í smá stund. Þær eru sko duglegar þessar stelpur, klárar, góðar og skemmtilegar.

Sjöfn og Baldur Tumi leika með bíla. Mússí múss!

Litlu vinirnir Iðunn og Baldur Tumi komu sér fyrir undir teppi og kíktu á spólu. Maríu fanns þau svo sæt að hún gat ekki slitið sig frá þeim! Mér fannst þau líka svo sæt að ég tók örugglega fimmtíu myndir af þeim! Hef samt hemil á mér og birti bara þessa einu!

Bræður með næstelstu afmkvæmi sín. Sveinn á nefnilega eina dóttur í viðbót, hana Sólbjörtu Hörpu sem nú er ung kona í college í Glasgow. Þetta er mikið ríkidæmi!

Við héldum heim sprengsödd eftir brunsvigerið og dásamlegan piri piri kjúkling. Þegar við komum aftur á Stillinge strand var Elli að hella í sig rótsterkum bjór!

Og þessi var æsispennt að eiga afmæli eftir tvo daga, reyndi að leita uppi alla pakkana til að kíkja í þá og ég veit ekki hvað og hvað!

 

15. ágúst 2011

Daginn eftir drifum við okkur í heimsókn í sumarhús vina mömmu nálægt Köge á austurströnd Sjálands. Elli, Einar og María voru hress þegar þau tóku staðinn út.

Og bræðurnir voru komnir í algjöra paradís með öllum þessum tröppum, brekkum og grasflötum.

Elli og Einar ræða málin og Ása hlerar þarna á bak við. Ása, við sjáum þig alveg þótt þú sért með sólgleraugu!

Það urðu fagnaðarfundir í sumarhúsinu og mamma kom færandi hendi með ýmiss konar íslenskan varning handa þeim Josef og German.

Amman með barnabörnin úti í garði.

Þessi hluti garðsins kallast „The headache garden“ af augljósum ástæðum!

Við gestirnir tókum okkur gönguferð niður að ströndinni meðan húsráðendur höfðu til matinn. Baldur Tumi fann sér rólu ...

... á meðan restin af fjölskyldunni renndi fyrir fisk.

Huga hefur lengi dreymt um að prófa að veiða með alvöru veiðistöng! Hann sveif hreinlega tíu sentimetrum fyrir ofan jörðu þegar hann fékk að prófa og ekki dró úr gleðinni hafa Ella frænda sér til halds og trausts.

Það þurfti auðvitað að mynda þetta ævintýri í bak ...

... og fyrir!

Það veiddist að vísu enginn fiskur en Huga virtist nokk sama! Hann fær vonandi að fara í veiðiferðir með Ella frænda og Afa Bíbí að nokkrum árum liðnum.

Í kvöldverð var boðið upp á steikur frá Suður-Afríku og fyrri eftirrétturinn voru grillaðir bananar með ýmsu góðgæti, m.a. rommi einhvers staðar frá karabíska hafinu. Það er gaman að vera boðinn í mat hjá flugþjóni!

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af grilluðum banönum en þessir voru frábærir! Stútfullir af púðursykri, rommi, súkkulaðisósu, ís og sykruðum hnetum.

Baldur Tumi og sólblómin. Hann gat endalaust stillt sér upp við þennan vegg og hlaupið svo niður brekkuna ofan í garðinn. Eeeeendalaust!

Eftirréttur númer tvö var súkkulaðikaka með kirsuberjum og rauðrunnate frá Suður-Afríku.

Baldur Tumi er alltaf til í að eignast nýja vini!

 

16. ágúst 2011

         

Húrraaaaaa ... ég á afmæli í dag!!!! Mamma byrjaði 60. afmælisdaginn sinn á trampólínhoppi í Slagelse!

Og aðrir samfögnuðu með hoppum! Hopp ...

... hopp ...

... hopp ...

... oooooog hopp!

Hin heilaga þrenning í Slagelse.

       

Ég fékk alveg spes leyfi frá Maríu til að birta þessar myndir! Ég var nefnilega eitthvað að taka myndir af gosbrunninum með svona stillingu á vélinni sem tekur margar myndir í röð rosalega hratt og sá eftir á að ég hafði í leiðinni fangað mjög dramatískt fýlukast hjá dóttur minni! Við erum búnar að hlæja mikið að þessum myndum - ekki síst dramadrottningin sjálf! Æ, hún er svo dásamleg!

Við borðuðum hátíðarhádegisverð í Slagelse. Og einhverjir höfðu jafnvel á orði að þeir hefðu fengið besta hamborgara sem þeir hefðu nokkru sinni smakkað. Þá vitiði hvert þið eigið að fara ef þið viljið prófa þá!

Afmælisbarnið virtist ánægt með þetta allt saman.

Eftir bæjarrölt í Slagelse héldum við heim á Stillinge strand til að fara í sparifötin. Afmælisbarnið vissi ekkert hvað var í vændum.

Elli og Ása eru alltaf svolítið merkileg með sig.

Ása, María, Elli og Einar um það bil að leggja í hann. Áfangastaður: Leyndó!

Eftir stuttan bíltúr í gegnum danskar sveitir komum við á veitingastaðinn Stövlet Katrines Hus. Dálítið spes nafn en staðurinn var fallegur og maturinn himneskur! Ása og mamma voru sætar og sælar.

Hugi var stællegur með hattinn.

Við systkinin vorum glöð í bragði en gekk ekki alveg nógu vel að tala dönsku við þjóninn!

Maríu fannst gaman að fara fínt út að borða og mér fannst hún ægilega fín með hárið svona uppsett.

Einar var auðvitað líka á staðnum.

Og Baldur Tumi horfði á Cars allan tímann. Mér fannst svolítið spes stemmning að vera með vídeó við borðið en er sannfærð um að það var töluvert betri stemmning yfir því en yfir gargandi smábarni, hlaupandi um allt að trufla ekki bara okkar borðhald heldur allra annarra á staðnum!

Því miður klikkaði ég alveg á að taka mynd af öllum fallega og girnilega matnum. Það eina sem festist á filmu var þessi sniðugi milliréttur sem gestirnir tóku þátt í að setja saman sjálfir. Í litlu könnunni var „buttermilk“ (sem ég veit alls ekki hvað heitir á íslensku en veit að þetta heitir „kärnmjölk“ á sænsku), í litlu skálinni þeytti maður saman egg og sykur og svo blandaði maður öllu saman við sítrónusafa og agnarsmáar möndlukökur. Bæði bragðgott og skemtilegt!

 

17. ágúst 2011

Daginn eftir var ákveðið að halda til Kaupmannahafnar og fara í Tívolí. Mamma, Elli og Ása tóku lestina en við Einar og börnin tókum bílinn og komum við í risastórri antíkbúð þar sem ég var á höttunum eftir fleiri dýrgripum í musselmalet safnið mitt. Og, sjá, ég varð ekki fyrir vonbrigðum! Ég kunni ekki við að vera að taka myndir þarna inni og stalst bara rétt til að smella af þessari einu. Hér sést bara lítið brot af musselmalet úrvalinu! Í raun var þetta heilt herbergi bara með musselmalet (bæði frá Royal Copenhagen og Bing og Gröndal) og Bláa blóminu sem er annað gamalt og gott stell frá Royal. Ég keypti mér reyndar ekki mikið enda var allt svo miklu dýrara þarna en ég hef verið að kaupa í gegnum sænsk netuppboð. Þrír matardiskar, þrír kökudiskar og einn djúpur diskur fylgdu þó með heim frá Osted Antik.

Og svo vorum við komin í Tívolí!

Elli, Ása, Einar og Hugi keyptu sér passa í tækin og eru hér að fara í fyrstu rússíbanaferð dagsins.

Stemmning á klósetti í Tívolí.

Elli og Ása að leggja af stað í kolkrabbaferð.

Einar og Hugi voru með líka og virtust skemmta sér vel.

Baldur Tumi fylgdist glaður með tívolítækjunum úr kerrunni sinni.

Við mamma, María og Baldur Tumi keyptum okkur ekki passa og nutum þess í staðinn að rölta um þennan fallega garð, skreppa með Baldur Tuma í einstaka hringekjur, kíkja í Lisbeth Dahl búðirnar og fleira.

Mér gekk voða illa að taka almennilegar myndir í þessari ferð! Hér er ein rækilega yfirlýst úr hringekjuferð!

Baldur Tumi fór í eitt tæki með Huga og pabba sínum og varð svo hræddur að Hugi æpti „stopp, stopp, STOPP“ á starfsstúlkuna sem stjórnaði tækinu. Hún hlustaði sem betur fer á fyrirmælin og stoppaði tækið snarlega og hleypti feðgunum út með hágrátandi Baldur Tuma.

Amma og María í blómahafi. Það mætti halda að ég hefði beðið þær að koma klæddar í stíl við blómin!

Stóra stelpan mín.

Smá grín hjá okkur mæðgum!

Síðsumarblómstur.

Hugi og Einar glaðbeittir í loftbelgjaferð.

Við fjölskyldan létum drauminn rætast og fegnum okkur Sticks sem er alls kyns góðgæti á borð við jarðaber, núggatmola og sultað engifer þrætt upp á tréspjót, dýft í súkulaði (hvítt, mjólkur eða dökkt) og svo velt upp úr hnetukurli, kókos eða speltflögum.

Namm!

Sticks-spenningur. Mamma var hefðbundnari og fékk sér ís með flödebolle og syltetöj.

María og amma fóru með Baldur Tuma í bílferð. Hann var með tívolísvipinn og reyndi að halda aftur af brosinu ...

... en svo brustu allar varnir! (Ég veit að myndin er úr fókus, þetta var bara svo sætt bros!)

Hér er Baldur Tumi upptekinn við að stýra. Hann tók þessa ökuferð þó ekki eins alvarlega og systir hans forðum daga sem kepptist stressuð við að stýra sambærilegum bíl til að fara ekki út af!

Við mæðgurnar þrjár fengum þá skyndihugdettu að fara með Baldur Tuma í Aquarium-ið í Tívolí. Og þegar upp var staðið fannst mér þetta eiginlega hápunktur Tívolíferðarinnar. Ótrúlega fallegt umhverfi og fallegir fiskar.

María og Baldur Tumi með fisk á milli sín.

Maður verður rómantískur á svona fallegum stað!

Þessi var með ugga sem litu út fyrir að snúast eins og hreyflar.

Baldur Tumi í ævintýraveröld.

Svo lítill í þessu mikilfenglega umhverfi!

Það er eitthvað alveg sérstakt við svona aquarium. Þögnin svo djúp en samt svo mikið líf, litirnir svo fallegir. Ég er alveg viss um að ég yrði mun betri manneskja ef ég gæti heimsótt þetta aquarium daglega og átt svona eins og korter í rólegheitum þar!

Þríburar á þönum.

Já ég veit að þetta eru orðnar ansi margar myndir af fiskabúri ... en þessi sæta af litla dúllurassinnum mínum verður bara að fá að fylgja með!

Er þessi múrena kampakát eða í árásarhug - það er vonlaust að segja!

Við lukum þessari Kaupmannahafnardvöl á að borða kvöldmat á Wagamama sem er innangengt á úr Tívolí.

Ég hef heyrt ýmsar sögur af Wagamama, aðallega frá fólki sem hefur staðinn upp til skýjanna en líka nokkrum nöldurseggjum sem hafa orðið fyrir vonbrigðum. Ég elska svona kryddaða núðlurétti og ég var alla vega mjög ánægð með minn mat!

Baldur Tumi kann alveg að borða núðlur ...

... með prjónum og allt! (Eða hann heldur það alla vega!)

Elli og Ása sjúklega sæt!

 

18. ágúst 2011

Við vorum engan veginn búin að fá nóg af skemmtigörðum eftir Tívolíferðina svo við drifum okkur í Legoland daginn eftir.

María sem elskar hvers kyns smáveraldir var á réttum stað í tilverunni þennan dag!

Hugi, María og amma að leggja af stað í siglingu.

Þetta var ósköp róleg sigling fram hjá ýmsum lego fígúrum og inn í helli. En Einar rýndi í kortið sitt og sannfærðist skyndilega um að þetta væri í rauninni bara byrjunin á ægilegum vatnsrússíbana!!! Við Elli og Ása vorum sko meira en til í vatnsrússíbanaferð og þar sem það var engin biðröð í tækið drifum við okkur um borð í bát!

Hér erum við að koma til baka, búin að staðfesta að Einar hafði kolrangt fyrir sér! Hin æsilega sigling lá einungis inn í sjóræningjahellinn og svo út aftur svo við hefðum ekki alveg þurft að hlaupa í hendingskasti til að ná í fyrsta lausa bát! Ég hló svo mikið að tárin runnu niður kinnarnar.

María fór með litla bróður í hringekju.

Hér veifar hann eins og kóngurinn sem kemur ríðandi meðal þegnanna!

Mér gekk lítið betur með myndavélina í Legolandi! Hér er ein yfirlýst af ömmu og Baldri Tuma í lest sem fær að fljóta með því Baldur Tumi er svo ægilega glaður og stoltur á henni!

Við skelltum okkur líka í Atlantis veröldina og þessar myndir eru sérstaklega teknar fyrir hann Ástþór Örn vin minn sem er mikill Atlantis Lego aðdáandi.

Elsku Ástþór Örn minn, mikið hefði nú verið gaman að vera þarna með þér!

Og þetta var sem sagt í þriðja sinn á innan við viku sem við fjölskyldan fórum í aquarium!

María og Hugi stungu höfðinu inn í krabbabúr.

Ása á kóralrifi.

Það besta af öllu við að fara í svona skemmtigarða er að njóta þess í gegnum Maríu og Huga!

Er þetta ekki trúðfiskur?!

Meðan við leituðum að Atlantis voru Baldur Tumi og amma í Duplo landi.

Elli vildi ólmur komast á Star Wars svæðið.

Ég held að ég sé komin með nýtt draumastarf eftir þennan dag! Mig langar að fá að vera garðyrkjumaður í Legolandi! Ég get eiginlega ekki ímyndað mér neitt eins skemmtilegt og að spá í hvaða blóm gætu verið tilvalin sem tré í mínílandinu eða finna akkúrat réttu plönturnar til að ramma Loga geimgengil og inn!

Þarna erum við í útsýnisferð, það er því miður ég sem er að vinka þarna eins og einhver hálfviti!

Við fengum okkur ís í lok skemmtilegs dags í Legolandi!

Á leiðinni heim komum við við í Óðinsvéum og fengum okkur ótrúlega góðar pizzur. Það var leitt að sjá Óðinsvé ekki nema svona að kvöldlagi því þetta virtist hinn notalegasti bær.

Það er alltaf skemmtilegt að fara með Huga út að borða, hann er til í að prófa alls kyns nýjungar og finnst allt gott!

 

19. ágúst 2011

Síðasta heila deginum okkar í Danmörku eyddum við í rólegheitum og því voru afar fáar myndir teknar. Síðasta kvöldmáltíðin samanstóð af piri piri kjúkling Sveins og Rósu Mundu (sem heppnaðist reyndar ekki alveg eins vel og þeirra en var samt mjög góður) og ís með salthnetu- og súkkulaðisósu.

 

20. ágúst 2011

Við þurftum að skila sumarhúsinu af okkur snemma morguninn eftir og í kjölfarið skildust leiðir. Elli, Ása og amma brunuðu á Kastrup til að skila bílaleigubíl en við hin héldum til Kaupmannahafnar með viðkomu í nokkrum antíkbúðum. Engir fjársjóðir reyndust þó leynast þar en á Kongens Nytorv var antíkmarkaður og þar fann ég 5 dásamlega súkkulaðibolla sem ég sýni ykkur bráðum! Af þesari mynd að dæma var það samt bara ég sem hafði gaman af þessum leiðangri!

Mamma slóst í hópinn skömmu síðar og saman fórum við með krakkana í Sívalaturninn.

Á uppleið.

Baldur Tumi lét ömmu sína ýta sér upp. Þetta er líka óttalegur ömmustrákur!

Hugi hafði mest gaman af að fela sig í svona skúmaskotum og bregða okkur hinum.

Hugi og María njóta útsýnisins yfir Kaupmannahöfn. Við kvöddum ömmu svo glöð eftir góðan dag í gömlu höfuðborginni. Hún, Elli og Ása flugu heim um kvöldið en okkar hinna beið enn ein langferðin í bílnum.

 

21. ágúst 2011

Við komum til Gautaborgar seint og um síðir (mér finnst eins og ég hafi sagt þetta áður!) og dvöldum nú á nýju hóteli, Scandic Opalen. Þrátt fyrir að við værum öll geysispennt að komast aftur heim á Konsulentvägen eftir langt ferðalag gat ekkert okkar hugsað sér að setjast upp í bílinn strax morguninn eftir þannig að við ákváðum að fá okkur örlitla hressingargöngu um Gautaborg áður. Við byrjuðum á að kanna hvort búið væri að opna litla kaffihúsið okkar og viti menn, þar stóð allt upp á gátt og kaffilmurinn barst út á götu.

Ég er ekki viss um að við Einar hefðum komist í gegnum daginn ef við hefðum ekki byrjað hann með svona góðu kaffi!

Hér gefur að líta sýnishorn af týpískum Baldurs Tuma svipbrigðum. (Mikið eru þetta annars fallegir litir saman, sá græni í kerrunni, blái í peysunni og rauði í gosflöskunni!)

Einar hjarta kaffi.

Þegar við komum endurnærð út úr Victoria Passagen voru götur Gautaborgar fullar af fólki, lúðrasveitum og fjöri og í ljós kom að það var menningarnótt framundan í borginni. Þótt það hefði vissulega verið gaman að taka þátt í því var þráin eftir litla húsinu okkar öllu öðru yfirsterkari svo við stikuðum gegnum mannfjöldann í átt að bílnum. Einar, María og Hugi gáfu sér þó tíma til að sitja fyrir á einni mynd en Baldur Tumi mátti ekki vera að svoleiðis vitleysu enda nýbúinn að eignast bók um gröfur, vörubíla og önnur mögnuð farartæki!

Hér erum við alveg að verða komin í bílinn og Baldur Tumi dottinn út af.

Og er ekki rétt að enda albúmið á sama stað og það byrjaði, á Chop Chop? Það kom ekki annað til greina en að stoppa þar líka á heimleiðinni. Þegar þarna var komið sögu var sirka fjögurra tíma akstur að baki og rúmlega einn eftir.

Baldur Tumi hafði aðallega lyst á spákökum og vildi helst narta í þær á ferð og flugi um staðinn.

Við fengum aftur frekar hversdagslega og klisjukennda spádóma úr kökunum, öll nema Baldur Tumi sem fékk þennan. Maður veit bara ekki hvað maður á að halda?!

 

Takk fyrir frábæra viku elsku mamma, Elli og Ása! Við hlökkum til að sjá ykkur aftur!