Blíða í maí     

Maímánuður hefur verið heldur tilþrifalítill svona veðurfarslega séð. Síðustu helgi mánaðarins var þó sól og blíða og við á Konsulentvägen notuðum þá daga því vel úti við.

   

Hér eru systkinin komin út í blíðuna laugardaginn 26. maí. Hugi spáir í veðrið á útidyratröppunum meðan María gerir sig klára í að fara í afmæli til bekkjarsystur.

Verðandi plóma!

Meðan María var í afmælinu héldum við hin í bæinn til að útrétta. Hér eru feðgarnir í kappi að bílnum.

Um kvöldið elduðum við okkur góðan mat og borðuðum saman í betri stofunni. Það virðast reyndar allir eitthvað hálf dauðadæmdir á svipinn á þessari mynd þannig að þið verðið bara að hafa mín orð fyrir því að þetta var mjög gott kvöld og allir voru virkilega kátir!!!

      

Eftirrétturinn var sumarleg pavlova með glænýjum hindberjum. Það er ekki bara að hún sé falleg heldur er hún líka svooo góð!

    

Á sunnudeginum var jafnvel enn betra veður, yndisleg glampandi sól og 23° hiti. María skellti sér í sumarkjólinn og dreif sig út í garð þar sem hún stillti sér upp við eina af sírenunum okkar.

Frá því við fluttum síðasta sumar höfum við stefnt að því að fá okkur húsgögn í garðinn í viðbót við þau sem eru á pallinum. Sólin er ekki komin þangað fyrr en síðdegis og okkur bráðvantar því garðhúsgögn þar sem hægt er að drekka morgunkaffið og borða letilegan hádegisverð í sólinni. Stefnan hefur alltaf verið að koma þeim húsgögnum upp í „lundinum“ sem einmitt sést á þessari mynd. Lundurinn afmarkast af rifsberjarunna og eplatré á eina hliðina, sólberjarunna á aðra og stórum og miklum sírenurennu á þá þriðju. Já, þetta er unaðsreitur mikill! Þarna vorum við að prófa staðsetninguna aðeins með því að flytja þangað stóla af pallinum. Það er skemmst frá að segja að okkur líkaði svo vel að vera með húsgögn í lundinum að við keyptum nýtt sett strax samdægurs!

Það styttist í að við fáum fullþroskuð rifsber!

Hér má svo sjá matjuragarðinn hans Einars. Þar er gríðarleg ræktun í gangi, m.a. á kartöflum, gulrótum, tómötum, papriku, chilli, rucolasalati og kryddjurtum ýmiss konar. Fyrir aftan blómstrar risastór sírena.

Eftir allt þetta sírenutal þykir mér rétt að birta af henni nærmynd!

Ég er mikið búin að suða í Einari um að gróðrsetja bóndarósir (sem heita reyndar peoniur á sænsku) hér í garðinum á Konsulentvägen en sá mér til óvæntrar ánægju nú fyrir skemmstu að þær eru hér fyrir! Ég bíð nú spennt eftir að þær springi út ... það styttist í þá fyrstu!

Hér er María mætt út með náttúrudýrgripaboxið og strax farin að safna í það ýmsum gersemum úr garðinum. Dæs ... verð ég enn að týna sprek, lauf, smásteina og orma úr vösunum þeirra eftir tíu ár?!

Aumingja Huga líður ekkert sérstaklega vel í svona mikilli sól og hita. Í ofan á lag var hann þarna óskaplega fúll yfir að eitthvað dót (sem móðurinni þykir ósköp ómerkilegt) hafi laskast pínulítið. Einmitt þegar þessi mynd var tekin tjáði hann mér að hann væri að „hugsa um að fara að gráta“!!!

Rólurnar eru alltaf jafnvinsælar en nú vilja krakkarnir þó heldur nota þær sem þrautabraut en til að róla sér í! Aðalmálið er að hanga í köðlunum og príla á milli.

    

Þetta finnst mér sæt sumarstelpa!

Hugi kættist mjög þegar ég bauð honum að fá stóran bala fullan af vatni út til að sulla í. Mér þótti nú enn of kalt til að taka fram buslulaugina þannig að þetta varð millilendingin ... og ekki síður vinsæl en laugin!

Hér eru systkinin að sulla og bjástra við balann. Það sem þeim fannst þetta æðislegt!!!

María mamma þurrkar baðdúkkunni eftir busl í lauginni ...

... meðan Litla Létt sat róleg í barnastólnum sínum, borðaði rifsberjagraut og var ekki vitund afbrýðisöm!

Ég held að ég viti ekkert dásamlegra en að sjá börnin mín sæl og glöð að leika sér í sumarsól!!!

Eftir sull og nokkra krokkettleiki héldum við af stað í leit að garðhúsgögnum. Litla Létt fékk að koma með í barnabílstólnum sínum.

   

Hugi prílaði í rólunum meðan hann beið eftir að hægt væri að leggja af stað. Þessar glæsilegu kvartbuxur hafði hann valið sér daginn áður í H&M. Honum var sýndur fjöldinn allur af buxum en stóð fast á sínu allan tímann, þessar buxur vildi hann fá og engar aðrar!!! Eins og sjá má var þetta mjög gott val hjá honumm, hann er í það minnsta ógurlegt krútt í nýju buxunum.

Milli þess sem við leituðum að nýjum garðhúsgögnum og keyptum sessur í þau settumst við niður á Rififfi og fengum okkur ís. Huga fannst ótrúlega gaman!

Systkinin taka aldrei neitt annað í mál en að fá súkkulaðiís og svo eru þau ævinlega með brúnt yfirvaraskegg lengi á eftir!

Einar er aðeins djarfari í ísvali en börnin en þarna horfir hann þó efasemdaaugum á peruísinn sinn og gæti verið að hugsa „Oj, það eru bitar í þessu, ég hefði ekki átt að fá mér þennan!“

Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þessi mynd var tekin fóru skýin að hrannast upp og það hefur meira og minna rignt síðan! Nú er hins vegar loksins sól í kortunum aftur, rétt mátulega fyrir næstu helgi! Guði sé lof og dýrð!!!