Daglegt líf á Konsulentvägen
Hinar og þessar marsmyndir

Baldur Tumi kúrir í mömmurúmi að morgni dags. Það er nú sjaldgæft að hann sofi fram eftir en gerist einstaka sinnum. Og þegar Einar er farinn í vinnuna, stóru börnin í skólann og sá litli sefur dettur mömmuni ekkert betra í hug að nýta tímann í en að taka myndir af smámanninum!

Hugi var hræðilega veikur í mars eins og áður hefur komið fram. Hann eyddi dögunum í að kúra uppi í sófa og kannski horfa á smá íþróttir í tölvunni eða sjónvarpinu. Ég eyddi hins vegar dögunum í að reyna að halda Baldri Tuma frá honum svo hann fengi smá frið! Það gekk ekkert sérstaklega vel, eins og sjá má! Baldur Tumi nýtti hvert tækifæri til að skríða upp í sófa til hans og stinga sér undir sæng til fóta! Einmitt þarna var því sem betur fer vel tekið!

Nokkrum dögum síðar var Hugi á batavegi og þeir bræðurnir urðu kátir í bragði þegar hingað barst pakki frá Svanhildi vinkonu okkar og strákunum hennar. Bræðurnir fengu hvor sína bóka sem þeir settust strax með og byrjuðu að lesa í. Hugi fékk aðra Þórsbók en hann gleypti þá fyrri (sem eiginlega var sú síðari) í sig á mettíma í byrjun árs. Baldur Tumi fékk bók um kisuna Lúlú sem hefur verið vinsæl síðan.

Aumingja Hugi fór úr einum vandræðunum í önnur. Einmitt þegar hann var að jafna sig eftir veikindin keyrðu þeir Baldur Tumi saman í aðeins of æstum leik! Það sá ekki á þeim litla en Hugi var með tvöfalda eftri vör í marga daga! Kannski bara skemmtilegt merki um hvað þeir geta leikið sér vel saman þótt sjö ár aldursmunur sé á þeim.

Pottaskefill er enn á ferli hér á Konsulentvägen þótt komið sé fram í mars!

Baldur Tumi er orðinn algjörlega sjálfbjarga. Hann kemst hvert sem er í húsinu (með því að keyra stóla um og príla upp á þá og þaðan á áfangastað) og getur opnað allar skúffur, skápa og kassa. Hann fer því létt með að fá sér sjálfur að borða ef foreldrarnir eru eitthvað seinir. Hann fer kannski fljótlega að fá sér sína eigin íbúð?!

María og Baldur Tumi skoða gamalt albúm frá því þau stóru voru lítil.

Þrátt fyrir að snjórinn byrjaði loks að bráðna í mars var nóg eftir til að Hugi gæti stokkið út og búið til þennan glæsilega snjókarl - sem fékk lánaða úlpuna hans og húfu.

Við María áttum erindi í Ikea þennan daginn og féllum þar fyrir fínni ávaxtaskál, ísbúð og afmælisköku í barnadeildinni. Um leið og Baldur Tumi vaknaði af lúrnum sínum drifum við hann inn í eldhús að skoða herlegheitin og jafnvel prófa að gefa voffa banana að borða. En það var auðvitað bæði skrýtið og fyndið því eins og allir vita borða voffar ekki banana! Voffinn er samt vel útbúinn með bleiu - svona ef ske kynni!

Það er ekkert smá gaman að leika með stóru systur! (Glöggir lesendur sjá að hér er komin forsíðumyndin af Baldri Tuma en nú er svo komið að ég legg alls ekki í að reyna að taka einhverjar uppstilltar myndir af honum. Það eina sem gildir er að finna fína mynd sem er til fyrir og svo þurfa aðrir fjölskyldumeðlimir bara að laga sig að því!)

Einmitt þarna var Baldur Tumi að koma auga á snjókarlinn hans Huga íklæddan úlpunni og húfunni og hrópaði því næst glaður „Hugi!“ og benti út. Hann er kannski ekkert sérstaklega mannglöggur drengurinn?

Bara ein í viðbót af þessum sætu og glöðu systkinum!

Bleikur ranaculus sem við mamma (sem var hér í heimsókn í nokkra daga) keyptum á Hötorget í Stokkhólmi.

Blóma- og grænmetissalarnir á Hötorget eru svolítið æstir og maður þarf eiginlega að passa að þeir nái ekki augnsambandi við mann ef maður er hvorki í stuði fyrir túlípana, ferskan aspas né rökræður! En ef mann langar nú til dæmis að kaupa sér þrjú búnt af ranaculusum í ólíkum litum þá er maður heppinn og fær góð tilboð!

Ég má svo til með að ljúka þessu albúmi á mynd af stórkostlegum hádegisverði sem ég lagaði alveg sjálf!!! Ég hef margoft sagt hér á síðunni að ég kann alls ekkert að elda. Hef gaman af að baka en er alveg vonlaus um leið og það á að fara að gera eitthvað í pottum eða á pönnu. Og almennt verður allt bara svo vont sem ég geri ef það er ekki sætabrauð. Fólk á eitthvað erfitt með að trúa þessu en svona er þetta nú samt. Þannig að þegar ég hrærði saman þetta stórkostlega góða rækjusalat með vorlauk, sítrónugrasi og kóríander og grillaði avocadoin áfallalaust mátti ég til með að taka mynd af velheppnaðri máltíð! Ég meina, það eru munstur í avocaoduunum og allt! Og svo var þetta ótrúlega gott í ofan á lag! Ef einhvern langar að prófa þá er uppskriftina að finna hér hjá henni Leilu minni (bara skrolla aðeins niður).