Dagur í Stokkhólmi

Sígunaflokkur í stórborgarferð!

Við byrjuðum þessa Stokkhólmsferð á Vetekatten eins og svo oft áður. Við fengum borð alveg upp við bakaríishluta kaffihússins þar sem maður getur fylgst með bökurunum vinda kanelsnúða gegnum glugga. Einn bakarinn varð ægilega skotinn í Baldri Tuma þegar við vorum að koma okkur fyrir og vinkaði honum glaðlega hinum meginn við glerið. Okkar maður var seinn að taka við sér, eins og venjulega, og vinkaði á móti fimm mínútum seinna. Þá ætlaði hann reyndar aldrei að hætta og vinkaði meira og minna alla kaffihúsaferðina!

Feðgarnir voru annars sáttir við sitt ...

... og stóru börnin líka.

Eftir stopp á Vetekatten þræddum við okkur í gegnum borgina og keyptum eitt og annað á leiðinni. Komum svo við í Gallerian og keyptum heimalagaðan ítalskan ís á Montis og röltum svo yfir í Kungsträdgården til að gæða okkur á honum undir kirsuberjatrjánum sem stóðu í háblóma.

Mér finnst alltaf hálf óraunverulegt að vera þarna á þessum tíma, eiginlega eins og maður hafi dottið inn í Elsku Míó minn eða eitthvað álíka. Engin mynd getur komið því til skila hversu fallegt það er að standa undir bleiku blómþaki þar sem krónublöðunum rignir yfir mann og þekja stígana!

Þessi kirsuberjatré eru þó bara blómanna vegna, þau bera enga ávexti á haustin. Þau eiga því allt undir þessari sirka einu viku á vorin sem þau standa í blóma og þá flykkist fólk í garðinn.

Fyrir mér er þetta fegurð í hnotskurn!

Einmitt á þessum tímapunkti uppgötvaðist að María hafði gleymt myndavélinni sinni á einhverjum af viðkomustöðum okkar fram að þessu. Hér er hún því ansi döpur á svipinn og Einar upptekinn við að lesa símanúmer af öllum innkaupapokunum til að hringja á viðkomandi staði til að kanna hvort þar lægi nokkuð appelsínugul myndavél. Ekki fannst myndavélin með þeirri aðferð svo ekki var um annað að ræða en þramma til baka og þræða allar búðirnar í öfugri röð. Að sjálfsögðu fannst myndavélin í fyrstu búðinni sem við höfðum farið í sem jafnframt var fyrsta búðin sem við hringdum í (fúla afgreiðslukonan hafði þá ekki viljað kannast við að nein myndavél lægi á glámbekk) en sú síðasta sem leitað var í! Við Baldur Tumi fengum þó að sleppa við þann leiðangur og dvöldum í staðinn aðeins lengur undir kirsuberjatrjánum áður en við sinntum nokkrum erindum í námunda við garðinn.

Þetta bara varð ég að festa á filmu! Það sést því miður ekki alveg nógu vel en dökkklædda konan þarna fyrir miðri mynd heldur á dúkku sem hún lyftir upp að blómstrandi trjágreinunum og svo er maður með risastóra myndavél þarna til vinstri sem er að taka mynd af dúkkunni. Ég rakst á þessar dúkkur á netinu fyrir einhverjum árum síðan, þær eru japanskar, heita LaTi dúkkur og eru til í alls konar útgáfum en eiga það allar sameiginlegt að vera voða emo á svipinn. Þær eru rándýrar, kosta kannski í kringum 200 $ og þá á eftir að kaupa hárkollur, föt og alls konar fylgihluti. Markhópurinn er fullorðnar konur sem kaupa dúkkurnar aðallega til að klæða þær í flott föt og taka myndir af þeim í alls konar aðstæðum og alls konar stellingum. Þetta getur tekið á sig mjög öfgafullar myndir svo ekki sé meira sagt! Að auki er fullt af fólki út um alla heim sem hefur atvinnu af því að sauma, prjóna og hekla föt og fylgihluti á dúkkurnar (ég hef einmitt grun um að konan á myndin sé ein af þeim). Þeim sem ekki vilja láta mín orð nægja bendi ég á að slá leitarorðið „lati“ inn á Flickr!

En úr dúkkunum og aftur yfir í blómin!

Einhvern tímann ætla ég að taka þátt í hanami (veisla undir blómstrandi kirsuberja- eða plómutrjám) í Tokyo! Því miður minnir mig að japanska veðurstofan sé hætt að spá fyrir um það hvenær trén blómstri en það var víst af því að það eru hvort eð er óteljandi spár á netinu svo þetta ætti að bjargast.

Þangað til verð ég bara að láta mér hanami í Kungsträdgården með ís frá Montis nægja!

         

Systkinin á creperiunni seinna um daginn!

Hér sést Einar kominn inn frá því að hafa svæft öskurapann og svo svartklædda daman sem horfir illilega í áttina að okkur eins og þið sjáið!

Komin heim á Konsulentvägen eftir stórborgarferð og María sýnir stolt loftljósið sem hún keypti sér fyrir afmælispeningana frá Birnu frænku! Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni!