FJÖLSKYLDUFERÐ TIL BARCELONA

2. - 9. JÚLÍ 2005

 

LAUGARDAGURINN 2. JÚLÍ

Við lögðum af stað í ferðina okkar skömmu fyrir hádegi þennan ágæta laugardag. Ferðalangarnir voru fjórir, Einar, Guðrún, María og Hugi. Elli og Imba amma voru þá þegar flogin til London en væntanleg til fundar við okkur á spænskri grundu daginn eftir. Flugferðin gekk vonum framar og sú flughrædda fagnaði því að hafa nóg að gera alla ferðina við að brytja ofan í litla munna, líma límmiða, teikna myndir, fara í smáferðalög á klósettið og svara fyrirspurnum nýgræðinga í flugferðum!

Þegar við komumst loks í leiguíbúðina okkar blasti við þetta stórkostlega útsýni af svölunum, sjálf Sagrada Familia! Annað við þessa íbúð var hins vegar langt því frá jafnmikilfenglegt ... eiginlega mjög lítilfjörlegt!

Maríu og Huga þótti þetta þó allt saman afskaplega spennandi og virtu mannlífið fyrir sér af svölunum.

Það var fremur heitt þetta fyrsta kvöld og fram að háttatíma sátu börnin rjóð í kinnum við viftuna ... og horfðu á vídeó ... agalega menningarlegir foreldar, eða þannig!

 

SUNNUDAGURINN 3. JÚLÍ

Við drifum okkur beint út í sólina fyrsta alvöru dag ferðarinnar. Milli íbúðarinnar og Sagrada Familia er lítill garður, Parc Gaudi (sem má ekki rugla saman við Parc Güell!), og þar gerðum við stuttan stans, virtum fyrir okkur útsýnið, gæddum okkur á ís og svitnuðum í hitanum!

Huga leist vel á þetta allt saman og langaði að kanna slýgrænu tjörnina nánar ... foreldrarnir bönnuðu slíkt hins vegar stranglega!

María fékk svalandi frostpinna í hitanum.

Í þessari ferð hafði ég lítinn áhuga á að taka myndir af blómum eða styttum ... veit ekki alveg hvers vegna. Áhuginn á að mynda gamalt fólk var þeim mun meiri ... veit ekki heldur hvers vegna það var! Ég hef sennilega smitað eitthvað út frá mér því síðasta dag ferðarinnar benti Hugi út í mannhafið og sagði með mikilli krúttgrettu og agalegri krúsírödd (svona eins og maður notar þegar maður er að tala við lítil börn): „Sérðu gamla krúttið“!!!

Það tók okkur ekki nema tíu mínútur að átta okkur á að við gætum aldrei lagt það á börnin að fara allra sinna ferða fótgangandi í þessum hita . Þó María og Hugi séu bæði löngu, löngu hætt að ferðast um í kerrum gilda ekki sömu viðmið í 30° hita og sól! Það var því ákveðið að tvær kerrur skyldu keyptar hið snarasta!

Því var haldið beint niður á Plaça Catalunya, stórt torg í hjarta borgarinnar. Þaðan liggja vegir til allra átta og fannst fjölskyldunni þetta vænlegur staður til að hefja kerruleit!

Og ekki þurfti að leita langt yfir skammt! Í verslunarskrímslinu El Corte Inglès fannst þessi fína kerra ... en bara eitt stykki. Hún var þó keypt hið snarasta og ákveðið að halda áfram leit að annarri vænlegri kerru. Í millitíðinni hafði trylltum síguna tekist að troða einhverjum blöðrusverðum upp á börnin sem þau voru vitanlega alsæl með og heldur fúlir foreldrarnir þurftu að draga upp budduna til að koma í veg fyrir algjöra vanstemmningu! María fékkst þó fljótt til að stinga sínu sverði í rusladall en skömmu áður en þessi mynd var tekin hafði Huga sverð fokið í burtu ... honum til mikilla ama eins og sjá má! „Hvar er sverðið mitt“ ómaði niður alla Römbluna!

María var hins vegar kát og hress á háhest.

Drengurinn tók þó gleði sína um síðir (eða eftir hressilegar nammimútur!). Mamman var líka glöð ... já, alveg hreint alsæl með kerruna! Staðan orðin 1-2 í kerrumálum! Í El Corte Inglès hafði líka verið fjárfest í sólhöttum fyrir börnin til að koma í veg fyrir sólsting og önnur vandræði.

Með eitt barn í kerru og annað á háhest var rölt niður Römbluna í leit að kaffihúsi sem hafði verið í miklu uppáhaldi hjá okkur Einari þegar við dvöldum í borginni 1999. Það fannst án mikillar fyrirhafnar og mikið vorum við hjúin glöð að geta hresst upp á okkur með kaffibollum sem eiga enga sína líka í heiminum!

Systkinin skemmtu sér hið besta líka þó ekkert fengju þau kaffið ... þömbuðu bara vatn í staðinn sátt við sitt (og loftkælinguna!).

Ákveðið var að halda í verslunarmistöðina Mare Magnum í frekari kerruleit. Þegar komið var niður að höfn fannst Huga tímabært að taka sér siestu að hætti innfæddra!

María dró pabba sinn hins vegar að kaupa popp ... henni fannst líka tilvalið að nota sjávargoluna til að lofta undir kjólinn!

Alsæl með poppið litríka og höfnina í baksýn! Poppið fékk þó slæma dóma hjá dömunni en þeim mun betri hjá litla bróður þegar hann vaknaði úrillur skömmu síðar!

Engin kerra fannst hins vegar í Mare Magnum og því var haldið aftur áleiðis upp Römbluna, alla leið upp á Passeige de Gracia. Þar var gert stutt ísstopp.

Hugi vildi ekki sjá neitt nema dökkan súkkulaðiís alla ferðina og leit ekki við öðru þó foreldrarnir reyndu að freista hans með litbrigðum sem ekki væru alveg eins líkleg til að skemma föt með varanlegum blettum! Hann var nú samt óttalegt krútt með súkkulaðiskeggið sitt!

Mæðgur í sólinni ... það er alveg glatað í svona ferðum að borða ekki ís!!!

Um kvöldið röltum við út í göngugötu sem var rétt við íbúðina. Á leiðinni gengum við fram hjá þessum skrautlega páfagaukahóp þarna innan um dúfurnar! Þetta fannst okkur agalega merkilegt og tókum mynd eins og sönnum túristum sæmir!

„Gömlu krúttin“ voru á hverju strái! Þessar leiddust á leið niður að kirkjunni.

Útsýnið niður eftir göngugötunni var heldur ekki af verra taginu!

Síðla kvölds mættu svo amma og Elli loksins á svæðið og var þeim vel fagnað! Amma lét það vera sitt fyrsta verk að róa Huga ömmustrák niður með smá fótanuddi ... drengnum líkaði það vel og var steinsofnaður aðeins nokkrum mínútum eftir að myndin var tekin. Hafði þó verið eins og með sinnep í rassinum áður en nuddið hófst!

Kirkjan góða tók líka vel á móti ömmu og Ella, í næturskrúða í þetta skiptið.

 

MÁNUDAGURINN 4. JÚLÍ

Morguninn eftir stormaði öll strollan á kaffihús sem staðsett var á jarðhæðinni í húsinu okkar. Þetta reyndist hið allra besta kaffihús og var okkur mikill gleðigjafi í ferðinni. Kaffið var gott, bakkelsið ekki síðra og eigendurnir alveg hreint dásamlegir. Spánverjar eru einstaklega barngóðir og hvert sem við komum var fólk tilbúið til að gauka gotteríi að börnunum eða klappa þeim á kollinn. Það brást ekki að María og Hugi voru leyst út með góðgæti þegar kaffihúsið var yfirgefið eftir notalega morgunstund!

Eldra settið af systkinum var líka ánægt með kaffibúlluna okkar!

María og Hugi voru fljót að koma því í fasta rútínu í hvert sinn sem litið var við á kaffihúsinu að kíkja í kælinn og ná sér í flösku af svalandi Pago drykk!

Hugi var fyndinn þennan morgun og neitaði alfarið að snerta á mat og drykk fyrr en hann fengi Ralph Lauren húfuna sem keypt hafði verið deginum áður en gleymdist uppi í íbúð. Eftir að hún var komin á sinn stað tók hann hins vegar hraustlega til matar síns! Hann hefur kannski erfti dýra smekkinn hennar mömmu sinnar?!

Eftir að allir voru mettir var haldið í verslun sem fundist hafði daginn áður en verið lokuð og þótti vænleg til kerrukaupa. Og svo sannarlega fannst kerra ... staðan 2-2 í baráttunni við sól, hita og pirruð börn! Og þá var okkur ekkert að vanbúnaði að bruna með lest í strandbæinn Sitges!

Þegar þangað var komið reyndist himinn alskýjaður. Við létum það ekki aftra okkur enda steikjandi hiti úti og sjórinn og hafgolan freistandi. Byrjað var á að næra börnin smáu.

Maríu leist vel á sig og smellti sér að sjálfsögðu strax í góða pósu!

Hugi var alsæll líka ... já og sama má segja um restina af stórfjölskyldunni!

Huga fannst ekkert lítið gaman að busla í flæðarmálinu ...

... en var samt ekki alveg eins djarfur og stóra systir sem „hoppaði“ yfir öldurnar með smá aðstoð frá pabba eða Ella frænda.

Gleðin skín úr andlitinu ... æ, hvað mér finnst þetta yndisleg mynd!

Við fullorðna fólkið fengum okkur cerveca ...

... meðan yngri kynslóðin svolgraði í sig súkkulaðdrykk.

Bakkastaðafrúin var sæl þó engin væri sólin!

Mæðginin að knúsast svolítið. Við dvöldum góða stund á ströndinni en röltum svo aðeins um bæinn enda Sitges með eindæmum skemmtilegur og líflegur staður.

Enduðum svo á pizzeriu þar sem Hugi réðst á matinn eins og hákarl ... okkur hinum til nokkurrar skemmtunar!

Höfuð fjölskyldunnar að kvöldi mánudags.

 

ÞRIÐJUDAGURINN 5. JÚLÍ

Við Einar og María vöknuðum snemma næsta morgun og ákváðum að skella okkur beint niður á kaffihúsið góða. Skömmu eftir að myndin var tekin skellti frúin yfir sig heilum kaffibolla og endaði því aftur í íbúðinni að skipta um dress!

Þegar Hugi var vaknaður líka var haldið á spennandi róluvöll í Parc Gaudi. María var ánægð með klifurvegginn.

Huga fannst líka gaman að príla ... eins og hans er von og vísa.

Það er ekkert slæmt að sitja yfir börnunum á róló þegar útsýnið er svona!!!

Við hliðina á róló var her eldri borgara að spila boccia ... eða alla vega eitthvað svona kúluspil. Í takt við nýjasta myndefnisæðið strunsaði ég þangað beint með vélina! Reyndi þó að fara laumulega að ... maður veit aldrei hvernig blóðheitir Spánverjar taka því að einhverjir túristar skuli vera að mynda það í bak og fyrir!

Frúin kastaði með tilþrifum!

Og þessi fylgdust með af athygli!

Þessi virtist vera allt í öllu í leiknum ... spígsporaði um bísperrtur og spáði í stöðuna, gerði svo athugasemdir við hvernig aðrir köstuðu. Sjálfur kastaði hann auðvitað með tilþrifum!

Það er voða erfitt að nota ekki orð Huga um þennan hóp ... „gömlu krúttin“! Þrír vinir ... og allir í fríi ... eða bara á eftirlaunum!

María sæta señorita!

Señor Hugi!

Spænsk stemmning ... þó kirkjan fína og fræga dragi að sér hundruðir ef ekki þúsundir ferðamanna á hverjum degi er umhverfi hennar ekkert sérstaklega mikilfenglegt ... bara ekta spænskt!

Hress og kát ... og alveg búin að venjast steikjandi hitanum! Það kólnaði reyndar dálítið eftir því sem leið á vikuna og síðustu dagana kveiktum við ekki einu sinni á viftunum góðu!

Á leiðinni heim af róló.

The three amigos voru á heimleið á sama tíma og við. Þeir röltuð hlæjandi út úr garðinum, klöppuðu litlum grislingum og kollana og göntuðust hver við annan ... skyldu þeir vera á launum hjá borginni við að skapa dásamlega og óviðjafnanlega stemmningu?!

Þegar allir voru komnir á fætur og búið að fara hópferð á kaffihúsið var hoppað yfir götuna og beðið eftir strætó.

Halda átti í dýragarðinn ... systkinunum til mikillar gleði.

Og ekki var strætóferðin Huga minna gleðiefni ... enda búinn að suða látlaust frá því hann leit fyrsta strætisvagninn á spænskri grundu augum!

Pabbinn og amman sáu um miðakaup þegar í dýragarðinn var komið og systkinasúpan beið áhyggjulaus og alsæl á meðan.

Þegar inn var komið var byrjað á öpunum ... þeir voru auðvitað jafnskemmtilegir og alltaf!

Og fyrir Huga krókódílaáhugamann var því næst stormað í skriðdýrahúsið!

Honum leist vel á þessa vini sína og var ekki vitund hræddur ...

... enda krókódílar alveg sjúklega lítið fjörug dýr ... við sáum þá ekki einu sinni blikka auga!

Því næst var farið á höfrungasýninguna. Okkur Einar hafði fundist hún sérstaklega skemmtileg 1999 og ekki vakti hún síðri lukku núna ... þó prógrammið hefði lítið breyst! Sjáiði hvað þeir eru krúttlegir!

Það var svo hægt að skyggnast undir vatnsyfirborðið í lauginni þeirra í gegnum þar til gerða glugga ... þeir voru ekkert minni krútt í kafi!

Nashyrningarnir voru álíka líflegir og krókódílarnir!

Fjölskyldumeðlimir voru hins vegar afskaplega líflegir ... en aðframkomnir af hungri. Því var sest niður við gíraffagryfjuna og keyptir hamborgarar og franskar.

Hugi beið spenntur eftir sínum skammti.

Sem og María.

Gíraffinn var með lítið folald með sér ... þessi yndislega mynd gæti svo sannarlega fallið í „móðurástarflokkinn“! Ég man ekki betur en að ég sé nýbúin að birta nánast eins mynd af hryssu með folald úr hinum alíslenska Húsdýragarði!

Einar og Guðrún ... en enginn gíraffi í baksýn eins og til stóð!

Hvarvetna voru páfuglar á rölti ... misreyttir þó. Þeir vildu því miður ekki sperra stélin fyrir okkur!

    

Gíraffar eru svo ótrúlega fallegir, yndislegir og friðsælir ... en líka dálítið fyndnir!

Og ef einhverjir eru fyndnir þá eru það strútarnir ... sjáið til dæmis þennan lengst til hægri!!!

Dýragarðurinn státar líka af fílum.

Guðrún, Elli og Hugi virða fílana fyrir sér.

Kóngulóarvefur á la Einar!

Flamingóarnir eru líka ótrúlega flottir! Ég er nú dálítið ánægð með þessa mynd ... en er hann ekki með nein augu?!

María og Hugi fengu að fara á bak smáhestum ... María var dálítið hissa á að þessir ponyar væru ekki bleikir eða með glimmer eins og „venjulegir“ pony hestar!

Prinsinn á hvíta hestinum! En hvað ætli prinsessunni finnist um að væntanleg tengdamóðir sé með hann í taumi?!

Þessi var flottur og hreykti sér hátt!

Á rölti um stíga dýragarðsins ... þangað ættu allir að fara sem sækja Barcelona heim! Kannski ekki að marka mig ... ég er dýragarðssjúk!

Ljónin slöppuðu af í hitanum og sýndi enga tilburði í þá átt að éta mann og annan!

Tjah, ljónakóngurinn var reyndar nokkuð sprækur og í óðaönn, ásamt einni ljónynjunni, að reyna að viðhalda stofninum þegar við komum þar að. Eitthvað fannst honum óþægilegt að hafa áhorfendur og drattaðist því í næsta skot og sofnaði ... karlmenn!!!

Lemúrarnir voru komnir með litla unga ... og þvílíku krúttin! Alveg pínulitlir en fullvissir um að þeir gætu allt sem þá langaði! Þeir mynduðust því við að príla upp eftir öllu, sveifla sér á rófunni og hanga í foreldrunum!

Það er óneitanlega svipur með foreldri og afkvæmi!

Börnin fengu að velja sér dót úr gjafabúðinni á svæðinu. María varð strax alveg ástfangin af þessum litla höfrungi og ég kom að henni þar sem hún skýldi sér undir tré og sneri baki í okkur hin og gaf höfrungnum Fanta Lemon að drekka! Það hljóta allir að vera þyrstir í þessum hita!

Hugi valdi sér hins vegar þennan glæsilega kókódíl ... nema hvað! Það sem eftir var ferðarinnar beit krókódíllinn mann og annan ... var almennt bara dálítið til ama!

Sæljónin voru óstýrilát og fældu okkur hálfpartinn í burtu með miklum öskrum þar sem við vorum búin að koma okkur notalega fyrir með cerveca!

Imba og Elli þraukuðu samt! Fljótlega eftir þetta var dýragarðsferðinni þó slúttað og haldið heim í íbúðina!

Ég fékk að draga Einar niður á kaffihús í einn góðan bolla og spjall meðan aðrir hvíldu sig eftir allt fjörið fyrr um daginn!

Einar með cafè cortado!

Um kvöldið fórum við út að borða á agalega fínan veitingastað í göngugötunni okkar. Eitthvað var farið að slá í stemmninguna hjá Huga og hann vældi án afláts ... okkur og ekki síst þjóninum til mikilla ama! Á endanum mætti þjónninn með sleikjó sem hann otaði að drengnum og sagði á bjagaðri ensku „shut up“! Virkaði það ráð mjög vel og innan skamms lék drengurinn við hvern sinn fingur ... með sykurbombu í rassinum!

 

MIÐVIKUDAGURINN 6. JÚLÍ

Eftir hefðbundin morgunstörf var strollað niður í bæ og sest inn á veitingastað við Römbluna þar sem ítalskt hlaðborð freistaði okkar.

Elli var glorhungraður og spenntur að bragða á kræsingunum!

„Hvar er pizzan mín?!!!“

Mágarnir í fornum húsagarði í gotneska hverfinu en þangað var rölt að hádegisverði loknum.

Þessar rómversku súlur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur Einari úr fyrri ferð okkar til borgarinnar. Súlurnar hafa verið vel varðveittar en ekkert sérstaklega hugað að umhverfi þeirra ... þær eru því inni í litlum og þröngum húsagarði og einhverjir heppnir njóta þess að virða þær fyrir sér út um eldhúsgluggann!

Það er dálítið dulúðug stemmning þarna inni ... djúp þögn grúfir yfir og forn andblær svífur yfir vötnum!

Hjónaleysin heldur undarleg á svip!

Á róló í gotneska hverfinu.

María og trékarl!

Þrír ættliðir í beinan kvenlegg ...

... og karlaklúbburinn Tres Hombres!

Strikið var svo tekið beint út úr gotneska hverfinu og niður að höfn. Það er heldur ekki slæmt útsýni þar ... Montjuic í baksýn ...

... og yfir öllu gnæfir svo Kristófer Kólumbus og bendir út á haf ... eða á verslunarmiðstöðina Mare Magnum!

Næsti áfangastaður var sædýrasafn borgarinnar. Þangað hafði ekkert okkar komið áður og kom safnið okkur öllum skemmtilega á óvart. Fiskar eru samt voðalega erfiðar ljósmyndafyrirsætur ... geta aldrei verið kyrrir!

Það náðust þó nokkrar góðar. Þessi slappaði af á botninum skrýtinn á að líta.

Og þessi er svakalega röndóttur ... meira að segja augun eru röndótt!

Einar segir að þessi skepna heiti múrena ... ég veit ekkert um það en heldur ófrýnileg var hún! Múrenan átti heima í alveg risa-, risa-, risastóru búri sem hægt var að ferðast fram hjá á rúllubretti (svona eins og á flugvöllum!). Þetta var alveg hreint magnað!

Þar voru líka nokkrir hákarlar og það engin smá flykki! Ég verð bara að segja það ... þetta eru alveg ógeðsleg dýr!

Það er líka hægt að fara á rúllubretti eftir „röri“ sem liggur í gegnum búrið. Þar er hægt að sjá fiskana synda allt í kring og yfir höfðinu!

Daramm ... daramm .... daramm .... (hrollur)!!!

Í safninu er líka skemmtilegt leiksvæði fyrir börnin ... María og Hugi nutu þess í botn og þótti gott að fá smá útrás í eftir safnaferðina!

Vatnsrörið var vinsælt!

Svo eru líka nokkrar mörgæsir á staðnum þó vistarverur þeirra séu ekki nærri eins glæsilegar og í dýragarðinum í Edinborg. Þær voru þó ótrúlega hressar og víluðu ekkert fyrir sér að elta húfur og hatta safngesta væri þeim sveiflað við búrið!

    

Á leiðinni heim úr sædýrasafninu settumst við niður á hressilegri cerveceriu. Þangað var líka mættur Tom Selleck ... alla vega tvífari hans!

Það var farið að kvölda og gamall vinur okkar Einars úr fyrri ferð búinn að koma sér fyrir á Römblunni!

 

FIMMTUDAGURINN 7. JÚLÍ

Dagurinn byrjaði með hefðbundnum hætti ... á kaffihúsinu okkar. Hugi var óborganlegt krútt! Honum fannst alveg mesta sportið að fá að drekka úr vínglasi á fæti og leit ekki við öðru!

Feðgarnir í feðgadressi!

María með höfrunginn ástkæra. Eftir kaffihúsaferðina var haldið aftur upp í íbúð ... þegar þangað var komið fregnaðist af hryðjuverkum í London og því settist eldri kynslóðin við spænskt sjónvarp og reyndi að geta sér til um merkingu orðaflaumsins. Úr varð að mamma og Elli ákváðu að vera heima til að fylgjast með börnum og fréttum en við Einar fengum útivistaleyfi og héldum í bæinn tvö saman ... alveg eins og í gamla daga!

Við byrjuðum ferðina á Starbucks. Þar þarf að gefa upp nafn svo hægt sé að pára það á málið til að koma í veg fyrir allan misskilning. Við Einar urðum dálítið vandræðaleg þegar ég var spurð til nafns en eftir dálítið hik svöruðum við: „Gudrun!“ Starfsmaðurinn átti ekki nokkrum erfiðleikum með það ... og endurtók „Pedro? ... Pedro!“ Við ákváðum að héðan í frá skyldi Pedro vera opinbera kaffihúsanafnið okkar!

Við hjúin röltum svo beint niður í gotneska hverfi enda eru engin takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að ráfa þar um, þræða götur og sund sem maður finnur svo kannski aldrei aftur. Okkur tókst þó, með nokkrum erfiðismunum, að hafa aftur upp á þessu torgi sem við skoðuðum í fyrri ferð. Síðan ég hélt fyrirlestur í vetur um sögulega skáldsögu sem gerist í spænsku borgarastyrjöldinni hef ég verið mikil áhugamanneskja um þau átök. Þetta pínulitla og skuggsæla torg var einmitt vettvangur þeirra ... hér fóru fram aftökur í stórum stíl, líkt og merkja má á veggjunum sem eru alsettir kúlnagötum.

 

Þetta er alveg hreint mögnuðu upplifun þó óhugnaleg sé. Mig langar reyndar mjög mikið að komast að því hvorir stóðu fyrir aftökunum, lýðveldisherinn eða menn Francos.

Unga kynslóðin kærir sig kollótta um söguna og grettir sig framan í ljósmyndarann!

    

Við fundum líka, eftir þó nokkra leit, gamla uppáhalds kaffihúsið okkar. Hundgömul lítil búlla með óviðjafnanlegu kaffi og rykföllnu andrúmslofti!

Á leiðinni heim rákumst við á hverja spennandi búðina á fætur annarri. Það er það besta við að þræða gotneska hverfið! Ég var fullkomlega heilluð af þessari spænsku blúndu- og vefnaðarvöruverslun. Langaði eiginlega ekki að kaupa mér neitt þar en langaði samt að eiga eitthvað til minja. Endaði á að spyrja afgreiðslukonurnar hvort ég mætti taka myndir ... og þær játuðu undrandi! Sennilega aldrei fengið svona asnalega fyrirspurn áður.

Dúkar og lín.

Kommóða full af handgerðum blúndum ... sumum eldgömlum, öðrum nýjum.

Og línskápur sem svignar undan fíneríi!

 

FÖSTUDAGURINN 8. JÚLÍ

Enn einn morguninn á kaffihúsinu góða. María og Hugi voru komin í nokkurt vinfengi við son eigendanna og saman fengu þau sér sleikjó þennan morgun. Það var alskýjað þegar við vöknuðum og við gáfum því öll plön um strandferð upp á bátinn og hugðumst rölta í miðbænum í staðinn. Þegar við vorum u.þ.b. að leggja af stað braust sólin hins vegar fram úr skýjunum og því var enn og aftur breytt um áætlun, sundföt og handklæði sótt og lagt af stað til Sitges!

Í Sitges reyndist hins vegar skýjað og nokkuð kalt. Við byrjuðum því á að setjast inn á huggulegan veitingastað og fá okkur síðbúin hádegisverð. Hugi tók hraustlega til matar síns og uppskar aðdáun þjónanna fyrir!

Feðginin voru líka ánægð með matinn.

Þessi huggulega dama féll hins vegar fyrir Ella!

Þrátt fyrir ský og lágt hitastig (á spænskan mælikvarða!) var ákveðið að ekki væri hægt að yfirgefa Sitges án þess að leyfa börnunum aðeins að dýfa tánum í sjóinn. Skjálfandi af kulda klæddi liðið sig í sundfötin og lagði af stað út í sjó.

María var ánægð með þetta og kuldinn gleymdist fljótt.

Hugi var líka nokkuð sáttur ...

... en honum var samt alveg skítkalt ... svo kalt að það þurfti að pakka honum inn í handklæði. Við vorum nánast búin að ákveða að ljúka strandferðinni ...

... þegar sólin braust skyndilega fram úr skýjunum og tók að verma allt og alla! Mikið urðum við glöð!!!

Ekki síst María sem var alveg hugfangin af ströndinni og sjónum.

Ekkert kalt lengur og María og amma ánægðar í sandinum.

Huga fannst einstaklega skemmtilegt að leika með handklæðið! Eins og sjá má var Hugi kominn í ný sundföt. Ekki vildi betur en svo að Einari tókst að missa sundskýluna hans Huga fram af svölunum á íbúðinni okkar og hún lá því á botninum á einhverju ókræsilegu porti sem við höfðum engan aðgang að. Amma Imba lagði hins vegar á sig óvissuför síðar þennan dag og tókst að heimta sundskýluna úr helju með babbli og látbragðsleik við spænskan bakaríiseiganda!

Mæðginin kát í sólinni!

Elli reyndi við spanjóla lúkkið og tók sig vel út með helsta kennimerki Sitges í baksýn.

Sætastur allra á ströndinni!

Þó Huga hafi fundist sjórinn spennandi fannst honum ekkert síðra að bardúsa eitthvað við hliðina á mömmu, prila á sólbekknum og leika sér með handklæði.

Okkur Ella og Einari fannst hins vegar skemmtilegast af öllu að fara í sjóinn. Allra best var að fara sem lengst út og leika sér í öldunum, láta þær kaffæra sig eða skola sér aftur á land. Sundfötin okkar voru því full af sandi eftir þessa strandferð og ég er ekki frá því að mér hafi tekist að bera eitthvað af honum með alla leið hingað á Bárugötu!

Gaman að príla. Þar sem langt var liðið á daginn og búið að vera skýjað var ekkert sérstaklega fjölmennt á ströndinni. Það var þó bara betra!

Kátur á hlaupum í sandinum! Mér finnast bara allar þessar strandmyndir svo sætar og get engan veginn gert upp á milli þeirra, þess vegna verð ég að birta svona margar!

Kirkjan setur óneitanlega glæsilegan svip á strandlengjuna.

Við skemmtum okkur í einu orði sagt frábærlega í sólinni, sandinum og saltinu! Einhverjum ykkar bregður kannski í brún að sjá Einar svona gleraugnalausan ... í það minnsta er ég varla búin að venjast honum svona „berum“ þrátt fyrir sjö ára samband!

María vildi hvergi vera nema úti í sjó! Henni fannst best að liggja í flæðarmálinu og dunda sér við að róta í sandinum.

Henni var orðið nákvæmlega sama þó hún fengi yfir sig einstaka gusur eða dytti jafnvel á bólakaf ... kannski margra mánaða þjálfun í ungbarnasundi hafi enn eitthvað að segja?!

Alsæl fimm ára skvísa!

Þó sólin væri farin að skína var enn þungbúið yfir sjónum ... það var eiginlega eins og það hefði bara opnast lítið gat í skýjaþykknið akkúrat yfir ströndinni okkar!

Frændurnir úti í sjó. Eftir velheppnaða strandferð héldum við örþreytt heim á leið aftur, ótrúlega fegin að hafa drifið okkur til Sitges þrátt fyrir skýin.

 

LAUGARDAGURINN 9. JÚLÍ

Amma og Elli yfirgáfu okkur eldsnemma þennan morgun og flugu áleiðis til London. Við höfðum hins vegar daginn fyrir okkur áður en halda þurfti út á flugvöll. Til minja um dvölina ákvað ég að taka nokkrar myndir frá þeim svölum sem ekki sneru að Sagrada Familia. Ekki var útsýnið alveg jafnmikilfenglegt þar ... en kannski samt alveg ekta spænskt!

Alls staðar eru litlir húsagarðar eða port, þvottasnúrur og pottablóm til að bæta upp fyrir gróðurleysið.

Sum húsin og garðarnir eru einfaldlega þannig staðsett að maður getur ekki einu sinni ímyndað sér hvar sé gengið inn í þau! Eitthvað er nú farið frjálslega með borgarskipulagið þarna!

Við héldum svo með metróinu niður í bæ. Þegar við stigum upp úr stöðinni á Passeige de Gracia tók á móti okkur reykur, brunalykt og bjölluhljómur. Vegna atburða undanfarinna daga fór nú um okkur við þessa sjón en við vorum þó fljót að átta okkur á að ekki væri um hryðjuverk að ræða heldur einhvers konar mótmæli.

Við vitum hins vegar ekki enn hverju var verið að mótmæla! Allir voru með rauðar kindur í bandi um hálsinn og sveifluðu kúabjöllum! Einhver spænskumælandi óskast til að þýða pésann sem okkur var réttur á torginu!

Einar og börnin biðu fyrir utan H&M meðan móðirin stökk þar inn í vissum erindgjörðum! Annars var nú ekki mikið verslað í ferðinni enda lítill tími sem gafst til þess fyrir strandferðum, dýragörðum og kaffihúsapásum!

María bíður eftir mömmu sinni.

Eftir rölt um miðbæinn og gotneska hverfið settumst við í síðasta sinn niður á cerveceriu, slöppuðum af og nutum umhverfisins.

Síðasta myndin sem tekin var í ferðinni var þessi af okkur mæðgunum með Katalóníutorgið í baksýn!

Við héldum svo heim um kvöldið, lentum í seinkun á flugvellinum í Barcelona, biðum óendanlega lengi eftir töskunum á Keflavíkurflugvelli og vorum því alsæl með gömlu, góðu Bárugötuna okkar þegar við duttum þar inn dauðþreytt löngu eftir miðnættið. Það er alltaf gott að koma heim, hversu góð sem ferðalögin eru!

VIVA ESPAÑA!!!