Beyglur, blóm og börn!

Eins og væntanlega hefur komið fram á þessari síðu eru helgarnar ákaflega notalegar hjá okkur á Konsulentvägen 2. Hér er bakað, spilað, lesið, prjónað og kúrt alla laugardaga og sunnudaga! Helgin 3. - 4. febrúar var þar engin undantekning.

Á laugardagsmorgninum ákvað Einar að gera tilraun til að baka sjálfur beyglur! Það kom í ljós að þetta er ansi flókið verk. Fyrsta stigið er auðvitað að búa til deig og móta svo það sem við Konsulentar köllum yfirleitt „kúta“! Það gekk vel eins og sjá má og fengu systkinin að búa til sitt hvora beygluna sem sjást hér efst til hægri, litlar, bollulegar og sætar!

Næsta stig er að stinga beyglunum ofan í sjóðandi vatn í smá stund!

Að lokum eru svo beyglurnar bakaðar inni í ofni. Hér fylgist svangur Súpermann með kútabrauðinu!

María var búin að vera veik dagana á undan en hresstist sem betur fer heilmikið um helgina. Hér er hún í vandræðum með Tamagochi tölvugæludýrið sitt. Slíkar skepnur hafa átt mikið kommbakk hér í Svíþjóð og ég held að allir krakkarnir í bekknum hennar Maríu eigi eina slíka! Ég hef hins vegar takmarkað leyft Maríu að taka sitt tölvugæludýr í skólann (það má nú samt) þannig að oftar en ekki endar það þannig að ég er sjálf sveitt allan daginn við að setja á klósettið, gefa að borða og leika við dýrið milli þess sem ég reyni að lesa fyrir mastersritgerðina!!! Ekki vil ég að aumingja dýrið drepist!!!

Feðgarnir á kafi í eldhússtörfum, Huga finnst skemmtilegast í heimi að fá að stússast í eldamennsku með pabba sínum.

Það er enn túlípanatími ... þið sleppið ekki við svona myndir fyrr en kannski í maí þegar þessi uppáhaldsblóm mín hætta að mestu að fást í blómabúðum!

Þessir eru ansi frísklegir, finnst ykkur ekki?

Beyglurnar tilbúnar og komnar á borðið!

Fjölskyldubröns á Konsulentvägen, allir enn á náttfötunum nema Einar!

Um kvöldið horfðum við á fyrsta hluta sænsku júróvisjón keppninnar. Ef það er eitthað sem Svíar hafa jafnmikla ástríðu fyrir og skattar þá er það Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva!!! Þar sem sjónvarpsdagskráin er fremur rýr þessa dagana ákváðum við fjölskyldan að helga öll næstu laugardagskvöld þessari skemmtun! Ég verð nú reyndar að segja að það kom mér á óvart hvað öll umgjörð þáttarins var flott og skemmtileg ... en lögin voru hins vegar hvert öðru verra!

Sunnudagsmorgunn í stofusófanum! Við erum með smá átak í lestrarmálum Maríu þessa dagana. Þar sem hún fær enga slíka þjálfun í skólanum höfum við tekið málin í okkar hendur og dregið fram Litlu gulu hænuna. Þarna er María að lesa fyrir okkur foreldrana söguna „Gamla konan og svínið“. Hver man  ekki eftir henni?!

Á meðan María las bjó Hugi til grímu! Ef mér skjátlast ekki er þarna á ferðinni aldeilis glæsileg spædermanngríma!

Á sunnudagskvöldinu tókst mér loksins að ljúka við risaeðlupeysuna hans Huga sem ég er búin að vera að prjóna í um það bil eitt og hálft ár!!! Mér til afsökunar þá rumpaði ég reyndar af a.m.k. einni ungbarnapeysu og einum ungbarnakjól á þessu tímabili, nú og svo flutti ég milli landa líka svo fátt eitt sé nefnt. Hvað sem því líður þá var ég komin með svo mikið ógeð á þessu garni, litunum og bara öllu við peysuna að ég ætlaði aldrei að hafa mig í að klára hana! En um leið og hún var tilbúin og Hugi kominn í hana var allt slíkt angur þó á bak og burt og mér finnst peysan alveg æðisleg núna!!!

     

Það var hins vegar ýmsum vandkvæðum bundið að vera svona lengi að prjóna eina og sömu flíkina og þetta var því mikil þrautaganga. VARÚÐ! Hér fer á eftir mjög leiðinlegt prjónatal, viðkvæmum er bent á að skoða strax næstu mynd!!! Nú, fyrst af öllu prjónaði ég bakstykki peysunnar með risaeðlumyndinni fínu. Þegar ég var komin upp að myndinni á framstykkinu nennti ég bara ómögulega að prjóna aðra risaeðlumynd enda tók það mig dágóðan tíma og mikla vinnu að ná þeirri á bakstykkinu sæmilegri. Eftir mikinn verkkvíða vegna þessa ákvað ég bara að breyta bakstykkinu snarlega í framstykki, rakti upp efsta hlutann og breytti hálsmálinu og prjónaði svo fyrrverandi framstykkið upp sem bakstykki. Í öllu þessu náði ég a.m.k. einu sinni að  gleyma að gera ráð fyrir  handveginum, var eilíflega að missa niður lykkjur, mislesa uppskriftina að röndunum og gleyma einni úr og fleira smávægilegt bögg! Þegar öll stykkin höfðu loks verið prjónuð og til stóð að sauma peysuna saman kom auðvitað í ljós að hún var orðin allt, allt of lítil á eigandann! Þá voru þrír kostir í stöðunni: 1. Henda öllum stykkjunum á botninn á prjónakassanum og gleyma henni! 2. Klára að sauma hana saman og finna einhvern lítinn strák til að gefa peysuna. 3. Reyna með einhverju móti að stækka hvert stykki fyrir sig svo hún passaði á Huga. Ég hafði ekki samvisku í fysta kostinn og þekkti fáa nógu litla stráka til að passa í peysuna óbreytta þannig að á endanum varð þriðji kosturinn ofan á. Hugi er líka búinn að bíða spenntur eftir þessari peysu ansi lengi og mér fannst ég bara alls ekki geta svikið hann um hana. Ég tók sem sagt upp lykkjur og prjónaði neðan á fram- og bakstykkin (þau áttu að enda þar sem efri þykka brúna línan er, ég bætti neðan við blárri og annarri brúnni) og ermarnar (þær áttu að enda þar sem efri græna línan er, ég bætti við langri brúnni og annarri grænni). Eftir allar þessar aðgerðir var peysan saumuð saman og kraginn prjónaður. Þegar ég fór að máta hana á Huga kom í ljós að ég hafði fellt svo fast af kraganum að ég gat bara rétt svo troðið höfðinu á honum í gegn (það er þetta höfuðstóra Einars-kyn sem gerir allt svona svo flókið!). Þar sem það var meiriháttar mál að breyta því ákvað ég að treysta bara á gæfuna og vona að hálsmálið myndi víkka smám saman með tímanum. Það gekk eftir og er sjálfsagt það eina við þessa peysu sem hefur gengið vonum framar!!!

Ég hef aldrei skilið þegar fólk segist prjóna til að róa taugarnar og slaka á. Ég verð sjaldan jafnæst og þegar ég prjóna og að sama skapi viðskotaill þegar eitthvað gengur ekki sem skyldi!!! Hafi ég ekki gert mér grein fyrir því fyrr var það að minnsta kosti deginum ljósara þegar ég fylgdist eitt sinn þegjandi með Maríu leika sér með prjónana mína þegar hún var svona tveggja ára gömul. Forsaga málsins er sú að þegar ég var í barneignafríi eftir að Hugi fæddist prjónaði ég viðbjóðslega mikið! Ég framleiddi um tíma eina peysu á viku, bæði í barna- og fullorðins stærðum! Eins og gefur að skilja komu oft upp vandamál við prjónaskapinn (ég prjónaði náttúrulega allt of hratt og mikið miðað við brjóstaþokuna sem umlukti mig!) og ég varð því oft ansi pirruð út í tómstundagamanið! Einn daginn sat ég við borðstofuborðið á Bárugötunni og fylgdist með því út undan mér hvar María, sem hafði eitthvað verið að dudda sér í stofunni, sest í hægindastólinn, tekur lausa hringprjóna sem höfðu legið þar, fer eitthvað að slá þeim saman og þykjustuprjóna. Voða sæt! Skyndilega æpir hún upp yfir sig: „Díses, ég folir hetta ekki, ég foooolir hetta ekki!“ og fleygði svo prjónunum út í næsta horn með þjósti! Eftir þennan stutta svona-á-maður-að-prjóna-leik hélt hún áfram að dunda sér við eitthvað annað en ég sat steinrunnin eftir og hét því að ég myndi hafa betri stjórn á mér við prjónamennsku í framtíðinni!!! Ég þori ekki að lofa að ég hafi staðið við það við gerð risaeðlupeysunnar en slíkt er gleymt núna enda þykir mér útkoman hreint stórfín svona eftir á og risaeðlustrákurinn minn ótrúlega sætur!