Apríldagbók 2006 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

11. apríl 2006

Tröllamamma

Munið þið eftir þessari mynd?

Ef ekki þá má finna umfjöllunina um hana einhvers staðar hér (28. október 2004). Niðurstaða þess pistils var sú að í augum dóttur minnar hlyti ég að vera algjör tröllskessa. Nú hefur einkasonurinn einnig staðfest þá kenningu:

Um daginn var hann fremur óþekkur og illa gekk að fá hann til að hlýða. Fyrst bað ég vinsamlega: „Hugi, ekki vera með læti“. Tveimur mínútum seinna reyndi að byrsta mig örlítið meira „Hugi, hættu nú!“ Sú aðferð var reynd einum tvisvar sinnum í viðbót án þess að teljandi árangur sæist. Þá æpti ég: „Hættu þessum látum núna strax eða mamma verður öskureið!!!“ Þegar ljóst var að slíkar skipanir ætluðu ekki heldur að gera neitt gagn stóð ég upp, tók piltinn í fangið og var rétt að fara að opna munninn til að láta nokkur vel valin orð falla þegar hann lagði lítinn, klístraðan lófa yfir munninn á mér og sagði svo undurblítt: „Ég gerði bara svona svo þú færir ekki að tala eins og tröll“!!!

P.s. Nýjar myndir af Bárugötutröllunum má finna hér!

 

6. apríl 2006

Sumarþrá

Í byrjun júlí stendur til að ég heimsæki eina af afskekktustu sveitum landsins ásamt nokkrum skólafélögum og einum kennara. Ég hlakka óskaplega til og í hvert sinn sem ég leiði hugann að ferðinni skýtur sömu mynd upp í kollinn: 

Mér finnst eins og ég liggi með andlitið nánast alveg ofan í jörðinni. Ég sé ekkert nema skærgrænt og þykkt gras sem eilítil dögg er farin að falla á enda komið vel fram yfir miðnætti. Útundan mér sé ég glitta í ermina á gráu, færeysku lopapeysunni minni sem ég keypti fyrir mörgum árum í einhverri skranbúð í Kaupmannahöfn. Í fjarska heyri ég spóa vella og einstaka hlátrasköll berast til mín í næturkyrrðinni. Þetta er ein af þessum yndislegu, óviðjafnanlegu, íslensku sumarnóttum þar sem birtan er svo óræð, hvorki myrkur né dagsbirta en samt einhvern veginn hvort tveggja. Grasið ilmar og angan frá blóðbergi laumar sér með. Nokkurn veginn svona er þessi ferð í hnotskurn í mínum huga. 

Um daginn var ég að spjalla við skólafélaga minn um ferðina, um hvað þetta verði nú yndislegt allt saman og gaman að komast út í náttúruna. „Já, útsýnið ofan af Kambabrúninni er alveg stórkostlegt“, sagði vinurinn. „Maður sér alveg út í Surtsey,inn á Skjaldbreið og stundum alla leið inn á jökul og svo auðvitað Heklu og Eyjafjallajökul í austri.“ Sýn skólafélagans á ferðalagið okkar kom mér fullkomlega á óvart og rödd inni í hausnum á mér hrópaði: Jöklar?! Fjöll?! Surtsey?! Í hvaða ferðalag ert þú að fara?! Hvað með grasið og spóann?! Hvað með döggina og óræðu birtuna?! En svo áttaði ég mig á því að sennilega hafa fæstir gaman af útsýni sem aðeins spannar hálfan fermetra af grasi og deila sjálfsagt fremur víðsýni skólabróðurins. En þetta samtal olli mér engu að síður nokkru hugarangri:

Er ég virkilega svona skammsýn og þröngsýn?

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar