Áramót

2011/2012

Er nokkuð meira við hæfi en að byrja þetta síðasta albúm ársins 2011 á mynd af hátíðarborði dúkuðu með musselmalet?! Síðastliðið ár getur með sanni kallast Ár postulínsins hér á mínu heimili! Eins og einhverjir muna kannski (eða ekki!) þá átti ég sex agnarsmáa musselmalet kökudiska í byrjun þessa árs (og boxið sem Þórunn systir gaf mér í jólagjöf í fyrra). Á árinu hef ég því safnað mér fullum skáp af þessu stelli sem mér finnst það fínasta í öllum heiminum! Hingað til hef ég aldrei notað neitt nema kaffihlutann, kökudiska, bolla og litlar skálar. Um mitt ár sirka sá ég hins vegar fram á að ég gæti mögulega eignast nógu mikið af matarstellinu til að leggja á borð á aðfangadagskvöld og lagði upp frá því allt kapp á að verða mér út um það sem upp á vantaði. Nú svo fór það auðvitað þannig að við vorum á Íslandi á jólunum og fjarri öllu postulíni. En á áramótunum var dúkað upp í staðinn, þótt stellið mitt hafi reyndar aðallega miðast við hamborgarhrygginn og möndlugrautinn dugði safnið líka nokkuð vel undir kalkún og meðlæti. Ég er auðvitað lengi búin að hóta ykkur langri vörutalningu og útlistunum á musselmaletsafninu mínu í heild en hér kemur alla vega smá forsýning! Á myndinni má meðal annars sjá, matardiska, kartöfluskál, stórt fat, sósuskál og kertastjaka. Ég sá að mig vantar nauðsynlega fleiri lítil föt í framtíðinni, svona svo gulræturnar þurfi ekki aftur að vera á kökudisk. En engu að síður góður árangur á einu ári, er það ekki?!

Og þegar maður er búinn að leggja svona fínt á borð þá er eins gott að bera einungis fram gos í réttum litum!

Fjölskyldan sest að borðum og allir spenntir.

María var í fína sparikjólnum sínum sem verslaður var í H&M fyrir jólin. Þetta er fyrsta flíkin hennar sem ekki er keypt í barnadeild. Það eru ákveðin tímamót myndi ég segja!

Það sést kannski hvar fókusinn var hjá undirritaðri þegar hún tók þessa mynd af elskulegum eiginmanni. Nei, ekki á manninum heldur stellinu!

         

Baldur Tumi gaf sætu kartöflumúsinni toppeinkunn!

Er reyndar algjör mús sjálfur! Talandi um Baldur Tuma og mús má ég til með að láta eina krúttsögu af honum flakka. Við skoðuðum stundum bók með mynd af RISASTÓRUM elg og pínkulítilli mús. Þetta þykir okkur mjög áhugaverð mynd og skemmtileg en hún hefur valdið ákveðnum orðaruglingi hjá litla manninum. Ef honum er neitað um eitthvað sem hann langar mikið í á hann það alla vega til að segja biðjandi og voðalega skrækróma: „ ... bara pínkumús?!“.

Hugi klár í slaginn!

Húsmóðirin nánast rænulaus af sæluvímu yfir stellinu.

Í eftirrétt var panna cotta með jarðaberja-kampavínssósu. Fáránlega gott! En það sem meira um vert eru auðvitað diskarnir sem hann var borinn fram á! Já, já, ég á líka djúpa diska!

Allir sestir - aftur!

     

Spékoppurinn Baldur Tumi var hrifnastur af hindberjunum sem ég notaði til að skreyta eftirréttinn með - og lætur sér fátt um finnast á hvaða diskum þau sitja.

Við hin vorum hins vegar í alsælu og borðuðum desertinn upp til agna.

Svo var kominn tími til að reyna að tengjast áramótaskaupinu. Við horfum alltaf á það, jafnvel þótt það þýði að sjálf áramótin farið hálfpartinn fram hjá okkur því þau eru jú hér í Svíþjóð sirka í miðju skaupi. Ekki að það sé af miklu að missa, kannski fimm rakettum og þremur bólugröfnum unglingsstrákum með blys.

Fyrstu sekúndurnar á nýju ári!!! Hugi fékk þá góðu hugmynd að í ár myndum við taka okkur smá pásu frá skaupinu og vera tilbúin með myndavélina akkúrat þegar nýtt ár gengi í garð og ég myndi taka myndir af þeim að hoppa af gleði. Síðan myndi ég setja þær á síðuna og skrifa undir „Fyrstu sekúndurnar á nýju ári!“. Þetta er ég auðvitað allt búin að gera, enda frábær hugmynd! Ég sé að ég er hér komin með verðugan arftaka í síðustjórastólinn!

Kátir krakkar árið 2012!

Baldur Tumi fylgist með rakettunum - þessum fimm.

Hugi er greinilega ómeðvitað farinn að æfa sig fyrir síðustjórahlutverkið því hann tók sig til á nýársnótt og smellti af nokkrum fínum myndum af innanstokksmunum! Ég birti þær að sjálfsögðu allar hér! Hér er ein góð af orgelinu.

Hugi hefur augljóslega erft gott auga móðurinnar fyrir smekklegum uppstillingum! Eins og glöggir lesendur muna þótti mér eldhússkápurinn svo fínn eftir að ég var búin að raða hvíta postulíninu mínu í hann fyrir jólakortamyndatökuna að ég var að hugsa um að senda bara út mynd af honum.

Jólakortin og lúsíuljósið á la Hugi.

Krítartaflan í diskahillunni séð með augum Huga.

Eftir að litli maðurinn var farinn að sofa tókum við hin í spil. María setti upp þennan stórskemmtilega svip til að gleðja mig en ég er stundum að kvarta undan því að hún sé að geifla sig eitthvað þegar ég er að taka af henni myndir!

Að morgni nýársdags stóð ég í stofunni og dáðist að öllu fallega jólaskrautinu mínu. Það var eðli málsins samkvæmt frekar lítið skreytt hér fyrir jólin enda enginn í húsinu þá. En ég tók samt fram smá hluta af allra fínasta dótinu og kom fyrir hér og þar. Nokkur hekluð snjókorn hangandi á myndarömmum geta til dæmis puntað helling. Já og hér sést loks almennilega myndaveggurinn sem ég sýndi ykkur einhvern tímann á undirbúningsstigi. Við vorum að vísu fyrst búin að hengja þær upp aðeins öðruvísi og þá teiknaði ég sjálf tvær myndir með flagglínum til að fylla upp í. Síðan breyttum við uppröðuninni og þá lentu flaggmyndirnar mínar á hlið og ég hef ekki enn nennt að teikna nýjar í staðinn. Þetta kemur allt með prikinu!

Hér má svo sjá nokkrar musselmalet gersemar í viðbót. Jólakúlurnar tvær voru settar á markaðinn fyrir nokkrum árum og mig langaði alltaf svolítið í þær en lét aldrei verða af kaupum. Svo byrjaði ég að safna stellinu og þá fannst mér auðvitað að ég YRÐI að eignast jólakúlur í stíl en þá er alveg steinhætt að framleiða þær og allt uppselt - um allan heim! Ég reyndi að upphugsa ótal leiðir til að eignast þær og var grínlaust farin að íhuga örþrifaráð á borð við innbrot! En svo voru þessar tvær kúlur óvænt boðnar upp á netinu rétt fyrir jólin og enginn bauð í þær nema ég! Þetta er að vísu sama kúlan, þ.e.a.s. með sama munstri en ég sneri þeim bara sitt á hvað. Það voru framleiddar tvær aðrar gerðir af kúlum og ég stefni þá bara á að komast yfir þær með einhverjum hætti fyrir næstu jól! Musselmalet kertakrúsirnar fékk ég svo í jólagjöf frá mömmu minni. Þær eru eiginlega uppáhaldsjólagjöfin mín í ár, svo ótrúlega fallegar. Þetta uppstækkaða munstur heitir Musselmalet mega og var sett á markaðinn árið 2000 og mér finnst óskaplega fallegt að vera með nokkra svoleiðis gripi inn á milli þeirra klassísku. Reyndar gæti ég alveg hugsað mér að eiga líka heilt mussel mega stell - en það verður bara á 30 ára áætluninni!

Fínu zinkhúsin voru líka sótt á háaloftið og inn á milli þeirra stakk ég þessum fínu jólatrjám úr horni. Kúluna sem hangir í glugganum bjó ég til sjálf og framleiddi fleiri sem ég stakk í jólapakka. Meira um það í handavinnualbúminu (coming up!).

Ég fékk að njóta jólaskrautsins míns svo stutt þetta árið að ég átti svolítið erfitt með að setja það aftur ofan í kassa. En það verða bara þeim mun skemmtilegri fagnaðarfundir að ári.

Smá meira jólaskraut, tréhjarta og í trénu hangir lítill pappírsengill. Guð minn góður, gæti þetta verið leiðinlegasta myndaalbúm nokkru sinni?!

Bara einn glugg í viðbót og nú er þetta búið, ég lofa!

Snjóboltarnir hennar Sollu systur eru orðnir fastur punktur í hátíðahöldunum hjá okkur. Og nú á ég svona fínan kökudiska að setja þá á!

Ó, boj, mig minnti að allar jólaskrautsmyndirnar væru búnar en sé að svo er ekki! Þetta er sú síðasta, ég lofa og nú er mér alvara, ég er búin að tékka!

Baldur Tumi var hins vegar vel skreyttur í tilefni nýársdags, með þessa fínu perlufesti um höfuðið.

Pínkumús sætur!

Við borðuðum afganga á nýársdag. Eiginlega finnst mér nýársdagur oft besti dagurinn í þessu hátíðahaldi öllu saman. Þá er allt svo afslappað og notalegt og maður er búinn að borða svo mikinn veislumat að afgangar og kannski gott brauð og kex með ostum er allt sem þarf! Baldur Tumi virtist sammála mér.

Einar eitthvað að fást við mat.

Mía litla.

Já, já, það er önnur mynd af mér í þessu albúmi!

Ljúflingurinn Hugi.

Þegar Baldur Tumi borðar er aðalmálið að „hnífa“ allt svolítið rækilega!

Við áttum svolítið erfitt með að ákveða hvað við ættum að hafa í eftirrétt á gamlárskvöld og vorum því búin að undirbúa tvennt. Þegar við ákváðum svo að vera með panna cotta settum við hinn réttinn á pásu og geymdum til nýársdags. Þá buðum við upp á þennan glæsilega glace au four. Glace au four er nokkurs konar innbakaður ís með venjulegri sockerköku í botninn, berjum eða einhverri annarri fyllingu þar ofan á, vanilluís og svo marengs efst. Þegar rétturinn er bakaður í lokin til að fá rétta áferð á marengsinn myndar hann eins konar einangrun þannig að ísinn nær ekki að bráðna.

Þetta tókst kannski ekki aaaalveg nógu vel hjá okkur. Við vorum ekki með nærri nógu mikinn marengs til að þekja formið og þurftum að búa til aukaskammt og á meðan á öllu því rugli stóð hefur ísinn sennilega náð að bráðna aðeins of mikið. Sennilega hefur formið okkar líka verið allt of stórt og öll lög aðeins of þunn. En hvað um það, þetta var ótrúlega gott engu að síður! Og næst verðum við bara betur undirbúin! Haldið þið að það verði ekki huggulegt að borða glace au four á pallinum sumarið 2012?!

 

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir þau gömlu!