Áramótin 2004/2005

Á gamlársdagsmorgun skelltum við mæðgurnar okkur saman í freyðibað. María hafði daginn á undan átt erindi með ömmu sinni í Kringluna þar sem hún sá þessi fínu sundgleraugu og sundhettu í stíl. Það var ekki að því að spyrja, þennan búnað varð stúlkan að eignast og það strax! Taldi hún miklar líkur á að það gæti brostið á með sundferð hvenær sem væri og því ekki annað í stöðunni en að vera klár í slaginn! Ekkert hefur þó orðið af bráðasundferðum enn en gleraugun komu að góðu gagni í síðasta baði ársins!

Maríu fannst hún bæði flott og töff með gleraugun góðu!!!

Undir kvöld var haldið í aftansöng í Hallgrímskirkju þar sem húsfreyjan átti að syngja. Heimilisfaðirinn dundaði sér hins vegar við að stæla mynd sem nýlega birtist í Mogga af lofti kirkjunnar! Og datt ekki í hug að taka mynd af elskulegri unnustu sinni við söng á pöllunum!!!

Úr kirkjunni var haldið á Bakkastaði og meðan lokahönd var lögð á kalkúninn reyndi ég að draga Einar í mikla hjónamyndatöku. Mér var mikið í mun að eiga mynd af okkur saman þetta kvöld þar sem hann var á leiðinni á vakt og þetta því síðustu samverustundir ársins. Einar hefur hins vegar ótrúlega hæfileika til að vera úr fókus á myndum ... að ekki sé talað um gleraugnaglampann. Reyndar er ég líka eitthvað óskýr á flestum myndunum! Þessi flass-andspyrna er greinilega að koma niður á mér!

Fókusinn næstum í lagi en brosin stirðnuð og ljóminn í augunum fölnaður eftir ítrekaðar tilraunir til að ná hinni fullkomnu hjónamynd!

Loks var sest að borðum og kalkúnninn dásamlegi snæddur. Ég held að ég geti fullyrt að hvorki hann né meðlætið hafi nokkru sinni runnið ljúflegar niður en einmitt þetta árið.

Elli P. var hress að vanda.

Einar situr ævinlega einn eftir við borðið þegar aðrir eru löngu búnir að fá sig fullsadda af krásunum. Hann hefur fengið viðurnefnið „mannlega ruslafatan“ vegna hæfileika síns fyrir að klára öll þau matvæli sem að öðrum kosti hefðu endað í tunnunni!

Sýslað í eldhúsinu. María litar gífurlega einbeitt og amma er eitthvað að fást við mat. Hugi hefur ekki miklar áhyggjur af hlutunum, frekar en fyrri daginn!

Prúðbúin áramótastúlka!

Og svo var Einar rokinn! Hann náði þó sem betur fer bæði aðalréttinum og ljúffengu panna cotta sem var í eftirrétt. Við söknuðum hans auðvitað alveg fullt en vorum svo heppin að vera í góðu yfirlæti á Bakkastöðum áfram. Gaman að fara í pössun til mömmu svona á fullorðinsárum!

Amma og María kveikja á kertum.

Og amma og Hugi ærslast. Börnin fóru í náttföt á skikkanlegum tíma en það kom auðvitað ekki til greina að fara að sofa fyrr en flugeldarnir væru búnir.

Hugi heldur því statt og stöðugt fram að hann sé alls ekki Hugi Einarsson heldur „ömmustrákur“ eða „krílin hennar ömmu“!

Og svo byrjaði loks skaupið. Maríu fannst lítið varið í það eins og sjá má ...

... en Huga fannst það hin besta skemmtun! Eða réttara sagt þá var hann mjög meðvitaður um að öðrum þætti þetta agalega fyndið og hló krampakenndum hlátri með nokkurra mínútna millibili.

Og svo byrjuðu loks flugeldarnir. Fyrst var fylgst með úr svefnherberginu hennar ömmu ...

... en síðan smellti liðið sér í útigalla utan yfir náttfötin og kíkti framfyrir hús.

Hugi var hins vegar „dauðhðædduð“ við flugeldana og gægðist bara rétt út um gættina! Óttinn yfirbugaði hann þó algjörlega skömmu síðar þegar hann dró mömmu sína inn og stakk upp á að við færum öll ofan í vatnið! Sennilega talið það öruggasta staðinn að vera á meðan allt brynni til kaldra kola! Hann sá nefninilega hvernig flugeldarnir „sprændu“ á húsin!!!

Dálítið skrýtin fjölskyldumynd ... og ég alveg í 9 ára stemmningu að taka mynd í spegil! Við burstuðum svo tennurnar og lögðumst öll til hvílu á Bakkastöðum eftir notalegt gamlárskvöld.

Á nýársdagsmorgni var Einar laus úr vinnu og kom beint til okkar þrátt fyrir að svefnlaus væri og tuskulegur.

Við byrjuðum árið með mikilli bragarbót á mataræði heimilismanna ... María og Hugi fengu ís í morgunmat og mamma þeirra panna cotta!

Árið byrjaði fallega þarna í sveitinni.

Ljósmyndarinn varð þó að gera sér að góðu að taka myndir út um gluggana því allar hurðir út á pallinn voru kyrfilega frosnar aftur! Það útskýrir sem sagt undarlega tauma og speglanir á þessum myndum!

Amma, María og Hugi ákváðu að fara aðeins út í frostið. Það hafði alveg gleymst að taka almennilega húfu og vettlinga á Huga og hann varð því að fá slíkan útbúnað lánaðan hjá móður sinni! Þetta kunni hann afar vel að meta enda hvort tveggja í miklu uppáhaldi hjá snáðanum!

Á leiðinni út í -9° og stillu!

Af Bakkastöðum var haldið til ömmu á Sóló þar sem stórfjölskyldan var saman komin til að fagna nýju ári. Sigrún, Jódís og Hrappur gæddu sér á veitingunum.

Amma með strákana! María er elst barnabarnabarnanna og hún Pála litla er yngst, bara þriggja mánaða gömul. Milli þeirra koma hins vegar hvorki meira né minna en fjórir strákar! Frá vinstri: Hrappur er fæddur í október 2001, Hugi í janúar 2002, Bjartur litli í apríl 2004 og Emil í september 2001. Það var mikið stuð að hittast í boðinu og fá að hlaupa hringinn í húsinu hennar langömmu! Æ, hvað ég er stolt yfir öllu þessu litla fólki í fjölskyldunni minni ... já og stóra fólkinu líka!!!

Eva og Jódís ... Jenný í baksýn.

Frænkur og platfrænkur!

Ókei, ég var alveg að tapa mér í þessari spegilmyndatöku þarna yfir hátíðirnar ... en þessi er í sérstöku uppáhaldi og verður að fá að fylgja með!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla!