Apríldagbók 2005  

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. apríl 2005

Það er gaman að vera góður í einhverju ...

og finna að maður hefur fullkomið vald á því sem maður er að gera. Eiginlega alveg sama hvað það er. Ég man t.d. eftir því að þegar ég vann í kókinu í gamla daga þá fannst mér það starf nokkuð skemmtilegt þegar ég hafði öðlast hæfileikann til að sjá á aðeins örfáum sekúndum hversu margar kippur af tveggja lítra kóki vantaði í hillurnar. Mér fannst líka ótrúlega gaman þegar ég var búin að læra á lyftarann á Eiðistorgi og gat brunað um lagergólfið með hvert brettið á fætur öðru. Mér fannst líka einstaklega gaman að vera í greiðslukortabransanum þegar ég var búin að ná góðum tökum á vinnunni. Þá langaði mig mest af öllu að ræða um það á kaffihúsi við vinkonur mínar hvernig ætti að stofna kort en hélt blessunarlega aftur af mér nokkuð viss um að þetta þætti ekki öllum jafnskemmtilegt umræðuefni og mér. Eins hafði ég gríðarlega löngun í að sýna öðrum færni mína í að þylja upp bankanúmer allra bankaútibúa á landinu ... ég held mér hafi ekki tekist eins vel að halda aftur af þeim hæfileika! 

Mér fannst hins vegar alveg viðbjóðslega leiðinlegt að vinna sem þjónn. Held að það hafi aðallega verið af því að ég var hrikalega léleg í starfinu. Ég roðna enn þegar ég hugsa um kvöldið sem ég ætlaði að standa mig sérstaklega vel og vinna mér inn punkta hjá yfirþjóninum með því að skipta um öskubakka hjá pari sem strompreykti á einu borðinu. Mér hafði verið kennd rétt aðferð við það nokkrum vikum áður og mundi að maður átti að setja hreina öskubakkann yfir þann gamla meðan maður flytti hann af borðinu til að askan þyrlaðist ekki út um allt. Einhvern veginn hafði þetta samt skolast aðeins til hjá mér og mig minnti endilega að maður ætti líka að hvolfa öskubakkasamlokunni svo gamla askan færi öll í nýja bakkann. Ég var sérstaklega góð með mig og full sjálfumgleði vegna stórkostlegra hæfileika minna í þjónshlutverkinu ... þar til ég vippaði öskubökkunum á hvolf og horfði síðan skelfingu lostin á öskuna þyrlast milli brúnanna og yfir allt borðið, matinn og fólkið!!! Parið horfði á mig í forundran þar sem ég stóð, dreyrrauð, með tvo skítuga öskubakka í höndunum og spurði sjálfa mig í hljóði hvernig í ósköpunum mér hefði dottið þetta í hug. Já, lélegir þjónshæfileikar mínir hljóta að hafa spilað inn í hversu leiðinlegt starfið mér þótti ... sérstaklega þegar litið er til þess að mér þótti virkilega gaman að raða gosflöskum í hillur verslana á Stór-Reykjavíkursvæðinu!

Einhvern veginn dreg ég því þá ályktun að ég sé ömurlega léleg í að skrifa bókmenntafræði ritgerðir miðað við hversu ótrúlega mér leiðist núna! Veit að ef ég fæ góða einkunn fyrir ritgerð mína um Samkvæmisleiki þá á mér eftir að finnast að vinnan við hana hafi verið ótrúlega skemmtileg. Ef einkunnin verður óviðunandi á ég eflaust eftir að minnast hennar með hryllingi. Úff ...

p.s. Það hlýtur þó að vera sannað að ég sé ótrúlega góð í að búa til börn ... sjáið bara þetta!

 

25. apríl 2005

Fimm ár!!!

