Bráðum koma blessuð jólin

Lúsía og jólaundirbúningur á Konsulentvägen

Í Vänge skola er hefð fyrir því að 2. bekkur sjái um Lúsíuhátíðahöldin og því var komið að Huga árgangi í ár. Í ár voru tvær sýningar fyrir nemendur skólans að morgni dags heilagrar Lúsíu og svo sérstök sýning fyrir foreldra um kvöldið næsta dag. Þessar myndir eru teknar við það tilefni en við Baldur Tumi sáum að vísu hinar sýningarnar líka þar sem við mættum til að aðstoða við búninga. Á þessari mynd er Hugi í efri röð, rétt hægra meginn við miðju.

Í ár voru bara þernur og stjärgossar í Luciatåginu og svo vitaskuld ein Lúsía. Að vísu áttu krúttin í förskoleklass óvænta innkomu sem litlar jólasveinar í einu laginu en annars voru allir hvítir, silfraðir og gylltir. Sitt sýnist hverjum með þessar Lúsíuhefðir. Þegar lítil börn lussa eru yfirleitt engar reglur og allt úir og grúir af lúsíum í bland við jólasveina og piparkökukalla. Það er ótrúlega krúttlegt og dásamlegt að allir fái að vera eins og þeir vilja. En svo er líka gaman að fara aftur í upprunalegu hefðina eins og gert var í Vänge skola þetta árið, að ekki sé talað um hvað það var sjónrænt miklu fallegra.

Krakkarnir voru alveg ótrúlega dugleg, sungu hátt og snjallt og voru með prógrammið á hreinu. Enda búin að æfa í nánast allt haust.

Okkar maður stóð sig auðvitað frábærlega en sagðist hafa verið svolítið feiminn, sérstaklega á sýningunni þar sem María og hennar bekkjarfélagar voru.

Á eftir héldu allir í skólastofurnar, drukku kaffi og kakó og borðuðu lussebulla og piparkökur. Ekki þó fyrr en þessi stolta mamma var búin að taka eina uppstillta mynd af litla/stóra stjärngossanum sínum.

Þessi litli stjärngossi var líka mjög hress í öllum jólaundirbúningnum. Hér búinn að ræna mysingsdollu úr ísskápnum og er að gæða sér á innihaldinu.

Prakkari með prakkarasvip.

Baldur Tumi er athafnasamur og sjálfstæður ungur maður. Það eru svo að segja engir staðir í húsinu sem hann nær ekki til. Það opnaðist fyrir honum nýr heimur þegar hann uppgötvaði að hann gat keyrt stóla eftir gólfinu, prílað svo upp á þá og þannig náð upp á öll borð, í gluggasyllur og hillur. Þar af leiðandi þarf maður að setja dót ansi hátt upp ef maður vill hafa það í öruggri fjarlægð frá honum (upp á bókaskápa t.d. en þar er því miður ekkert sérstaklega aðgengilegt að geyma dót). Hann kann líka að opna allar skúffur og skápa, plús ísskáp og frysti. Við erum auðvitað búin að setja barnalæsingar á allar hirslur þar sem eitthvað hættulegt er að finna en held að við nennum annars ekki að læsa öðru. Með þriðja barn man maður jú að svona tímabil ganga yfir á ekkert svo voðalega löngum tíma!

Verkstæði jólasveinsins daginn fyrir síðasta sendingardag á pökkum innan Evrópu!

Pakka á leið yfir hafið.

Jólabakstur á Konsulentvägen og Baldur Tumi nælir sér í deig af hrærivélinni.

Namm hvað þetta er gott!!!

Hér eru feðgarnir að skrúfa saman nýjan skenk í stofuna þremur dögum fyrir jól. Sennilega er hér komin ástæðan fyrir því að við lendum alltaf í gríðarlegu jólastressi og erum of sein með allt fyrir jólin: mér dettur ævinlega í hug að hrinda einhverju í framkvæmd dagana fyrir jól sem hefði verið hægt að gera alla hina daga ársins en við ekki komið okkur í. Þennan skenk keyptum við í Rúmfatalagernum á hálfvirði í sumar og pússuðum af honum olíuna í sumarsólinni úti í garði. Svo gerðist ekkert meir ... ekki fyrr en mér datt í hug að bæta því að setja hann saman og hvítbæsa inn í jólaundirbúningsskemað. En skenkurinn varð hins vegar óskaplega fínn þegar hann var tilbúinn eins og sést betur í næsta albúmi!

Lítill smiður önnum kafinn.

Tveimur dögum fyrir jól var íííískalt hér í Uppsölum. Hitamælirinn sýndi enn -25° í hádeginu! Til marks um hve mikið frostið var voru skrárnar á útidyrunum okkar hélaðar - og þá erum við að tala um á þeirri hlið sem snýr inn í húsið!

Ástandið var enn verra í þvottahúsinu! Segir kannski meira en mörg orð um það hvað húsið er vel einangrað að öðru leyti! Þennan dag keyptum við einmitt jólatréð okkar og ég lýg engu þegar ég segi að maðurinn sem seldi okkar það var með grýlukerti í skegginu! Ég hef að vísu séð lægri tölur á mælum en þennan dag en samt aldrei upplifað eins nístandi kulda. Það var algjört kvalræði að leita að jólatré og við takmörkuðum leitina við sölustaði þar sem krakkarnir gátu verið inni meðan við Einar skoðuðum tré utandyra.

Hér á Konsulentvägen hefur skapast frábær hefð fyrir íslensku nammiáti á Þorláksmessu, þökk sé Svanhildi, Sigurði, Ástþóri Erni og Arnaldi Kára sem senda okkur ýmiss konar góðgæti fyrir jólin. Það er ótrúlega hressandi þegar allir eru orðnir þreyttir og úttaugaðir á Þorláksmessu að hlaða batteríin með smá súkkulaðirúsínum, Pippi eða Trompi! Þetta árið komst þó varla nokkur maður að súkkulaðirúsínunum fyrir Baldri Tuma!

Hva, má maður ekki fá sér?!

Hugi sæti elskar Pipp!

Búið að setja jólatréð í fótinn og beðið eftir að það þiðni. Baldur Tumi er undrandi á öllu tilstandinu. Jólatréð var reyndar uppspretta mikillar angistar þetta Þorláksmessukvöld. Þegar það þiðnaði tók nefnilega að berast frá því ótrúlega vond lykt! Svona eins og lyktin af gömlu blautu heyi! Ég var alveg í öngum mínum og fékk tár í augun í hvert skipti sem ég nálgaðist jólatréð, að ekki sé talað um velgju í magann. Áður en jólatréð var tekið inn hafði ég haft miklar áhyggjur af því að við yrðum enn með sterka lakklykt af skenknum á jólunum en þegar þarna var komið sögu stakk ég nefinu inn í skenkskápana, andaði djúpt og óskaði einskis heitar en að ég þyrfti bara að takast á við þá lykt yfir jólin. Hvernig sagan af illa lyktandi jólatrénu endar fáið þið að vita í næsta albúmi, sjálfu jólaalbúminu!