Bjartur og skógardísin

Heimiliskötturinn Bjartur sést því miður allt of sjaldan á þessari síðu og virðist (kannski eðlilega?) falla nokkuð í skuggann af öðrum börnum okkar hjóna! Úr þessu skal bætt ekki seinna en strax!

Bjartur á sex ára afmælisdaginn! Ég kann því miður ekki að reikna út hvað hann er orðinn gamall í kisuárum en hann hlýtur að vera farinn að nálgast miðjan aldur! Hann er líka orðinn dálítið kallalegur! Á æskuárum sínum stundaði hann það til að mynda að stökkva upp á bakið á Einari og sat svo eins og páfagaukur á öxlinni á honum löngum stundum, til dæmis meðan Einar eldaði! Hann neyddist þó til að hætta þessum leik þegar öxlin varð stöðugt upptekin af ropandi og gubbandi ungabörnum! Engu að síður reynir hann að sýna gamla takta af og til, Einari til mikillar armæðu enda hefur Bjartur bætt nokkuð á sig síðan í þá gömlu góðu!

Hér er hann í „sérherberginu“ sínu og í „eigin“ rúmi ... að hans mati! Við hin köllum þetta vinnuherbergi og gestarúm! Bjartur er hins vegar farinn að líta á þetta sem eigið yfirráðasvæði og kúrir þarna löngum stundum. Háskólaneminn á heimilinu hefur einnig af honum töluverðan félagsskap við lærdóm þar sem honum þykir einstaklega notalegt að kúra við tölvuna á skrifborðinu og ylja sér við útblásturinn úr henni! Hann leggur sitt af mörkum til að ritgerðir og önnur skrif gangi vel og vill helst hvíla loppuna á höndunum á mér meðan ég skrifa!!!

     

Og hér er enn ein prinsessan komin í heimsókn! Þetta var sannkölluð skógardís með blóm og fiðrildi í hárinu! Prinsessuleikur með mömmu er alltaf jafnvinsæll ... en það er bara svona spari að fá andlitsförðun með!

Mér finnst þessi mynd alveg ótrúleg! Það er bara eins og einhver yfirnáttúrulega vera hafi svifið um í stofunni á Bárugötunni!!! Svona mynd fær mann til að trúa enn síður á allar þessar drauga og geimskipamyndir sem til dæmis úir og grúir af á netinu!!! Ég gæti annars alveg örugglega sent þessa mynd eitthvert út í heim og fengið einhverja sérstaka greiningu á því hvers konar vera þetta sé! Ég hef alla vega einhvern tíma rekist inn á þannig vefsíður þar sem hinir og þessir ljósglamparnir, ský og þokur eru greind á afar vísindalegan hátt sem hin og þessi yfirnáttúrulega fyrirbærin. En myndin er flott engu að síður!

Hoppandi kát! Í skógardísarleiknum var mér úthlutað því verkefni að leika nornina inni í helli ... vinnuherbergið (eða einkastofa Bjarts) var hellirinn og þar sat nornin og skrifað færslu um Nóbelsskáldið og urraði af og til að dísinni við gríðarlega góðar undirtektir!!!