        

Fyrir fimm árum átti ég nýfædda dóttur. Ég vissi ósköp lítið um hana, fannst hún jú fallegasta barn sem fæðst hafði á jörðinni en þekkti hana eiginlega ekki neitt. Ég hafði ekki neinar forsendur til að vita að að fimm árum liðnum yrði þessi sama dóttir búin að læra að lesa, komin með fjórar fullorðinstennur og spyrði heimspekilegra spurninga á borð við „Hvernig veit ég að ég er ég?“. Mig grunaði ekki heldur að innan tveggja ára ætti ég líka lítinn strák, ég hafði ekki hugmynd um að við fjölskyldan ættum eftir að flytja um tvær götur, af Vesturgötu yfir á Bárugötu. Ég vissi ekkert hvað ég sjálf yrði að gera að fimm árum liðnum, hafði ekki hugmynd um að þá yrði ég langt komin með mastersnám í bókmenntafræði. Ég gat heldur ekki verið örugg um að ég myndi enn elska Einar af öllu hjarta. Ég vissi bara ekki neitt! 

Ég hef ekki hugmynd um hvað verður búið að gerast eftir önnur fimm ár! Mér finnst það svo fullkomlega heillandi að vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, finnst einhvern veginn að allar dyr standi opnar. Hvar munum við eiga heima? Verðum við búin að eignast eitt barn í viðbót ... kannski tvö? Verð ég komin í doktorsnám eða mun skynsemin hafa náð yfirhöndinni og ég komin út á vinnumarkaðinn? Verð ég enn að skamma Einar fyrir að búa illa um rúmin ... eða verður hann loksins búinn að ná tökum á því? Munum við kannski gifta okkur á þessu tímabili ... eða verðum við búin að lifa tólf ár í syndinni? Verð ég kannski orðin brjálað heilsufrík sem eyði þremur tímum í ræktinni á hverjum degi og moka einhverju prótíndufti upp í mig milli armbeygja? Ég meina, það eru allir möguleikar opnir, ekki satt?!!

Þó framtíðin sé óskrifað blað er nauðsynlegt að skrásetja núið á sem nákvæmustan hátt. Hér eru myndir af afmælisdegi Maríu og svo nokkrar hressar aprílmyndir.

p.s. Eftir fimm ár verða Friðrik og Mary nokkuð örugglega farin að huga að fimm ára afmælisveislu frumburðarins ... ég óska Dönum og öllu áhugafólki um konungsfjölskylduna til hamingju með það!

 

22. apríl 2005

Hinir einkunnasjúku!

Eins og glöggir hafa áttað sig á er fyrirlestri mínum á nemendaráðstefnu nú lokið. Þar sem ég var vart með meðvitund af stressi dagana fram að honum er ég virkilega glöð núna og finnst að ritgerðin sem ég þarf að skrifa á næstu vikum sé ekkert annað en vatsdrykkja við hliðina á þessu. Fyrirlesturinn gekk stóráfallalaust. Eftir að honum var lokið sló mig hins vegar óþægileg staðreynd ... ég fæ enga einkunn! Nú verða lesendur að hafa í huga að ég er einn einkunnasjúkasti nemandi í sögu Háskóla Íslands. Það kemur illa við mig að fá nú enga tölfræðilega staðfestingu á því hvort vel gekk eða illa ... enginn kennari sem neyðist til að setjast niður og ígrunda mitt framlag, vega og meta þangað til niðurstaða fæst (helst á forminu 9 eða hærra ... ef ég fæ einkunn þar fyrir neðan er ég skyndilega ekki lengur einkunnasjúk heldur sannfærð um að það sé aldrei hægt að leggja mat á frammistöðu eins né neins með einum tölustaf!!!).

Til að bregðast  við þessu alvarlega vandamáli sem einkunnaleysið er hef ég ákveðið að hrinda eftirfarandi áætlun í gang: Ég þarf að komast að því hverjir nákvæmlega sátu þessa ráðstefnu og hvar viðkomandi aðilar eiga heima. Ég mun svo eyða næstu kvöldum í að heimsækja þetta fólk og afhenda þeim þykkan spurningalista þar sem óskað er eftir að frammistaða mín sé metin. Verður lögð sérstök áhersla á hvort fólki þótti fyrirlesturinn áhugaverður en einni verður sér dálkur fyrir framburð, annar þar sem leggja skal mat á glærurnar, enn einn þar sem fólk getur gert grein fyrir hvort ég hafi verið klædd við hæfi o.s.frv. Einnig verður fólk hreinilega beðið að svara því hvort ég hafi ekki verið með besta fyrirlesturinn, já, hvort þetta hafi verið mín besta frammistaða í keppninni til þessa. Að lokum er að sjálfsögðu ætlast til að gefin sé einkunn ... nema hvað!

Meðaleinkunn verður birt hér að fáeinum vikum liðnum! Gleðilegt sumar!

 

18. apríl 2005

Skemmtileg helgi, ógnvænlega vika, önnur skemmtileg helgi!

Nýliðin helgi var svooo skemmtileg! Árshátíð Mótettukórsins var haldin með pompi, pragt og sígunaþema á laugardagskvöldið. Dansinn dunaði, svitinn lak og sígunablóðið rann um æðar kórmeðlima eins og sjá má á þessum myndum.

Komandi vika verður svooo hræðileg. Ég álpaðist til að lofa að halda fyrirlestur á nemendaráðstefnu n.k. miðvikudag. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa og núna er ég svo kvíðin að mig langar mest að stinga hausnum í sand (eða undir sæng) og vona að ráðstefnuhaldarar gleymi mér! Hafði hugsað mér að dubba upp einn kafla úr Myndhvarfaritgerðinni minni en finnst allt í einu núna að þetta hafi verið fremur léleg ritgerð og að ég verði sennilega púuð niður þegar ég held fyrirlestur um afstæðumyndhvörf í orðræðu læknavísinda! Ætli það sé borin von að verða sér úti um fuglaflensuna fyrir miðvikudag?!

Næsta helgi verður svooo skemmtileg. Á laugardaginn fagnar frumburðurinn fimm ára afmæli!!! Vart má á milli sjá hvort daman sé spenntari yfir afmælisdeginum eða fimm ára skoðuninni sem einnig tilheyrir þessum tímamótum! Afmælismamman hlakkar til að fylla húsið af gestum, baka brauðbollur og kökur, hræra í hefðbundið spínatsalat og laga kaffi í stórum stíl. Mest hlakkar hún þó til að knúsa afmælisbarnið, sökkva sér ofan í gömul myndaalbúm og rifja angurvær upp þá fjarlægu tíma þegar María Einarsdóttir slefaði, skreið og skríkti af gleði hvern einasta dag. Hvílíkt undur!

 

14. apríl 2005

Sumarstörf!

Eftir eins og mánuð verð ég komin í sumarfrí. Líkt og í fyrra ætla ég í alvöru frí! Sú ráðstöfun er þó ekki aðeins tilkomin vegna mikillar ástar minnar á að hanga út undir húsvegg í sólbaði að lesa glæpasögur. Nei, einhver veginn sá ég fram á að atvinnurekendur myndu ekki keppast við að ráða mig í sumarstörf þar sem ljóst er að ég þyrfti að fá frí til að sinna börnunum í júlí, í ágúst þyrfti ég að skreppa reglulega frá um tveggja vikna skeið, til að æfa og syngja á tónleikum með kórnum og svo þyrfti ég svona eins og tvisvar frí til að komast til útlanda (Stokkhólmur og Barcelona)! Nei, það er nokkuð ljóst að enginn mun vilja ráða mig í vinnu. Hins vegar er mig, eins og velflesta lengra komna háskólanema, farið að klæja í fingurnar eftir að fara að fást við störf tengd mínu fagi. Því hef ég ákveðið að vera með sjálfstæðan atvinnurekstur í sumar og bjóða upp á bókmenntafræði þjónustu og námskeið í ýmsum myndum. Þetta er meðal þess sem mér hefur dottið í hug hingað til:

*Viltu verða menningarlegri? Langar þig að slá um þig í kokteilboðum, fjölskylduveislum og atvinnuviðtölum. Þú getur leitað til mín og ég fer lauslega yfir söguþráð og stíl allra heitustu bókmenntaverkanna auk þess sem kennt yrði að slá um sig með hugtökum á borð við „menningarauðmagn“, „hefðarveldi“ og „hið póstmóderna ástand“. Hér mætti hugsa sér bæði einkakennslu og hóptíma. Ath. einnig væri hægt að fá stutta kynningu á ævisögudeilunum um Halldór Laxness fyrir þá sem vilja stökkva beint út í djúpu laugina!

*Lest þú ekkert annað en Alistair Mc Lean eða Rauðu ástarsögurnar? Ertu jafnvel enn að stelast til að kíkja í Andrés Indriða eða Eðvarð Ingólfs? Ég býð upp á bókmenntalegt extreme makover! Þú munt þurfa að yfirgefa fjölskyldu þína í þrjátíu daga en eftir mánuð með mér lofa ég að enginn af þínum nánustu mun þekkja þig aftur þegar þú slærð um þig með tilvitnunum í Kafka, Wordsworth og Ketas, Murakami eða Blixen! Kunningjar og vinir munu gapa af undrun þegar þeir sjá bókaskápinn þinn eftir þessa bókmenntalegu yfirhalningu! Allt verður tekið í gegn og jafnvel hugað að vænlegum ritum til að hafa á klósettinu. Eftir-á-skoðanir í heilt ár á eftir!

*Ritgerðaþjónusta Guðrúnar Pé! Þessi þjónusta yrði sérstaklega ætluð menntaskólanemum og stúdentum sem eru að stíga fyrstu skrefin í hugvísindadeild HÍ. Ég gæti rennt lauslega yfir námsáætlanir allra helstu skólanna og eytt sumrinu í að skrifa nokkrar ritgerðir um þær bækur sem kenna á veturinn 2005-2006. Þær myndi ég síðan selja dýrum dómum næsta vetur til þeirra sem eytt hafa of miklum tíma á börum eða bíóhúsum bæjarins.

Eitthvað fyrir alla! Sjáið þið ekki fyrir ykkur rífandi bisness?!

 

6. apríl 2005

Ég bara vil ekki samþykkja þá staðreynd að hafa farið úr 20° hita og sól yfir í 5° frost, storm og snjókomu! Nei, ég ætla bara að loka augunum og ímynda mér að ég sé enn stödd undir blómstrandi trjám innan um síki og sporvagna, sitjandi á kaffihúsi að fylgjast með hjólandi fólki og hollendingnum fljúgandi. Sem betur fer á ég nóg af myndum til að orna mér við á þessum köldu dögum ... þið megið líka skoða þær.

 

1. apríl 2005

Aprílgabb?

Í tilefni af hinum alþjóðlega platdegi hef ég sett upp örlitla þraut fyrir lesendur mína. Önnur af eftirfarandi fullyrðingum er dagsönn, hin er aprílgabb:

*Ég er að fara til Hollands!!! Já, eldsnemma í fyrramálið legg ég af stað í heimsókn til Faxaskjóls-ættlaukanna sem búsettir eru í landi túlípana og tréklossa! Þar ætla ég að dvelja fram á þriðjudag, skoða Amsterdam og Haag, fylla hugann af vori og blómstrandi trjám, hjartað af gleði og magann af kökum, kaffi og Frú fiðrildum! (Svanhildur, ég lofa samt að láta steinasalana alveg eiga sig!!!) 

*Ég vann 50 milljón króna gullpott í Háspennunni í gær! Til að auka veg og vanda síðunnar minnar hef ég ákveðið að verðlauna dygga lesendur með peningagjöf! Það eina sem þið þurfið að gera er að sækja mig heim fyrir klukkan 18 í dag og lofa ég að allir gestir verði leystir út með kossi, kaffibolla og einni milljón! Já, það er svo sannarlega til mikils að vinna!

Hvor þessara æsispennandi frétta skyldi vera sönn og hvor skyldi vera helber uppspuni frá rótum?

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar