Apríldagbók 

                                                   2011

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

Laugardagurinn 30. apríl 2011

Áramótaheitin - stöðumat

Nú þegar þriðjungur er liðinn af árinu (jæks!) finnst mér rétt að taka stöðuna á áramótaheitunum og hve vel mér gengur að standa við þau. Eruð þið ekki einmitt búin að bíða spennt eftir því? Ég þyrfti auðvitað að skaffa hlutlausan matsmann ef vel ætti að vera en þangað til verðið þið bara að treysta því að segi satt og rétt frá:

Að vera duglegri að nota alla eyrnalokkarna mína - Ég byrjaði árið vel og skipti um lokka reglulega. Mér reiknast til að ég sé búin að fara í gegnum ein sex eða sjö pör það sem af er ári. Það væri í sjálfu sér ásættanlegur árangur ef staðreyndin væri ekki sú að undanfarna tvo mánuði eða svo er ég næstum bara búin að vera með sama parið. Ég skipti að vísu fyrir skemmstu en þar sem ég setti þá í mig lokkana sem ég notaði svo að segja allt síðasta ár er ég því miður hrædd um að það hafi verið spor í ranga átt! Hér er því enn verk að vinna!

Að vera duglegri að prjóna úr afgangsgarni - Um það áramótaheit hef ég þetta að segja:

Handavinna frá janúar til mars 2011

Nú verð ég hins vegar að drífa mig á Valborgarmessubrennu. Ég á enga nýja sandala en fer í nýju sumarskónum og vona að báðir komi með mér heim. Ég skipti kannski líka um eyrnalokka í tilefni dagsins?

 

Miðvikudagurinn 27. apríl 2011

Allt í einu gerist það

Einn daginn vaknar maður og áttar sig á því að það er komið, vorið. Og eftir alla þessa mánuði af frosti og snjó þar sem mann langaði að tíminn liði á tvöföldum hraða af því að maður gat ekki beðið eftir vorkomunni langar mann núna að tíminn líði helmingi hægar, til að maður missi ekki af einu einasta blómi sem springur út, heyri hverja einustu trillu í fuglasöngnum og geti notið hvers einasta sólargeisla sem baðar vangann dýrmætu ljósi. Ég veit að það er margtuggin klisja en ég hef aldrei fundið það jafnskýrt og eftir þennan vetur að vor og von eiga svo miklu meira sameiginlegt en bara tvo bókstafi.

Og heimasíðan loksins komin í vorbúning. Hún er reyndar búin að vera næstum tilbúin í fjórar vikur en af einhverjum ástæðum dró ég það alltaf að vinna síðustu smáatriðin. Vildi kannski kjamsa á þessu eins og vorkomunni, njóta þess að taka síðustu snjókornin í burtu og bæta inn fuglum og blómum. Ég er reyndar búin að breyta meira en oft áður. Það hefur fylgt því einhver ósegjanleg gleði og léttir að taka upp hluti sem hafa verið í föstum skorðum hér í mörg ár, jafnvel frá upphafi og gera upp á nýtt. Það er eitthvað svo mikið vor yfir því - og von!

Já og mitt í öllum nýjungunum, nýjar myndir:

Daglegt líf á Konsulentvägen

Ferð í fiðrildahúsið

Nú kaffi á tröppunum í sólskini og fuglasöng og símtal til alveg sérstakrar afmælisstúlku!

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða     Myndirnar okkar     Hafðu samband     Gestabókin okkar