Apríldagbók 2009    

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

18. apríl 2009

Vegna fjölda áskorana ...

koma hér loksins nýjar myndir! Við byrjum þó á mynd aprílmánaðar:

Hér er það stríðnispúkinn Apríl sem stendur fyrir miðri mynd. Hann leikur sér að því að plata okkur mannfólkið með sífelldum veðrabreytingum, er ýmist sólríkur og hlýr eða lætur hellirigna á okkur, allt eftir í hvernig skapi hann er hverju sinni. Hjá okkur í Uppsölum hefur Apríl verið einstaklega skapgóður og glaðlyndur því eiginlega kom vorið endanlega 1. apríl og síðan þá hefur ekkert lát verið á sólardögum og hlýindum. En það er svo sem aldrei að vita nema þetta sé allt hluti af stóra plotti stríðnispúkans sem skelli svo á okkur eldi og brennisteini síðari hluta mánaðarins!

Og svo eru það tvö glæný myndaalbúm þar sem við Konsulentarnir erum í aðalhlutverkum:

Bardúsað í mars

Páskar 2009

Mér tókst sem sagt ekki að standa við markmiðið um fleiri en eitt myndaalbúm í mars en get hins vegar glatt ykkur með því að ég sé nú þegar fram á a.m.k. tvö aprílalbúm!

 

5. apríl 2009

Eftir 10 vikur

Eftir 10 vikur verður sólin nokkurn veginn eins hátt á lofti og henni er mögulegt og dagarnir óendanlega langir. Þá munu rósarunnarnir mínir svigna undan blómum og ilmur snækórónunnar berast um allan garðinn og inn um opna eldhúsgluggana. Yfir grasinu sveima feitar býflugur letilega í hringi og fiðrildi þyrlast um himininn sem ómar af fuglasöng. Á trjánum eru pínulítil epli farin að roðna og í matjurtabeðinu eru kartöflurnar óðum að verða tilbúnar fyrir fyrstu uppskeru. Á síðkvöldum getur maður klippt fíngerð blómin af fläderrunnanum til að búa til saft úr og þá mætir maður kannski líka litlum broddgelti á rölti yfir grasflötina. Eftir sólsetur hægt að sitja úti á palli, hlusta á engisprettusönginn og þakka guði fyrir nætursvalann.

Og eins og þetta sé ekki meira en nóg, að eiga von á litlu barni á sama tíma. Litlum sumardreng! Að fá einn daginn að ganga heim brakandi malarstíginn með glænýjan son með ilmandi hálsakot og agnarsmáar táslur. Hvert skref svo nýtt þótt gengið sé í gömul spor. Heimurinn svo óendanlega stór en samt svo brothættur. Að fá að elska einn í viðbót.

Bara 10 vikur í viðbót ...

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar