Aprílmyndir og afmælisstelpa

Apríl hefur verið einstaklega ljúfur hér á Konsulentvägen. Vorið kom 1. apríl og var sko ekkert aprílgabb því það var dásamlegt veður allan mánuðinn. Apríl er svo ævintýralegur hér í Svíþjoð, í upphafi hans er enn allt grátt og litlaust en í lok hans er undantekningalaust kominn grænn og vorlegur blær yfir umhverfið og ótal kirsuberjatré standa í blóma. Já og svo á stóra stelpan okkar afmæli í apríl og varð hvorki meira ne´minna en 9 ára í ár ... það er sko ævintýralegt!

Þann 2. apríl var svo ótrúlega gott veður að það þótti ástæða til að bjóða upp á ís í tréhúsinu að loknum skóla. Systkinin slógu ekki hendi á móti slíku tilboði!

Fínu krókusarnir sem við settum niður síðasta haust voru farnir að stinga upp kollinum þann sama dag.

         

Og 2. apríl fann María líka fyrstu maríuhænu vorsins!

Daginn eftir opnuðu krókusarnir sig móti vorsólinni, svo undurfagrir og glaðlegir.

Tréhúsið hefur verið einn helsti íverustaður barnanna þennan fyrsta eiginlega vormánuð. Hér er María búin að koma sér vel fyrir með Syrpu, safaglas og myndavél.

Hugi var hins vegar íklæddur Batmanskikkju og vildi láta mynda sig í flottum stellingum!

Svo spilaði Batman smá fótbolta við Einar.

Sorgmæddi sóparinn! Einar hafði beðið Huga að sópa pallinn en urðu þau mistök á að sópa smávegis sjálfur til að sýna piltinum rétt handtök. Hann hafði greinilega hlakkað til að takast á við þetta verkefni aleinn og varð því ægilega sár og minnti einna helst á Oliver Twist þarna með skeifuna og sópinn!

Við höfum smátt og smátt verið að undirbúa garðinn undir vorið og sumarið og hér er Einar að hreinsa lauf úr þakrennunum.

Feðgarnir hjálpuðust líka að við að raka saman sölnuðum laufum og flytja í safnhauginn. Hugi fór margar ferðir með hjólbörurnar alveg sjálfur og féllu því engin tár við þessi bústörf!

Og Marían okkar varð 9 ára þann 23. apríl! Amma Imba kom í heimsókn til okkar af því tilefni og að morgni afmælisdagsins var því fjölmennt við borðstofuborðið þegar fagnað var með kaffi og kakói, pönnukökum og pökkum.

Ekki þótti þó við hæfi að mynda fullorðna fólkið svo snemma morguns og látum við því nægja að birta mynd af sybbnum afmælisbróður.

Túlípanar og pakkar!

Síðar sama dag fékk afmælisbarnið að fara í dótabúðarferð og velja sér gjöf frá ömmu sinni. Hugi var líka með í för og keypti alveg sjálfur gjöf handa stóru systur. Daman græddi því hvorki meira né minna en tvær Bratzdúkkur þennan eftirmiðdag!

Hugi fékk líka smá pakka frá ömmu sinni og þótti þetta því harla góður dagur þótt hann væri ekki aðalstjarnan!

  

Áður en amman hélt aftur heim til Íslands buðum við henni í bíltúr að Ulva Kvarn og þar bauð hún okkur upp á ís í sólinni.

Amma Imba á mjög flotta myndavél!

Ömmukríli númer tvö, amman sjálf og ömmukríli númer eitt.