Bárugötutröllin

Við Bárugötutröllin höfum haft í nógu að snúast það sem af er aprílmánuði ... eins og sjá má.

Húsmóðirin hefur haft í nógu að snúast við að viða að sér dásemdum heimsins eins og þessir túlípanar bera með sér.

Og auk þess tekur auðvitað sinn tíma að mynda þá í bak og fyrir ... það er enginn tími til að skrifa ritgerðir og greinar þegar hægt er að kaupa svona falleg blóm!

  

Hugi er orðinn mikill áhugamaður um kvikmyndir. Mestan áhugann hefur hann á myndum sem skarta ógurlegum skrímslum ... risaeðlum, risagórillum, ljónum, vondum köllum, sæskrímslum og nornum. Já, ekkert ástarkjaftæði eða rómantík hér! Áhuginn nær þó ekki mikið út fyrir kvikmyndaauglýsingar eða spóluhulstur því um leið og stendur til að fara að horfa á einhverja af þessum áhugaverðu myndum gugnar ungi maðurinn og verður óttasleginn mjög! Og mamman prísar sig sæl að einkasonurinn sé ekki orðinn meiri unglingur en þetta (þó hann líti svo sannarlega út eins og einn slíkur með toppinn svona ofan í augu!).

  

María hefur hins vegar lítinn áhuga á skrímslum. Móðirin tók hins vegar stóran feil þegar hún ætlaði að reyna að höfða til stelpunnar sinnar með einhverju prinsessutali. Sú stutta svaraði fremur hneyksluð á svip: „Sko, mamma, ég er nú eiginlega alveg hætt með svona prinsessur ... núna eru það bara pæjur!“ Einhver unglingastemmning er farin að gerjast þarna líka!

Aumingja María lenti hins vegar illa í því um daginn þegar hún fékk sýkingu í sár sem tókst að teygja anga sína upp eftir sogæðakerfi handleggsins á örskömmum tíma. Neyddust mæðgurnar til að storma upp á spítala og fékk daman í kjölfarið viðeigandi sýklalyfjameðferð sem sló fljótt á vitleysuna!

Pabbinn í eldhúsinu eins og svo oft áður!

María sæta mætt í eldhúsið til að fylgjast með hjá pabba gamla!

Loksins, loksins!!! Já, loksins er búið að klippa börnin og þar með fékk mesti unglingasvipurinn að fjúka líka! Þau stóðu sig bæði einkar vel í stólnum hjá hárgreiðslukonunni, meira að segja Hugi en honum hefur verið sérstaklega uppsigað við þessa starfstétt allt sitt líf!

Sæt og fín!