Bárugötubörn í febrúar

Nokkrar myndir af Maríu og Huga ... bara svona ef þið skylduð vera búin að steingleyma hvernig þau líta út!

Svona kom ég að Maríu og Huga eitt kvöldið þegar ég hélt að þau væru sofnuð sætt og rótt ... á réttum stöðum! Mér finnst alltaf jafnkrúttlegt þegar þau langar að kúra saman. Oft er búið að ganga mikið á áður en svo virðist allt detta í dúnalogn þegar þau skríða undir sömu sæng og þá velta þau út af á nokkrum mínútum! Reyndar kom ég svo aftur að þeim nokkrum kvöldum síðar í svipuðum stellingum nema í það skipti voru þau ekki sofnuð. Hugi hefur greinilega séð á svipnum á mér að ég ætlaði að fara að skakka leikinn því hann lagði höndina verndandi yfir systur sína og sagði við mig hvassyrtur: „Láttana veða“!

Sennilega voru þetta þó síðustu myndirnar af systkinunum í litla rimlarúminu því Hugi er nýbúinn að fá þetta fína stóru-stráka-rúm í afmælisgjöf!!! Hér eru systkinin að prófa nýja svefnfyrirkomulagið í fyrsta sinn. Þar sem María var ekki að fá nýtt rúm fékk hún þessi yndisfögru Svanaprinsessu sængurföt í staðinn! Huga fannst þessar rúmatilfæringar þó hið undarlegasta mál og var tíðrætt um að núna væri komið annað Maríurúm! Hann virðist þó sofa vel í nýja bólinu þrátt fyrir að hann hafi ekki enn áttað sig á að það sé hans eigin!

Og enn fleiri rúmamyndir! Hér eru systkinin bæði uppi í Maríurúmi tilbúin fyrir kvöldlesturinn. Ég er að reyna að lesa Múmínálfana fyrir Maríu en er um það bil að guggna á því! Ég átti sjálf einhverjar dýrðlegar minningar um þessar bækur frá því ég var lítil en skil ekki alveg núna á hverju það var byggt! Þetta er svo abstrakttexti að m.a.s. bókmenntafræðingurinn ég á stundum í mestu erfiðleikum með að skilja hann! Það er til dæmis býsna erfitt að útskýra muninn á raunveruleika og ímyndun fyrir Maríu, eða flókin bókmenntafræðihugtök á borð við sjálf og hinn/annar!!! Miðað við allt sýnist mér að Múmínálfarnir séu betur til þess fallnir að skrifa mastersritgerð um en að lesa fyrir lítil börn! Ég sé stundum ekkert annað en spurningamerki í augnum Maríu og Hugi er yfirleitt fljótur að láta sig hverfa undir þessum sögum og kýs frekar að eyða tíma sínum í að leika með dót eða skoða bækur upp á eigin spýtur!!! En ætli við berjumst ekki í gegnum nokkrar blaðsíður í viðbót í von um að þetta fari að verða aðeins skiljanlegra!

Rosalega fyndin þessi mamma!

Tanntökuskeið númer tvö! Þrátt fyrir eða engar barnatennur hafi dottið er María komin með tvær fullorðinstennur! Einn sex ára jaxl er kominn upp og önnur framtönnin í neðri góm er búin að stinga upp kollinum fyrir aftan þær gömlu, hin augljóslega á leiðinni að gera það sama. Það eru hins vegar þrjár lausar tennur þar fyrir framan og bíður Bárugötufjölskyldan öll spennt eftir frekari þróun í þessum tannamálum. Hér ýtir María á lausu tönnina ... ég er ekki frá því að það sjáist meria að segja á myndinni hversu laflaus hún er orðin!

Að lokum fær svo að fljóta með ein mynd af afmælisgjöfinni sem Bárugötupabbinn og -börnin gáfu húsmóðurinni í afmælisgjöf. Glöggir lesendur muna sennilega eftir að kertastjakinn atarna var á óskalista fyrir síðustu jól og hefur þessi ósk verið margítrekuð síðan! Afmælisbarnið var því ekki lítið glatt með gjöfina!

Og afmælisblómin! Rósir frá mömmu sem voru alveg í stíl við afmæliskertin í fína stjakanum!

Ótrúlega fallegar ... það finnst Bjarti einmitt líka og tókst að naga nokkrar þeirra í sundur. Mér þykir alveg ferlegt að kattarræksnið skuli endilega þurfa að hafa sama smekk á blómum og ég!!! Hann er alveg sérdeilis skæður þegar rósir og túlípanar eru annars vegar ... en ég ætti kannski að þakka fyrir meðan hann lætur orkideurnar mínar í friði?!