Apríldagbók 2008 

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. apríl 2008

Hér eru myndirnar sem lofað var, bæði bleika albúmið og svo nokkrar héðan og þaðan úr mánuðinum sem er að líða:

Konsulentar í kirsuberjadal

 

Hinar og þessar aprílmyndir

Sjáumst í maí!

 

28. apríl 2008

Eitt og annað

Hér í Uppsölum er allt eins dásamlegt og hugsast getur. Um daginn keyrði ég til dæmis á kóræfingu í 18° hita og glampandi sól þótt klukkan væri alveg að verða sjö. Ég eyddi svo næstu tveimur klukkustundum í litla húsinu við dómkirkjuna þar sem ég söng sænsk rómantísk vorlög um draumþung ský, glaða læki, þyt í furuskógi og konunginn Liljekonvalje. Þegar ég keyrði heim voru enn 14° úti og ekki orðið aldimmt. Í kvöldskímunni sá ég að kirsuberjatrén við Sýslumannsgötuna voru byrjuð að springa út.

Næstu helgi býðst mér að syngja fyrir Svíakonung og -drottningu!!! Mér sýnist reyndar að til þess að geta tekið þátt í því þurfi ég að lofa mér í Póllandsferð í haust sem ég er alls ekki svo viss um að ég nenni í eða komist! Mér finnst hvort eð er eiginlega alveg nógu töff að eiga bréf í pósthólfinu mínu með boði um að koma og troða upp fyrir Herra Stífan og Frú Strekkta!

Eins og lesendur þessarar síðu vita dreymir mig um að villt dýr flykkist í garðinn minn og ég geti staðið eins og Mjallhvít í miðjum hópnum og sungið meðan bambarnir, kanínurnar og broddgeltirnir hlusta andaktug á. Lesendur síðunnar vita jafnframt að mér hefur hvergi nærri orðið að þessari ósk minni! Í síðustu viku fékk ég augnsýkingu, var með rautt og bólgið auga sem rann úr og það sem meira var, gat ekki verið með linsurnar mínar og var því hálfblind. Um miðjan dag hugðist ég setjast út á tröppur í sólskinið og um leið og ég opnaði útidyrahurðina sá ég hvar brún klessa á grasflötinni hrökk við og stökk í burtu. Rétt áður en hún hvarf út um garðshliðið áttaði ég mig á því þrátt fyrir blinduna að þetta var héri! Í fyrsta og hingað til eina skiptið sem villt dýr kemur í garðinn minn er ég sem sagt sjónlaus!!!

Þann 10. - 20. maí verðum við Konsulentarnir á Íslandi. Þar ætlum við að taka þátt í skírn, mæta á vortónleika Mótettukórsins, sækja fjölskylduboð og helst drekka kaffi með ykkur öllum. Nú standa yfir tímapantanir fyrir þá sem hafa áhuga á að hitta okkur en athugið að dagskráin er óðum að fyllast!

Um helgina tók ég tæplega 500 myndir. Á allra næstu dögum er því væntanlegt feitt og ansi bleikt myndaalbúm! Fylgist með!

 

24. apríl 2008

Gleðilegt sumar!

Hér í Svíþjóð er að vísu enginn sumardagurinn fyrsti heldur bara ósköp venjulegur fimmtudagur. Ég er þó ekki frá því að í dag sé einmitt fyrsti sumardagur ársins! Að minnsta kosti settist ég áðan út á tröppur með kaffi og bók og sat í um 20° hita og sól alveg þangað til Hugi datt í brenninetlu og við þurftum að hverfa inn til að kæla húðina og þurrka tárin! Já, það hlýtur að vera komið sumar!!!

Hér eru svo nokkrar afmælismyndir:

María verður átta ára

Ég vona að þið eigið góðan dag í vændum, uppfullum af ís með dýfu, sippuböndum og brenniboltum!

 

23. apríl 2008

Svo var það fyrir átta árum ...

 

18. apríl 2008

Ég er búin að vera hræðilega, skelfilega léleg við að taka myndir undanfarnar vikur. Reyndar hef ég líka verið hræðilega, skelfilega léleg við að skrifa eitthvað skemmtilegt á þessa síðu og af tvennu illu sá ég að ég ætti þó örugglega auðveldara með að kreista fram eitt lítið albúm en að kreista upp úr mér einhverjar sniðugar sögur! Þannig að ...

Vorverkin

Góða helgi, ljúfurnar mínar.

 

10. apríl 2008

Munið þið ekki eftir svona fólki sem hafði til dæmis aldrei stigið á skíði en fór samt út í búð og keypti sér flottustu skíðin, bindingarnar og skíðaskóna, skíðagalla, einhver öndunarnærföt innanundir, lúffur og skíðagleraugu? Útbúnaðurinn var kannski prófaður einu sinni eða tvisvar í Bláfjöllum en fékk svo að rykfalla í geymslunni næstu áratugi.

Ég óttast svolítið að ég sé komin í svipað ferli varðandi nýja áhugamálið mitt, að sauma! Ég á alla vega fallegasta saumaskrín í veröldinni:

Merkilegt nokk var ég ekki með „Ein ég sit og sauma“ á heilanum þegar ég fjárfesti í þessu.

Opið hús!!!

Ég verð einhvern veginn að tryggja það að örlög mín verði ekki þau sömu og skíðafólksins kaupglaða!

 

9. apríl 2008

Uppáhalds

Uppáhaldsdagurinn minn er miðvikudagur (af þeim virku alla vega).

Uppáhaldsliturinn minn er rauður (um þessar mundir).

Uppáhaldsmunstrið mitt er doppótt (augljóslega!).

Uppáhaldshráefnið mitt eru sítrónur. (Þær taka við af sinnepinu sem ég var með æði fyrir síðast ... ég þarf alltaf að vera með æði fyrir einhverjum mat!).

Í dag bakaði ég þessar dásamlegu sítrónusnittur!

 

8. apríl 2008

Ein ég sit og sauma ...

Hluti af saumaverkefnum helgarinnar

Afrakstur gærkvöldsins

 

7. apríl 2008

Félagsfræði

Mig grunar að það megi með einföldum hætti skipta mannkyninu upp í tvo hópa eftir því hvernig það fer klætt í flugvél. Annar hópurinn leggur mest upp úr því að vera huggulega til fara í snyrtilegum klæðnaði en hinn vill umfram allt vera í þægilegum fatnaði sem gera óþægilegar aðstæður um borð í flugvélinni eins þolanlegar og hægt er.

Sjálf er ég án efa í fyrri hópnum. Hvað segja lesendur?

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar