Apríldagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

29. apríl 2007

Fullt, fullt, fullt af nýjum myndum:

Amma kemur í heimsókn

María sjö ára

Frá vori til sumars

Svo bíð ég bara spennt eftir kommentum og kveðjum í gestabókina.

 

16. apríl 2007

Sumir dagar eru sumardagar

Undanfarna daga hefur verið sannkallað sumarveður hér í Svíþjóð. Í gær drakk ég morgunkaffið mitt úti á tröppum í náttkjólnum, fylgdist með bústnum hunangsflugum svífa letilega um yfir grasinu, sá maríuhænurnar trítla eftir stéttinni og köngulærnar skjótast um í moldinni, í fjarska flögraði skærgult sítrónufiðrildi. Loftið bókstaflega ómaði af fuglasöng svo undirtók í öllu hverfinu. Og það var sumar í hjartanu mínu!

Í gær fór hitinn upp í 24°, tré og runnar eru óðum að laufgast og við erum búin að setja útihúsgögnin upp á pallinum. Það er því taktleysi af verstu sort að hafa látið myndir af snjó og frosti drottna hér á síðunni minni í nálega tvær vikur!!! Úr því skal snarlega bætt með vorlegum páskamyndum frá Hollandi:

Á meðan þið lesendur góðir skoðið Hollandsmyndir ætla ég hins vegar að skella mér út á tröppur í sólina, leysa eins og eina sudokugátu og drekka kaffibolla númer þrjú!

Niður með frost og snjó, upp með sól, sumar, blóm og fuglasöng!!!

 

3. apríl 2007

Náttúru(við)undur

Færsla fyrir Snorra og aðra fuglaáhugamenn

Fyrir nokkrum vikum síðan, löngu áður en það kom vor, sá ég dálítið sem ég tel í dag að hafi verið sannkallað náttúruundur. Ég var sumsé að horfa út um eldhúsgluggann og fylgdist mér lífsbaráttu litlu fuglanna minna í snjónum full aðdáunar. Þá rak ég skyndilega augun í undarlega þúst á fuglahúsinu mínu. Þetta var lítill og hnöttóttur bolti sem virtist vera loðinn en ég var hreint ekki viss um að þetta væri fugl þar sem hann líktist engum sem ég hafði séð áður í garðinum mínum. Eftir að hafa velt vöngum yfir þústinni dágóða stund sótti ég myndavélina til að nota aðdráttarlinsuna eins og sjónauka:

Þrátt fyrir aðdráttinn var ég ekki enn fullkomlega sannfærð að um fugl væri að ræða! Þústin hagaði sér líka allt öðruvísi en litlu fuglarnir mínir. Þeir voru vanir að flögra um, rétt tylla sér á brún hússins til að grípa eina hnetu í gogginn og geysast svo burt með hana á ógnarhraða. Þústin  sat hins vegar hreyfingarlaus á brúninni í áreiðanlega 10 mínútur en virtist þó vera að gæða sér á hnetunum.

Eftir dágóða stund mjakaði þústin sér hægt eftir brún hússins og þá sá ég að ekki var um að villast, þetta var fugl! Á þessari stundu hafði ég mestar áhyggjur af að litlu tannstönglafæturnir myndu bresta undan hlunknum!

Ég missti næstum andlitið þegar fuglinn sneri sér við og ég sá að þetta var blåmes!!! Blåmesar eru fastagestir í garðinum mínum og ég þekki þá, útlit þeirra og hegðun mæta vel. Gult brjóst, blátt stél, blá rák á bringunni, blár kollur og svörtu „töffarasólgleraugun“ ... það var ekki um að villast! Líkamsbyggingin var hins vegar, tjah, ívið kringlóttari og atferlið allt annað. Ég sá líka að hinir fuglarnir voru hálfhræddir við hlunkinn og höguðu sér öðruvísi en vanalega, þorðu varla að setjast á brúnina hvað þá meir.

Hér sést hlunkurinn til vinstri en hægra megin á húsinu má sjá frænda hans (að hluta bak við grein). Skyldleikinn leynir sér ekki en um leið blasir við hvað þeir eru gífurlega ólíkir! Kunna fuglaáhugamenn einhverjar skýringar á þessu? Haldið þið að það sé möguleiki á að ég hafi uppgötvað áttunda undur veraldar?!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar