Baldur Tumi og blómin

Nokkrar myndir af litlu maístjörnunni okkar og garðinum hér á Konsulentvägen í sínum allra fegursta skrúða.

 

Eftir langan og leiðinlegan vetur hefur vorið verið ansi ljúft hér í Vänge. Strax í byrjun maí var kominn sumarhiti, jafnvel upp í tæpar 30° (auðvitað ekki alla daga en þið skiljið). Einn heitasta daginn ákváðum við Baldur Tumi að kæla okkur niður með smá sulli á pallinum. Ég nennti nú ekki að græja buslulaugina og ákvað að láta vatn í bala duga fyrir fyrstu buslulotu sumarsins. Við sóttum líka svolítið af baðdótinu og Baldri Tuma leist vel á þetta allt saman.

Ég tók náttúrulega allt, allt of mikið af myndum þennan dag enda barnið ómótstæðilega sætt. Og svo þegar ég valdi myndir í þetta albúm valdi ég auðvitað líka allt, allt of margar myndir - sem þýðir að ég mun eiginlega ekki hafa neitt að segja við stærstan hluta þeirra!

 

Skemmtilegast af öllu fannst Baldri Tuma að fá sér smá sopa af vatninu og frussa því svo aftur út úr sér með látum!

Spékoppur!

Glaður sólskinsdrengur.

Þegar við vorum orðin þreytt á buslinu röltum við út í garðinn og dáðumst svolítið að fallegu túlípönunum okkar sem voru að byrja að springa út.

         

Baldur Tumi ruglaðist reyndar aðeins í þessu með blómin. Við höfum stundum verið að hvetja hann til að finna ilminn af blómum en einhvern veginn hafði það umbreyst í þessum litla kolli yfir í að maður ætti að kyssa blómin! Honum fannst eitthvað erfitt að miða rétt svo hann greip einfaldlega um krónublöðin og hélt túlípananum föstum meðan hann smellti á hann rembingskossi!

Hinn kyssti túlípani er einmitt einn af þeim sem ég setti niður í fyrra og við njótum því í fyrsta sinn í garðinum okkar þetta vorið.

Þessa mini-túlípana seti ég líka niður í fyrra, þeir eru bara nokkrir sentimetrar.

Þarna var ég búin að leiðrétta kossamisskilninginn og litli lífskúnstnerinn farinn að þefa af blómunum í staðinn! Ég veit að ég er ekki hlutlaus en er hann ekki dásamlegur?! Lygnir aftur augunum og allt!

Plómutréð stóð í háblóma einmitt um þessar mundir.

Ég tek myndir af því í blóma á hverju ári og þær eru alltaf alveg eins og myndir allra hinna áranna! Einhvern veginn verður maður samt að reyna að fanga fegurðina því hún stendur svo stutt yfir.

Í þungum þönkum.

Hjólahjálmar stóru systkinanna eru töluvert vinsæll höfuðbúnaður. En mikið svakalega getur verið erfitt að festa spennuna á þeim! Sama hvað maður einbeitir sér mikið og einblínir á þetta þá gengur það alls ekki!

Á þetta að vera svona, mamma?

Nú vantar bara hjólið!

Einmitt þegar Baldur Tumi var að bisa við að komast upp á hjólið hans Huga komu krakkarnir heim úr skólanum. Það var valvika hjá Maríu og þennan dag hafði hún farið í 30 kílómetra langan hjólatúr í öllum hitanum! Hún hafði þó orku til að leyfa litla bróður að prófa smá áður en hún fór inn til að vökva sig að innan sem utan eftir þrekvirkið!

Þegar stóru krakkarnir voru komnir heim sýndi mælirinn hátt í 30 gráður og ljóst að litli balinn dygði ekki lengur til að kæla börnin á heimilinu niður. Litla buslulaugin var því dregin fram, þrifin og fyllt af vatni.

Baldri Tuma fannst óþarfi að fara í sundföt og skellti sér bara út í í fötunum og var kátur með þetta allt saman.

Glaður buslari.

 

Daginn eftir var enn heitt og Baldur Tumi skellti sér í enn eitt sjóaradressið til að fara út og vökva enn eitt túlípanabeðið.

Sætasti garðyrkjumaðurinn.

Er allt vatnið búið?!?

Túlípanarnir í þessu beði eru allir nýir líka. Þessir bleiku eru óskaplega fallegir ...

... og hvítu kögurtúlípanarnir líka.

Ég man að þessir heita Jónína! Ja eða reyndar Yonina en það er sama.

Inn á milli í beðinu eru perluhyacintur sem hafa verið í garðinum frá því við fluttum.

Fíngerðar og fullkomnar.

Enn fleiri myndir voru teknar af plómutrjánum þennan dag!

 

Þegar maður er búinn að vera svona rosalega duglegur að vökva er gott að slaka á og dunda sér við að troða smásteinum niður stútinn á garðkönnunni.

Baldur Tumi segir bless í bili!