Bardúsað í mars

Hér á Konsulentvägen hefur ýmislegt verið bardúsað í mars: lesið, föndrað, teiknað og bakað svo eitthvað sé nefnt.

Vorið byrjar innandyra!

Feðginin kúldrast saman í hægindastólnum og lesa, virðast hafa það notalegt bæði tvö.

Geeeeiiisp ... alveg afskaplega notalegt!

Tuva vinkona Maríu hélt upp á afmælið sitt í mars og til að engir litlir bræður væru að þvælast fyrir í stelpupartýinu buðum við Bjarka bróður hennar að koma hingað og leika við Huga á meðan. Bjarki kom vel búinn með blöðrur, skrautbönd, snakk og nammi og saman slógu félagarnir upp sinni eigin veislu hér við eldhúsborðið.

Við mæðgurnar tókum smá föndurstund um miðjan mánuðinn, grófum upp gamalt „shrink plastic“ (ég hef ekki hugmynd um hvort það er til heiti yfir það á íslensku) sem ég átti í fórum mínum og hófumst handa við að gera ísskápssegla.

Við áttum að vísu bara einn nothæfan penna en skiptumst bróðurlega á. María var ánægð með þetta allt saman eins og sést.

Á meðan við föndruðum var Hugi með Simon vin sinn í heimsókn og þeir spiluðu tölvuspil. Huga fannst afskaplega neyðarlegt að mamma hans væri eitthvað að taka myndir en Simon lét sig hafa það að sitja fyrir!

Hér er svo afraksturinn af föndri okkar mæðgna! María vildi hafa smá húmor í þessu og gerði hamborgara með geislabaug! Verst að ég hef sennilega tekið blaðið aðeins of snemma út úr ofninum og þannig valdið þessum ljótu, djúpu holum. Verð að passa mig á þessu næst!

Ég gerði skuggamynd af litlum dreng með skikkju. Það komu líka holur í minn en ekki alveg eins djúpar. Það sem meira er, holurnar litu eiginlega alveg eins út og fótspor með þremur tásum, afar krúttlegt sem sagt. Stundum er bara betra að hlutirnir mistakist smá! Því miður hef ég ekki fylgt föndurframtaksseminni alveg nógu vel eftir og því eru ísskápsseglarnir enn án segla ... og það þrátt fyrir ótal ferðir í föndurbúðina! Ég þarf að hnýta slaufu á puttann næst þegar ég fer í bæinn!

Og hér er enn ein föndurstundin fest á filmu. Það er ársfjórðungslegur viðburður hjá okkur að teikna nýjar myndir á ísskápinn enda viljum við helst að þær endurspegli árstíðirnar. Hér eru börnin því að vinna að dásamlegum vormyndum.

Hugi er ótrúlegur teiknari og eyðir stundum heilu og hálfu dögunum við slíka iðju.

María er orðin ansi þróuð í sinni listsköpun og þarna hafði hún fengið fuglabókina mína lánaða til að gera nákvæma eftirlíkingu af alvöru fuglum sem flögruðu kringum pabba og stelpu að grilla undir stóru eplatré!

         

Hugi er búinn að suða um að fá að fara í leiklandið Nickis í marga mánuði. Við Einar lofuðum alltaf öllu fögru með orðum eins og „bráðum“ og „fljótlega“ en aldrei varð neitt úr neinu. Á endanum var Hugi orðinn svo sár út í okkur að við ákváðum að taka okkur tak og tímasettum ferð í Nickis „næsta laugardag klukkan 10:00“! Eftir það gátum við ekki annað en staðið við fyrirheitin og á umræddum tíma vorum við mætt í fjörið! Huga fannst skemmtilegast í hoppukastalanum.

María er nú eiginlega orðin aðeins of stór fyrir Nickis en skemmti sér samt vel á fleygiferð í rennibrautinni.

         

Við Einar komumst hins vegar að því að það var góð ástæða fyrir því að við drógum þessa ferð svona lengi! Að vísu geta mömmur og pabbar keypt kaffi og skoðað blöð í Nickis meðan börnin leika en tíminn var samt svolítið leeeeeengi að líða!!! (Mér sýnist ég með einhvern hræðilegan herptan munnsvip í stíl við stemmninguna á myndinni!)

Nú fer senn að líða að því að ég afsali mér titlinum bakarameistari hér á heimilinu og færi bakaradrenginn upp í tign! María er alla vega orðin afskaplega dugleg við hvers kyns bakstur og farin að bjarga sér ein og óstudd í gegnum uppskriftirnar.

Hér er hún að hræra í sultumuffins eina helgina.

Þegar muffinsarnir voru fullbakaðir var þeim dýft í smjör og sykur ...

... og svo var slegið upp glæsilegu kaffiboði ...

... við gífurlegan fögnuð viðstaddra!

Hvorki meira né minna en þrír amaryllisar tóku upp á að blómstra hjá mér í mars! Tveir hvítir komu með tvo stöngla hvor ...

... og einn rauður skartaði fjórum fallegum blómum.