Apríldagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. apríl 2004

Vorboðinn ljúfi!

Já við hér á Bárugötunni eigum okkur alveg sérstakan vorboða ... hvort hann er ljúfur er svo annað mál! Í næsta húsi við okkur búa svona fimm riiiisastórir páfagaukar. Raunar búa þeir í sínu eigin einbýlishúsi úti í garði eigenda sinna, fullbúnu trjágreinum og öðrum innréttingum sem svona fuglar kunna að meta. Lýsingin er sérhönnuð og almennt er þarna allt eins og mælt er með í Innliti/Útlitli! Gaukarnir eiga það líka til að tjá gleði sína í gargi ... daginn út og daginn inn! Ég vildi óska að hér værum við að tala um fagran fuglasöng, en svo er ekki! Þetta eru þau alverstu óhljóð sem ég hef nokkurn tíman heyrt og fyrst eftir að við fluttum hingað á Bárugötu stóð ég í þeirri meiningu að það væru einhverjir illa innrættir nágrannar mínir að kvelja börnin sín daginn út og inn. Sem betur fer kom í ljós, áður en ég hringdi í Barnaverndarnefnd, að hér var aðeins um að ræða tjáningu páfagaukanna, sennilega á ánægju sinni með glæsileg húsakynni! Á veturna bregður hins vegar svo við að ekki heyrist múkk úr einbýlishúsinu fína. Og undanfarin þrjú ár hef ég ævinlega staðið í þeirri meiningu um miðjan janúar að þeir hljóti bara allir að vera steindauðir ... sennilega úr kulda þar sem mér sýnist einbýlishúsið, sem n.b. er ekkert nema gluggar eins og öll almennileg einbýlishús, ansi illa einangrað fyrir íslenskri vetrarveðráttu. Þegar líður fram í mars er ég sannfærð ... það getur ekki verið neitt líf í litla húsinu ... og hlýr gleðistraumur hríslast um mig! Alveg þangað til í lok apríl. Um svipað leyti og páskaliljurnar eru við það að springa út og brumhnappar eru komnir á öll tré heyrist eitt stakt garg sem fótumtreður vonir mínar!!! Daginn eftir er gargað í tvær mínútur samfleytt, þann þriðja í korter! Um miðjan júní er svo gargað meðan dagsbirtu nýtur við eða allan sólarhringinn! Fyrsta sumarið mitt á Bárugötunni tók ég gargið afskaplega nærri mér. Meðan María svaf í vagninum úti í garði virtust fuglarnir hvað mest þurfa að reka upp raust sína og ég blótaði þeim í sand og ösku líkt og mín eigin móðir blótaði Hallgrímskirkjuklukkunum sem glumdu á korters fresti yfir mér sjálfri í vagni! Annað sumarið í samvist við gaukana var aðeins léttbærara og í fyrra var ekki laust við að mér þætti það ágætis dægradvöl að rífast í huganum við páfagaukana meðan ég sat úti undir vegg og reyndi að skrifa BA-ritgerð. 

Fyrir um það bil viku heyrðist garg! Í fyrsta skiptið upplifði ég ekki einskæra örvæntingu yfir því að helv**** fuglarnir væru ekki dauðir. Í fyrsta skipti fann ég aðeins til gleði yfir garginu. Það er sumar í vændum á Bárugötunni!!!

 

27. apríl 2004

Í dag á hún Svanhildur afmæli! Í tilefni dagsins sendi ég henni þessa blómamynd:

Til hamingju með afmælið elsku vinkona!

Því miður er alveg útilokað fyrir mig að afhenda henni lifandi blóm í eigin persónu í tilefni dagsins. Hér á Bárugötunni eru tveir veikir grislingar, þar á meðal einn með hlaupabólu! Já, Hugi nældi sér í þá ágætu pest nákvæmlega þremur árum eftir að systir hans fékk hana ... upp á dag!!! Ekki það skemmtilegasta í heimi en illu er víst best af lokið! Það verður víst lítið gert af viti á næstu dögum!!!

 

26. apríl 2004

Þá er allt afmælisstand afstaðið hér á Bárugötu og gefst nú hlé frá slíku næsta hálfa árið! Þá tekur við ný hrina þar sem kaupa þarf gjafir, baka kökur og hringja út í veislur nær mánaðarlega! Fjórða afmælisveisla Maríu var haldin með pompi og prakt í gær og þótti einstaklega vel heppnuð. Sjálf var daman í það minnsta himinlifandi með bæði gesti og gjafir. Tveir pakkar stóðu upp úr! Frá Björtu Ingu og fjölskyldu kom Svanaprinsessufylgidót (prinsessan sjálf kom upp úr pakka frá Imbu ömmu tveimur dögum áður) sem vakti gríðarlega lukku, ekki aðeins hjá afmælisbarninu heldur öllum nærstöddum dömum á aldrinum fjögurra ára og undir!!! Og enn og aftur hittu Ragnheiður og Jón Þór naglann á höfuðið því hin vinsælasta gjöfin kom frá þeim ... míkrófónn!!! Ekki varð nú móðirin upplitsdjörf þegar ungfrúin æpti upp yfir sig í gleði: „Þetta er svona ædol!!!“ Þegar penir afmælisgestir óku um dúkkuvagni og buðu Maríu í mömmó svaraði sú stutta: „Komum frekar í ædol ...“ og mundaði hljóðnemann!!! Skyldi fjögurra ára afmælið og pakkinn frá Ragnheiði og Jóni Þóri nokkuð vera óvænt og ótímabært upphaf unglingsáranna?!!! Þá er nú móðirin þakklát fyrir að sonurinn skuli í það minnsta kalla míkrófóninn lúður og sýna honum lítinn áhuga!!! Fyrir áhugasama má nálgast nokkrar myndir úr nýafstaðinni veislu hér

Senn líður að skilum á ritgerð og lestrardagbók. Ritgerðarkúlan svarta er því farin að ólmast á ný og af meiri krafti en nokkru sinni fyrr. Nú er ekki um annað að ræða en láta hendur standa fram úr ermum og missa aldrei sjónar á lokatakmarkinu sem er Frakklandsför í júní. Í hana skal haldið laus við ritgerðarstress og svartar kúlur og því nauðsynlegt að gera dauðaleit að framtaksseminni og dugnaðinum sem hlaupið hafa í felur undanfarnar vikur! Ætli best sé ekki að byrja leitina á nýopnaðri hamborgarabúllu hverfisins?!!

 

23. apríl 2004

  

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún María, hún á afmæli í dag!!!

Loksins er hann runninn upp þessi langþráði dagur!!! Það er mikið búið að bíða eftir fjórða afmælisdeginum og síðustu viku hefur niðurtalning verið í fullum gangi! Gleðin var því mikil hjá prinsessunni þegar hún vaknaði í morgun og mikið um dýrðir líkt og sjá má hér

Sjálfri finnst mér þetta líka mikil hátíð enda alveg ótrúlegt að rifja upp þennan sama dag fyrir fjórum árum og hugsa um hve mikið hefur breyst síðan þá. Þetta litla gerpi sem öskraði á okkur Einar í hádeginu þann 23. apríl árið 2000, með rammskakkt höfuð eftir sogklukku og tangir, situr núna við borðstofuborðið og er búin að lesa þrjár blaðsíður í Litlu gulu hænunni alveg hjálparlaust! Þessar hendur sem fálmuðu af óöryggi út í loftið fyrir fjórum árum eru í dag önnum kafnar við að skrifa stafi, teikna myndir og nudda herðarnar á mömmu sinni þegar hún er þreytt!!! Þessi litli munnur sem opnaðist bara í leit að fæðu, nú eða til að öskra eftir henni, syngur í dag hin fegurstu ljóð og ræðir um heimsins gagn og nauðsynjar!!! Þessir litlu fætur sem spörkuðu tilviljanakennt út í loftið hlaupa nú um, hoppa og dansa!!! Og þessi fallegu, brúnu augu ... hafa reyndar alltaf sagt meira en þúsund orð!!! 

Það er ómetanlegt að nýta þennan dag í að rifja upp það liðna. Sleftaumar úr bólgnum gómum, dagurinn sem byrjað var að skríða, fyrsta næturgistingin hjá ömmu, fyrstu skrefin, haustið þegar byrjað var að myndast við að tala, fyrsti dagurinn hjá dagmömmu og á leikskóla ... allir þessir viðburðir öðlast nýtt líf á afmælisdeginum og standa foreldrunum ljóslifandi fyrir hugsskotssjónum. Þið ykkar hin sem þurfið örlitla aðstoð við að rifja þetta upp getið skoðað þessar gömlu myndir af afmælisstelpunni!!!

Annars óskum við ykkur góðrar helgar og eins og ævinlega vonum við að þið hafið það sem allra best!!!

 

22. apríl 2004

Gleðilegt sumar kæru lesendur!!! Já, ekki frusu þau saman vetur og sumar þetta árið og fyrirheitin um einstaklega gott sumar því engin! En við verðum að sjálfsögðu bjartsýn ... í það minnsta byrjar þetta einstaklega vel! Við hér á Bárugötunni höfum alla vega notið veðurblíðunnar líkt og sjá má á fyrstu sumarmyndum ársins. Nú þráir maður bara að vitin fari að fyllast af grillilm um kvöldmatarleytið og að maður vakni við fuglasöng fyrir allar aldir í glaðasólskini! Já, sumarið er tíminn, eins og skáldið sagði! Og þetta sumar stefnir að sjálfsögðu í að vera það besta frá upphafi hjá Bárugötufjölskyldunni. Í þetta sinn ætti húsfreyjan að vera laus undan öllum ritgerðarskrifum og öðrum ömurlegheitum og stefnir því ekki að háleitari markmiðum en sólbrúnum kinnum og miklum glæpasögulestri!!! Notaleg tilbreyting það!!! Þess utan eru fjölskyldumeðlimir önnum kafnir við að skipuleggja hin ýmsu skemmtilegheit fyrir komandi mánuði og þessa stundina er bæði stefnt að stuttri dvöl á Ísafirði sem og fyrsta ferðalagi systkinanna út fyrir landsteina! Mmmmm, það stefnir allt í að mánuðurnir framundan verði hrein unun ... þ.e.a.s. eftir að ritgerðum og lestrardagbók hefur verið skilað inn (andvarp!).

 

19. apríl 2004

Í dag er fyrsti í nýjum lífsstíl!!!

Í nýja lífsstílnum er fólgið að a) drekka meira vatn, b) vera dugleg að fara út að ganga og c) borða reglulega yfir daginn. Þetta á svo að ýta undir markmið d) vera dugleg að læra. Árangurinn á þessum fyrsta degi er eftirfarandi: a) vatnsglös drukkin - 1! b) mínútum eytt á göngu úti við - 6! c) máltíðir borðaðar - morgunmatur klukkan 08:30, brauðsneiðar með hnetusmjöri og sultu borðaðar eftir þörfum og loks d) mínútum eytt í lærdóm - 0!!! Samkvæmt þessu hefur mér mistekist í nánast öllum liðum hins nýja lífsstíls! Reyndar telst það gífurleg framför að hafa borðað morgunmat á skikkanlegum tíma svona svo reynt sé að horfa á björtu hliðarnar! Held þó að ég ákveði hér með að dagurinn í dag hafi bara verið svona upphitunardagur og að átakið byrji fyrir alvöru á morgun!!!

Þar sem ég veit að lesendur bíða spenntir eftir frekar upplýsingum um afdrif kaffivélarinnar þá tilkynni ég það hér með að hún mun koma úr viðgerð á morgun! Ég hvet ykkur því flest til að fjölmenna í kaffi til mín frá og með miðvikudeginum og stuðla að því að átakið glæsilega frestist enn frekar! Verið velkomin! Gerið það!!!

 

18. apríl 2004

Sú var tíð ...

að ég skreið upp í rúm einhvern tíma undir morgun, fótalúin eftir dans næturinnar og ísköld eftir að hafa labbað heim úr miðbænum eða staðið allt of lengi í einhverri leigubílaröð glænepjulega klædd! En nú er öldin önnur! Ó, já! Yfirleitt verð ég alveg miður mín ef komið er fram yfir miðnætti og ég ekki enn komin upp í rúm. Já, jafnvel á föstudögum og laugardögum er ég skriðin upp í um svipað leyti og maður var áður vanur að snarast út úr dyrunum á leiðinni í skemmtilegt partý! Nema í gær! Í gær fór ég að sofa klukkan fjögur ... um miðja nótt! Reyndar var mér svo rosalega kalt þegar ég loksins skreið undir sæng að klukkan var örugglega langt gengin í fimm þegar ég sofnaði! Já, þarna voru gamlir taktar svo sannarlega rifjaðir upp. Ástæðan fyrir vökunni var hins vegar ný af nálinni og alls ekki jafnglæst og áður! Jú, ég sat nefninlega á sokkabuxunum fyrir framan tölvuna fyrr helming nætur og kepptist við að ljúka Mystery of Time and Space! Enn annar netleikurinn!!! Klukkan tíu í gærkvöldi ákvað ég rétt að kíkja á hvort eitthvað væri varið í þetta. Næst þegar ég vissi af mér var klukkan orðin tvö og ég alveg gjörsamlega að brjálast yfir að geta ekki leyst eina þrautina. Ákvað að reyna í bara í pííííínu stund í viðbót áður en ég gæfist upp en rankaði ekki við mér aftur fyrr en klukkan fjögur! Þá varð ég svo sjokkeruð að ég slökkti á tölvunni og hentist beint upp í rúm! Kuldahrollurinn sem aftraði svefni hefur væntanlega stafað af því að ég var búin að sitja kyrr í sex klukkustundir og án þess að hreyfa nokkuð annað en vísifingur hægri handar!!! Og það um miðja nótt þegar líkaminn er vanur að kúra sig undir tvöfaldri dúnsæng!!! Ég ætla ALDREI aftur að fara í tölvuleik á netinu ... ALDREI!!! Reyndar kom í ljós þegar Hugi vakti mig í morgun eftir aðeins þriggja tíma svefn að fleiri hefur breyst í mínu lífi en bara ástæðurnar fyrir því að ég vaki fram eftir. Ég komst nefninlega að því að eftir óteljandi svefnlausar nætur þar sem gefa þurfti brjóst, ganga þurfti um gólf eða hitamæla veika kroppa þá er ég algjörlega í æfingu fyrir slíkt svefnleysi! Já, mér hefur ekki komið blundur á brá í allan dag en hef samt verið alveg ótrúlega hress. Áður fyrr eyddi maður öllum deginum í svefn ef komið var seint heim! Í dag skammtaði ég hins vegar morgunmat, las blöðin, sá Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu, fór í Kringluna, neitaði börnunum staðfastlega um salíbunu í örugglega hverju einasta leiktæki sem við gengum fram hjá í þar, eldaði kvöldmat, skeindi rassa, burstaði tennur og svæfði! Allt alveg ein þar sem Einar lá sem dauður væri inni í rúmi eftir að hafa vakað alla nóttina á spítalanum! Þvílíkur aumingjaskapur!!!

 

16. apríl 2004

Ég eignaðist lítinn frænda í gær!!! Ó, hann er svo dásamlega sætur! Reyndar er ég bara búin að sjá hann á mynd en úff ... þetta barn er bara ótrúlega krúttaralegt! Ég hlakka ákaflega til að hitta hann í eigin persónu og færa honum gjöfina sem ég keypti handa honum í London ... sé það strax að hún muni fara honum einkar vel! Mér finnst alltaf svo ævintýralegt þegar ný börn koma í heiminn og er því í skýjunum yfir að barnaboltinn sé aftur farinn að rúlla í kringum mig. Einn frændi fæddur í gær, tveir/tvær frændur/frænkur á leiðinni og ein góð vinkona ólétt. Ég ætti því að hafa nóg af litlum kjúklingum að knúsa á næstunni sem er mjög nauðsynlegt þar sem Hákarl litli er ekki á teikniborðinu alveg strax!!!

Einar var á sjúkrabílavakt í gærkvöldi og nótt þannig að ég var ein að dunda mér eftir að börnin voru sofnuð og Bachelor búinn að rústa framtíðardraumum enn eins fagra fljóðsins! Einhvern veginn rataði ég inn í þennan leik á netinu. Það hefði ég aldrei átt að gera! Rauða herbergið kostaði mig dágóða klípu framan af nætursvefninum þar sem það er lífsins ómögulegt að hætta þegar maður er einu sinni byrjaður. Ég ráðlegg engum að hefja leikinn nema hann hafi nægan frítíma framundan! En vá hvað þetta var skemmtilegt! Skömmu eftir miðnætti hélt ég reyndar að ég myndi verða geðveik þar sem mér tókst bara engan veginn að komast út úr herberginu og hringdi því í Einar, fékk hann til að hefja leikinn líka í von um að hann gæti svo aðstoðað mig. Á endanum fór það hins vegar svo að ég varð að leiða hann í gegnum lokaskrefin! Sá atburður mun verða lengi í minnum hafður og fellur óhjákvæmilegaí flokk með öðrum stórviðburðum eins og þegar mátaði Einar í tafli!!! 

 

14. apríl 2004

Kaffivélin er biluð!!!!

Ógn og skelfing greip um sig á heimilinu þegar í ljós kom að nánast ómögulegt er að kveikja á la Pavoni kaffivélinni og jafnvel þó það takist endist sælan skammt því öllu rafmagni slær út í eldhúsinu áður en næst að laga heilan bolla!!! Frá því þessi voveiflegi atburður átti sér stað hafa heimilismenn (þó aðeins af eldri kynslóð) eigrað stefnulaust um íbúðina og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Einar bjargaði sér fyrir horn með því að mæta til vinnu í morgun hvar hann getur þambað kaffi að vild, þó vont sé! Sjálf er ég í stökustu vandræðum þegar lífselexírinn skortir!!! Það er alveg kolómögulegt að lesa blöðin þegar kaffibollinn er ekki við höndina og að læra ... ekki að ræða það!!! Nei, ég held ég verði hreinlega að senda kennaranum tölvupóst og biðja um frest á verkefnum vegna bilaðrar kaffivélar!!! Já, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur ... það eru orð að sönnu! Nú þykir mér afar sorglegt að hafa ekki veitt kaffivélinni meiri vegsemd og virðingu meðan hún stóð sig í stykkinu og finnst einhvern veginn að ég beri kannski ábyrgð á þessum veikindum hennar! Ég finn það auðvitað núna að það er fráleitt að hafa ekki sýnt þakklæti sitt fyrir dygga þjónustu oftar í verki. Ég hefði til dæmis getað verið mun duglegri að þrífa mjólkurstútinn og sigtið. Ég er auðvitað allt of ódugleg að bóna hana og við erum ekki enn búin að fá nýtt gler í staðinn fyrir það ónýta. Gæti verið að þetta sé einshvers konar verkfall af hennar hálfu? Gæti verið að hún sé eitthvað svekkt út í mig fyrir að hafa ekki komið fram við hana af meiri virðingu og sýnt þakklæti mitt? Ég sé það auðvitað þegar ég skrifa þessar línur að það er til dæmis fáránlegt að minn dyggasti stuðningsmaður hér innan veggja heimilisins skuli vera nafnlaus! Úr því verður að bæta strax!!! Hvað skyldi svona kaffivél vilja heita? Lilla? ... kannski of niðurlægjandi? Hallgerður ? ... nýjasta uppátæki hennar sýnir svo ekki verður um villst að hún hefur eigin vilja og hlýðir ekki hverjum sem er! Kannski eitthvað ítalskt nafn ... hún er jú ítölsk. Hvað með Guiliana Pavoni? Leonarda Pavoni? Kannski Marcella Pavoni ... eða jafnvel Margherita Pavoni?

 

11. apríl 2004

Gleðilega páska!!! Ég vona að þið hafið öll haft það eins notalegt og ég í dag ... 

eða jafnskemmtilegt og María ...

Páskakveðjur frá okkur á Bárugötunni!

 

9. apríl 2004

Páskafrí á Bárugötu!

Já loksins eru allir komnir í páskafrí og gleðin hefur tekið völdin á heimilinu! Einar fær heila fjóra daga í frí og ekki verður annað sagt en að þeir séu verðskuldaðir enda hefur hann verið í vinnunni upp á hvern einasta dag í tæpan mánuð! Við erum búin að hafa það alveg óskaplega gott, þrifum íbúðina hátt og lágt, þeir eru ófáir kaffibollarnir sem hafa verið lagaðir og svo er búið að kúra mikið undir sæng og lesa í bók. Það sem hæst ber hefur að sjálfsögðu verið myndað í bak og fyrir og þið getið skoðað það með því að smella á myndina af Maríu og Huga hér fyrir neðan.

Á næstu dögum er líka nóg framundan. Páskadagur byrjar fyrir allar aldir, a.m.k. hjá mér. Kórinn syngur tvær messur, þá fyrri klukkan 8 og seinni klukkan 11. Milli þeirra erum við vön að hafa dásamlegan morgunverð fyrir fjölskyldur okkar þar sem hver kórmeðlimur kemur með krásir á hlaðborð og svo skemmtum við okkur við söng, málsháttagerð og páskaeggjaleit. Seinna um daginn stendur svo til að fara í fjölskylduboð að Bakkastöðum og snæða lamb og tilheyrandi. Á annan í páskum fermist svo litli bróðir minn auk þess sem ég þarf sjálf að syngja í annarri fermingarmessu. Já það er ýmislegt á döfinni! Um leið og páskafríinu lýkur tekur hins vegar alvara lífsins við með öllum sínum ritgerðum og lestrardagbókum. En þangað til er um að gera að njóta hátíðarinnar og vorsins sem farið er að gera kröftuglega vart við sig! Í tilefni af því smelli ég inn nýjustu blómamyndunum um leið og ég óska ykkur ánægjulegs páskafrís!

 

4. apríl 2004

Pálmasunnudagur og styttist í páska!

Ég elska páskana og finnast þeir stórlega vanmetin hátíð! Þó ég sé mikið jólabarn þá verð ég til dæmis að viðurkenna að í kringum páskana eru yfirleitt fleiri frídagar og mun minna stress. Á páskunum er svo notalegt að vera á náttfötunum heilu og hálfu dagana, lesa sér í bók og narta í eitthvað sætt! Í tilefni af þessari frábæru hátíð breytti ég aðeins útlitinu á forsíðunni og myndasíðunni um leið og ég setti inn nýtt albúm sem þið getið kíkt á með því að smella á myndina.

Þessa páskana hef ég raunar tilefni til að halda sérstaka hátíð. Fyrir tíu árum síðan plötuðum við Elli mömmu til að gefa okkur sitt hvort páskaeggið af stærstu gerð ... ekkert óvenjulegt við það svo sem! Ég hins vegar lauk aldrei við mitt. Þegar ég var u.þ.b. hálfnuð með það hætti ég, afgangurinn lenti í munnum vina og kunningja eða hreinlega bara í ruslinu. Síðan þá hef ég ekki borðað nammi! Mér finnst alveg ótrúlegt að það séu komin tíu ár síðan. Ég man eftir að hafa, fyrir svona ellefu árum, heyrt af stelpu sem hafði ekki borðað nammi í heilt ár! Það fannst mér alveg ótrúlegt, bara ógjörningur!!! En viti menn, þetta er vel hægt. Og það ótrúlegasta er að ég sakna nammisins ekki neitt enda fullnægi ég sykurþörf minni bara á annan hátt og er voða dugleg að baka eða fara út í bakarí!!! Á þessum tíu árum hef ég ótrúlega oft þurft að verja þessa aðferð mína. Ég veit ekki hvað mörg samtöl ég hef átt við fólk um skilgreiningaratriði á því hvað sé nammi og hvað ekki og hvort það sé asnalegt að ég borði ekki Snickers en borði hins vegar kex!!! Sem betur fer er ég löngu hætt að taka slíka gagnrýni nærri mér! Fyrir mér er þetta allt saman rökrétt og það er það eina sem skiptir máli! Fyrir sjö árum síðan hætti ég svo líka að drekka gos og borða ís! Ástæðan fyrir að ég er að rifja þetta upp núna á þessum tímamótum er sú að fyrrverndi reykingafólk tekur gjarnan saman tölfræðilegar niðurstöður yfir hvað það hafi sparað sér í peningum frá því það hætti að reykja og eyðir síðan þeirri upphæð í eitthvað dekur. Þetta er ég að hugsa um að gera líka! Verðlagsþróun á nammi hefur reyndar farið svolítið fram hjá mér þar sem ég kaupi það ekki lengur en svona gróflega ágiskað hugsa ég að ég hafi eytt að minnsta kosti 500 krónum á viku í sælgæti. (Bland í poka fyrir 200 á mánudegi, Snickers á miðvikudegi og Mars á föstudegi, bland í poka fyrir 100 kall á sunnudegi ... hljómar þetta ekki sannfærandi og svona 500 króna virði?) Vikurnar í árinu eru 52 þannig að á ársgrundvelli hef ég sparað mér 26 þúsund  krónur. Á tíu árum gera þetta því heilar 260 þúsund!!! Hvað finnst ykkur að ég ætti að gera við peninginn? Þetta dugar fyrir heimsreisu ... er það ekki?!!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar