Ber og sulta

Haustið er uppskerutími og hér á Bárugötunni hefur tíðkast að tína sólberin í garðinum okkar og sulta. Í ár, eins og í fyrra, vorum við hins vegar svo lánsöm að fá góðfúslegt leyfi til að tína rifsber hjá nágrönnunum okkar. Hér á heimilinu eru nefninlega allir vitlausir í rifsberjahlaup!

Berin voru orðin vel þroskuð, rauð og bústin, en það kom ekki að sök.

Við vorum vel vopnuð og klippt var í dollur og dósir ... já og einhverju stungið upp í sig.

Húsfreyjan einbeitt við berjatínslu.

Það er betra að vera vel búinn í svona svaðilfarir!

Hugi blómálfur var einstaklega áhugasamur um þetta ferli og skottaðist í kringum okkur með ýmsar spurningar á vörum. Mamma ertu að tína rifsber? Hvenær má ég tína rifsber? Þegar ég er orðinn tíu ára? Mamma af hverju ertu að tína rifsber? Mamma, er pabbi að tína sólber? Mamma, er þetta dollan mín?

María lét til sín taka í berjunum eins og öðrum verkefnum og hjálpaði pabba sínum við að hreinsa öll sólber af runnum.

Þar sem sólberin voru miklu, miklu færri en rifsberin dundaði Einar sér við að taka nokkrar haustmyndir meðan hann beið eftir að ég kláraði rifsið.

Farið að gulna á stöku stað.

Daginn eftir var svo sultað rifsberjahlaup úr öllu dótinu! Um tíma leit þó frekar út eins og verið væri að taka slátur!

Við náðum heilum átta krukkum ... tvöfalt meira en í fyrra! Fram eftir hausti mega gestir á Bárugötunni því eiga von á að vera boðið upp á brauð með rifsberjahlaupi, heimalagaðar kjötbollur með rifsberjahlaupi, ost með rifsberjahlaupi og kökur með rifsberjahlaupi!